26.03.1960
Efri deild: 47. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

65. mál, almannatryggingar

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Þetta frv„ sem hér liggur fyrir, er einn liður í víðtækri lagasetningu, sem hæstv. ríkisstj. nú beitir sér fyrir hér á hinu háa Alþingi. Sú lagasetning hefur öll, því miður, margar dökkar hliðar, og raunar- eru flestar hliðarnar dökkar. En þetta frv., tekið út af fyrir sig, verður þó að teljast ljós punktur, ein ljós hlið í þessum málum, þótt lítill ljós punktur sé. Það er þó eins og lítil ljóstýra í öllu svartnættinu, sem grúft hefur yfir hér síðustu mánuðina. En rétt er að gera sér grein fyrir því samt, að þetta frv. er aðeins eitt stig af mörgum í aðgerðum hæstv. ríkisstj., og þess vegna verður að athuga það í sambandi við ýmis önnur mál, sem borin hafa verið fram hér af hæstv. ríkisstj. og borin verða fram á næstunni.

Tvö veigamikil lagafrv. hæstv. ríkisstj. hafa nýlega verið til umr. og afgreiðslu í þessari hv. d., efnahagsmálafrv. og söluskattsfrv. Í þessum frv. fólust hin margvíslegustu ákvæði um auknar byrðar á almenning, byrðar, sem líklega eiga eftir að reynast allt að því óþolandi drápsklyfjar. Stórfelld gengislækkun er lögleidd, skattaálögur þyngdar til stórra muna og vextir útlána hækkaðir gífurlega. Með þessum ráðum og öðrum er dýrtíð mögnuð vitandi vits og af ráðnum hug, og mun holskefla hennar ríða yfir þjóðina næstu mánuði og missiri, og sér enginn enn þá fyrir endann á afleiðingum þeirrar dýrtíðar. En svo virðist sem lífskjör almennings skuli umfram allt skert, hvað sem það kostar þjóðina, og til þess að mögnun dýrtíðarinnar nái þeim tilgangi sínum, er kaupgjaldsvísitalan, kjaravernd launþegans, numin úr gildi samtímis. Að þessu öllu hafa leiðtogar stjórnarflokkanna unnið ósleitilega á þingi undanfarna tvo mánuði. Þeir hafa kastað sér út í þetta verk og staðið á kafi í því glórulausir, með augu og eyru lokuð, til þess að tryggja það, að engin, algerlega engin skynsamleg ábending eða leiðbeining kæmist inn í þeirra koll. Þeir hafa skellt skolleyrum við sérhverri viðvörun og engum hættumerkjum sinnt.

Ég verð að viðurkenna, að ég skil engan veginn háttalag hæstv. ríkisstj. og hv. þingmeirihluta. Að vísu er mér ljóst, að upp er tekin stefna í afturhaldsátt og að stefnuskrá samkv. því á að framkvæma. Hitt skil ég ekki, hvers vegna stjórnarflokkarnir frá upphafi hafa hagað atlögunni svo, að hún hlaut að mistakast. Er engu líkara en þeir hafi ætlazt til þess fyrir fram, að þeirra eigin efnahagsmálaráðstafanir skyldu bíða skipbrot, verða brotnar á bak aftur, svo að leiðtogarnir gætu síðan þvegið hendur sínar, eins og Pílatus, og sagt: Það var ekki okkur að kenna, að svona fór.

Alþjóð manna grunaði það strax og veit það nú, að ráðstafanir hæstv. ríkisstj. eru óðs manns æði, að þær eru áþekkastar atferli manns, sem fyrst lokar augunum og tekur síðan á rás eitthvað út í buskann. Þaulvanir og reyndir stjórnmálamenn íhaldsins sjóða saman stefnuskrá, sem í framkvæmd skapar óhjákvæmilega samdrátt í atvinnu- og efnahagslífi og raunar fullkomið kreppuástand þjóðfélagsins. Látum svo vera, að þeir vilji þetta, og er það þó illt út af fyrir sig. Hitt er samt jafnvel enn verra, að þeir hirða ekki hætishót um að tryggja það, sem tryggja þurfti, nefnilega að hin ýmsu atriði stefnuskrárinnar og hún í heild væri yfirleitt framkvæmanleg. Þessir stjórnmálamenn voru ekki svo raunsæir að spyrja sjálfa sig, hvort þeir væru nú færir um að gera stefnuskrána að veruleika. Þessi óraunhæfni hv. stjórnarleiðtoga er mjög ámælisverð. Þeim bar að kanna, hvort ráðstöfunum þeirra í efnahagsmálum yrði vel eða illa tekið af þorra þjóðarinnar. En slíkt báru þeir ekki við, heldur demba þeir yfir hana lögum á lög ofan, segjandi: Þetta skaltu hafa og annað ekki.

Hæstv. ríkisstj. mátti minnast þess í tæka tíð, að hún er mjög veik stjórn innan þings og þó enn veikari utan þings, og í samræmi við það bar henni að haga sér. Það er betra heima setið en af stað farið með ráðstafanir, sem nærri því vitað er um fyrir fram að eru dauðadæmdar. Hafi hæstv. ríkisstj. frá upphafi ekki gert sér fulla grein fyrir því, hve áform hennar mundu reynast óvinsæl, þá hlýtur það nú að vera runnið upp fyrir henni. Allir fordæma einstrengingslegar tiltektir stjórnarinnar og hafa á þeim megnustu ótrú. Á það jafnt við um stuðningsmenn hæstv. ríkisstj: sem andstæðinga. Grunnurinn undir ráðstöfununum er þegar tekinn að bresta, ekki fyrir aðgerðir vondra kommúnista eða stjórnarandstæðinga yfirleitt, heldur fyrir óánægju manna og stétta, sem hafa talið íhaldsflokkana sitt skjól og sína vernd.

Þótt hæstv. ríkisstj. virðist þannig blindandi hafa kastað sér út í hringiðu efnahagsáforma sinna, gefur þó eitt og annað til kynna, að eitthvert hugboð hafi hún frá öndverðu haft um komandi erfiðleika. Eitthvað virðist samvizkan hafa verið óróleg þegar frá upphafi. Meðal þess, sem á þetta bendir, er einmitt það frv., sem nú er til umr. hér í hv. d. Með þessu frv. reynir hæstv. ríkisstj. að bragðbæta þá ólyfjan, sem hún hefur bruggað almenningi í landinu og raunar allri þjóðinni. Hvort hún hefur um leið verið að friða eigin samvizku, skal ég ósagt láta, enda veit ég fátt um samvizku hæstv. ríkisstj. Þetta frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar hefur lengi verið boðað. Hefur hæstv. ríkisstj, hampað því framan í þjóðina með ummælum áþekkum þeim, sem sögð eru við lystarlítil börn: „Ef þú borðar matinn þinn, skaltu fá súkkulaði á eftir.“

Í hinni einstæðu bláu bók ríkisstj. er með stærsta letri prentað um stórfellda eflingu almannatrygginganna: 2600 kr. með hverju barni, hækkun mæðralauna, lífeyrir stóraukinn, hækkun slysabóta, allt greitt að fullu úr ríkissjóði o.s.frv., o.s.frv., allt í svipuðum auglýsingastíl og notaður er fyrir tombólur eða trúðleika. Hlýtur skrumstíllinn einn að vekja eða hafa vakið grunsemdir hjá hverjum meðalgreindum manni.

En hvað er þá um þetta frv. að segja í raun og sannleika? Er þar að finna raunverulegar bætur fyrir þá geysilegu launaskerðingu, sem þorri manna verður nú að þola í þessu landi vegna dýrtíðarflóðsins? Þetta er vert að athuga lítils háttar nú þegar.

Um aukningu fjölskyldubóta var rætt hér í hv. Ed. nýlega og það á eftirminnilegan hátt. Var þá glögglega sýnt fram á, að ekki er þar allt sem sýnist um kjarabæturnar, og skal ég ekki endurtaka það, sem þá var sagt, en aðeins minna á, að með hverju barni umfram þrjú í fjölskyldu á nú að greiða einum 200 kr. meira á ári en fyrirhugað var í fyrra, áður en nokkur vissi um dýrtíðarflóð núv. hæstv. ríkisstj. Nýlundan í þessu efni er í rauninni ekki önnur en sú, að nú skulu einnig greiddar fjölskyldubaætur með fyrsta og öðru barni. Sú breyting segir sína sögu. Hún er á þessa leið: Hæstv. ríkisstj. gerir sér ljósa þá staðreynd, að hún er með aðgerðum sínum að þrýsta kaupmætti launa niður fyrir lágmark nauðþurfta, gera lágtekjufólki með öllu ófært að lifa, þrátt fyrir fulla atvinnu, nema til komi sérstakur styrkur almannatrygginga. Hæstv. ríkisstj. gengur vitandi vits svo langt í dýrtíðarstefnu sinni, að verkamaður eða skrifstofumaður með konu og eitt barn á framfæri geti ekki framfleytt heimill sínu með eigin vinnu, hann verði að fá styrk úr tryggingasjóði. Slík launakjör eru auðvitað fyrir neðan virðingu siðaðs þjóðfélags og slík tryggingastarfsemi utan við heilbrigða félagsmálaþróun. Þessi marglofsungna aukning fjölskyldubóta er þannig í rauninni að nokkru leyti neyðarráðstöfun vegna hóflausrar lífskjaraskerðingar, og jafnvel í því efni er hún glompótt uppbót, eins og áður var sýnt fram á hér í hv. d. Má m.a. minna á, að fjölskyldufaðir, sem kostar börn sín til framhaldsnáms í mörg ár eða fá, fær engar fjölskyldubætur með þeim, þótt þau séu þungir ómagar, á meðan á námi stendur.

Hæstv. ríkisstj, ætti því ekki að tala digurbarkalega um fjölskyldubætur sínar. Þær eru ófullkomnar sárabætur, lélegir plástrar á sár, sem að óþörfu voru framkölluð. Þessar bætur í því formi, sem þær nú verða í, standa í raun og veru utan við almannatryggingar, enda er það viðurkennt með því að láta ríkissjóð einan standa undir þeim.

Það er augljóst, að í frv. þessu felst engin heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar, og er hennar þó orðin mikil þörf. Frv. er byggt á tillögum tveggja nefnda, sem hvorri um sig var falið að endurskoða vissan kafla tryggingalaganna. Var önnur skipuð á árinu 1958 og fengið það hlutverk að athuga víss ákvæði II. kafla l., um lífeyristryggingar, en hin var skipuð á síðasta ári og átti að endurskoða III. kaflann, um slysatryggingar, með tilliti til bótahækkunar. Báðar þessar n. skiluðu tillögum, sem frv. voru síðan byggð á, og var frv. fyrri n. til meðferðar hér í hv. Ed. á s.l. ári og afgreitt þá jákvætt frá nefnd. Þessi nefndarfrv. tvö koma nú fram í einni mynd sem skrautblóm hæstv. ríkisstj. Því, sem undirbúið var af fyrri ríkisstjórnum vegna margra ára brýnna þarfa, veifar núv. hæstv. ríkisstj. sem pálma í hendi sér. Allir vita, að hækkun tryggingabóta var aðkallandi nauðsyn, löngu áður en dýrtíðarskriðan nú skellur yfir. Þar þurfti að vinna upp gamla vanrækslu. Með ákvæðum þess frv., sem hér liggur fyrir, er þetta gert að verulegu marki a.m.k. Hitt er ógert með þessu frv., að bæta bótaþegum upp það fjárhagstjón, sem þeir bíða fyrir aðgerðir núv. hæstv. ríkisstj. og enginn raunar veit enn, hve mikið verður.

Eins og hv. þdm. muna, voru tryggingarbætur tvívegis hækkaðar lítillega á árinu 1958 fyrir atbeina vinstri stjórnarinnar, og fyrir hennar tilstilli var kaflinn um lífeyristryggingar endurskoðaður á því ári með verulega hækkun fyrir augum. Lengra komst það mál ekki, enda féll stjórnin í árslokin. Nú er gripið til þessara gagna og svo látið líta út, sem verið sé að mæta nýjum erfiðleikum. Þetta eru látalæti. Það er verið að leiðrétta gamalt ranglæti, eins og ég tók fram áðan, en nýja ranglætið, sem hæstv. ríkisstj. nú fremur með efnahagsráðstöfunum sínum, er ekki leiðrétt með þessu plaggi. Þetta er vert að gera sér ljóst, um leið og það er viðurkennt, að sérhver bótahækkun miðar þó í rétta átt. Fyrrgreindar nefndir gerðu sínum takmörkuðu hlutverkum góð skil, en þeirra verkefni voru ekki lögin í heild. Úr þeirri takmörkun hefur hæstv. ríkisstj, ekki bætt, og ber frv. hennar það greinilega með sér. Þess vegna gætir þar ósamræmis í nokkrum veigamiklum atriðum, ósamræmis, sem ætti að vera auðvelt að fá leiðrétt, ef nokkru tauti væri við hæstv. ríkisstj. komandi. Hingað til hefur hún þjösnazt áfram með augun lokuð, svo að ég er ekki lengur trúaður á, að hún taki sönsum. Ég ætla mér ekki að rekja einstök atriði frv. við þessa umr., en skal þó máli mínu til sönnunar nefna dæmi um ósamræmið.

Fyrrgreindar tvær nefndir, sem athuguðu vissa kafla l., fóru ekki yfir kaflann um sjúkratryggingar, IV. kaflann. Afleiðingin er sú, að enginn hefur á hann litið. Þar er bótum haldið óbreyttum eða öllu heldur eru þær lækkaðar lítils háttar. Í 20. gr. frv. hæstv. ríkisstj. er ákveðið, að sjúkradagpeningar skuli ekki vera lægri en 24 kr. á dag fyrir einhleypan karl eða konu, 30 kr. handa fyrirvinnu heimilis og 6 kr. fyrir hvert barn á framfæri allt að þremur. Þessar tilgreindu upphæðir eru lægri en þær lágmarksupphæðir, sem nú og að undanförnu hafa verið greiddar í Reykjavík. Þær eru nú 30 kr. fyrir einhleyping, eða 6 kr. hærri en frv. gerir ráð fyrir, 36 kr. handa fyrirvinnu í stað 30 kr. í frv. og kr. 6.20 fyrir barn, en það er 20 aurum hærra en hæstv. ríkisstj. vill eftirleiðis láta því í té. Þetta er samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið í þessari viku frá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. Ég þykist viss um, að þetta sé í ógáti gert og flaustri. En svona er þetta, og á þessu fæst væntanlega ekki leiðrétting, svo undarlega forstokkuð og stjörf er þessi hæstv. stjórn.

Það er annað í þessari sömu 20. gr., sem leiðrétta þyrfti og yfirsézt hefur. Sjúkradagpeningar eiga að greiðast fyrir hvert barn á framfæri allt að þremur, en ekki fyrir þau börn, sem þar eru fram yfir. Þetta ákvæði var sett inn í almannatryggingalögin 1956, vegna þess að þá var afnumið að greiða fjölskyldubætur með öðru barni, og því þótti sérstök ástæða til að greiða sjúkradagpeninga með tveim þeim fyrstu, en ekki eða síður með þriðja, fjórða barni o.s.frv., sem hvort eð er fengu fjölskyldubætur. Nú stendur til að breyta aftur um, greiða fjölskyldubætur með hverju barni, og um leið fellur auðvitað öll skynsamleg röksemd fyrir því, að sjúkradagpeninga eigi aðeins að greiða fyrir fyrsta og annað barn, en ekki fleiri. Með því að halda nú óbreyttu ákvæðinu um allt að þremur er barnmörgu fjölskyldunum í rauninni refsað fyrir ómegðina. Þetta ákvæði átti eðlilega að fella út úr l., um leið og fjölskyldubætur voru víkkaðar, ef í frv. hefði verið samræmi og sanngirni, en leiðrétting á þessu fram borin í tillöguformi í hv. Nd. í gær var hunzuð af hv. stjórnarliði.

Þetta eru dæmi um flaustursleg vinnubrögð hæstv. ríkisstj. á lokastigi undirbúnings þessa frv., og þyrfti ekki að koma að sök, ef ekki væri til að dreifa stirfni hv. þingmeirihluta. — Ég læt þessi dæmi nægja nú, en mun að forfallalausu ræða nánar einstök atriði við 2. umr. málsins.

Þær bótahækkanir, sem í frv. eru, miða víssulega í rétta átt. Gallinn er, að þær eru ófullnægjandi, ef taka á tillit til þeirrar miklu dýrtíðar, sem er í vændum. Æskilegt hefði verið að fá hækkanir nær réttu lagi, en það loðir líklega enn lengi við þessi ágætu lög að vera mörg ár á eftir tímanum hvað snertir ýmis veigamikil atriði. Skerðingarákvæði 22. gr. þarf að afnema hið allra fyrsta, og mun það réttlætismál eiga talsmenn innan allra flokka hér á Alþ., þótt forusta sumra þeirra kunni enn að þybbast við. Þá er skiptingin í tvö verðlagssvæði hrein fjarstæða í mínum augum, og ættu sömu bætur og sömu iðgjöld að vera um landið allt. Þá er það og mjög ósanngjarnt að binda bótafjárhæðirnar eins og um kaupgjald vinnufærra manna væri að ræða. Allar bótagreiðslufjárhæðir þessara laga eiga að vera eftirleiðis sem hingað til grunnupphæðir, sem greiða ber verðlagsuppbætur á samkv. kaupgjaldsvísitölu. Þetta og fleira mætti auðveldlega leiðrétta nú þegar, ef áhuga hv. þingmeirihluta skorti ekki. En líklega skortir hann. Þessa mun þó freistað, er málið kemur til nefndar og við síðari umræður þess.

Ég skal nú ljúka máli mínu, að vísu ekki mjög bjartsýnn á samvinnulipurð hv. stjórnarsinna. Þó skal ég ekki trúa því að óreyndu, að nokkur hv. þdm. sé svo hlekkjaður, að hann megni ekki að risa upp og andmæla því, að sjúkradagpeningar verði færri að krónutölu eftir samþykkt þessa frv. en fyrir hana. Mín þingseta og þingreynsla er ekki löng, en þó hef ég reynt meginmun á viðbrögðum stjórnarandstæðinga annars vegar og stjórnarsinna hins vegar. Ábendingar stjórnarandstæðinga í tíð vinstri stjórnarinnar voru athugaðar gaumgæfilega af stjórnarliðinu þá, enda margar teknar til greina og inn á þær gengið. Þessu finnst mér öðruvísi farið nú. Núv. hv. stjórnarsinnar eru eitthvað stirðari og í þeim eins og einhver stjarfi. Ég skýri þetta fyrir sjálfum mér á þá leið, að hv. stjórnarsinnar, sem öllu ráða nú og heima eiga í Sjálfstfl., séu orðnir svona ósveigjanlegir gagnvart rökum vegna áralangrar stjórnarsetu og þetta sé einmitt sönnun þess, sem vitrir menn hafa lengi sagt, að völdin spilli manninum og rýri manngildið.