04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (3185)

906. mál, reikningar ríkisins í seðlabankanum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í tilefni af því, að hv. 1. þm. Austf. lýsti mjög eindreginni andstöðu sinni og þá væntanlega einnig flokks síns gegn þeirri stefnu, sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir að tekin yrði upp í bankamálum, vildi ég taka þetta fram:

Stefna núv. ríkisstj. í bankamálum er mjög einföld. Hún grundvallast á því meginatriði, að útlán bankanna skuli miðast við það sparifé, sem þeir hafa til umráða, að útlánaaukning bankanna frá ári til árs skuli takmarkast við þá aukningu, sem verður á spariinnlögum í bankana frá ári til árs.

Þetta er allt og sumt, sem um það mál er að segja. Þeir, sem lýsa sig andvíga þessari grundvallarstefnu í bankamálum, hljóta að hafa einhver önnur sjónarmið en þau að varðveita jafnvægi í efnahagsmálum innanlands, að vilja varðveita gildi krónunnar inn á við og út á við.

Þessi stefna í bankamálum, sem fylgt hefur verið undanfarna mánuði eða síðan efnahagsmálalöggjöfin kom til framkvæmda, hefur ekki orðið til þess, sem hv. þm. lét í ljós ótta um, að hún mundi leiða til. Hún hefur ekki orðið til þess að draga úr framleiðslu í landinu, hvað þá stöðva hana. Framleiðslan í landinu hefur haldið áfram með alveg eðlilegum hætti, eins og líka á að geta orðið og hlýtur að geta orðið, þó að útlán bankanna séu miðuð við jafneinfaldar og sjálfsagðar grundvallarreglur og hér er um að ræða. Það, sem hins vegar verður að hætta, en gerzt hefur undanfarinn áratug og raunar lengur, er, að útlán bankanna aukist ár frá ári um tugi, ef ekki hundruð milljóna umfram þá eðlilegu aukningu, sem verður á sparifé landsmanna, þ.e.a.s. um þá eðlilegu aukningu, sem verður á heilbrigðu ráðstöfunarfé bankanna.

Af því að hv. þm. gat sérstaklega um það, að landbúnaðinum mundi stafa hætta af þessum reglum, sem ég lýsti áðan að seðlabankinn hefði samþykkt, það mundi stafa sérstök hætta af því, ef hin sjálfvirku afurðalán úr seðlabankanum út á afurðavíxla landbúnaðarins færu ekki fram yfir það, sem þau fóru í fyrra, vil ég aðeins geta þess, að frá því að þær reglur, sem gilt hafa um sjálfvirk afurðalán út á landbúnaðarafurðir, voru teknar upp á árinu 1953, hafa þessi sjálfvirku endurkaupalán til landbúnaðarins aukizt um að meðaltali 50 millj. kr. á ári. Þau hafa aukizt að meðaltali síðan 1953 um hvorki meira né minna en 50 millj. kr. á ári. Þessi þróun getur ekki haldið áfram. Hér verður að verða nokkur breyting á. Ég óttast ekki, að af því muni hljótast nein vandræði fyrir íslenzkan landbúnað, og er raunar nokkuð til efs, að það hafi verið íslenzkum landbúnaði til góðs, að hin sjálfvirku afurðakaupalán honum til handa hafa verið látin aukast jafngífurlega og hér hefur átt sér stað, eða milli 300 og 400 millj. kr. á því tímabili, sem þetta kerfi hefur staðið.

Að gefnu þessu tilefni frá hv. þm., þar sem hann lét í ljós nokkurn ótta um, að þessi þáttur í stefnu ríkisstj. og hún í heild muni hafa varhugaverðar afleiðingar fyrir íslenzkt atvinnulíf, vil ég skýra hv. þingheimi frá nýjustu tölum, sem fyrir hendi eru um gjaldeyrisstöðu landsmanna. en gjaldeyrisstaðan er sannarlega nokkur mælikvarði á, hvort stefnan í efnahagsmálum er að heppnast eða er að misheppnast. Ég ætla að bera saman gjaldeyrisstöðuna í frjálsum gjaldeyri, vöruskiptagjaldeyri og í heild, eins og hún var í febrúarlok og eins og hún er samkvæmt nýjustu tölum, sem fyrir liggja, en þær eru frá 20. apríl.

Í febrúarlok, 29. febr., var gjaldeyrisskuld landsins í frjálsum gjaldeyri 182.6 millj. kr., en hinn 20. apríl 1960 hafði skuldin í frjálsum gjaldeyri lækkað ofan í 75.6 millj., hafði m.ö.o. lækkað um 107 millj. kr.

Um vöruskiptagjaldeyri eru tölurnar þannig: Í febrúarlok áttu Íslendingar inneign í vöruskiptagjaldeyri, sem nam 11.2 millj. kr. Hinn 20. apríl hafði þessi inneign vaxið upp í 74 millj. kr. Vöxturinn nam m.ö.o. 62.8 millj. kr.

Heildartölurnar voru þannig í febrúarlok, að þá nam gjaldeyrisskuld landsmanna 171.6 millj. kr., en 20. apríl s.l. nam heildargjaldeyrisskuld landsmanna aðeins 1.6 millj. kr. Hefur gjaldeyrisstaða landsins þannig batnað á þessum tæpum tveim mánuðum um réttar 170 millj. kr. Allar þessar tölur eru miðaðar við nýja gengið, og þar er meðtalin staða allra bankanna og staðan við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusjóðinn, þ. e. sá hluti, sem búið er að nota af yfirdráttunum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusjóðnum, er talinn með til skulda í þessum heildarreikningsskilum,

Ég vona, að þessar tölur, sem ég hér nefni að gefnu tilefni frá hv. þm., sýni hv. þingheimi fram á, að sú svartsýni, sem orð hans áðan einkenndust af, og þær hrakspár, sem oft heyrast af hálfu hv. stjórnarandstæðinga um, að sú stefna, sem nú er verið að framkvæma í efnahagsmálum, sumpart sé að misheppnast og sumpart muni áreiðanlega misheppnast, eru algerlega úr lausu lofti gripnar.