16.03.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

42. mál, fjárlög 1960

Fram. 2. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég vil að hætti þeirra frsm. úr fjvn., sem hér hafa talað á undan mér, hefja mál mitt á því að þakka formanni fjvn. og fjvn.— mönnum gott samstarf í n., sem þrátt fyrir verulegan skoðanaágreining um marga hluti hefur verið hið ákjósanlegasta.

Þeir óvenjulegu atburðir gerðust í upphafi þessa þings í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, að litlu eftir að fjárlagafrv. hafði verið útbýtt til þm., reis upp hæstv. fjmrh. úr sæti sinu og tilkynnti það, að þetta fjárlagafrv. yrði ekki tekið til neinnar afgreiðslu í þinginu, heldur mundi verða samið annað frv. og lagt fyrir síðar. Stjórnin þyrfti að hugsa sig allverulega um, áður en hún gæti lagt hið nýja frv. fram. Þetta gamla frv. var byggt upp á gömlum kenningum ríkisstj. um það, að forðast skyldi að leggja út í nýtt skattafen, það ætti að halda verðlaginu kyrru. Það var byggt á stöðvunarstefnunni. En það kom sem sagt fljótlega á daginn, að sú stöðvunarstefna, sem sú valdasamsteypa, sem nú stendur að ríkisstj., boðaði hér á s.l. vetri, var aldrei ætluð nema fram yfir þær tvennar kosningar, sem fram fóru á s.l. árl. Þá var svo litið á, að sú stefna hefði sinnt sínu hlutverki, hefði gengið sér til húðar og mætti nú leggjast til hliðar. Um það var ekkert hirt, þótt allir þeir hv. þm. stjórnarliðsins, sem þá fyrir skömmu höfðu gengið fram fyrir þjóðina og haft þar uppi sínar kenningar um það, hvernig fjármálum þjóðarinnar væri bezt stjórnað, haldið því þar fram. að mikið lægi við að halda stöðvunarstefnunni, — þeir yrðu nú einnig með gamla fjárlagafrv. að leggja til hliðar allt það, sem þeir hefðu sagt um þessi efni, og taka upp aðra stefnu — og ekki bara svolítið aðra stefnu, heldur algerlega gagnstæða stefnu. Í staðinn fyrir það, að æðsta boðorðið var, að þjóðinni mundi því aðeins vegna vel, að dýrtíðinni væri haldið niðri, þá var nú sú stefna boðuð, að það væri hið eina bjargráð þjóðarinnar, það væri þjóðarinnar viðreisn að snúa hér við blaðinu með þeim hætti, að stöðvunarstefnan væri þjóðarbölvun og allt efnahagslíf þjóðarinnar væri helsjúkt og á því þyrfti að gera þá breytingu að þenja upp verðbólguna með ráðstöfunum eins og gengisfellingu um 133–134% frá skráðu gengi, þ.e.a.s. hækkun á erlendum gjaldeyri sem því nam, með nýjum söluskatti, sem nemur hundruðum milljóna, með vaxtahækkun, sem nemur einnig ótöldum milljónatugum eða hundruðum, og í samræmi við þessar nýju kenningar ríkisstj. var svo samið nýtt frv., hið gamla var lagt í öskutunnuna. Og hér er hið nýja frv. tekið til meðferðar, og hefur það verið samræmt hugsjónum ríkisstj., að svo miklu leyti sem ríkisstj. tókst að hugsa skýrt, þ.e.a.s. glöggva sig á því, hvað það var, sem hún sjálf meinti með sínum nýju kenningum. Það er svo annað mál, að sumt af því, sem ríkisstj. hefur birt í tölum í fjárlagafrv., hefur reynzt æði illa undirbyggt af stjórninni sjálfri. Hún hefur þar byggt á óljósri hugsun, sem illa samræmdist síðan þeim tölum, sem út höfðu verið gefnar yfir þessar hugmyndir. Sem dæmi um þetta má nefna það, að í fjárlagafrv. nýja var áætlað, að nýr og lágur almennur söluskattur, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það í sinni fjárlagaræðu, yrði á lagður, og átti hann að færa ríkissjóði 280 millj. kr., sem ríkissjóður ætlaði siðan að nokkrum hluta að endurgreiða bæjarfélögunum, til þess að útsvör gætu lækkað, eins og hæstv. ráðh. hefur margsinnis orðað það. En þegar lagafrv. um söluskatt birtist hér á Alþ., þá er því haldið þar fram, að þessi almenni lági söluskattur, sem ráðh. hafði boðað, geti alls ekki gefið þær tekjur, sem þarna var áætlað. Þess vegna verði þrátt fyrir loforð — (Forseti: Ég vil vekja athygli ræðumanns á, að það er kominn kaffitími. Ég vil spyrja ræðumann að því, hvort hann hefði nokkuð á móti því, að það yrði tekið kaffihlé.) Nei, ég get á það fallizt, að það verði gert, og ég geri þá hlé á minni ræðu eftir ósk forseta. — [Fundarhlé].

Þegar fundarhlé var gert, var ég þar í minni ræðu, sem ég greindi frá því, að hið nýja fjárlagafrv., sem lagt var fram í lok janúarmánaðar, þegar þing kom saman eftir það þinghlé, sem gert var í desember og í janúarmánuði, það var þannig úr garði gert, að það sýndi ýmsar tölur, ýmsar áætlunartölur, sem byggðust ekki á neinni löggjöf, heldur aðeins á því, sem ríkisstj. boðaði að hún ætlaði að flytja frv. um og freista að fá lögfestingu á hér á þinginu. Þannig var þessu t.d. varið um söluskatt, og er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir því, að tekjur af nýjum almennum söluskatti muni nema 280 millj. kr. Ekki reyndist þetta vera í samræmi við veruleikann, og þegar ríkisstj. svo lagði fram hér á Alb. sitt frv. um söluskatt eða um breyt. á söluskatti, þá segir þar, að sýnt þyki, að ekki sé unnt að ná þessum tekjum eða svona hárri tekjuupphæð með hinum almenna söluskatti, þar verði fleira að koma til, og er þar gerð till. um, að söluskattur af innfluttum vörum verði hækkaður um 8.8% , en í fjárlagafrv. stendur skýrum stöfum sem álit ríkisstj. eða a.m.k. fjmrh.: „Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti af innflutningi, en hann er áætlaður 154 millj. kr. með hliðsjón af reynslu s.l. árs“ o.s.frv. Sem sagt, þær till., sem gerðar voru í fjárlagafrv., og þær áætlanir um tekjur reyndust í engu samræmi við það, sem síðar kom á daginn, og hefur ríkisstj. nú uppi áform um að leggja þarna á sérstakan skatt, sem nema mun u.þ.b. 170–180 millj. kr., miðað við heilt ár, en það þýðir, að þjóðin verður í þennan skattauka að greiða fram undir hálfa millj. kr. á degi hverjum, þótt ríkisstj. hafi á sínum tíma litið svo á, að þessum skatti ætti ekki að breyta og þennan nýja skattauka ætti ekki á að leggja. M.ö.o.: það, sem ríkisstj. birti í sínu fjárlagafrv., reynist misreiknað nokkuð yfir 100 millj. kr. Þeirri staðreynd verður ekki breytt með neinum ræðuhöldum um tilflutning og neinum ræðuhöldum um það, að liðinn sé partur af árinu, án þess að þessi skattur komi á. Það hefði hæstv. ríkisstj. átt að vita, þegar hún lagði fram sitt fjárlagafrv. í lok janúarmánaðar, að liðinn var partur af árinu, áður en sá skattur, sem hún barna fyrirhugaði, gat komið til framkvæmda.

Annar tekjustofn fjárlagafrv., tekjuskatturinn, er einnig af stjórnarinnar hálfu áætlaður í fullkomnu ósamræmi við gildandi lög um tekjuskatt og eignarskatt. Byggist áætlunin á því, að ríkisstj. segist ætla að beita sér fyrir breytingu á þessum skatti og gefur upp áætlunartölu um skattinn í samræmi við það. Ekki hefur nein hugmynd ríkisstj. um þetta verið fest á þskj. enn sem komið er, og er þess vegna a.m.k. stjórnarandstöðunni algerlega ókleift að taka þátt í þessari áætlunargerð, og þykist ég því hafa sýnt fram á gild rök fyrir því, að eins og mál standa nú, er ekki hægt að krefjast þess af stjórnarandstöðunni, að hún geri till. sínar um tekjuöflunarhlið frv. við þessa umræðu. En með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengin er af samræminu eða réttara sagt af misræminu milli hugmynda ríkisstj. og þeirra staðreynda, sem hvert barn getur reiknað út, eins og t.d. um söluskattinn, verð ég að gera þá kröfu fyrir Alþb. hönd, að endanleg afgreiðsla fjárlaga fari ekki fram, fyrr en ríkisstj. hafi a.m.k. sýnt það hér á Alþ., á hvaða lögum innheimta tekjuskattsins á að byggjast. Hins eru dæmi, og vil ég ekki sérstaklega mótmæla því, að fjárlög hafa verið látin fara gegnum 2. umr. þannig, að mikilvægir liðir fjárlaganna hafa ekki verið að öllu undirbyggðir, en ekki hefur þótt ástæða til þess að láta fjárlagaafgreiðsluna við 2. umr. sem heild biða þess vegna, og því tel ég, að það sé ekki fráleitt að láta þessa umr. fara fram nú, enda þótt hér sé skarð fyrir skildi um það, að þingmenn geti vitað um það, hver jöfnuður kann að verða á fjárlagaafgreiðslunni.

Það er einkennandi fyrir hið nýja fjárlagafrv. og verður væntanlega fyrir hin nýju fjárlög, að í þeim kemur fram hækkun á upphæðum, þannig að heildarniðurstaða fjárlaga fyrir árið 1959 var 1 milljarður og 33 millj. Samkv. fjárlagafrv. er niðurstaða tekna og gjalda 1 milljarður 464 millj. Hækkunin nemur 431 millj. Sýnilegt er, að í meðförum þingsins hlýtur þessi upphæð að hækka, enda hafa nú af fjvn. og meiri hluta fjvn. verið gerðar till. um hækkanir, sem fyrirsjáanlega flytja niðurstöðuna nokkuð upp fyrir hálfs fimmta hundraðs milljóna hækkun frá síðustu fjárlögum.

Nú er það auðvitað ekkert nýtt í sögunni, þótt fjárlög séu hærri í ár en þau voru í fyrra. Slíkt hefur verið reglan, að vísu með örfáum undantekningum, hina síðustu áratugi. En hinu ber þó ekki að neita, að hér er hækkunin miklum mun meiri og stórkostlegri en tíðkanlegt er. Það er að sjálfsögðu rétt, sem hv. frsm. meiri hl. fjvn. gat hér um í sinni framsöguræðu, að þessi hækkun stafar ekki af sérstakri spilunarsemi í útgjöldum nú umfram það, sem verið hefur, ekki fyrst og fremst, heldur auðvitað vegna gengisbreytingarinnar. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd, að fjárlögin koma til með að hækka um 42–45% — máske meira — frá því, sem var á s.l. ári. Þegar þess er nú gætt, að tekjuöflun ríkissjóðs er svo að segja öll tekin á vöruverði, tekin í sköttum og tollum, sem leggjast á vöruverð eða með hagnaði af ríkisreknum verzlunarfyrirtækjum, sem auðvitað þýðir einnig, að tekjurnar eru teknar sem álag á vöruverð, og einnig tekið tillit til hins, að öll þessi hækkun á að koma á verð vöru, sem þeir menn eiga að kaupa, sem ætlazt er til að haldi óbreyttu kaupi frá fyrra ári, verður sýnilegt, að hækkun fjárlaganna um hálft fimmta hundrað milljóna er beinlínis hækkun á dýrtíðinni, næstum allt sem þessu nemur. Það verða því ærið þungar búsifjar, sem hin hækkuðu fjárlög færa alþýðuheimilunum, sem eiga að kaupa nauðsynjar sínar af óbreyttu kaupi frá s.l. ári, þrátt fyrir þá hækkun, sem bæði fjárlagahækkunin og ýmsar aðrar ráðstafanir ríkisstj. koma til með að leggja ofan á vöruverðið.

Frammi fyrir því, að af stjórnarvaldanna hálfu eru nú gerðar ráðstafanir til slíkra hluta, sem ég hér hef nefnt, hefði mátt ætlazt til þess, að ríkisstj. hefði sjálf sýnt einhvern lit á því að draga í einhverju saman sin útgjöld. Það er af talsmönnum stjórnarinnar oft talað um það, að hygginn bóndi mundi haga sér svona og svona frammi fyrir þessum eða hinum tilteknum vanda, m.a. hafa talsmenn stjórnarinnar oft vikið að því hér á þingi að undanförnu, að ástand þjóðarbúsins hafi verið með þeim hætti, að það sé ekki um annað að gera en að draga saman seglin, það mundu hyggnir bændur gera í hliðstæðum tilfellum. En sú er þó raunin á, að ríkisstj. og hennar stuðningsmenn sýna ekki svo mikið sem viðleitni í þá átt að spara hvorki eitt né neitt á fjárlögum.

Hv. 3. þm. Vesturl. (HS), frsm. 1. minni hl. fjvn., vék hér að því í framsöguræðu sinni áðan, að þeir stjórnarstuðningsmenn og ráðherrar stjórnarinnar hafa sízt af öllu sparað það á undanförnum árum, t.d. í fyrra, að segja fjálglega frá því, að eitt og annað væri í athugun og þar væri sjálfsagt að viðhafa sparnað. Þannig sagði hæstv. utanrrh., að það væri sjálfsagður hlutur að fækka sendiráðum og spara í utanríkisþjónustunni, en þetta þyrfti allt sinn undirbúning og sá undirbúningur væri þegar hafinn, sagði hann í fyrra. En fjárlagaafgreiðslan í ár virðist bera það með sér, að ekki sé sá undirbúningur mjög fljótvirkur, því að ekki verður vart við neinn árangur af honum í þeim till., sem frá ríkisstj. eða hennar stuðningsmönnum eru enn komnar við þetta fjárlagafrv.

Hv. frsm. meiri hl. fjvn. sparaði það ekki heldur í sinni framsöguræðu að telja upp ýmsa liði, sem vert væri að athuga og sparnaðar væri þörf á. Ég er honum sammála í öllum þeim tilfellum. En hitt óttast ég nokkuð, að framkvæmdin verði kannske eitthvað svipuð á þessu yfirstandandi ári og hún var á því síðasta, þ.e.a.s. að það verði látið sitja við fyrirlesturinn einan, en framkvæmdin látin niður falla. Ég mundi fagna því mjög, ef á þessu yrði breyting. En hitt ber að játa, að enn verður ekki séð til neinna þeirra sólarmerkja, sem til þess benda, að í þessum efnum sé nú fremur en áður neitt raunhæft á ferðinni.

Alþb. gerir till. um það, að ríkisstj. fái, þótt í litlu sé, aðeins að sýna það í framkvæmd, sem hún svo oft hefur látíð sér um munn fara og hennar talsmenn hér á Alþingi, að fara nokkuð eftir því, sem góður bóndi mundi gera, þegar alvarlega horfir. Af Alþb. hálfu eða þess nefndarminnihluta, sem ég skipa, hafa hér verið gerðar till. um nokkurn sparnað í útgjöldum. Mun ég koma sérstaklega að því, um leið og ég rek þær till., sem hér hafa verið lagðar fram af minni hálfu, en vil þó nú þegar drepa á það, að um leið og ríkisstj. fyrirskipar alþýðuheimilunum með sinni löggjöf að mæta hærri útgjöldum með óbreyttum tekjum, þ.e.a.s. fyrirskipar alþýðuheimilunum að draga saman í sínum búskap, og eru þá bændur látnir um það, á hvaða lið eða hvaða liðum þeir draga saman, hvort þeir ætla að eyða minna í matföng, klæðnað eða annað, sem til bús þarf, svo vil ég og gera ráðherrum kost á því að velja sjálfir um það, á hvaða liðum þeir í sínum rekstri vilja spara, en geri tillögur um það, að á nokkrum ríkisstofnunum, stjórnarráðinu, tollheimtustofnunum, skattheimtustofnunum, löggæzlu, utanríkisþjónustu, verði viðkomandi ráðherrum gert að draga saman kostnað um 10%, og er það þó sýnu minni samdráttur en alþýðuheimilin verða að ráða fram úr, en engu að síður mundi till. mín, ef samþykkt og framkvæmd yrði um þetta efni, spara ríkissjóði útgjöld nokkuð á 15. milljón kr.

Hv. form. fjvn., frsm. meiri hl. n., drap aðeins á það í sinni ræðu, eiginlega eftir að hann hafði haldið því fram, að af hálfu stjórnarandstæðinga væru engar sparnaðartillögur gerðar, að hann hefði þó séð framan í eina till., sem sér virtist óraunhæf. Ég geri ráð fyrir því, að með þeim orðum hafi hann átt við þessa till., sem hér hefur verið lýst. Ég er engan veginn frá því, að honum segist þar rétt, að till. sé ekki raunhæf, þ.e.a.s. að því leyti, að þeir séu til þess reiðubúnir, stjórnarstuðningsmenn, að verja sína ráðherra fyrir því, að þeir þurfi að standa frammi fyrir þeim vanda, sem þeir hins vegar hafa gert fyrir ráðherrana að leggja á alþýðuheimili landsins, og þar af leiðandi sé vafasamt, að þessi till. nái samþykki, og er hún þar með ekki raunhæfur sparnaður, það skal ég viðurkenna. En að hún sé í eðli sínu óraunhæfari en aðrar till. eða óframkvæmanlegri slík ályktun er í rauninni einnig ályktun um það, að fjármálastefna ríkisstj. sé óframkvæmanleg hjá þjóðinni. Þessi till. er auðvitað í fullkomnu samræmi við það, sem ríkisstj. leggur til að þjóðin nauðug, viljug hljóti að gera.

Það hafa verið höfð uppi mörg orð hér á Alþingi um það, að mikil nauðsyn sé á því að draga saman fjárfestingu á ýmsum sviðum. Ég vil ekki neita þessu algerlega, en hinu leyfi ég mér þó að halda fram, að til séu þeir fjárfestingarliðir, sem óhyggilegt sé að draga saman, þótt það gildi ekki um þá alla. Ég álít t.d., að það sé óhyggilegt og hefti frekari framþróun og framleiðsluaukningu, ef það á að fara hægar en gert hefur verið í það að byggja upp þjóðvegi, brýr og hafnir. Hins vegar leiðir af sjálfu sér, að sú verður raunin á, ef framkvæma á þá stefnu, sem ríkisstj. og hennar stuðningsmenn gera að till. sínum, þ.e.a.s. að haldið verði nokkurn veginn óbreyttum fjárhæðum til þessara liða í krónutali brátt fyrir vaxandi dýrtíð.

Fjvn. hefur talað við forstöðumenn þessara framkvæmda á vegum ríkisins og fengið þær upplýsingar, að í öllum tilfellum mun verðhækkun við þessar framkvæmdir nema nokkuð yfir 20% , en það þýðir að sjálfsögðu, að fyrir jafnmikið fé og á s.l. ári verður um fimmtungi minna framkvæmt en áður var. Þó er hér ekki reiknað með allri þeirri dýrtíð, sem í rauninni hlýtur að verða, því að þegar samtöl fjvn, við þessa aðila fóru fram, var ekki vitað t.d. um hinn nýja söluskatt eða um hina nýju söluskattshækkun á innfluttum vörum, sem Alþingi fjallar um einmitt um þessar mundir og ríkisstj. ætlar að lögfest muni verða. Á hinn bóginn er einnig í öllu þessu miðað við, að kaupgjald haldist óbreytt árið út, og mundu þess vegna 30% hækkanir á þessum liðum gera örlítið meira en halda óbreyttum framkvæmdum, — einungis örlítið meira, — og þó því aðeins, að dýrtíðaraukningin verði ekki miklum mun meiri en forstjórar þessara fyrirtækja hafa reiknað með. Hún hlýtur að verða nokkru meiri, hve miklu meiri er ekki vitað, svo að 30% hækkun á þessu mundi aldrei gera miklu meira en halda í horfinu. Á hinn bóginn tel ég fyrir mitt leyti óhugsandi, að kaupgjaldið haldist óbreytt allt árið, og þar af leiðandi tel ég, að það muni sízt veita af 30% hækkun á þessa liði, til þess að framkvæmdir geti verið jafnmiklar og verið hefur á s.l. og síðastliðnum árum.

Um till. þær, sem fjvn. hefur borið fram í heild, vil ég aðeins taka fram, að Alþb. er samþykkt þeim flestum, þó ekki öllum, þar á eru undantekningar, og hef ég hér getið um í mínu nál. tvær till., sem Alþb. hefur lýst sig mótfallið, en það eru till. um hækkanir til tveggja stofnana, framlag til Atlantshafsbandalagsins til byggingar suður í París og framlag til þess að endurnýja skuldafangelsið á Kvíabryggju. Ég skal í sambandi við hið siðarnefnda geta þess, að mikill vafl er á því, að það fangelsi samrýmist lögum og stjórnarskrá landsins, þar eð skuldafangelsi eru yfirleitt ekki leyfð í íslenzkum lögum, og þegar af þeim ástæðum vafasamt, að ríkið leggi fé til slíkra hluta. En þar að auki er ég mjög ósammála því áliti, sem fram hefur komið hjá sumum talsmönnum þeirrar stofnunar, að þar sé um að ræða sérstaka afbrotamenn, sem eigi að vísu að flokkast frá öðrum afbrotamönnum. Það hefur nú hver sitt álit á því, hvað eigi að telja afbrot, og að vísu eru það afbrot að greiða ekki sinar skuldir. En fyrir þau afbrot er ekki leyfilegt samkvæmt íslenzkum lögum að fangelsa menn, svo að afbrotin hljóta samkvæmt áliti þeirra, sem þessar till. gera, að liggja í einhverju öðru.

Nokkrar till., eins og lýst hefur verið, bíða enn í fjvn. til 3. umr., og mun ég um þær sumar hverjar gera sérstakar till., ef nefndin afgreiðir þær ekki, þótt ekki sé ástæða til að gera þær að umtalsefni að svo stöddu.

Vil ég þá aðeins víkja að einstökum till., sem ég flyt.

Ríkið greiðir í lögreglukostnað á Keflavíkurflugvelli, að því er áætlað er á fjárlagafrv., rétt um 4 millj. kr. á yfirstandandi árl. Það hefur að vísu sýnt sig, að nokkur þörf er á því, á meðan hernámsástand ríkir hér, að einhver sá aðili sé til í herstöðvunum, sem verndar þar íslenzka menn fyrir innflutningi þeirra, sem kallaðir eru verndarar landsins. Á hinn bóginn er algerlega vonlaust, að íslenzki ríkissjóðurinn hrökkvi til að gera það lögreglulið svo öflugt, að það í rauninni sé fært um að sinna sínum hlutverkum eða vernda Íslendinga fyrir ágangi Ameríkana, svo að fjárveitingar til þessa lögregluliðs geta ekki við það miðazt. Nú liggur sú staðreynd fyrir, að verulegur hluti af þessu herliði hefur verið fluttur burt úr landinu, og ætti það að geta lækkað lögreglukostnað íslenzka ríkisins á þessum slóðum verulega, og hef ég gert till. um það, að sá kostnaður verði lækkaður um helming.

Við 13. gr. fjárlaga, sem aðallega fjallar umsamgöngumál, hef ég gert till. um það, að þar verði framlög til vegagerðar, þ.e.a.s. til nýbyggingar þjóðvega, til brúargerða, til hafnarframkvæmda, hækkuð um sem nemur 30%. Einnig hef ég gert tillögu um. að endurbygging gamalla þjóðvega, sem nú kallar mjög að á fjölmörgum stöðum, framlag til hennar, sem er 800 þús. í fjárlögum, verði hækkað í 1 millj. og 600 þús. kr., sem sagt verði tvöfaldað. Það sýnir sig líka, að slík ráðstöfun væri hagkvæm, því að víða eru þjóðvegir svo farnir, þar sem þeir hafa sigið niður og eru raunar orðnir niðurgrafnir, að í snjóavetrum kostar snjómokstur á þeim oft svo háar upphæðir, að það mundi vera hagkvæm ráðstöfun að flýta endurbyggingu þeirra, gera þá að upphleyptum vegum, sem þyrfti ekki að moka snjó af nema þá örsjaldan.

Einn lítill liður stendur í fjárlögum, sem ákveður það, að til styrktar malbikun eða steinsteypu vega í kaupstöðum og á verzlunarstöðum skuli lagðar úr ríkissjóði 95 þús. kr. Þessi upphæð er nánast til tekið hlægilega lág og kemur að engu gagni, það væri alveg eins hægt að fella hana út. Ég hef gert till. um það, að þessi styrkur til steinsteypu eða malbikunar á vegum í kaupstöðum og verzlunarstöðum verði hækkaður upp í 1 millj. kr., og er þó mjög lágur, en gæti máske komið að einhverju gagni, ef hann yrði tifaldaður eða rúmlega það. Allt annað er í rauninni hreint kák, og gæti ríkið sparað sér að leggja í þetta nokkurn eyri ef það getur ekki haft framlagið nokkru hærra en það nú er.

Nýlega hefur öll sjókortagerð, sem lengst af var framkvæmd í Danmörku, verið flutt heim og fer nú fram undir umsjá vita- og hafnarmálaskrifstofunnar. Til sjókortagerðar þarf að framkvæma miklar mælingar á sjó, og auk þess er kortagerðin öll nokkuð kostnaðarsöm, og hefur af forráðamönnum sjókortagerðarinnar verið gerð grein fyrir því, að nokkurt fjármagn vanti til, að hægt sé að halda þessari starfsemi í viðunandi horfi. Ég geri ráð fyrir því, að enginn muni efast um nauðsyn þess, að við Íslendingar, sem svo mjög þurfum á sjóinn að sækja, höfum strönd okkar og sjóinn umhverfis sem bezt kortlagðan, og hef ég lagt til, að 125 þús. kr. framlag komi til aukningar því, sem á fjárlögum er ætlað til þessarar starfsemi, og er þá komið nokkuð til móts við óskir forráðamanna sjókortagerðarinnar, en þó ekki að fullu.

Sýnilegt er, að ræktunarsambönd landsins, sem um langt árabil hafa verið innflytjendur og kaupendur og þeir aðilar, sem rekið hafa hin stórvirkari jarðræktarvinnslutæki, eins og skurðgröfur og stórar dráttarvélar, munu komast í fjárþrot með hinni geysilegu hækkun, sem á verði þessara véla hlýtur að verða eftir gengisbreytinguna. Flest ræktunarsamböndin munu hafa lagt nokkurt fé í fyrningarsjóði til þess að geta endurnýjað þessi tæki sín. En slíkir fyrningarsjóðir hrökkva harla skammt, þegar verðlagið breytist svo stórkostlega á tækjunum, sem nú er raunin á, og hef ég nú gert till. um, að af ríkisfé verði lögð hálf þriðja milljón króna til kaupa á jarðræktarvélum í þessu sambandi, til þess að síður þurfi að draga úr jarðræktarframkvæmdum. En það sýnir sig, að haldi þær ekki áfram með svipuðum hætti og verið hefur, þá þurfum við að standa frammi fyrir þeirri staðreynd í vaxandi mæli með aukinni fólksfjölgun í landinu, að við þurfum að flytja inn verulegt magn af landbúnaðarvörum, sem tiltölulega væri auðvelt að framleiða hér í landinu. Tel ég, að það væri mjög óæskileg þróun, ef við þyrftum að taka upp verulegan innflutning á búvörum, og vil fyrir mitt leyti sporna gegn því, að ræktunin dragist saman eða búvöruframleiðslan minnki, með því að ríkið hlaupi hér undir bagga.

Ein umsókn er hjá fjvn. sérstaks eðlis, varðandi nytjar á landsins gæðum, sem þar hefur ekki fengið neina áheyrn. Það er umsókn um það, að Baldvin Jónssyni verði veittur nokkur styrkur til þess að gera tilraunir með vél til að plokka fiður af fugli. Nú er það algengt, að sá fugl, sem veiddur er, sem mest er sjófugl, lundi og aðrar svartfuglategundir, sé matreiddur með þeim hætti, að hamurinn sé af fuglinum rifinn og þar hent bæði ham og fiðri. Hvort um sig eru þó hinar verðmætustu vörur. Fuglinn er miklum mun betri til matar, ef skinnið fylgir honum, og einnig er fiðrið verðmætt, og tel ég, að þjóðin hafi ekki efni á að henda þeim verðmætum, en flytja síðan inn fiður í allstórum stíl, — fiður, sem í engu er betra en það, sem hent er. Tel ég því, að það sé vert að stuðla að því, að komið verði við véltækni til þess að hætta því að henda þeim verðmætum, sem nú er gert. Sá maður, sem hér er að verki, hefur reyndar sýnt það í öðru, að hann er mjög vel til þess hæfur að leysa vandasöm verkefni í þessum efnum. Þetta er sem sagt sami maðurinn sem smíðað hefur vélar til fiðurhreinsunar, sem nú eru notaðar í mörgum fiðurhreinsunarstöðum landsins og hafa gert kleift að nytja æðarvarp landsmanna miklu betur en á meðan frumstæðari aðferðir til fiðurhreinsunar voru notaðar. Ég hef gert till. um það, að til tilrauna með slíka fiðurplokkunarvél verði veittar 60 þús. kr.

Varðandi útveginn hef ég gert tvær till. — Önnur er sú, að tvöfaldað verði framlag ríkissjóðs til leitar að nýjum fiskimiðum, en hin um, að einnig verði tvöfaldað framlag ríkissjóðs til tilrauna til að veiða síld með vörpu eða í nætur hér við Suður- og Suðvesturland. Það er mikill siður hér á Alþ. að telja ekkert vera nein efnahagsmál nema það, sem stendur í talnadálkum í einhverjum fínum bókum, og að efnahagsráðstafanir skuli alltaf byggjast á því, að það sé gerður svo og svo mikill umreikningur á kontórum. Ég er þeirrar skoðunar, að hitt sé miklum mun vænlegra, til þess að við undirbyggjum efnahagslíf íslenzku þjóðarinnar, að raunhæfir hlutir séu framkvæmdir til þess að afla okkur tekna umfram það, sem við höfum haft að undanförnu.

Og ég er ekki í vafa um það, að báðir þessir liðir, leit að nýjum fiskimiðum og tilraunir með síldveiðar við Suður- og Suðvesturland að hausti og vetri, eru líklegir til þess að færa íslenzka þjóðarbúinu verulegan tekjuauka, öfugt við bað, sem þeir kontórareikningar, sem hér hafa verið samb. sem l. á Alþ., munu gera. Ég tel þess vegna, að það sé miklu fremur til tekjuöflunar raunverulega fyrir íslenzka ríkið heldur en að ég sjái eingöngu í því útgjaldaaukninguna að hækka framlag til þessara tveggja liða, sem ég nú hef nefnt.

Við 17. gr. fjárl., sem fjallar um félagsmál, hef ég gert till. um, að hækkað verði framlag ríkisins til orlofsheimilis verkalýðssamtakanna. Meðal fjölmargra þjóða tíðkast það, að verkalýðsfélögin reka einhvers konar vistheimili, a.m.k. hluta úr ári, til þess að verkamenn og annað vinnandi fólk geti notið hvíldar og hressingar á slíkum hótelum eða dvalarheimilum um skeið. Sú hugmynd er ekki ný hér, að verkalýðshreyfingin komi upp einhverju slíku, og hefur ríkið á undanförnum árum veitt nokkurt fé til þessa, og mun nú að komast rekspölur á málið, sem hingað til hefur verið á byrjunarstigi og athugunarstigi. Tel ég því eðlilegt, að ríkið bæti upp þær verðhækkanir, sem orðið hafa, með aukningu á framlagi til slíks orlofsheimilis og bæti einnig upp það, sem þetta framlag var skert í fyrra, en till. eru gerðar um, að enn haldist á því sú skerðing, sem þá var gerð. En til þess að bæta þetta upp mun ekki nægja minna fé en ein millj. kr., í staðinn fyrir nokkuð á fimmta hundrað þús., sem fjárlfrv. gerir ráð fyrir.

Blindir menn hafa með sér félagsskap, sem heitir Blindrafélagið. Þetta félag, þar sem félagsmennirnir eru svo varbúnir til stórátaka sem hverjum manni má ljóst vera, hefur þó sýnt þann einstaka dugnað, að það hefur brotizt í því að hefja byggingu á dvalarheimili fyrir blint fólk, sem jafnframt á að vera þess vinnustaður. Ég geri ráð fyrir því, að fáir muni þeir vera, sem vilja ekki koma til móts við félag þetta og leggja til nokkurn styrk af ríkisfé, til þess að félagsheimili þeirra megi verða starfshæft sem fyrst. Í fjvn. hefur aðeins fengizt samþykkt um að leggja þessu félagi til sem byggingarstyrk 50 þús. kr., sem mér finnst vera harla lág upphæð, og miðað við dugnað félagsins, þarfir þess og það, hverjar skyldur hinn heilbrigði borgari hlýtur að hafa við þá meðbræður sína, sem lakar eru settir, þykir mér sanngjarnt að gera till. um, að í styrk til byggingar blindraheimilis verði á þessu ári varið 1/2 millj. kr. En með tilliti til þess, að ég hef orðið þess var, að sumir hv. þm. eru ekki reiðubúnir til þess að leggja þar til mjög háar upphæðir, hef ég gert varatill. um það, að til þessa verði varið 300 þús. kr., sem ég tel nokkurn veginn lágmark þess; sem ríkið geti veitt sóma síns vegna.

Við 19. gr. fjárl., sem eru óviss gjöld, hef ég gert þá till., sem ég hér hef aðeins drepið á áður. Hún er þess efnis, að hæstv. ríkisstj. gefist nokkur kostur á því að sýna, með hverjum hætti hún framkvæmi sparnað, þegar hún á að framkvæma hann sjálf. Hún er þannig, að á gr. komi nýr liður, þannig: 10% lækkun að meðaltall á öllum liðum 10. og 11. gr. fjárl., þ.e.a.s. á stjórnarráðinu, á utanríkisþjónustunni, á dómgæzlunni, á lögreglustjórninni, á tolla- og skattastofnunum. Þessar stofnanir hafa alls í fjárveitingu úr ríkissjóði skv. frv. 1461/2 millj. kr. eða því sem næst. 10% sparnaður á þessum liðum mundi því spara ríkinu 14 millj. 654 þús. kr., og er þetta þó, eins og ég hef margtekið fram, miklum mun minni sparnaður en stjórnarvöldin heimta með þeirri lagasetningu, sem þau hafa staðið að, að heimili landsins almennt framkvæmi hvert hjá sér.

Varðandi 20. gr. fjárl., sem fjallar um eignabreyt. eða fjárfestingu ríkisins, hef ég gert till. um í fyrsta lagi, að kennaraskólabyggingin nýja, sem nú stendur þannig, að þar vantar herzlumun, til þess að skólinn geti tekið hana í notkun, fái 1 millj. kr. hækkun á fjárlögum, þ.e.a.s. fái 3 millj. kr. framlag á þessu ári, og mundi það eftir þeim upplýsingum, sem ég veit réttastar, nægja til þess, að skólinn losnaði úr sínum húsnæðisþrengslum nú. Það að snerpa svolítið á fjárveitingu til þessa skóla nú mundi þess vegna hleypa honum yfir örðuga hjalla, mundi ríða baggamun um það, að margra ára vandræði hans í húsnæðismálum mundu leysast.

Þá hef ég gert sérstaka till. varðandi kaup á nýju dýpkunarskipi til almennrar notkunar í höfnum landsins. í mörg ár hefur stjórnarvöldunum verið ljós þörf á því að kaupa slíkt skip, og á 22. gr. fjárlaga, þar sem ákveðnar eru heimildir stjórnarvöldunum til handa til þess að gera eitt og annað, hefur í mörg ár verið heimild til handa ríkisstj. að kaupa nýtt dýpkunarskip, sanddæluskip. Þetta hefur þó ekki verið gert, og nú er svo komið, að vart má á milli sjá, hvort meiri þörf er á því að kaupa dýpkunarskip, sem dælir upp sandi, eða dýpkunarskip, sem grefur. Það dýpkunarskip, sem nú er í vörzlu vitamálastjórnarinnar, Grettir, og grafið hefur hér í mörgum höfnum að undanförnu, hefur miklu meiri verkefnum að sinna en það ræður við. Auk þess er skipið mjög fornlegt og slitið. Þess má geta, að það mun vera eina skipið í íslenzka flotanum nú, sem brennir kolum, og þegar af þeirri ástæðu er mjög erfitt um notkun þess á ýmsum höfnum, þar sem kol eru nú orðin miklu sjaldgæfari varningur en þau voru áður, en skipið auk þess allt þannig, að sýnilegt er, að það muni ekki endast lengi úr þessu til stórátaka, þá þykir rétt að miða ekki till. við það að ákveða endilega annað frekar, að keypt verði dæluskip frekar en skip, sem grefur, það lagt á vald viðkomandi stofnana, þ.e.a.s. vita- og hafnarmálastjórnarinnar ásamt því ráðuneyti, sem með það hefur að gera, en gerð till. um, að þessi liður verði felldur burt af heimildagrein fjár]aga, en þar á móti verði á fjárfestingarliðunum veittar 5 millj. kr. úr ríkissjóði til þess að festa kaup á slíku skipi. Það gerir kaup á slíku skipi enn þá nauðsynlegri, að sýnilegt er, að vegna erlendra lána, sem tekin hafa verið sérstaklega til hafnargerða og úthlutað í því skyni, munu verða framkvæmdar meiri hafnarframkvæmdir á þessu og væntanlega næstu árum heldur en verið hefur að undanförnu. Slíkar framkvæmdir verða vitanlega ekki unnar með berum höndum, og þarf til þess þau tæki, sem óhjákvæmileg eru. Ekki sízt af þessum ástæðum er nauðsynlegt, að ekki verði lengur látið dragast úr hömlu að festa kaup á skipi, sem unnið geti að dýpkun hafna, og fjallar till. um það.

Þegar ég nú hef lýst þeim brtt., sem ég hef hér lagt fram, vil ég þó aðeins geta þess, að af hálfu Alþb., einstakra þingmanna þess, munu að sjálfsögðu verða lagðar fram fleiri brtt. við þetta fjárlagafrv., sem væntanlega koma síðar til umr. og afgreiðslu.

En áður en ég lýk máli mínu, get ég ekki látið hjá líða að koma aðeins að því, að það er í rauninni harla vorkunnsamlegt að sjá hina ágætustu menn fyrst í fyrra standa hér uppi í þessum ræðustóli og flytja ræður um það, að nú þurfi vissulega á því að halda og þjóðin að sýna skilning á því, að nú verði að stöðva allar verðhækkanir, nú verði að draga saman í framlögum ríkisins, annars munum við hlaupa beint út í fjármálalegt fen, sem leiðir til þess, að það verði lagðir á þjóðina nýir skattar og álögur, — og sjá svo hina sömu menn aftur í ár standa hér enn í ræðustóli álíka hátíðlega á svipinn og segja: Ja, nú ríður þó sannarlega á því, að ekki séu mikil útgjöld lögð á, því að annars fer allt efnahagskerfið um, — alveg um leið og þeir hafa sett efnahagskerfið á hliðina, alveg um leið og þeir hafa ætt út í nýtt skattafen, alveg um leið og þeir hækka fjárlögin um 400–500 millj. kr., sem allt eða svo til allt leggst á verðlagið í landinu, auk alls annars, sem þangað kemur, — segja þjóðinni: Nú verðið þið að borga þetta, góðir hálsar, af óbreyttum tekjum frá því í fyrra, annars fer allt í öngþveiti. — Ja, hvenær eru hlutir farnir í öngþveiti? Eru þeir ekki farnir í öngþveiti hjá þeim mönnum, sem prédika þetta í fyrra og hið gagnstæða í ár og allt á að vera til þess að forða öngþveitinu? Er það ekki farið í öngþveiti, þegar þjóðin, sem eitt sinn var komin á það stig, að hún hafði með betri lífskjörum, sem tíðkuðust hjá okkar nágrannaþjóðum, svo langt sem vitað var, þegar þjóðin við ein beztu lífskjör, sem tíðkuðust í víðri veröld, jók sína framleiðslu, skilaði meiri verðmætum en áður, þegar hún fær það framan í sig, að nú eigi hún ekki að stíga eitt lítið skref aftur á bak, eins og hún þó var látin gera í fyrra, heldur eigi hún nú að taka stórt stökk aftur á bak í lífskjörunum? Hvað er það, sem þeir menn kalla öngþveiti, sem tala hér með föðurlegum, ef ekki spámannlegum hætti um það, að þjóðin verði að gera þetta og hitt, því að þeir séu að forða þjóðinni frá þessu eða hinu bölinu, um leið og þeir færa þjóðinni beint í fangið böl eins og það að verða að gjalda öll sín útgjöld að meðaltali um 20–30% hærra verði í ár en á s.l. ári og fyrirskipa henni að gera það með óbreyttum tekjum? Ef þetta er ekki öngþveiti, sem þessir hinir ágætu talsmenn ríkisstj. hafa sjálfir fært þjóðinni, þá veit ég ekki, hvað er öngþveiti.