30.03.1960
Sameinað þing: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (3141)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar umr. var frestað hér fyrir viku, en það voru nokkur atriði, sem ég vildi fá betur upplýst hjá hæstv. landbrh., sem hann ræddi þá um. Ég skildi upplýsingar hans á þann veg, að áburður og fóðurbætir mundi hækka í útsöluverði um 14–15%, eftir að niðurgreiðslan hefði átt sér stað, en þá skildist mér, að niðurgreiðslan væri eitthvað yfir 30%. Um þetta vildi ég spyrja, hvort þetta væri ekki rétt skilið.

Þá var það, sem ég vildi vekja athygli á, að hæstv. landbrh. var ánægður með þessa niðurstöðu f.h. bændastéttarinnar, en þegar 55% yfirfærslugjaldið var á lagt, þá talaði hann mikið um það, þessi hæstv. ráðh., að illa væri séð fyrir málefnum bændastéttarinnar, og það virtist sem enginn hefði verið viðstaddur, þegar um þeirra mál hefði verið fjallað, sem hefði neinn áhuga fyrir þeim.

Nú er 55% yfirfærslugjaldið óhreyft, og ofan á það er lögð þessi nýja verðhækkun, sem nú á að verða í útsölunni, og niðurgreiðslan að auki, svo að ekki sýnist mér hafa verið horfið að því ráði að lækka eða hverfa frá yfirfærslugjaldinu, heldur að bæta þar við, þrátt fyrir það þótt hæstv. ráðh. fari nú með þessi mál.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að hugsunin væri að hækka nokkuð útsöluverð á Kjarnanum til þess m.a. að nota það fjármagn, sem þá safnaðist umfram þá nauðsyn, sem væri á því að selja með hinu nýja verði, til niðurgreiðslu á erlendum áburði, og benti hann á í því sambandi, hvað það væri hollt fyrir íslenzku þjóðina að búa að sínu. Það er einmitt þessi stefna, sem hefur verið fylgt á síðustu árum, stefna uppbyggingarinnar, sem m.a. hefur verið fólgin í því, að við höfum tekið erlent lánsfé til þess að byggja upp stórar verksmiðjur eins og áburðarverksmiðjuna og sementsverksmiðjuna, en þegar var verið að útvega fé m.a. til þess að byggja sementsverksmiðjuna, til ræktunarsjóðs o.fl. á erlendum vettvangi, það var þá, sem þessi hæstv. ráðh. komst svo að orði, að það þyrfti að finna önnur ráð en þau ein, að íslenzka ríkisstj. fengi hvergi lánsfé, til þess að koma henni frá. Þannig var nú hugsunin hjá þessum hæstv. ráðh. í garð þeirrar ríkisstj., sem vann að þeirri uppbyggingu, sem hann nú vitnar til sem dæmi um það, hve nauðsynlegt sé að búa að sínu.

Það gleður mig stórum, að hæstv. ráðh. skuli nú hafa séð, að sú stefna var rétt, að við ættum að byggja upp í landinu til þess að búa sem mest að okkar, og ég vona, að hann noti sinn ráðherradóm til að standa að þeirri stefnu, en fylgja ekki fram kyrrstöðustefnunni, sem sú ríkisstj., sem hann situr í, beitir sér þó fyrir.