11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í D-deild Alþingistíðinda. (3231)

913. mál, vextir af íbúðarlánum sparisjóða

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er spurt: „Hvaða ráðstafanir ætlar ríkisstj. að gera til hjálpar þeim mörgu húseigendum í kaupstöðum og kauptúnum víðs vegar um land, sem eiga húsnæðislán í sparisjóðum og verða nú að greiða af þeim 11% vexti?“

Ég ætla, að það sé nokkuð mismunandi, hvernig þessi sparisjóðslán hafa verið veitt. Sum munu hafa verið veitt þannig, að þau eru með föstum vöxtum, sem ekki breytast við vaxtahækkunina, en önnur eru með breytilegum vöxtum.

Mitt svar við þessari fsp. er það, að ríkisstj, hafði ekki í upphafi ætlazt til, að í þessu efni væri neitt aðhafzt, og hún hefur ekki heldur uppi neinar ráðagerðir í því sambandi, enda ekki ætlazt til, að þessir háu vextir standi nema tiltölulega stuttan tíma.