16.03.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

42. mál, fjárlög 1960

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem gerð hefur verið grein fyrir í nál. meiri hl. fjvn. á þskj. 179, hefur n. ekki orðið sammála um afstöðu til frv. Till. til breyt. á gjaldabálki frv. eru að vísu bornar fram af n. sameiginlega með fyrirvara af hálfu fulltrúa Framsfl. og Alþb. um afstöðu til einstakra till., en að brtt. á tekjubálki frv. standa aðeins fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl., sem mynda meiri hl. nefndarinnar.

Þegar þing kom saman í nóv. s.l., lagði þáverandi fjmrh. fram fjárlagafrv. fyrir árið 1960, svo sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Vegna þingfrestunarinnar kom það frv. aldrei til athugunar í fjvn., var enda ljóst, að fyrirhugaðar aðgerðir í efnahagsmálum mundu hafa svo stórfelld áhrif á fjárhagskerfið, að mjög veigamiklar breyt. mundi þurfa að gera á hinu upphaflega fjárlagafrv. Var því að því ráði horfið, sem flýtt hefur mjög allri meðferð málsins í n., að samið var nýtt fjárlagafrv., þar sem eftir föngum var höfð hliðsjón af áhrifum efnahagsaðgerðanna. Gerði hæstv. núverandi fjmrh. grein fyrir þeim breyt. í meginefnum í framsöguræðu sinni við 1. umr. frv. N. hefur eingöngu miðað athugun sína við hið siðara fjárlagafrv., sem lagt var fyrir Alþ. í lok janúarmánaðar og vísað var til fjvn. 8. febr. s.l.

Þar sem nokkuð var þegar liðið á fjárhagsárið, þegar fjvn. fékk fjárlagafrv. til meðferðar, var mikilvægt að hraða afgreiðslu málsins í n. svo sem frekast var auðið. Á þeim rúma mánuði, sem liðinn er, frá því að málinu var vísað til n., hefur n. haldið 34 fundi, oft langa og stranga, auk mikillar vinnu utan funda, enda mun athugun fjárlagafrv. í n. ekki um langan aldur hafa tekið jafnskamman tíma. Einmitt þess vegna, vegna þessarar óvenjulegu vinnuhörku í n., sé ég sérstaka ástæðu til að flytja öllum meðnm. mínum úr öllum flokkum beztu þakkir fyrir það, að þeir hafa aldrei möglað, þótt stundum hafi verið hart keyrt. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa ekki heldur á neinn hátt reynt að tefja athugun málsins, og vona ég einnig, að þeir telji sig ekki hafa ástæðu til að saka mig sem form. n. um að beita þá órétti varðandi meðferð málsins, þótt skoðanir hafi auðvitað verið skiptar um afgreiðslu ýmissa atriða í nefndinni.

Í nál. meiri hl. eru raktar í einstökum atriðum þær brtt., sem n. öll og meiri hl. n. sérstaklega flytja við frv., og mun ég því ekki rekja þær lið fyrir lið, heldur leitast við að ræða efnislega þau sjónarmið, er réðu afstöðu n., og þá víkja að ýmsum atriðum um leið, sem koma ekki beinlínis fram í till. n., en hún telur nauðsynlegt að íhuga.

Fyrst vil ég fara nokkrum orðum um heildarmyndina af fjárlagafrv., svo sem það var lagt fyrir n. Hækkun útgjalda ríkissjóðs frá fjárlögum ársins 1959 var áætluð 430 millj. kr.

Í fljótu bragði gæti svo mikil hækkun ríkisútgjalda bent til stórfelldrar útþenslu ríkiskerfisins, en svo er alls ekki. Hækkun á hinum venjulegu rekstrarliðum fjárlaga er ekki önnur en hinn eðlilegi árlegi útgjaldaauki í samræmi við þá þjónustu, sem ríkið er að lögum skuldbundið að veita. Þessa staðreynd er nauðsynlegt að hafa í huga, því að ella gæti hin mikla útgjaldaaukning gefið mönnum þá hugmynd, að öllu taumhaldi hefði verið sleppt af útgjöldum. Meginhluti hinna auknu útgjalda eru afleiðingar efnahagsráðstafana þeirra, sem verið er að framkvæma.

Þegar málin eru krufin til mergjar, verður ljóst, að hér er ekki heldur raunverulega um nein ný útgjöld að ræða. Útflutningssjóður og ríkissjóður eru tvær greinar á sama stofni. Heildarútgjöld þessara sjóða urðu á s.l. ári töluvert á 3. milljarð kr. Nú er sú breyt. gerð, að útflutningssjóður er lagður niður, en sumar skuldbindingar hans færast yfir á ríkissjóð og þá um leið ýmsir tekjustofnar sjóðsins. Niðurgreiðslur á vöruverði, sem í ár eru áætlaðar rúmar 300 millj. kr., færast yfir á ríkissjóð, og hið sérstaka framlag til almannatrygginga, 152 millj. kr., til þess að létta byrðar barnafjölskyldna af völdum efnahagsaðgerðanna, er raunverulega sama eðlis. Vegna gengisbreytingarinnar er í frv. gert ráð fyrir 43.6 millj. kr. hækkun á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs.

Þegar frá eru skildir þessir útgjaldaliðir, sem nánast stafa af tilfærslu í efnahagskerfinu og beinast að því að jafna kjör almennings, þá er í meginatriðum í þessu fjárlagafrv. fylgt þeirri stefnu, sem mörkuð var á s.l. ári, að reyna að spyrna fótum gegn aukningu ríkisútgjalda, svo sem við verður komið, að óbreyttri þeirri löggjöf, er nú gildir um framlög ríkissjóðs til ýmissa framkvæmda og þjónustu.

Við afgreiðslu síðustu fjárlaga voru skornir niður ýmsir útgjaldaliðir ríkissjóðs um nær 50 millj. kr. Sú ráðstöfun var gerð til þess að forðast nýjar skattaálögur. Þessi ráðstöfun átti skilningi að mæta hjá þjóðinni, enda þótt Framsfl. snerist öndverður gegn henni og reyndi eftir föngum að afflytja málið. Meiri hluti þessara lækkana var gerður á kostnað fjárfestingarinnar, og var gerð grein fyrir því, að sá niðurskurður gæti ekki verið til frambúðar. Einmitt af þessum sökum verða ýmsar hækkanir nú á fjárfestingarútgjöldum, þar eð taka verður nú inn útgjaldaliði aftur, sem þá voru felldir niður til bráðabirgða, svo sem 10 millj. kr. til rafvæðingarinnar og 5 millj. kr. til Skipaútgerðar ríkisins, svo að nefndir séu tveir stórir liðir, sem þá var raunhæft að lækka, en er það ekki á þessu ári.

Til þess að átta sig á málinu er nauðsynlegt að hafa í huga þessar skýringar á hinum miklu breyt., sem eru á fjárlagafrv. fyrir árið 1960, miðað við fjárlög 1959, hvað fjárhæðir snertir. Að öðru leyti er fjárlagafrv. í þeim sama gallaða búningi sem fjárlög hafa verið í um langt skeið, en nauðsynlegt er að breyta. Það verður þó ekki gert án gaumgæfilegrar athugunar, því að ekki má hringla til með uppsetningu fjárlaga frá ári til árs.

Vík ég þá að brtt. nefndarinnar.

Við nánari athugun hefur komið í ljós, að gengisbreytingin veldur mun meiri hækkunum á útgjöldum pósts og síma en frv. gerir ráð fyrir. Valda því mjög miklar skuldbindingar um greiðslur í erlendri mynt. Hefur póst- og símamálastjóri gert nýja fjárhagsáætlun, sem tekin er að mestu óbreytt í frv. Vegna hækkaðrar gjaldskrár er gert ráð fyrir því, að póstsjóður verði hallalaus, og framlög ríkissjóðs til framkvæmda símans verða um 2.7 millj. kr. eða litlu lægri en í fjárlagafrv, er gert ráð fyrir.

Lagt er til að hækka framlag Áfengisverzlunar ríkisins til gæzluvistarsjóðs um 500 þús. kr. Lagaskuldbinding um þetta framlag er úr gildi fallin, en lögin eru í endurskoðun og augljóst, að eigi verður komizt af með þá fjárveitingu, sem nú er í frv. Enda þótt forðast beri að leggja sérstakan skatt á tekjur áfengisverzlunarinnar, þá gegnir sérstöku máli um þetta framlag, því að ekkert er eðlilegra en að reikna sem kostnað áfengisverzlunarinnar þann herkostnað, sem óhjákvæmilega fylgir í kjölfar áfengísnotkunarinnar. Er brýn nauðsyn verulegra úrbóta á því sviði, enda berjast ýmsir þeir aðilar í bökkum fjárhagslega, sem fórna kröftum sínum til að reyna að vinna gegn áfengisbölinu.

Nokkrar brtt. flytur nefndin við 10. gr. frv., varðandi útgjöld til utanríkismála. Í nokkrum tilfellum hefur reynzt óhjákvæmilegt að endurreikna framlög til alþjóðastofnana, ýmist vegna gengisbreytingar eða beinlínis hærri framlaga, svo sem til Sameinuðu þjóðanna, Tækniaðstoðar Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins vegna skrifstofubyggingar þess, sem aðildarríkin eiga að greiða eftir ákveðnum hlutföllum. Framlög Íslands til Sameinuðu þjóðanna eru miðuð við 0.04% af heildarútgjöldum samtakanna, og er það lágmarksframlag.

Lagt er til að hækka framlag til upplýsinga- og kynningarstarfsemi um 200 þús. kr. Mikilvægt getur verið fyrir þjóðina að verja nokkru fé í þessu skyni, enda verja margar þjóðir til slíkra hluta miklu fé. Nefndinni hafa nú sem fyrr borizt ýmsar styrkbeiðnir, er eðli málsins samkvæmt flokkast undir landkynningu. Sumum þessum beiðnum telur n. eðlilegt að sinna, en lítur svo á, að utanrrn. hafi bezta aðstöðu til að meta, hvað sé þjóðinni gagnlegt á þessu sviði, og því sé rétt, að það fái nokkru meira fé til ráðstöfunar til landkynningar og verji því á þann hátt, sem það að athuguðu máli telur bezt gagna þjóðinni.

Mjög litlar breytingar eru gerðar á fjárveitingu til lögreglumála, ef undan er skilin fjárveiting til rekstrar vinnuhælis að Kvíabryggju, 500 þús. kr. Svo sem kunnugt er, var hæli þetta rekið um nokkurra ára skeið í þeim tilgangi að auðvelda innheimtu barnsmeðlaga.

Af einhverjum ástæðum var starfrækslu hælisins hætt í tíð vinstri stjórnarinnar. Reynslan hefur sýnt, að hælið stuðlaði að mjög bættri innheimtu barnsmeðlaga og að aftur horfir mjög til hins verra í þeim efnum, eftir að starfrækslu hælisins var hætt. Hefur því verið talið rétt að verða við óskum dómsmrn. um fjárveitingu til þess, að hægt verði aftur að starfrækja vinnuhælið. Til frekari rökstuðnings þeirri till. kemur og það, að mikil nauðsyn er að sundurgreina afbrotamenn meira en nú er gert eftir eðli afbrotanna, og gæti Kvíabryggja að einhverju leyti þjónað því hlutverki.

Sanngjarnt þykir að verða við tilmælum bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum um aukið framlag til löggæzlu þar á vetrarvertíð vegna aðkomufólks, og er þá höfð hliðsjón af því framlagi, sem veitt er til sambærilegra staða í þessu skyni. Er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir sérstökum fjárveitingum til 11 kaupstaða og sjávarþorpa vegna löggæzlu á vissum tímum árs. Óhjákvæmilegt er að taka þessi framlög til endurskoðunar og reyna að setja fastar reglur um þetta efni.

Lagt er til, að veitt verði 75 þús. kr. fjárveiting til undirbúnings nýrrar skipunar í fangelsismálum. Hefur dómsmrn. ákveðið að hefja heildarathugun fangelsismálanna, og hefur n. talið rétt að mæla með fjárveitingu til þeirrar athugunar.

Þá er loks í sambandi við fangelsismálin rétt að geta þeirrar brtt. n. við 20. gr., að hækka fjárveitingu til byggingar lögreglustöðvar í Reykjavík um 240 þús. kr. Geymt er nokkurt fé, sem veitt hefur verið á undanförnum árum til byggingar lögreglustöðvarinnar. Þess er mjög brýn nauðsyn að geta sem allra fyrst hafizt handa um byggingu stöðvarinnar og þá haldið framkvæmdum áfram af fullum krafti, og er því lagt til að hækka fjárveitinguna í 1 millj. kr.

Í áfengislögum er áfengisvarnaráði fengið það hlutverk að skipuleggja áfengisvarnir um allt land, veita styrki til stuðnings bindindisstarfsemi og efla samstarf allra þeirra aðila, sem að bindindismálum vinna. Starfsemi ráðsins hefur farið vaxandi með ári hverju, en fjárveiting til þess hefur staðið í stað. Nokkur hækkun fjárveitingar nú er óumflýjanleg, til þess að ráðið geti starfað svo sem til er ætlazt, og er því lagt til að hækka fjárveitinguna til ráðsins um 55 þús. kr.

Á sviði heilbrigðismálanna eru mörg knýjandi verkefni, sem þarf að sinna, en ekki hefur þó verið talið fært að sinna nema að mjög takmörkuðu leyti þeim óskum, sem heilbrigðisyfirvöld hafa borið fram um fjárveitingar. Fjárveiting til landsspítalans er þó hækkuð um rúma 1 millj. kr. til þess að að mæta óumflýjanlegum útgjöldum þeirrar stofnunar. Er þar um að ræða kaup röntgenvéla fyrir 445 þús. kr., laun tveggja manna á rannsóknarstofu, sem ráðnir voru með samþykki heilbrmrn. á s.l. hausti, og loks er lagt til að veita 500 þús. kr. til áhaldakaupa í þá álmu viðbyggingar landsspítalans, sem vonazt er til að geti orðið fullsmiðuð í byrjun næsta árs. Í frv. er gert ráð fyrir 500 þús. kr. í þessu skyni, og verður fjárveitingin til tækjakaupanna þá alls 1 millj. kr. En áætlað er, að heildarkostnaður við búnað þessarar viðbyggingar verði rúmar 2 millj. kr.

Í fjárlögum fyrir 1959 voru veittar 375 þús. kr. til kaupa á röntgenvélum til Vífilsstaðahælis. Jafnhá fjárveiting er í fjárlagafrv. nú. En þar sem vélar þessar voru ekki komnar fyrir gengisbreytinguna, þarf að veita enn 350 þús. kr. til kaupanna.

Þá er lagt til að hækka fjárveitingu til rannsóknarstofu háskólans vegna 3 starfsmanna við rannsóknir, sem þegar hafa verið ráðnir. Seld þjónusta var í fyrra hækkuð um 15 % til að mæta þessum útgjaldaauka.

St. Jósefsspítalarnir í Reykjavík og Hafnarfirði, sem báðir veita mjög þýðingarmikla þjónustu, hafa að undanförnu fengið rekstrarstyrk úr ríkissjóði, er nemur 10 kr. á hvern legudag. Hliðstætt sjúkrahús kaþólskra er rekið í Stykkishólmi, og þykir sjálfsagt, að það sjúkrahús njóti einnig sama styrks. Er áætlað, að aukin útgjöld í því sambandi muni nema um 100 þús. kr.

Undanfarin ár hefur verið veittur 100 þús. kr. styrkur til ýmissa sjúklinga eftir úthlutun tryggingaráðs og landlæknis. Er hér fyrst og fremst um að ræða styrki til sjúklinga, sem verða að leita sér lækninga erlendis og verða því oft fyrir mjög miklum aukakostnaði. Ætlunin hefur verið sú, að Tryggingastofnunin legði fram tvöfalda upphæð á móti en vegna þess að orðalag skilyrðisins hefur ekki verið nægilega skýrt, hefur Tryggingastofnunin skilið það svo, að framlag hennar ætti að vera 2/3 af framlagi ríkissjóðs. Vegna gengisbreytingarinnar er talið nauðsynlegt að hækka þessa styrki verulega. Er lagt til að hækka fjárveitinguna í 150 þús. kr., og hefur jafnframt Tryggingastofnunin fallizt á að leggja tvöfalt framlag á móti að fenginni nauðsynlegri lagaheimild. Yrðu þá til ráðstöfunar alls 450 þús. kr., og telur landlæknir þá lausn viðunandi.

Áður en rætt er um einstaka liði fjárveitinga til vegamála, hafnarmála og flugmála, er rétt að víkja nokkuð að stefnunni í fjárfestingarmálum yfirleitt.

Það er óvefengjanlega veigamikill þáttur erfiðleika þjóðarinnar í efnahagsmálum, að fjárfesting hefur verið of ör. Hin mikla fjárfesting er auðskilin, því að bættur efnahagur þjóðarinnar hefur orðið henni hvatning til margvíslegrar uppbyggingar, og á því sviði hafa framfarirnar verið undraverðar á síðustu tveim áratugum. Hins vegar er auðvitað óhjákvæmilegt að halda fjárfestingu innan þeirra takmarka, sem efnahagur leyfir, miðað við eðlilega neyzlu, og gæta þess, að fjárfestingin leiði ekki til verðbólgu. Þetta hefur því miður hvorugt tekizt, og frumskilyrði heilbrigðrar efnahagsþróunar er að koma á því fjárhagslega jafnvægi, sem efnahagsráðstafanir núverandi hæstv. ríkisstj. miða að. En til þess að svo megi verða, er óhjákvæmilegt að draga um sinn nokkuð úr fjárfestingu og neyzlu. Hversu mikið fjárfestingin þarf að minnka, er undir því komið, að hve miklu leyti þjóðin vill fremur draga að sér með neyzluvörur. Þjóðin er því nú líkt á vegi stödd og bóndi, sem af dugnaði og bjartsýni hefur lagt í miklar framkvæmdir á jörð sinni, en í kappi sínu við að bæta og fegra býli sitt hefur hann safnað svo miklum skuldum, að af tekjum búsins getur hann ekki staðið undir greiðslu vaxta og afborgana nema með enn frekari lántökum. Sérhver hygginn bóndi mundi, þegar svo er komið, draga úr framkvæmdum í bili og leggja nokkur höft á eyðslu sína á öðrum sviðum til að tryggja þær umbætur, sem þegar hafa verið gerðar, og missa ekki sína góðu bújörð. Nákvæmlega sama verður þjóðin að gera, ef hún vill tryggja efnahagslegt sjálfstæði sitt. Enginn efi er á því, að meginhluti þjóðarinnar gerir sér grein fyrir þessari einföldu staðreynd, þótt sumir stjórnmálamenn reyni að villa henni sýn. Nokkur takmörkun fjárfestingar um sinn er óumflýjanleg, og verður sú takmörkun bæði að ná til opinberrar fjárfestingar og fjárfestingar einkaaðila. Í þessu sambandi verður þó auðvitað að gera mun á framkvæmdum eftir því, hvers eðlis þær eru. Takmörkunin verður fyrst og fremst að ná til óarðbærrar fjárfestingar.

Samgöngubætur eru í nútímaþjóðfélagi nauðsynlegur þáttur í eflingu framleiðslunnar, og aukning hennar er forsenda bættra lífskjara. Því er það, að ríkisstj. og meiri hluti fjvn. hafa talið nauðsynlegt að auka verulega framlög til samgöngubóta, þannig að raunverulega verður á því sviði ekki um neinn teljandi samdrátt framkvæmda að ræða. Var einnig á s.l. ári talið rétt að láta ekki 5% skerðinguna á framkvæmdafé ná til fjárveitinga til vega, brúa, hafna og flugvalla.

Með hækkun þeirri á benzínskatti til vega og brúargerða, sem ákveðin var í l. um efnahagsmál, verða um 2.6 millj. kr. meira til ráðstöfunar á þessu ári af benzínfé en s.l. ár. Eftir till. meiri hl. fjvn. er gert ráð fyrir 1.8 millj. kr. hækkun á því vegafé, sem skipt er á einstaka vegi. Lagt er til að veita sérstaklega 4 millj. kr. til vega á 20. gr., og lagt er til að hækka fjárveitingu til brúargerða um rúmlega 1.3 millj. kr. Til nýbyggingar vega og brúa hækkar þannig um 8.4 millj. kr., og til viðhalds þjóðvega er ætluð 8.2 millj. kr. hærri fjárveiting en s.l. ár, þannig að hækkunin á framkvæmdafé. vegagerðarinnar verður alls um 16.6 millj. kr. Er í því sambandi gott að hafa það í huga, að fjmrh. vinstri stj. lagði ekki til að hækka um eina krónu fjárveitingar til nýbyggingar vega, brúargerða og hafnargerða, eftir að 55% yfirfærslugjaldið var lagt á. Eftir að yfirfærslugjaldið var ákveðið 1958, lögðu þáverandi fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. til að hækka framlög til samgöngubóta og annarra verklegra framkvæmda um 10%, en fulltrúar vinstristjórnarflokkanna felldu þá till. Nú lögðu fulltrúar Framsfl. og Alþb. til í fjvn., að allar þessar fjárveitingar hækkuðu um 30%, sem er allmiklu meiri hækkun en nemur kostnaðaraukningu vegna gengisbreytingarinnar, enda þótt öllum ábyrgum mönnum hljóti að vera ljóst, að nú er sannarlega ekki rétti tíminn til að auka hraðann í fjárfestingunni, ef ekki á að verða fjármálalegt hrun í þjóðfélaginu og framkvæmdir allar þá að stöðvast af sjálfu sér af þeim sökum.

Með þeirri 4 millj. kr. aukafjárveitingu til samgöngubóta á landi, sem lagt er til að veita sem hluta af framlagi til framleiðslu- og atvinnuaukningar á 20. gr., er fullkomlega haldið í horfinu með fjárveitingar til vegagerða. Þar sem fulltrúar Framsfl. í fjvn. deildu mjög á þessa tilhögun á veitingu fjár til vegamála, þykir mér rétt með nokkrum orðum að gera grein fyrir till. þessari.

Endanlegt samkomulag varð ekki um fjárveitingu þessa, fyrr en afgreiðsla málsins í n. var það langt komin, að séð yrði, hvort hún rúmaðist innan þess ramma, sem óhjákvæmilegt var að setja útgjaldaaukningunni. Hafði þá verið skipt fé því, sem til ráðstöfunar var skv. frv. til vegagerðar. Hefði þá orðið að taka upp að nýju þá skiptingu, sem þegar hafði verið samþ. Var það bæði óeðlileg afgreiðsla og hefði auk þess seinkað meðferð frv. í n. Það þótti því heppileg lausn í þetta sinn að veita fjárveitingu þessa sem hluta af fé til atvinnu- og framleiðsluaukningar, því að eðlilegast er, að einmitt þau sjónarmið ráði skiptingu fjárins. Lagt er til, svo sem á s.l. ári, að því fé verði skipt af n., sem í eiga sæti fulltrúar allra flokka. Hér er ekki um neitt einstæð vinnubrögð að ræða, því að allt til síðasta árs var t.d. skipting milljónaupphæða til millibyggðavega algerlega í höndum ráðh., og í hans hendi er einnig endanlegt ákvörðunarvald um ráðstöfun brúasjóðs og skiptingu þeirra tugmilljóna, sem veittar eru til vegaviðhalds.

Rétt er að geta þess, að gert er ráð fyrir, að vegafé skiptist á rúmlega 60 færri vegi en s.l. ár. Með hinni miklu skiptingu vegafjárins í smáar upphæðir fer mikið fé forgörðum við flutning tækja. Víða er að vísu hægt að framkvæma nýbyggingu með viðhaldinu, en oft þarf þó að flytja að stærri vélar. Er því engum efa bundið, að með minna fé má ná sama árangri, ef hægt er að vinna í stærri áföngum árlega og vinna þá til skiptis í vegunum. En til þess að auðið sé að gera enn róttækari breyt. í þessu efni, þarf að gera framkvæmdaáætlun nokkur ár fram í tímann, svo að menn viti, hvenær röðin kemur að þeim. Má í þessu sambandi vekja athygli á þál., sem samþ. var á Alb. í marz 1958, þar sem ríkisstj. var falið að gera áætlun um nauðsynlegar umbætur á vegakerfinu. Er æskilegt, að ríkisstj. hraði framkvæmd þeirrar athugunar.

Þá má benda á annað atriði, sem telja verður til bóta, en það er að miða fjárveitingar til brúargerða við það, að hægt sé að ljúka brúargerðinni með þeim hraða, sem framkvæmanlegur er af tæknilegum ástæðum. Hafa fjárveitingar til nýrra brúa nú verið ákvarðaðar með þetta sjónarmið í huga.

Í sambandi við benzínskattinn er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að dísilbifreiðum fjölgar stöðugt, og þeim mun fjölga því meir sem misræmið verður meira í skattaálagningu á benzínbifreiðar og dísilbifreiðar. Rúmlega 10% allra vörubifreiða voru um s.l. áramót með dísilvélum, eða alls 615 bifreiðar. Skattar og tollar af benzíni munu nú vera kr. 1.91 af hverjum benzínlítra, en allir skattar af hráolíu kr. 3.17 á hverja 1000 lítra, skv. upplýsingum, sem vegamálastjóri hefur tekið saman fyrir fjvn. Skattur á benzíni er því liðlega 600-falt hærri en á hráolíu. Dísilbifreiðar greiða að vísu allmiklu hærri þungaskatt en benzínbifreiðar, en þegar 5 tonna benzínbifreið hefur ekið 30 þús. km, hefur hún greitt þrefalt meira í skatt af benzíninu en nemur þungaskatti dísilbifreiðarinnar. Ef ekki verður breyting á þessu hlutfalli, má ótvírætt gera ráð fyrir því, að tekjur af benzínskatti fari minnkandi á næstunni. Er því nauðsynlegt að taka málið í heild til endurskoðunar. Eðlilegt er, að umferðin beri að verulegu leyti uppi kostnað við vegakerfið, og þótt vafalaust sé þjóðhagslega skynsamlegt að örva notkun dísilbifreiða, þá má ekki hafa mismun álagnanna of mikinn. Ber í því sambandi að geta þess, að dísilbifreiðar eru yfirleitt stórar og þungar og fara því verr með vegina en benzínbifreiðarnar.

Til hafnargerða er lagt til að veita 1.2 millj. kr. hærri fjárhæð en s.l. ár, að viðbættu 450 þús. kr. framlagi til hafnarbótasjóðs vegna skemmda á hafnargarðinum í Ólafsfirði, sem urðu í ofviðri snemma í vetur. Ýmsir munu vafalaust segja, að illa sé séð fyrir þessum mikilvægu framkvæmdum með svo lítilli hækkun fjárveitinga. Er það að vísu rétt. En vandinn hefði ekki verið leystur, þótt fjárveiting hefði verið hækkuð um 2–3 millj. kr. Hver meiri háttar framkvæmd í hafnarmálum kostar milljónir króna. Hvergi er þörfin meiri en á þessu sviði að vinna kerfisbundið að framkvæmdum. Um framkvæmdaáætlun um hafnargerðir hefur Alþ. þegar gert ályktun, og er nauðsynlegt að hraða henni eftir föngum. Hér er þó við þann vanda að fást, að framkvæmdum verður oft ekki skotið á frest, ef viðkomandi staðir eiga ekki að leggjast í auðn. Með vaxandi lánsfjárskorti eykst vandinn fyrir sveitarfélögin á þessu sviði, þar eð framlög ríkisins eru smátt skömmtuð. Eina úrræðið til úrbóta virðist því vera lántaka í einhverju formi að tilhlutan þingsins. Hugsanlegt er að taka sérstök lán til hinna stærri framkvæmda, svo sem gert var á Akranesi og er fyrirhugað varðandi Þorlákshöfn. En hinar minni hafnir geta ekki tekið slík lán, heldur verða að fá framlög af heildarlántöku. Fyrsta lán þessarar tegundar til hafnargerða var tekið á s.l. ári, og er óhjákvæmilegt að gera stærra átak í því efni, því að með þeim fjölda nýrra fiskiskipa, sem kemur til landsins á næstunni, eru margar útgerðarhafnir algerlega ófullnægjandi. Auknar hafnarbætur eru því beinlínis forsenda aukinnar útgerðar. Ekki mun enn hafa verið unnið fyrir a.m.k. 2/3 hluta af 28 millj. kr. láninu til hafnargerða, sem tekið var á s.l. ári. Má því telja, að beinlínis fyrir forgöngu ríkisins verði til ráðstöfunar á þessu ári til hafnargerða yfir 30 millj. kr. Er það miklu hærri fjárhæð en nokkru sinni áður hefur að tilhlutan ríkisins verið varið til hafnargerða.

Á árinu 1959 hefur nokkuð lækkað sú fjárhæð, sem ríkissjóður á vangoldna til hafnarframkvæmda víðs vegar um land. Var vangreitt ríkissjóðsframlag um síðustu áramót rúmar 15 millj. kr. En þegar á heildina er litíð, mega þar koma til frádráttar tæpar 6.5 millj. kr., sem veittar hafa verið umfram lögboðin framlög, þar með talin framlög, sem geymd eru í ríkissjóði eða á vitamálaskrifstofunni.

Til flugvallagerða er nú lagt til að veita 2.2 millj. kr. hærri fjárhæð en s.l. ár. Er þessi hækkun við það miðuð, að lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli verði hækkuð sem gengislækkuninni nemur, og talið eðlilegt, að því fé verði varið til að bæta flugvallakerfið. Flugið ryður sér nú æ meir til rúms í samgöngukerfinu, en fjárveitingar til þess eru litlar miðað við aðra þætti samgangna. Hefur það bjargað okkur, að tvo stærstu flugvellina, sem flugið hefur allar tekjur sínar af, hafa Íslendingar fengið með sérstæðum hætti. Færðar hafa verið til útgjalda á ríkisreikningi 1959 nær 6 millj. kr., sem á því ári var unnið umfram út á væntanlega fjárveitingu 1960. Á þennan hátt hefur á s.l. ári og nú verið varið til framkvæmda í flugmálum um 21 millj. kr. Er því raunverulega um að ræða mjög stórfellda hækkun til framkvæmda í flugmálum.

Í sambandi við skiptingu fjár til flugvalla og öryggistækja er rétt að taka það fram, að meiri hl. fjvn. féllst á það sjónarmið meiri hluta flugráðs, að rétt væri að beina framkvæmdafénu að tiltölulega fáum verkum og miða fjárveitingar við það, að hægt væri að ljúka tilteknum áföngum. Við flugvallagerðir þarf yfirleitt að nota stórvirk vinnutæki og því mjög óhagkvæmt og dýrt að þurfa að flytja þau fram og aftur til að vinna fyrir smáfjárveitingar. Lögð er áherzla á, að sem víðast geti verið lendingarfært fyrir litlar flugvélar. En tvímælalaust er öllum til hagsbóta að vinna sem samfelldast að hinum stærri flugvöllum. Gert er ráð fyrir að ljúka að mestu á þessu ári uppsetningu þess fullkomna flugöryggiskerfis, sem mun tryggja fyrsta flokks öryggisþjónustu yfir öllu landinu og umhverfi þess. Hefur flugmálastj. Bandaríkjanna látið íslenzku flugmálastj. öryggistæki þessi í té endurgjaldslaust, en tækin munu verða milli 15 og 20 millj. kr. virði.

Vegna gengisbreyt. þurfti að endurskoða kostnaðaráætlanir fyrir allar 3 greinar alþjóðaflugþjónustunnar, hækka kostnaðarhlut Íslands um 245 þús. kr.

Á framlögum til menntamála verða verulegar hækkanir skv. till. n. Ber þar fyrst að nefna 3 millj. kr. til nýrra skólabygginga. Með l. um fjármál skóla frá 1955 var gert mikilvægt átak til að koma í fast form framlögum ríkissjóðs til skólabygginga. Var þá slegið striki undir eldri viðskipti og ákveðið að greiða skuldir vegna þeirra með föstum framlögum á 5 árum. Vegna vanáætlunar hafa þær fjárhæðir reynzt hærri en í fyrstu var haldið, og voru um síðustu áramót enn ógreiddar 4.8 millj. af þessum eldri skuldum. Er nú gert ráð fyrir að verja 1.9 millj. kr. til greiðslu þessara skulda. Með l. frá 1955 var ákveðið, að ekki mætti ráðast í nýjar skólabyggingar nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum og að fengnu samþykki Alþ. í formi fjárveitingar. En jafnframt tók ríkissjóður á sig þá skyldu að greiða á 5 árum sinn hluta miðað við upphaflega kostnaðaráætlun. Með þessari skipan hefði öllu réttlæti átt að vera fullnægt, en því miður hefur verðbólgan sett hér babb í bátinn. Skólarnir, sem samþ. voru inn fyrsta ár hinnar nýju skipunar, ættu í ár að vera fullgreiddir að hluta ríkissjóðs, en því fer fjarri. Ýmist hafa upphaflegar vanáætlanir eða verðhækkanir valdið því, að ríkissjóður mun eiga ógreitt til þessara skólamannvirkja í árslok 1960 rúmar 18.7 millj. kr. Bæði af þessari ástæðu og einnig vegna þess, að enn er ekki nægilega samræmd og kerfisbundin samvinna þeirra aðila, sem um þessi mál eiga að fjalla, er óumflýjanlegt að taka skólabyggingamálin til rækilegrar endurskoðunar fyrir næsta þing. Eftirlit með skólabyggingum er ekki nægilega mikið. Er ekki hér á neinn hátt verið að ávíta þá aðila, sem öll þessi verk eiga að annast. En það er ekki áhorfsmál að ráða heldur nýjan starfsmann til eftirlits, ef nauðsynlegt verður talið, heldur en að láta tugmilljónaframkvæmdir meira og minna eftirlitslausar. Getur það bæði valdið ríkissjóði miklu tjóni og einnig sveitarfélögunum, ef byggingarnar eru ekki nægilega vel undirbúnar og nógu vel fylgzt með byggingarframkvæmdum. Það væri allt of langt mál að ræða alla þætti þessa mikilvæga fjárhagsmáls, en fjvn. leggur áherzlu á það, að greiðslukerfið allt og tilhögun eftirlitsins verði athugað til hlítar á grundvelli fenginnar reynslu.

Framlög til byggingar skóla hækka alls um 8.9 millj. kr. frá fjárl. 1959 og raunar þó meir, því að sú fjárveiting var skert um 5%. Af þessari hækkun eru 5.8 millj. vegna lögboðinna framlaga. Þessi sjálfkrafa hækkun á framlögum til skólabygginga frá ári til árs hlýtur að vekja þá spurningu, hvar við séum stödd í þessum efnum. Er óumflýjanlegt að reyna að gera um það áætlun til nokkurra ára, hvaða skóla þurfi að reisa á því tímabili og hver sé sennilegur byggingarkostnaður þeirra, til þess að fá einhverja mynd af því, hvaða skuldbindingar ríkissjóður þurfi að inna af hendi í þessu efni á næstu árum.

Önnur aðalútgjaldatill. varðandi menntamálin er hækkun námsstyrkja og námslána um tæpar 2 millj. kr. Hækkar þá þessi liður alls um tæpar 3.6 millj. kr. frá fjárl. ársins 1959. Er þessi mikla hækkun talin óhjákvæmileg vegna stóraukins námskostnaðar erlendis, fyrst og fremst af völdum gengisbreyt. Það er metnaðarmál íslenzku þjóðarinnar, að enginn efnilegur námsmaður þurfi að fara menntunar á mis sökum fjárskorts, og þjóðin mun því áreiðanlega ekki sjá eftir þessu fé til að mennta æskumenn sína. Hitt er sanngjarnt og nauðsynlegt, að gera kröfu til þess, að allir, sem námsstyrki fá til náms erlendis, stundi raunverulega nám, og í annan stað hlýtur að verða að gera greinarmun á því, hvort viðkomandi námsgrein er hægt að stunda hér heima. Þá hlýtur og að koma til álita, hvort ekki eigi að láta þá menn endurgreiða námsstyrki, sem að námi loknu taka við störfum erlendis, þótt ættland þeirra þurfi á starfskröftum þeirra að halda.

Lagt er til að hækka styrki til erlendra námsmanna í íslenzkum skólum um 150 þús. kr., og gert er ráð fyrir 29 þús. kr. aukafjárveitingu úr lánasjóði stúdenta til verkfræðinema vegna mælinganámskeiða, sem þeir þurfa að sækja í sambandi við nám sitt.

Vegna fjárskorts vísindasjóðs er lagt til að veita sjóðnum á þessu ári 200 þús. kr. framlag úr ríkissjóði, svo að sjóðurinn geti sinnt hlutverki sínu.

Enn verður ekki hjá því komizt að greiða 222 þús. kr. vegna byggingar útihúsa við skólabúið á Laugarvatni. Er talið, að byggingar þessar komi undir ákvæði l. um fjármál skóla. Er þess vænzt, að framlagið í ár sé lokaframlag, og hefur þá ríkissjóður lagt rúma 1 millj. kr. til þessara framkvæmda.

Vegna gengisbreyt. er lagt til að hækka fjárveitingu til söng- og tónlistarnáms erlendis um 42 þús. kr. Nefndinni hafa borizt tvær umsóknir um sérstaka styrki til hljómleikahalds erlendis. Telur n. vel geta komið til greina að styrkja efnilega listamenn að einhverju leyti, þegar þannig stendur á, en er þeirrar skoðunar, að menntamálaráð sé heppilegasti aðili til að meta allar aðstæður í þessu efni. Er því lagt til að veita nú 30 þús. kr. í þessu skyni og menntamálaráði fengin úthlutun fjárins.

Nefndin leggur til að hækka nokkuð ýmsar fjárveitingar til íþróttamála. Er þar veigamest till. um að hækka framlag til íþróttasjóðs um 480 þús. kr., eða í 2 millj. kr. Hagur íþróttasjóðs hefur versnað ár frá ári. Að lokinni úthlutun úr sjóðnum árið 1959 voru ógreiddar rúmar 11.5 millj. kr. af áætlaðri þátttöku sjóðsins skv. íþróttalögunum í byggingarkostnaði ýmissa íþróttamannvirkja, sem þá voru í smiðum. Fjölmörg íþrótta- og ungmennafélög um land allt hafa lagt mikið á sig til að öðlast sómasamlega aðstöðu til íþróttaiðkana, og er nauðsynlegt, að það frjálsa framtak verði ekki lamað með allt of hægfara greiðslum úr íþróttasjóði. Ljóst er, að þessi hækkun framlags til sjóðsins nægir engan veginn til þess að leysa vandann. Er því nauðsynlegt, að starfsemi sjóðsins verði fyrir næsta þing tekin til rækilegrar endurskoðunar og reynt að tryggja sjóðnum viðhlítandi starfsgrundvöll í framtíðinni.

Á ýmsum stöðum á landinu byggist íþróttakennslan eingöngu á aðsendum kennurum. Því þykir rétt að hækka framlag til ferðakennslu í íþróttum um 20 þús. kr. Tveir aðrir liðir fjárveitinga til íþróttamála eru hækkaðir lítið eitt vegna aukins kostnaðar.

Íþróttasamband Íslands sótti um mjög verulega hækkun á ríkisstyrk. Ekki þykir fært að hækka styrkinn um nema 25 þús. kr., en það er talið sanngjarnt vegna aukins kostnaðar.

Eftir sama sjónarmiði er lagt til að hækka styrk til Skáksambands Íslands um 20 þús. kr., en starfsemi þess hefur farið mjög vaxandi. Bæði þessi samtök hafa mikilvægu uppeldisog menningarhlutverki að gegna.

Við brottflutning náttúrugripasafnsins úr landsbókasafnshúsinu fær landsbókasafnið aukinn húsakost, sem er því mikil nauðsyn. Er gert ráð fyrir að koma handritasafni landsbókasafnsins fyrir í húsnæði þessu. En til þess að svo megi verða, þarf að kaupa sérstakar hirzlur undir bað og gera ýmsar breyt. Munu þær framkvæmdir kosta um 700 þús. kr., og er lagt til að veita nú í þessu skyni 300 þús. kr. Vegna skekkju í grg til n. um málið hefur fjárveiting þessi verið sett með fjárveitingu til þjóðskjalasafnsins, en það mun verða leiðrétt fyrir 3. umr.

Vegna aukins útgáfukostnaðar hafa nokkrar fjárveitingar til bókaútgáfu verið hækkaðar lítið eitt, en þær upphæðir eru flestar svo litlar, að ekki er ástæða til að gera þær að umtalsefni frekar en gert er í nál.

Svo að segja árlega fjölgar þeim leikfélögum, tónlistarskólum og lúðrasveitum, sem fá styrk í fjárl. Er hér um hina nýtustu starfsemi að ræða, sem rétt er að glæða, og fjárveitingar til hennar nema ekki háum fjárhæðum. Hins vegar er nauðsynlegt, að nokkurt aðhald sé að þeim, sem styrks njóta, og er því æskilegt, að menntmrn. gangi ríkt eftir því, að starfsskýrslum sé skilað, svo sem gert er ráð fyrir í fjárl., og fjvn. árlega gerð grein fyrir starfsemi þessara aðila. Tónlistarskólarnir hafa hér nokkra sérstöðu, og er alltaf verið að sækja á með hækkun á styrk til þeirra. N. hefur ekki talið sér fært að standa gegn nokkurri styrkhækkun til tveggja skóla, sem halda uppi kostnaðarsamri tónlistarkennslu og eiga við mikla fjárhagsörðugleika að stríða. N. gerir sér hins vegar grein fyrir því, að engin vissa er fyrir, að eðlilegt hlutfall sé í styrkveitingum til hinna ýmsu tónlistarskóla miðað við starfsemi þeirra. Er því mikil nauðsyn að taka fjárveitingar til tónlistarkennslu til heildarendurskoðunar fyrir næsta þing og reyna að finna fastar reglur fyrir styrkveitingum til tónlistarskólanna.

Skv. grg. eftirlitsmanns með byggingum ríkisins er óumflýjanlegt að verja 100 þús. kr. til viðgerðar á húsi listasafns Einars Jónssonar.

Rétt þykir að hækka um 20 þús. kr. styrk til kristlegrar æskulýðsstarfsemi. Alþ. hefur nú til meðferðar frv. um sérstakan æskulýðsprest, og má ætla, að æskulýðsstarfseminni verði gefinn æ ríkari gaumur af kirkjunni, og er það vel, því að á þeim vettvangi hefur kirkjan mikilvægu hlutverki að gegna.

Lagt er til að hækka fjárveitingu til Búnaðarfélags Íslands um 260 þús. kr. Er ástæðan sú, að niður er felld í frv. fjárveiting sú, sem um nokkurra ára bil hefur verið í fjárl. til svokallaðra sýningarreita í jarðrækt. Var upphaflega ætlunin, að þær tilraunir stæðu aðeins nokkur ár, en tilraunaráð jarðræktar telur nauðsynlegt að halda tilraunum áfram vegna nauðsynlegra athugana á jarðvegi í sambandi við áburðarnotkun. Verður að fallast á það sjónarmið, því að rannsóknir og leiðbeiningar um rétta notkun áburðar eru eitt af veigamestu undirstöðuatriðum í landbúnaði. Tilraunareitirnir eru nú miklu færri en í upphafi og því ekki þörf sömu fjárveitingar. Þá hefur af fjárveitingunni undanfarin ár einnig verið kostuð útgáfa fræðslurita og kvikmyndir. Hefur fjárhagsnefnd búnaðarþings talið viðunandi lausn á málinu að fá 260 þús. kr. fjárveitingu, og þar sem gera má ráð fyrir, að þessari starfsemi verði haldið áfram næstu ár, þykir eðlilegast að veita féð beint til Búnaðarfélags Íslands.

Fjárveitingu til sjóvarnargarða er óumflýjanlegt að hækka um 213 þús. kr., og að fengnu áliti vegamálastjóra er lagt til að verja 170 þús. kr. til þess að koma í veg fyrir landbrot af völdum Ytri-Tunguár í Hörgárdal og Kotár í Öræfum, gegn því, að hlutaðeigandi bændur greiði 1/8 hluta kostnaðar.

Við endurskoðun fjárlfrv. var ekki hækkuð fjárveiting til haf- og fiskirannsókna. Fjárveiting þessi mun að mestu notuð til þess að greiða skipaleigu, sem hækkar allverulega vegna efnahagsaðgerðanna. Þykir því nauðsynlegt að hækka fjárveitinguna um 225 þús. kr., til þess að þessar mikilvægu rannsóknir þurfi ekki að dragast saman.

Námskeið þau, sem Fiskifélag Íslands hefur efnt til að undanförnu til þess að kenna meðferð asdic-tækja, hafa gefið góða raun og sjálfsagt að halda þeim áfram, því að rétt meðferð tækja þessara hefur mikil áhrif á aflabrögð. Er því lagt til að verja í ár nokkru fé til námskeiða þessara.

Nokkur hækkun er gerð á fjárveitingu til iðnaðarmála. Aukin eru framlög til iðnskólabygginga um 200 þús. kr., og lagt er til að bæta Iðnaðarmálastofnun Íslands tekjumissi, er hún verður fyrir vegna niðurfellingar á erlendu framlagi til stofnunarinnar, sem hún hefur notið undanfarið. Veigamesta hækkunin er þó hækkun á framlagi til iðnlánasjóðs í 2 millj. kr. úr 1377 þús.

Núverandi iðnmrh. skipaði fyrir nokkru n., sem m.a. fékk það verkefni að gera till. um frambúðarlausn á fjármálum iðnlánasjóðs. Sem einn þátt þess máls hefur n. lagt til, að árlegt ríkisframlag til sjóðsins yrði 2 millj. kr. Hefur fjvn. talið rétt að taka upp þá till. Iðnlánasjóður er eini stofnlánasjóður iðnaðarins, og það er brýn nauðsyn að gera sjóðnum kleift að sinna því hlutverki á viðunandi hátt. Fjárhagur sjóðsins hefur verið svo þröngur, að hann hefur ekki verið þess umkominn að veita nema smálán. Úr þessu þarf að bæta og reyna að tryggja sjóðnum árvissar tekjur.

Um nokkurra ára bil hefur verið starfandi sérstök vörusýninganefnd, sem var sett á laggirnar 1954 fyrir forgöngu þáv. iðnmrh. Er hér um að ræða nokkurs konar samvinnunefnd ýmissa samtaka framleiðenda, sem á að skipuleggja þátttöku Íslendinga í vörusýningum erlendis. Ýmsir þessir aðilar leggja fram árleg framlög, en talið er nauðsynlegt, að ríkið leggi einnig nokkuð af mörkum, og er því lagt til að veita 50 þús. kr. til þessarar starfsemi. Kynning íslenzkra framleiðsluvara á alþjóðlegum vörusýningum er hin mesta nauðsyn, og aðrar þjóðir verja miklu fé til slíkrar kynningarstarfsemi.

Lagt er til að hækka fjárveitingu til iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans um 100 þús. kr. Hefur deildin mikinn áhuga á að efla ýmsa rannsóknarstarfsemi. Telur n. rétt að koma nokkuð til móts við óskir iðnaðardeildar í þessu efni, því að rannsóknarmálunum hefur alls ekki verið sinnt sem skyldi á undanförnum árum.

Undanfarin tvö ár hafa verið veittar samtals 300 þús. kr. til vatnsöflunar í Vestmannaeyjum gegn a.m.k. jafnháu framlagi Vestmannaeyjakaupstaðar. Vatnsöflun í Vestmannaeyjum hefur lengi verið mikið vandamál, enda vatnsþörfin mikil vegna fiskiðjuveranna. Boranir hafa reynzt árangurslausar. Þær sérstöku ráðstafanir til vatnsöflunar, sem gerðar hafa verið síðustu árin, hafa borið allmikinn árangur, en kostnaðarsamar aðgerðir þarf enn til þess að geta hagnýtt vatnið. Þykir sanngjarnt að veita enn fé í þessu skyni, því að hvergi annars staðar á landinu mun vera um sambærilegt vandamál að ræða hvað vatnsöflun snertir.

Skv. l. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði allt að helmingi kostnaðar við boranir eftir heitu vatni. Hafa sumum verið greiddar verulegar fjárupphæðir á grundvelli þessarar heimildar. Undanfarin ár hefur verið unnið að jarðhitaborunum í Ólafsfirði fyrir um 350 þús. kr., en engin greiðsla fengizt frá ríkissjóði. Er nú lagt til að greiða Ólafsfjarðarkaupstað 85 þús. kr. upp í þennan kostnað.

Björgunarfélag Vestmannaeyja er merkur brautryðjandi í björgunarmálum hérlendis. Eru á þessu ári 40 ár frá stofnun þess. Eftirlitsskipið Þór var 1920 keypt hingað til lands fyrir forgöngu þess, og félagið greiddi meginhluta andvirðis skipsins. Með tilkomu Þórs hófst skipulegt eftirlit með bátaflotanum og björgunarstarfi við strendur landsins, og með komu þess tóku Íslendingar í fyrsta sinn gæzlu landhelginnar í eigin hendur. Alla tíð síðan hefur björgunarfélagið annazt framkvæmd allra björgunarmála í Eyjum, og björgunartæki öll í þessari miklu verstöð hafa verið keypt fyrir fé, sem félagið hefur safnað. Með hliðsjón af þessari merkilegu starfsemi þykir sanngjarnt að veita nú félaginu 200 þús. kr. framlag til björgunartækjakaupa.

Lagt er til að veita 6 félagasamtökum nokkra byggingarstyrki vegna byggingar mikilvægra og þjóðnýtra stofnana, sem þessir aðilar eru að koma upp. Styrkir þessir eru allir svo lágir, að þar er nánast um viðurkenningu að ræða, en framlögin ættu þó að geta leyst nokkurn vanda. Nema byggingarstyrkir þessir samtals 315 þús. kr.

Þá er lagt til að veita landssambandi fatlaðra 25 þús. kr. rekstrarstyrk. Eru nú í þeim samtökum 8 félög með um 600–700 meðlimi. Í því sambandi er rétt að leggja áherzlu á nauðsyn þess, að n. sú, sem kjörin var skv. ályktun siðasta Alþ. til þess að athuga málefni öryrkja, ljúki sem fyrst störfum.

Athugun á 18. gr. mun að venju bíða 3. umr., en lagt er til að veita nokkra uppbót á eftirlaun eftirlaunaþega, sem búa erlendis. Voru það á s.l. ári 11 manns, flest ekkjur. Mundi gengisbreyt. að öllu óbreyttu rýra mjög kjör þessa fólks.

Lagt er til að veita sömu fjárveitingu og s.l. ár til framkvæmda á Hvanneyri. Rannsókn verkfræðings hefur leitt í ljós, að leggja þarf í sumar nýja vatnsleiðslu að skólanum. Mun sú framkvæmd kosta 500–600 þús. kr.

Þá er lagt til að veita 250 þús. kr. til framkvæmda við hjúkrunarkvennaskólahúsið. Húsið er hálfkarað, og stendur það skólanum mjög fyrir þrifum að geta ekki gengið sómasamlega frá húsakosti og kennsluaðstöðu.

Tvær till. flytur n. um breyt. á 22. gr. Er önnur um heimild til sölu á sjóflugskýli flugmálastj. á Ísafirði, en sjóflug þangað er nú að falla niður, og er því engin þörf fyrir skýlið. En hin er um hækkun á ábyrgðarheimild vegna skipasmíðastöðvanna til fyrirgreiðslu skipasmíði innanlands.

Loks er tekin upp ný gr., þar sem ríkisstj. er veitt heimild til þess að greiða allt að 20% uppbætur á lífeyri úr lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, lífeyrissjóði barnakennara, lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna, lífeyrissjóði alþm. og lífeyrissjóði ljósmæðra og enn fremur á greiðslur skv. 18. gr. fjárl. Má þó eigi greiða neinum lífeyrisþega meira en 500 kr. á mánuði. Uppbætur þessar eiga ekki að greiðast þeim, sem njóta bótahækkunar almannatrygginga. Nauðsynlegt er að hafa ákvæði þetta í heimildarformi, vegna þess að í framkvæmd getur verið rétt að hafa uppbætur þessar mismunandi háar eða að þær greiðist ekki á lífeyri og eftirlaun, sem samanlagt nema fullum launum.

Við prentun fjárlfrv. hefur 24. gr. fallið niður af vangá, en það leiðir af eðli málsins, að ákvæði hennar þurfa að vera í fjárl.

Ég hef þá rætt hér frá ýmsum hliðum brtt. við gjaldabálk frv. Mun ég nú víkja að brtt. meiri hl. n. við tekjubálk frv. Á þær till. vildu fulltrúar Framsfl. og Alþb. í n. ekki fallast.

Við samningu tekjuáætlunar fjárl. er jafnan við tvennt að styðjast, afkomu s.l. árs og horfur um gjaldeyristekjur og skatttekjur almennings á komandi fjárhagsári. Vegna verðbólguþróunarinnar hefur á undanförnum árum jafnan verið erfitt að gera sér rétta grein fyrir tekjuhorfum. Hafa bæði tekjur og gjöld ríkisins farið fram úr áætlun og það oft svo að mjög háum fjárhæðum hefur numið. Árið 1957 var nokkur greiðsluhalli, 1958 aftur nokkur greiðsluafgangur, og 1959 stóðust tekjur og gjöld á. Var líka þá gengið mjög langt í tekjuáætlun fjárl. Vegna hinna miklu breyt. í efnahagskerfinu, sem ljóst er að efnahagsaðgerðirnar nú munu hafa í för með sér, er meiri óvissa í þessu efni en oft áður. Þar sem eitt meginatriði efnahagsaðgerðanna er að koma jafnvægi á utanríkisviðskiptin, verður að ganga út frá því, að innflutningur minnki allverulega, því að ella hlýtur gjaldeyrishallinn að aukast og efnahagsaðgerðirnar ekki að ná tilgangi sinum. Þótt fengnar hafi verið háar yfirdráttarheimildir erlendis, þá er þeim aðeins ætlað að mæta árstíðabundnum sveiflum og mega ekki verða að föstum lánum. Samin hefur verið sundurliðuð greiðslujafnaðaráætlun, miðað við þær gjaldeyristekjur, sem líklegt er að verði til ráðstöfunar skv. gjaldeyrisáætluninni, og eru þá meðtaldar 417 millj. kr. í erlendu lánsfé á núv. gengi reiknað. Verða ekki til ráðstöfunar til almenns vöruinnflutnings nema rúmir 2.2 milljarðar króna eða 960 millj. kr. á eldra gengi, miðað við 1 milljarð og 113 millj. kr. 1958 og 1 milljarð og 174 millj. kr. 1959. Er því hér um allverulegan samdrátt innflutnings að ræða, sem ætla má að valdi ríkissjóði miklum tekjumissi, því að minnkandi innflutningur hlýtur að koma illa við hátollavörur, þar eð nú verður ekki lengur fylgt þeirri reglu að láta þær sitja í fyrirrúmi.

Við þessar horfur hlýtur að verða að miða tekjuáætlun ríkissjóðs, annað væri óverjandi. Það kann að vera, að fyrst í stað verði innflutningur óeðlilega mikill vegna aukins verzlunarfrelsis, en ef efnahagsráðstafanirnar fá að verka, mun eðlilegt jafnvægi fljótt nást. Væri það auðvitað hið mesta glapræði, ef útgjaldaáætlun fjárlaga nú væri við það miðuð, að gengið yrði á gjaldeyrisvarasjóð þann, sem yfirdráttarheimildirnar tryggja okkur. Þá væri beinlínis fyrir fram verið að eyðileggja árangur efnahagsaðgerðanna. Tillögur um slíka afgreiðslu fjárlaga er því miður ekki hægt að kalla annað en hrein skemmdarverk.

Í till. meiri hl. fjvn. er lagt til að hækka áætlaðar tekjur af núgildandi gjaldstofnum ríkisins og væntanlegum söluskatti um 20 millj. kr. Eru þá allir tekjustofnar settir í hámark, miðað við greiðslujafnaðaráætlunina og væntanlegar tekjur af beinum sköttum, með hliðsjón af fyrirhugaðri lækkun tekjuskatts. Við samningu tekjuáætlunar þeirrar, er lögð var til grundvallar við afgreiðslu fjárlaga 1959, voru 15 millj. kr. ætlaðar fyrir umframgreiðslur, en nú er enn naumar skorið. Það er því ekki með nokkurri skynsemi hægt að áætla tekjurnar hærri en gert hefur verið. Verði útkoman önnur, koma til atvik, sem ekki er hægt að reikna með í dag.

Lagt er til að áætla tekjur af einkasölum ríkisins 15 millj. kr. hærri en í frv. er gert. Tekjuáætlun tóbakseinkasölunnar á að vera hægt að hækka um 3 millj. kr. án verðhækkunar á tóbaksvörum af þeim sökum, en verð áfengis mun þurfa að hækka um allt að 10% umfram áhrif gengisbreytingar til að skila áætluðum tekjum.

Brtt. meiri hl. n. og þær till., sem n. öll stendur að, leiða til tæplega 1.8% hækkunar á útgjöldum ríkisins, miðað við fjárlfrv. Hygg ég naumast vera auðið að sýna meiri hófsemi í útgjaldaaukningu, miðað við þær miklu fjárkröfur, sem fjvn. hefur staðið andspænis. Hvorki n. í heild né einstakir hlutar hennar bera fram till. um niðurskurð ríkisútgjalda. Ég skal taka fram, að á þskj., sem ég var að sjá hér áðan, nál. 2. minni hl. n., mun vera einhver tillaga í þessa átt, sem mér sýnist harla óraunhæf, en mun víkja að henni aftur síðar í umr. Hins vegar má fullyrða, að till. n. leiða ekki til neinnar útþenslu í ríkiskerfinu, og má í því sambandi benda á, að n. hefur ekki gert till. um neina fjölgun ríkisstarfsmanna umfram þegar gerðar ákvarðanir, ef undan er skilinn einn veðurfræðingur, sem talið er nauðsynlegt að ráða, vegna þess að eldri menn eru að hætta störfum á næstunni. Vantar þó ekki, að margar óskir hafi verið bornar fram við nefndina um heimild til að ráða nýja starfsmenn í ýmsar stofnanir.

Á einum mánuði verða ekki samdar raunhæfar till. um niðurskurð rekstrarútgjalda ríkissjóðs. Margar tilraunir hafa verið gerðar í þessa átt á undanförnum árum, vafalaust allar af góðum hug, en árangur næsta lítill. Við skulum að vísu ekki loka augum fyrir því, að starfsmannahald mun hér á mörgum sviðum vera mun minna en hjá sambærilegum stofnunum erlendis. En lítil þjóð verður líka að sníða sér stakk eftir vexti. Því miður er aftur á móti sparnaður og nýtni í ríkisstofnunum og umgengni við ríkiseignir og ríkisfé áreiðanlega á lægra stigi hér en víða annars staðar. Bifreiðar ríkisins eru notaðar í einkaþarfir, frímerki ríkisstofnana á einkabréf og þar fram eftir götunum. Mönnum kunna að finnast þetta smámunir, en hætt er við, að meðferð á ríkisfé á öðrum sviðum sé þá einnig ábótavant. Með þessum orðum er ég ekki að halda því fram, að opinberir starfsmenn séu ekki yfirleitt grandvarir og heiðarlegir. En hér er því miður um að ræða allt of almennt viðhorf til ríkisfjármuna og opinberra eigna.

Einn þáttur þessa viðhorfs er það, hversu menn telja yfirleitt sjálfsagt, að allir geti gengið í ríkissjóð og sótt þangað fé til allra hluta. Þetta viðhorf þarf að breytast, ef hægt á að vera að spyrna við fótum og hverfa af braut síhækkandi ríkisútgjalda og þar af leiðandi hækkandi skatta. Eigi sparnaður í ríkisútgjöldum að verða raunhæfur, verður að undirbúa ráðstafanirnar vel. Það er t.d. ekki nóg, að fjvn. samþ. að skera niður útgjöld til stofnunar, ef starfsmönnum er ekki fækkað eða útgjöld raunverulega dregin saman. Hæstv. fjmrh. benti einmitt réttilega á þessa staðreynd í framsöguræðu sinni með fjárlfrv. Hann vék þar að nauðsyn þess að reyna að skera niður ríkisútgjöldin og drap á nokkur atriði í því efni, sem hann hefði til athugunar. Þess er fastlega að vænta, að þeim athugunum verði haldið áfram af fullum krafti og einurð, svo að næstu fjárlög geti borið þess merki.

Það er engum efa bundið, að á ýmsum sviðum má spara töluvert í ríkisrekstrinum með samfærslu og betra skipulagi á vinnubrögðum. Því mega menn hins vegar ekki gleyma, að meginhluti útgjalda ríkissjóðs eru lögbundnar greiðslur til þjónustu, sem talið hefur verið nauðsynlegt að þjóðfélagið veiti þegnum sínum. Og það eru einmitt þessi útgjöld, sem mest vega í árlegum útgjaldaauka ríkissjóðs. Eigi að ná fram verulegum sparnaði, verða menn því að vera reiðubúnir til að skerða eitthvað þá þjónustu.

Utanríkisþjónustan og þátttaka í öllum greinum alþjóðlegs samstarfs er að verða of þungur baggi. Sendiráðin eru óþarflega mörg, og má ekki lengur dragast að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna með fækkun sendiráða fyrir augum. Jafnvel meðal stórþjóða er tekið að kvarta yfir útgjöldum til utanríkisþjónustu. Ég vil í þessu sambandi varpa fram þeirri hugmynd, hvort ekki gæti komið til greina að leita samstarfs við aðrar Norðurlandaþjóðir um að leggja niður öll sendiráð landanna innbyrðis, en fela í þess stað skrifstofum Norðurlandaráðs í hverju ríki þau störf, sem ekki er hægt að vinna í hinum föstu samstarfsnefndum og ráðherrafundum. Mál sem þessi þurfa auðvitað ýtarlega athugun, áður en hægt er að flytja um þau formlegar tillögur.

Ríkissjóður greiðir nú yfir 6 millj. kr. á ári í húsaleigu fyrir ýmsar ríkisstofnanir. Nauðsynlegt er að athuga, hvort ekki sé hægt að spara á þessu sviði með sameiginlegum byggingum fyrir fleiri stofnanir, og enn fremur er full þörf að fylgjast með því, hvort ýmsar stofnanir hafa raunverulega ekki meira húsnæði og íburðarmeira en þörf er á. Ýmsar ríkisstofnanir búa við slæman húsakost, en aðrar búa líka við íburð, sem vafasamt er að sæmi lítilli þjóð.

Nauðsynlegt er að endurskoða gildandi lagaákvæði um embættisbústaði. Víða mun ekki verða hjá því komizt að byggja yfir embættismenn ríkisins. En á þeim stöðum á landinu, þar sem verðgildi húsa er varanlegt, virðist mjög vafasamt, að ríkið sé að byggja embættisbústaði. Bústaðir þessir eru jafnan miðaðir við þarfir stórra fjölskyldna. Kemur hér til álita, hvort ekki eigi fremur að reyna að greiða fyrir því, að embættismenn þessir geti fengið lán til að byggja sjálfir.

Það á að vera meginregla við opinberar framkvæmdir að bjóða þær út til að tryggja sem ódýrust og hagkvæmust vinnubrögð.

Taka þarf til ýtarlegrar endurskoðunar og athugunar hina margvíslegu styrki, sem veittir eru árlega í fjárlögum til ýmissa hluta. Það vill því miður brenna við, að styrkveitingar, sem einu sinni eru komnar í fjárlög, verða þar óþarflega langlífar, þótt upphaflega hafi ekki ætlunin verið sú. Fjvn. hefur stundum gert tilraunir til þess að setja sér einhverjar reglur um ýmsar styrkveitingar. Hefur það gengið misjafnlega, og því miður verður það einnig að segjast, að ríkisstj. á hverjum tíma hafa ekki alltaf stutt þá viðleitni sem skyldi. Breytt stefna varðandi hinar ýmsu styrkveitingar verður að birtast í fjárlagafrv., þegar það er lagt fyrir þingið, því að reynslan hefur ótvírætt sannað það, að vonlítið er eða vonlaust fyrir fjvn. að leggja til að fella niður styrki, eftir að þeir eru inn í frv. komnir.

Oft hefur verið rætt um nauðsyn þess að taka eftirlaunagreinina til endurskoðunar. Mikið ósamræmi er í viðbótareftirlaunum þeim, sem þar eru veitt, og auðvitað er það miklu heilbrigðara að reyna að koma eftirlaunamálum starfsmanna ríkisins í það horf, að ekki sé eðlilegt að veita slík viðbótareftirlaun. Fjvn. hefur reynt að mynda sér reglur um veitingu þessara eftirlauna, en málið í heild er erfitt viðureignar.

Mörg önnur atriði mætti nefna, en ég læt hér staðar numið og vísa að öðru leyti til þeirra atriða, sem hæstv. fjmrh. nefndi í framsöguræðu sinni.

Þá er það og sérstakt viðfangsefni að endurskoða í heild alla uppbyggingu fjárlaga og ríkisreiknings. Varðandi ríkisútgjöldin í heild verður að hafa það í huga, sem ég hef að vikið áður í fjárlagaumræðum, að útgjaldaaukinn má aldrei vera meiri en nemur eðlilegri tekjuaukningu að óbreyttum skattstofnum, því að ella þarf stöðugt að leggja á nýja skatta. Fyrsta tilraun, sem gerð hefur verið til að finna þennan ramma, var gerð að tilhlutun sparnaðarnefndar, sem starfaði í fyrra. Var þá athugað, hvað ríkisútgjöld hefðu vaxið undanfarin ár, ef verðlag og kaupgjald hefði verið stöðugt. Nam meðalhækkun rekstrarútgjalda á ári tæpum 10%. Samsvarandi samanburður á tekjuhliðinni hefur ekki verið gerður enn, enda er sú athugun að ýmsu leyti erfiðari. En mér er nær að halda, að útgjaldaaukningin hafi verið töluvert of ör, þótt nokkur útgjaldaaukning sé eðlileg árlega vegna aukins fólksfjölda. Þessa viðmiðun er sérstaklega nauðsynlegt að hafa í huga, þegar stefnt er að jafnvægi í efnahagsmálum. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar er í mikilli hættu, ef ekki tekst að framkvæma þær efnahagsráðstafanir, sem nú er verið að gera. Þeir menn, sem gegn þeim standa, taka á sig mikla ábyrgð gagnvart þjóðinni. Það er hins vegar ástæðulaust að óttast framtíðina, ef við aðeins lærum að viðurkenna staðreyndir og haga okkur eftir þeim. Við þurfum í bili að leggja nokkuð að okkur og draga úr framkvæmdahraðanum. En að fengnum traustum grundvelli undir efnahagskerfi okkar getum við haldið fram á leið til aukinna framfara og velmegunar með enn meiri hraða en áður. Valið ætti ekki að vera erfitt, því að á hinu leytinu blasir við upplausn og atvinnuleysi. Heilbrigt efnahagskerfi, sem örvar til framtaks og framleiðslu, er það mark, sem nú verður markvisst að stefna að. Traust og varfærin stjórn fjármála ríkisins er mikilvægur þáttur efnahagskerfisins. Hallalaus ríkisbúskapur og þá um leið varfærnisleg og raunhæf afgreiðsla fjárlaga er sá hlekkur efnahagskerfisins, sem má ekki bresta. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur meiri hl. fjvn. reynt að haga störfum sínum við afgreiðslu þessa fjárlagafrv.

Þess skal að lokum getið, að nokkur mál eru enn óafgreidd hjá nefndinni, þ. á m. breyt. á 18. gr., svo sem áður var að vikið. Till. samvinnunefndar samgöngumála um styrkveitingar til flóabáta og vöruflutninga munu ekki verða tilbúnar fyrr en við 3. umr.

Leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að fjárlfrv. verði samþ. við þessa umr. með þeim breyt., sem fjvn. í heild og meiri hl. n. leggur til að á því verði gerðar.