04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (3184)

906. mál, reikningar ríkisins í seðlabankanum

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, og þó að það sé tæpast aðstaða til þess að ræða efnislega um ákvarðanir í þessum málum í sambandi við fsp. og þær séu fyrst og fremst til þess að fá upplýsingar, þá vil ég þó, vegna þess að ég hef fimm mínútur til umráða, taka þetta fram:

Í fyrsta lagi er auðséð á því, sem hæstv. ráðh. nú upplýsir, að ríkisstj, hefur látið verða úr þeirri hótun sinni — ég segi hótun — að takmarka stórkostlega lán út á afurðir landsmanna af seðlabankans hendi frá því, sem áður hefur verið. Enginn efast um, að það, sem hér hefur skeð, er frá ríkisstj. komið og í samræmi við hennar efnahagsmálastefnu, sem sé þá að þrengja að á öllum sviðum, þ. á m. útlánunum. Samkv. þessu, sem hér liggur fyrir, er gerð tilraun til þess að lækka stórkostlega útlán seðlabankans á fisk. Ætli það láti ekki nærri, að það sé um þriðjungslækkun? Mér skilst, að það hljóti að láta nærri, að það sé um þriðjungslækkun, sem þarna á að framkvæma samkv. endurkaupareglunni nýju. Og það sama á að ganga um landbúnaðarafurðir, en þó gengið þar enn þá lengra, því að þar er einnig ákveðið, að það skuli ekki undir neinum kringumstæðum endurkaupa fyrir hærri krónutölu í heild út á landbúnaðarafurðir en var í fyrra, þannig að þó að t.d. framleiðsla á landbúnaðarafurðum fari vaxandi, á ekki að lána neitt út á framleiðsluaukninguna, ekki eina krónu. Það á að halda sig við þá sömu heildarfjárhæð og lánað var út á árið 1959.

Ég vil nú, alveg eins og ég gerði í sambandi við efnahagsmálalöggjöfina, lýsa eindreginni andstöðu við þessar ráðstafanir, sem gerðar eru í samræmi við efnahagsmálastefnu ríkisstj., og láta í ljós þá skoðun mína, að þetta sé alveg óframkvæmanlegt, því að ef meiningin er að standa á þessu, þá hlýtur annaðhvort að verða, að viðskiptabankarnir fari gersamlega í strand og verði gerðir ófærir til þess að annast nokkur önnur útlán að ráði, sem sé með því að lána framleiðendunum til viðbótar við það, sem endurkeypt er af seðlabankanum. Mundu það verða gífurlegar fjárhæðir, sem viðskiptabankarnir verða þannig að lána, ef framleiðendur eiga að hafa nokkra minnstu möguleika til þess að gera upp atvinnurekstur sinn og komast af stað aftur. Þetta á alveg jafnt við um sjávarsíðuna og landbúnaðinn. En ef viðskiptabönkunum er ætlað að gera þetta, þá hlýtur þeirra fjármagn að festast í því, þannig að þeir verða þá algerlega að kippa að sér hendinni um önnur lán, og vafasamt, að þeir gætu þetta, þó að þeir gerðu það. Sérstaklega vil ég mótmæla því — ég vil segja gerræði, sem kemur fram í garð landbúnaðarins, þar sem ég gat ekki betur skilið en sett væri algert hámark á það, sem lánað væri út á landbúnaðarvörur í heild, þannig að út á framleiðsluaukningu á landbúnaðarvörum væri ekki lánað neitt. Er þá auðséð, hvert er áhugamál ríkisstj. að því leyti.

Ég hef að vísu heyrt það utan að mér, að einhverjar „manipúlasjónir“ hafi verið gerðar til þess að gera viðskiptabönkunum léttara að veita einhver aukalán út á fisk og afurðir umfram það, sem þeir fá endurkeypt. Ég hef heyrt, að það væri eitthvað á þá lund, að seðlabankinn hafi lánað útflutningssjóðnum talsvert mikið fé til þess að greiða fyrir fram útflutningsuppbætur út á afurðir ársins í fyrra. Ég veit ekki, hvort þetta er rétt eða þá hversu mikið hér er um að ræða, og því siður, hvaða áhrif það hefur á möguleika viðskiptabankanna til þess að greiða úr þeirri klípu, sem framleiðendur eru settir í með þessari ákvörðun ríkisstj. og seðlabankans. En mér leikur þó grunur á, að jafnvel þessar „manípúlasjónir“ muni skammt hrökkva til þess, að hægt verði að koma þessum málum í eðlilegt horf.

Ég þakka hæstv. ráðh. að vísu fyrir upplýsingarnar. En ég vil mótmæla þeirri stefnu, sem þarna kemur fram, sem er einn höfuðþátturinn í samdráttarstefnu stjórnarinnar og hlýtur að verða til þess að lama alla framleiðslustarfsemi í landinu, ef hún verður áfram framkvæmd.