04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (3177)

906. mál, reikningar ríkisins í seðlabankanum

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Fsp. er á þessa lund: „Hvernig standa reikningar ríkisins við seðlabankann, þegar viðskiptin samkv. efnahagslöggjöfinni hafa verið gerð upp?“

Ég vil aðeins rifja upp 5. gr. efnahagslöggjafarinnar, með leyfi hæstv. forseta, en hún er svo hljóðandi:

„Stofna skal sérstakan vaxtalausan reikning á nafni ríkissjóðs í seðlabankanum, og skal færa til gjalda á honum hækkun þá í krónum, sem verður á skuldum ríkissjóðs við Greiðslubandalag Evrópu vegna gengisbreytingarinnar. Á þennan reikning skal sömuleiðis færa þann gengismun, er fram kemur hjá einstökum bönkum, sem verzla með erlendan gjaldeyri. Við útreikning á þessum gengismun skal taka tillit til allra eigna og skulda viðkomandi banka í erlendum gjaldeyri, þá er gengisbreyt. kemur til framkvæmda. Innstæður og skuldir í krónum á nafni erlendra aðila, sem gengistryggðar eru með sérstökum samningi, teljast erlendur gjaldeyrir í þessu sambandi, og sama gildir um gull seðlabankans.

Gengismunur, sem myndast, þá er banki hefur fyrir gildistöku þessara laga innt af hendi greiðslur vegna bankaábyrgðar, sem gerð er upp á hinu nýja gengi, skal færður á reikning þann, er um ræðir í 1. mgr. þessarar gr.

Gengismunur, sem myndast kann við kaup á gjaldeyri frá varnarliðinu eftir gildistöku þessara laga vegna ákvæðis 3. gr., skal færður á reikning útflutningssjóðs hjá seðlabankanum.“

Í grg. efnahagsmálafrv. var ekki nein tilraun gerð til þess að áætla, hvernig þessi reikningur mundi verða að loknum þessum viðskiptum, og vegna þess, í hve mörg horn var að líta, þegar efnahagslöggjöfin var rædd, gafst ekkert tóm til þess að ganga eftir því að fá slíka áætlun fram þá. En mér sýnist, að mönnum hljóti að leika nokkur forvitni á að vita, hvernig þessi reikningur verður, þegar þessum viðskiptum er lokið, og þeim hlýtur nú að vera lokið að miklu leyti. Því er þessi fsp. fram komin til að reyna að fá af þessu mynd.