08.02.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

42. mál, fjárlög 1960

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti og háttv. áheyrendur. Það var ekki spáð góðu fyrir fjárl. fyrir árið 1959, og er þá raunar mjög vægt til orða tekið. Sannleikurinn er sá, að þegar verið var að afgreiða fjárlagafrv. á öndverðu árinu 1959, taldi stjórnarandstaðan og alveg sérstaklega þm. Framsfl. undir forustu Eysteins Jónssonar, að með afgreiðslu frv. á þann hátt, sem gert var, væri verið að blekkja þjóðina á hinn herfilegasta hátt með því að falsa og sniðganga staðreyndir, endar fjárl. mundu aldrei ná saman og stórkostlegur greiðsluhalli verða.

Ég skal nú leyfa mér að rifja nokkuð upp það, sem gerðist um áramótin 1958—1959. Það er nauðsynlegt, til þess að þjóðin geri sér ljóst, hvernig fullyrðingar þessara manna standast.

Vísitala framfærslukostnaðar hafði á árinu 1958 hækkað um 34 stig og grunnkaup verkamanna um allt að 14%. Þetta er eitt mesta heljarstökk, sem verðbólgan hér á landi hefur tekið, og hefur þó oft mikið verið að gert í þeim efnum. Ríkisstj. Hermanns Jónassonar gafst upp við að leysa vandann, og hann sagði af sér, eins og kunnugt er, hljóp frá öllu saman. Tilraunir til að mynda meirihlutastj. með samstæðum meiri hluta þm. að baki tókust ekki. Niðurstaðan varð, að Alþfl. tók að sér myndun minnihlutastj. með óbeinum stuðningi Sjálfstfl., sem nægði til að verja stj. vantrausti. Samanlagt höfðu þessir flokkar ekki meiri hluta í báðum þingdeildum, en hins vegar höfðu þeir samanlagt meiri hluta í Sþ. og gátu því einir ráðið afgreiðslu fjárl. þar, en það var líka sú eina lagasetning, sem þeir gátu algerlega ráðið einir, eins og þingmannatala þeirra var þá.

Vitaskuld hefði verið æskilegt að geta þá þegar ráðizt að meinsemdum efnahagslífsins, ráðizt að orsökum erfiðleikanna. En slíkt var ekki mögulegt þá fyrir þá flokka, sem að stj. stóðu, Alþfl. og Sjálfstfl. Það var ekki mögulegt, vegna þess að til þess skorti beinlínis nægan þingmeirihluta.

Í stað þess var snúið sér að því að reyna að hemja verðbólguvöxtinn, sem hafði, eins og lýst hefur verið, verið svo geigvænlegur á árinu 1958, að hann ógnaði gersamlega allri efnahagsstarfseminni í landinu. Þetta var gert með þrennu móti: 1) Með því að færa niður verðlagið með niðurgreiðslum. 2) Með því að bæta útvegsmönnum þær hækkanir, sem orðið höfðu og ekki voru greiddar niður. 3) Með því að launþegar tækju á sig án sérstakra bóta það, sem á vantaði, að endarnir næðu saman, eða 10 vísitölustig, sem svaraði til 5.4%.

Með þessum ráðstöfunum var kaupgreiðsluvísitalan færð niður í 175 stig og framfærsluvísitalan úr 225 stigum, sem hún hefði komizt í 1. jan. 1959, ef ekki hefði verið að gert, niður í 202 stig. Þetta hefur staðizt síðan. Verðlag og kaupgjald hefur verið óbreytt í heilt ár, ró á vinnumarkaðinum og atvinna mikil og stöðug. Kaupgjald launafólks hefur þrátt fyrir eftirgjöfina verið ívið hærra í heild 1959 en það var 1958 og verðlag stöðugt. Kaupmáttur launa er svipaður og í október 1958. — Þetta var sú hliðin, sem snýr að hinum almenna launþega, sem sagt var um, að á honum hefði verið beinlíms framið kauprán.

En hvernig lítur þá sú hliðin út, sem snýr að ríkissjóði? Til þess að þessar aðgerðir væru framkvæmanlegar, þurfti ríkissjóður að leggja fram mikið fé til viðbótar því, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. því, sem vinstri stj. svokallaða hafði lagt fram, bæði vegna hinna auknu niðurgreiðslna á vöruverði og vegna hinna hækkuðu bóta til útvegsmanna, eða samtals um 200 millj. kr. Þessar upphæðir taldi fyrrv. ríkisstj. að unnt væri að afla án nýrra almennra skatta, og við það var afgreiðsla fjárl. fyrir árið 1959 miðuð. Hvernig var þá þessara auknu tekna aflað?

Það var gert þannig: 1) Með því að hækka tekjuáætlun fjárlagafrv. 2) Með því að draga úr útgjöldum. 3) Með því að hækka nokkuð áfengi og tóbak og innflutningsgjöld af bilum. 4) Með því að nota greiðsluafgang fyrra árs og ógreiddar tolltekjur af innflutningi til Sogsins.

Með þessu móti var endunum náð saman og fjárl. afgreidd greiðsluhallalaus í lok aprílmánaðar s.l.

En hvernig var þessum aðgerðum tekið af stjórnarandstöðunni og þá, eins og ég sagði áðan, alveg sérstaklega af framsóknarmönnum? Dómurinn, sem upp var kveðinn yfir þessu fjárlagafrv. og þessari fjárlagaafgreiðslu, var mjög ákveðinn og hiklaus, sá, að hér væri um að ræða eintómar falsanir og blekkingar af lélegustu tegund, sem aldrei mundu standast, — svipaðar fullyrðingar og við höfum heyrt hér í umræðunum í kvöld. Byrðunum væri einfaldlega ekið á undan sér og þær mundu koma fram í miklum greiðsluhalla. Það mundi sýna sig, þegar árið væri gert upp á sínum tíma. Sérstaklega væri það alveg út í hött og óafsakanlegt að hækka tekjuáætlun fjárl., eins og gert var, og það mundi aldrei standast. Var þetta fullyrt þrátt fyrir það, að upplýst var, að starfsmenn rn. og sérfræðingar höfðu komizt að þessari niðurstöðu að vel athuguðu máli, og þrátt fyrir það, að það hafði sýnt sig á undanförnum árum, að tekjuhliðin hafði ár eftir ár verið áætluð of lág með það eitt fyrir augum að gefa fjmrh. möguleika til að hafa í bakhöndinni digra sjóði til útbýtingar utan fjárl. Þann leik hafði sérstaklega fjmrh. vinstri stj., Eysteinn Jónsson, formaður þingflokks Framsfl., iðkað, enda gekk hann fastast fram í því að deila á gálausa afgreiðslu fjárl., sem hann taldi vera og aldrei mundi standast.

Þetta var dómur stjórnarandstöðunnar þá, þegar fjárl. voru samin. En hver hefur orðið dómur reynslunnar, þegar árið 1959 hefur nú verið gert upp, skv. yfirliti hæstv. fjmrh.?

Hann er sá, að tekjuhlið fjárl. hafi ekki aðeins staðizt, heldur farið 31.6 millj. kr. fram úr áætlun, þó að greiðsluafganginum frá 1958 sé sleppt. Gjaldahliðin hefur hins vegar aðeins farið 17.9 millj. kr. fram úr áætlun, eða ca. 1.8%, og eru það minni umframgreiðslur en oft og ég vil segja oftast áður. Greiðslujöfnuður, þegar reiknað er með greiðsluafganginum frá 1958, eins og gert var ráð fyrir í fjárl., hefur orðið hagstæður um ca. 8 millj., alveg eins og hæstv. fjmrh. gat hér um áðan, og eru þar þó teknir inn nokkrir greiðsluliðir, sem gert hafði verið ráð fyrir að færa yfir á árið 1960. Greiðsluhalli á árinu 1959 var jafnaður með greiðsluafgangi frá 1958, sagði hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, áðan. En um það er að segja, að þegar fjárl. voru samþ. í aprílmánuði s.l., lá fyrir nokkur vitneskja um, að greiðsluafgangur mundi verða frá árinu 1958, og það var reiknað með honum við afgreiðslu frv. Þetta sýnir, að ekki var stefnt í voða með afgreiðslunni á fjárl. 1959, heldur þvert á móti, og að tortryggni stjórnarandstöðunnar og illspár voru algerlega ástæðulausar.

Niðurstaðan af efnahagsaðgerðunum og fjárlagaafgreiðslunni 1959 er, að hvort tveggja hefur staðizt sína raun, þrátt fyrir allar hrakspár. Að vísu var hér, eins og áður hefur verið tekið fram, um hreinar bráðabirgðaráðstafanir að ræða og ekki reynt að ráðast að nema einum þætti efnahagsvandamálanna, að vísu mjög þýðingarmiklum, þ.e.a.s. verðbólgunni. Uppbótakerfinu og hinni margföldu skráningu krónunnar var ekki hróflað við, og gjaldeyrisvandamáliðgagnvart útlöndum var látið óhreyft. Það vandamál, greiðsluhallinn við útlönd, er nú orðið svo aðkallandi, að haldið hefur við stöðvun hjá bönkunum vegna gjaldeyrisskorts. Þetta er sú mest yfirvofandi hætta í efnahagsmálum okkar nú, og má ekki dragast stundinni lengur að freista að leysa það sérstaklega, og eru efnahagsráðstafanirnar fyrst og fremst við það miðaðar. En aðgerðirnar á öndverðu árinu 1959, sem Alþfl, og Sjálfstfl. stóðu að, gera þó þá lausn mála þessara allra, sem nú er stefnt að, miklu auðveldari en ef látið hefði verið reka á reiðanum.

Til fróðleiks má geta þess, að reiknað hefur verið út, að ef ekki hefði verið að gert í fyrra til að stöðva verðbólguna þá, mundi hafa þurft nú að færa gengi dollarsins í 60 kr. til þess að ná endunum saman í stað 38, sem gert er ráð fyrir. Þetta sýnir bezt, hve gífurlega þýðingu þessar aðgerðir hafa haft.

Þetta var um fjárlagaafgreiðsluna 1959 að segja og niðurstöðu reiknings ríkissjóðs fyrir það ár, sem hér liggur nú fyrir.

Svipaður áróður og rekinn var af stjórnarandstöðunni um ríkissjóð var einnig rekinn um útflutningssjóð. En ég skal hér tímans vegna aðeins láta nægja að segja, að afkoma hans virðist hafa orðið mjög svipuð og gert hafði verið ráð fyrir, þegar reiknað er með gjaldföllnum kröfum og tekjum á árinu. Hins vegar er svo ekki að dyljast, að með vaxandi birgðum af útflutningsvörum, sem hér hafa safnazt fyrir, lengist hali hinna ógreiddu skulda, sem gerir kerfinu ógreiðara fyrir að starfa og ég vil segja allt að því ómögulegt, og er þó gert ráð fyrir, að á árinu 1959 hafi 347 millj. verið greiddar úr útflutningssjóði vegna útflutningsframleiðslu, sem til féll á árinu 1958 og jafnvel líka á árinu 1957. Þetta var a.m.k. sá syndahali, sem vinstri stj. skildi eftir sig, þegar hún fór frá og útflutningssjóði var þá ætlað að greiða og hann hefur greitt. Eitthvað kann að vera meira eftir, en það er þá ekki komið fram enn að minnsta kosti.

Fjárlagafrv. fyrir 1960, eins og það nú hefur verið lagt fyrir, er allmjög frábrugðið fjárl. fyrir árið 1959 og því fjárlagafrv. fyrir árið 1960, sem áður hefur verið lagt fram. Er um mjög verulega hækkun að ræða, bæði tekna og gjaldamegin. Hækkar hvort tveggja úr 1033 millj. kr. á sjóðsyfirliti á fjárl. ársins 1959 í 1464 millj. kr. í núv. frv. eða um rúmlega 41%. Verulegur hluti þessarar hækkunar er þó aðeins tilflutningur á greiðslum, sem færðar eru frá útflutningssjóði til ríkissjóðs, og nemur sú hækkun á gjöldum ríkissjóðs, sem af þessum tilflutningi leiðir, mismuninum á því, sem útflutningssjóður hefur greitt í niðurgreiðslur, og því, sem ríkissjóður hefur greitt útflutningssjóði. En sú upphæð er í kringum 113 millj. kr., eins og skýrt var frá hér áðan.

En þó að þessi upphæð sé dregin frá, þá verður hækkunin, sem eftir stendur, um 318 millj. kr., mjög veruleg. Þessi hækkun stendur fyrst og fremst í sambandi við þær efnahagsráðstafanir, sem ríkisstj. nú hyggst gera, og skal ég því leyfa mér að fara um þær nokkrum orðum, þó að það verði aðeins lítið brot af því, sem um það mál er að segja. En betra tækifæri gefst sjálfsagt síðar til að ræða það mál frekar.

Aðalatriði þessara efnahagsráðstafana eru eftirfarandi; ég skal aðeins nefna atriðin, þó að þau hafi verið nefnd áður: 1) Bótakerfið verður afnumið og útflutningssjóður lagður niður. 2) Gengi krónunnar verður framvegis eitt og hið sama fyrir innfluttar og útfluttar vörur, 38 kr. fyrir Bandaríkjadollar og tilsvarandi fyrir aðra mynt. 3) Innflutningur verður gefinn frjáls fyrir allt að 60% af innflutningi og innflutningsskrifstofan lögð niður í sinni núverandi mynd. 4) Vísitölugreiðslur á laun verða afnumdar. 5) Vextir, bæði innláns- og útlánsvextir, verða hækkaðir. 6) Gjöld skv. almannatryggingunum verða stóraukin. 7) Tekjuskattur á almennum launatekjum eða sem þeim svarar verður afnuminn. 8) Til þess að gera ríkissjóði kleift að standa við þær greiðslur, sem af þessu leiðir, verður lagður á almennur söluskattur.

Þetta eru mjög róttækar breytingar á efnahagskerfi þjóðarinnar og mjög frábrugðnar þeim aðferðum, sem gripið hefur verið til á undanförnum árum, og því, sem við höfum búið við a.m.k. síðasta áratuginn. Það er því ekki óeðlilegt, að spurt sé: hvaða nauður rak til þess að gera þessar ráðstafanir, og í öðru lagi: var ekki hægt að gera þetta með jafngóðum árangri einhvern veginn öðruvísi, til þess að ekki þyrfti til verðhækkana að koma vegna breytts gengis? Þessu er því til að svara, að þetta bótakerfi, sem við búum við nú, þrífst, ef ég svo má segja, aðeins með óeðlilegum hætti. Bæturnar, sem greiddar eru á útfluttu vörurnar, að meðaltali nú 86.7%, eru miklu hærri en gjöldin, sem tekin eru af innflutningsvörunum, sem nema að meðaltali aðeins 68.5% . Mismunurinn er jafnaður með þrennu móti og í öllum tilfellum á óeðlilegan hátt: 1) Með erlendum lántökum. 2) Með miklum innflutningi hátollavara. 3) Með tekjum frá Keflavíkurflugvelli.

Þessar leiðir og kannske alveg sérstaklega fyrsta leiðin er ekki fær nema takmarkaðan tíma. Við getum ekki að eilífu haldið áfram að stofna til erlendra skulda af skiljanlegum ástæðum. Og það sem meira er, við erum þar þegar komnir á leiðarenda. Yfir 10% af gjaldeyristekjunum fara nú orðið til þess að greiða vexti og afborganir til útlanda, og mun það vera eitt það mesta, sem þekkist í allri veröldinni. Bráðabirgðalán hrúgast upp og enginn gjaldeyrisvarasjóður er til né getur orðið til, því að skilyrðin fyrir því að geta haldið kerfinu áfram eru, að hver eyrir í erlendum gjaldeyri, sem aflast, sé notaður til vörukaupa og sem mest til kaupa á hátollavöru. Þessi mikli innflutningur á þessari meira og minna óþörfu hátollavöru hlýtur þó að takmarkast við það, sem eftir verður, þegar nauðsynjavörur og rekstrarvörur atvinnuveganna hafa verið keyptar, og raunin hefur síðustu árin orðið sú og það þrátt fyrir miklar lántökur erlendis, að hvergi nærrí hefur verið hægt að flytja inn eins mikið og áætlað var í ársbyrjun af þessum vörum vegna gjaldeyrisskorts. Fram hjá þessari staðreynd er nú ekki hægt að komast lengur. Hin dulbúna og margfalda gengisskráning verður að hverfa og eitt gengi að koma í staðinn, er sé við það miðað, að útflutningsatvinnuvegirnir geti staðið undir nauðsynlegum útgjöldum. Og við það hefur hin nýja gengisskráning verið miðuð. Þetta hlýtur þó að leiða til þess, að verðið á innfluttum vörum hækkar, og sömuleiðis nokkuð á innlendum vörum, sem nota að einhverju erlendar rekstrarvörur.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, sagði í ræðu sinni, að álögurnar á þjóðina skv. hinum nýju efnahagsráðstöfunum yrðu í kringum 1000 millj. kr., og mér skildist á hv. síðasta ræðumanni, að þessi upphæð væri enn miklu hærri. Slíkt er auðvitað fjarri öllu lagi. Það, sem vantar til að ná endunum saman út á við, eru í kringum 200 millj. kr., ef lántökum er sleppt, enda hefur ekki verið hugsað að ganga lengra til þess að jafna metin en þetta. Það, sem þjóðin þess vegna verður að taka á sig í auknum byrðum, er þessi mismunur á því, sem verið hafa gjöldin fyrir innlendu vörurnar og tekjurnar fyrir erlendu vörurnar, sem hefur verið á undanförnum árum 200 millj. kr. og nú verður að hverfa. Þetta mun vera sem næst þeirri upphæð, sem leggst sem byrði á þjóðina í heild.

Það hefur verið reiknað út, að vísitala framfærslukostnaðar muni af þessum sökum hækka um 13%. Þetta er að vísu mjög mikil hækkun og vissulega svo mikil, að ekki er hugsanlegt og ekki heldur ætlunin, að hún komi til framkvæmda, án þess að eitthvað komi á móti. Jafnmikil hækkun og meiri hefur þó orðið hér á framleiðslukostnaðinum með hinu gamla uppbótakerfi, og er þess skemmst að minnast, þegar vísitalan hækkaði um 34 stig 1958, eða um nærri 18%. Að forminu til átti þá að mæta þeirri hækkun með hækkaðri vísitölu á kaup, sem hefði kallað að nýju á vöruverðshækkun, sem fljótlega hefði étið upp kauphækkunina. Það hefur því verið ákveðið nú að fara aðrar leiðir. Það hefur verið ákveðið að leggja nú mjög bráðlega fram á Alþ. frv. til l. um mjög stórfellda hækkun á bótagreiðslum almannatrygginganna. Mest munar þar um hækkun fjölskyldubótanna, sem að öllu leyti greiðast úr ríkissjóði. Er þar lagt til, að fjölskyldubætur þessar verði greiddar strax með fyrsta barni, 2600 kr. á ári, og síðan jafnt með öllum börnum á eftir. Vegur þetta á móti 8.5% hækkun á vísitölunni. Sömuleiðis er í þessu frv. lagt til, að ellilaun og örorkubætur verði hækkaðar um 44%, sem að vísu kemur ekki fram í vísitölunni, en var talið sjálfsagt og eðillegt að gera um leið.

Hv. síðasti ræðumaður var að tala um það, að ellilaun gamalmennanna hefðu orðið á eftir, og það má að vissu leyti til sanns vegar færa. En hann sat sjálfur í stjórn í 21/2 ár og meira að segja sem félmrh., og aldrei ýjaði hann að því, að þessi laun þyrftu að hækka. Enn fremur verða gerðar aðrar breytingar til hækkunar á ýmsum bótagreiðslum öðrum: mæðralaunum, barnalífeyri, fæðingarhjálp og slysatryggingum. Sá hluti, sem ríkissjóður á að greiða af þessum hækkunum, nemur mjög hárri upphæð eða eins og í aths. við frv. segir um 1521/2 millj. kr.

Það er enginn vafi á því, að hér er ráðizt að vandamálinu á réttan hátt og þeim tryggðar hæstu bæturnar, sem erfiðustu aðstöðuna hafa, hvort sem bað kemur fram í vísitölunni, eins og fjölskyldubæturnar, eða það kemur ekki fram í vísitölunni, eins og ellilaunin og ýmsar sérbætur, sem ég nefndi áðan. Auk þessa er svo gert ráð fyrir að greiða niður nokkrar nauðsynjavörur til viðbótar við það, sem þegar er gert nú, og nemur sú niðurgreiðsla um 1.6 stigum og kostar ríkissjóðinn tæpar 38 millj. kr. Kemur því hækkun vísitölu framfærslukostnaðar til að nema 3 stigum í stað 13, elns og orðið hefði, ef ekki hefðu verið gerðar þessar gagnráðstafanir, og kjaraskerðingin á engin að verða hjá þeim, sem hafa sömu tekjur og vísitölufjölskyldan, eða um 60 þús. kr., ef börnin eru 3 eða fleiri.

Þá er einnig rétt að geta þess, að gert er ráð fyrir að afnema tekjuskattinn af venjulegum launatekjum eða öðrum tekjum sem því svarar, þannig að barnlaus hjón með 70 þús. kr. tekjur verði skattfrjáls og síðan hækki hin skattfrjálsa upphæð um 10 þús. kr. fyrir hvert barn. Þetta er talið að kosta ríkissjóðinn um 75 millj. kr., en kemur ekki fram í vísitölu.

Þessir nýju gjaldaliðir og lækkun á tekjulið: hækkun tryggingabótanna, auknar niðurgreiðslur og lækkun tekna af tekjuskatti, nema samtals 265 millj. kr. eða um 83% af hinni raunverulegu hækkun á fjárlögunum, sem stafar ekki af tilflutningi frá útflutningssjóði.

Til þess að mæta hinni auknu tekjuþörf ríkissjóðs er í frv. boðað, að lagður verði á nýr almennur söluskattur, sem gert er ráð fyrir að nemi 280 millj. kr. og þar af fái bæjar- og sveitarfélög 56 millj. eða 20% til lækkunar á sinni útsvarsbyrði. En eftir verða þá til ráðstöfunar til ríkissjóðs 224 millj. Er þetta sama tekjuöflunarleið, sem farin hefur verið annars staðar, svo sem t.d. nú síðast í Svíþjóð til tekjuöflunar í þeirra ríkissjóð. Er söluskatturinn reiknaður með í þeirri hækkun vísitölunnar, sem áður er getið.

Því er ekki að leyna, að með þessum aðgerðum verða nokkrar byrðar á þjóðina lagðar.

En þess er gætt, að þeir, sem minnst burðarþolið hafa, barnmargar fjölskyldur og ellilífeyrisþegar, eiga að sleppa alveg. Á hitt er og að líta, að þeir gjaldeyrisörðugleikar, sem af þessu bótakerfi hefur leitt, geta á hverri stundu sem vera skal stöðvað hinn nauðsynlegasta innflutning, skapað rekstrarstöðvun hjá atvinnuvegunum og atvinnuleysi hjá almenningi.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, vildi í ræðu sinni kalla þetta samdráttarstefnu í stað annarrar, sem hann vildi láta í veðri vaka að hann beitti sér fyrir og héti uppbyggingarstefna. Sannleikurinn er sá, að það, sem Eysteinn Jónsson kallar nú uppbyggingarstefnu, getur áður en varir orðið samdráttarstefna. Þegar yfirfærslur bankanna stöðvast vegna skorts á erlendum gjaldeyri, þá getur orðið þröngt fyrir dyrum með atvinnureksturinn og atvinnuleysi haldið innreið sína. Hjá þeim erfiðleikum, sem af því mundi leiða, eru þessar byrðar, sem nú eru á lagðar, léttbærar, og raunverulega er það það, sem á að bera saman, ástandið, eins og það mundi verða, ef ekki væri að gert, og þetta nýja efnahagskerfi, sem nú er verið að byggja upp.

Engin þjóð í næsta nágrenni við okkur býr við sama efnahagskerfi og við búum nú. Það má segja, að það hafi ef til vill verið réttlætanlegt um stuttan tíma og til að forðast tímabundna erfiðleika, en það getur ekki staðið til lengdar af mörgum ástæðum. Sumar hef ég nefnt og aðrar ekki. Það er ekki einleikið, að hér hefur raunverulega enginn kaupmáttaraukning orðið á laununum þrátt fyrir allar hækkanirnar, sem orðið hafa. Þeim hefur jafnóðum verið velt yfir á ríkissjóðinn og þaðan yfir í verðið.

Hv. síðasti ræðumaður, 4. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, eyddi að því nokkrum orðum, að launahæðin og sérstaklega kaupgeta væri að verða á eftir hjá okkur hér á Íslandi. Já, af hverju skyldi hún vera að verða á eftir? Hún er að verða á eftir vegna þess, að við höfum fylgt því kerfi, sem útilokar það, að við getum fengið kaupmáttaraukningu í gegn. Eina vonin til þess, að verkafólk og launþegar fái hag sinn bættan, er að koma í veg fyrir þetta kerfi og afnema það, fá fast gengi á gjaldeyrinn, losna við uppbótakerfið og vísitölubætur, láta samningana milli launþega og atvinnurekenda vera beina og milliliðalausa og miðaða við það hæsta, sem atvinnureksturinn getur borið, og ekkert annað. Það er leiðin, sem farin hefur verið í nágrannalöndum okkar með sífellt batnandi árangri fyrir launþegana þar í löndum, á meðan við Íslendingar höfum staðið í stað undir hinu ríkjandi bótakerfi, þar sem atvinnurekandinn þarf ekki að hugsa nema að takmörkuðu leyti um heilbrigðan rekstur, en getur velt byrðunum í gegnum ríkissjóðinn yfir á almenning.

Þó að stjórnarandstaðan mikli nú fyrir almenningi erfiðleikana við það að taka upp þetta kerfi, sem óneitanlega eru nokkrir í bili, þá er ég sannfærður um, að þetta er eina leiðin til að komast út úr öngþveitinu til batnandi lífskjara.

Alþfl. og Sjálfstfl. stóðu að efnahagsaðgerðunum í janúar 1959. Þá var stöðvuð holskefla verðbólgunnar, sem Hermann Jónasson sagði að riðin væri yfir og ekkert samkomulag væri innan vinstri stjórnarinnar um að stýra undan. Þá voru samþ. lögin um niðurfærslu verðiags og launa, sem raunverulega þýddu, að launþegar gáfu eftir 5.4% af launum sínum skv. vísitölu, sem þeir höfðu rétt til, þó þannig, að heildarlaun þeirra fyrir sömu vinnu urðu hærri 1959 en þau urðu í heild 1958. Ríkissjóður tók á sínar herðar útgjöld, sem námu um 200 millj. kr., án nýrra almennra skatta. Stjórnarandstaðan gerði allt, sem í hennar valdi stóð, til að gera þessar aðgerðir tortryggilegar, sagði t.d., að hér væri um 13.4% launaskerðingu að ræða eða hærri en gert er ráð fyrir nú brúttó, án hliðarráðstafana. Stjórnarandstaðan reyndi það, sem hún gat, til að fá fólkið til að rísa gegn þessum ráðstöfunum. En það hlýddi ekki kalli hennar, og útkoman hefur orðið hin æskilegasta. Verðlag og laun hefur hvort tveggja verið stöðugt, kaupmáttur launa ekki lægri en hann var í okt. 1958, stöðug og mikil atvinna og þjóðin yfirleitt öll — nema áróðursmenn stjórnarandstöðunnar — ánægð.

Hér var aðeins ráðizt að einum þætti vandans, verðbólgunni. En gjaldeyrisstaðan út á við hélt áfram og heldur áfram að versna. Og nú hefur verið ákveðið að ráðast að þessum kjarna vandans. Þetta er talið að muni þýða 3% kjaraskerðingu hjá vísitölufjölskyldu í bili — og þó enga, ef börnin eru 3 eða fleiri. Hvort vill nú þjóðin, spyr ég, heldur prófa þessa síðari ráðstöfun af tveimur nauðsynlegum, sem ég tel að beri í sér möguleikann til heilbrigðs efnahagslífs og bættra lífskjara, eða hlýða kalli öfgamanna stjórnarandstöðunnar, sem vilja dulbúa vandann, blekkja landsfólkið og lenda að síðustu í blindgötum? — Góða nótt.