30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það má segja um hæstv. fjmrh. eins og einu sinni var sagt um Sigurð Eggerz: menn voru orðnir langeygir eftir laufblaðinu, en það kom, þegar það kom. Frá því að þessar umr. byrjuðu og þar til nú hafa hæstv. ráðh. verið spurðir um það, hvort brbl. yrðu lögð fyrir þingið, og hæstv. landbrh. hafði engu að svara á laugardaginn var, þegar ég spurði hann að þessu, öðru en því: Ríkisstj. brýtur ekki lög. — En loks kom yfirlýsing frá hæstv. fjmrh., þegar komin var mið nótt, eftir að þinginu átti að vera frestað að þeirra eigin till., — sú yfirlýsing, að hæstv. ríkisstj. muni leggja brbl. fyrir þetta þing, áður en því verður frestað. Ég vil segja: Það var þá ekki árangurslaust fyrir stjórnarandstæðinga að tala og láta ekki hæstv. stjórnarflokka þagga niður í sér strax, fyrst það bar þó þennan árangur.

En framsóknarmenn, sem hér hafa talað, hafa spurt reyndar að dálitlu meiru. Þeir hafa spurt hæstv. ríkisstj. að því, hvort það sé ætlun hennar, að þingviljinn komi fram, með því að leggja brbl. fyrir þingið. En þó að hæstv. stjórn leggi þau fyrir þingið, sem er þó bót frá því, sem hún ætlaði sér, þá er þessu ósvarað enn, því að það er enginn vandi fyrir þá, sem ráða meiri hlutanum á hæstv. Alþingi, að leggja mál fyrir þingið og sjá svo um, að það fái enga afgreiðslu. Þó er þetta framför, sem hefur fengizt fyrir einbeitni og látlausa baráttu stjórnarandstæðinga þessa tvo daga, sem þeir hafa haft málfrelsi hér á hæstv. Alþingi.

Sjálf till. hæstv, forsrh. á þskj. 22 sannar, að það var ætlun hæstv. ríkisstj. að leggja brbl. ekki fyrir þingið, því að hún hljóðar þannig, að fundum þingsins verði frestað frá 30. nóvember eða síðar, ef henta þykir. Hví ætli þeir hafi nefnt 30. nóvember, þ.e. daginn í gær, nema af því, að þeir hugsuðu sér að fresta því þá? Og ekki var nein yfirlýsing komin frá hæstv. ráðh. þá. Það er eingöngu fyrir þá einbeitni og þá röksemdafærslu, sem flutt hefur verið hér af þm. stjórnarandstöðunnar, sem hæstv. ríkisstj. lætur nú undan, þótt í litlu sé.

Hæstv. ráðh. spurði, hvort þm. vissu ekki, hvaða mál væri hér á dagskrá. Já, það er reyndar ekki ástæðulaust að spyrja þannig. Ég veit ekki, hvernig þm. eiga að átta sig á því, hvaða mál eru á dagskrá. Ekki hef ég séð neina dagskrá á mínu borði enn þá fyrir þennan fund. Og það, sem voru fjögur mál fyrir nokkrum klukkutímum, það er orðið að einu máli núna. Ég held, að það sé ekki ofsagt, að hæstv. forseti hafi ruglazt lítillega á lögmálum þingsins, þegar hann var að láta greiða atkvæði hér áðan. Það væri því ekkert undarlegt, þó að einhver áttaði sig ekkí fyllilega á því, hvað það er, sem hæstv. ríkisstjórn er að bera fram í hvert sinn. En hæstv. ráðh. sagði, að það, sem hér lægi fyrir, væri ekkert annað en till. um þinghlé og þetta þinghlé þyrfti að fá, til þess að hæstv. ríkisstj. hefði vinnufrið, til þess að hún gæti undirbúið frv. og till. sínar í efnahagsmálunum. Flokkarnir, sem búnir eru að sitja í þessu síðan á Þorláksmessu í fyrra og hafa nú fengið á annan mánuð umhugsunarfrest eftir kosningar, þurfa að fá tvo mánuði í viðbót, og þó neitar þeim enginn um eitthvert hlé. En anzi er það langur tími, sem þeir þurfa.

Hæstv. ráðh. taldi það fjarri öllu lagi að hafa þau orð, að ríkisstj. sé að senda þingið heim, því að það sé meiri hluti þings, sem taki slíka ákvörðun, en ekki ríkisstj. Ekki er það meiri hl. þings, sem flytur till. En rétt er hitt, að hún þarf að koma til atkvæða í þinginu. En það var ekki ástæðulaust, þótt þetta væri þannig orðað, þar sem annað stjórnarblaðið lýsir því yfir á föstudaginn var á fyrstu síðu, að ríkisstj. hafi ákveðið að senda þingið heim. Hún hafði ákveðið það, og varla færi nú þetta blað að fara með neitt fleipur um ríkisstjórn sína.

Mér er ekki grunlaust, að ástæðan til þess, að loksins hefur tekizt að þvinga út úr hæstv. ráðh. þessa yfirlýsingu um, að brbl. verði lögð fyrir þingið, sé sú, að einhverjir hv. stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., einhverjir hv. þm. úr þessum meiri hl., hafi nú látið að sér kveða innan stjórnarflokkanna og fengið þessu áorkað, eftir að þeir hafa hlustað á þær röksemdafærslur, sem hér hafa verið fluttar.

Hæstv. ráðherra talaði um, að það væri hér verið að fresta afgreiðslu fjárl., og vissum við það vel og höfum aldrei gert neina kröfu til þess, að fjárl. yrðu afgr. fyrir áramót. Hins vegar hefur það verið talið eðlilegt og sjálfsagt, að fjárlagafrv. yrði tekið til 1. umr. og því komið til fjvn., svo að hún gæti farið að vinna, svo að það kemur ekki þessu máli við, þó að afgreiðsla fjárl. hljóti að dragast lengur.

Hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) hefur spurt hæstv. ráðh., hvort ríkisstj. hugsi sér að gefa út brbl. í þinghléinu, og hæstv. ráðh. hefur svarað, og hverju svaraði hann? Hann svaraði því, að það gæti vel komið til greina, að hæstv. ríkisstj. teldi sig þurfa að gera þetta, og hún mundi hafa fulla heimild til þess samkv. stjórnarskránni. Þá vitum við það, að hæstv. ríkisstj. hugsar sér, ef hún telur sér þörf á, að gefa út brbl., og þá er skammt til þess, að hún geti rætzt, sú tilgáta mín, sem ég hef oftar en einu sinni flutt hér, að hæstv. ríkisstj. stefni að því að stjórna að einhverju leyti með brbl., þ.e. gefa út brbl., þegar þingið er komið heim. Meira að segja tel ég þetta nokkra staðfestingu á þessari skoðun, að hún muni vera rétt. Og þá er augljós tilgangurinn með sjálfri þingfrestuninni. Hann er sá, að hæstv. ríkisstjórn geti m.a. gripið til brbl. og gengið á snið við þingræðið á þennan hátt, því að hitt er auðvitað ekki frambærileg ástæða, að hæstv. ríkisstj. sé alltaf að bíða eftir skýrslum sérfræðinganna, því að það þarf enga þingfrestun til þess, að hún geti beðið