06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. lýsti því mjög nákvæmlega, hversu þetta frv. um nýjan tekjuskatt er í samræmi við kosningaloforð beggja stjórnarflokkanna fyrir síðustu alþingiskosningar, og síðasti ræðumaður, hv. 9 landsk. þm. (JÞ), gerði hér virðingarverða tilraun til þess að láta ekki Sjálfstfl. hnupla frá Alþfl. heiðrinum af þessu máli. Hann sýndi rækilega fram á, að það var Alþfl., sem bar þetta mál fram í byrjun og mun berjast fyrir því til síðustu stundar. Sjálfstfl. aftur á móti hefur gengið í liðvið Alþfl. í þessu máli, en Alþfl. á upphafið og þar með aðalheiðurinn af málinu. Ég er ekkert að lá hv. 9. landsk., þó að hann reyni að passa upp á þennan sóma flokksins, eins og nú er komið.

Eitt af því merkilegasta, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði í ræðu sinni, var það, að engir skattar á þjóðina séu réttlátari en beinir skattar. Þetta kalla ég vel mælt af honum, um leið og hann er að mæla fyrir því að leggja niður beina skatta. Hann hafði aðeins þann varnagla, að rétt sé talið fram til skatts. M.ö.o.: ef skattgreiðendur telja samvizkusamlega fram, eru að dómi þessa hv. þm. ekki til réttlátari skattar á Íslandi en beinu skattarnir. Ég vil taka undir þessi ummæli hans.

Þá er komið að höfuðröksemdafærslu stjórnarflokkanna fyrir því, að þetta mál er flutt, þ.e., að ekki sé talið rétt fram. Það eru skattsvik, sem eru höfuðástæðan fyrir því, að flokkarnir bera málið fram. Ef þau væru ekki, flyttu þeir ekki þetta mál. Ef ekki væru skattsvikin í landinu, flyttu þeir ekki þetta frv.

Nú er á hitt að líta, að það er ekki svo, að skattgreiðendur í landinu eigi ekkert að greiða í staðinn fyrir þá lækkun, sem nú verður á tekjuskatti. Jú, ríkisstj. hefur séð fyrir því. Það á annar skattur að koma í staðinn, og hv. 9. landsk. hefur lagt á það mikla áherzlu, hversu sá skattur er réttlátari í alla staði en beini skatturinn, sem hv. frsm. meiri hl. n. taldi réttlátastan allra skatta. Söluskattur kemur í staðinn fyrir tekjuskatt. Þetta er eitt meginatriðið í málinu. Og þá kemur maður að því atriði, sem er ástæða stjórnarflokkanna, a.m.k. Sjálfstfl., fyrir þessu máli, það eru skattsvikin. Ef nokkur heil brú er í þessum málflutningi stjórnarsinna, hlýtur hún að liggja í því, að stórkostleg skattsvik eigi sér stað um tekjuskatt, en engin skattsvik um söluskatt. Ef þeir geta mótmælt þessu með rökum, þessari staðhæfingu minni, þá er mér óskiljanlegur þeirra málflutningur.

Ef sama meinsemdin kynni að vera við lýði hvað snertir söluskattinn og þeir segja að sé um tekjuskattinn, til hvers er þá verið að skipta um skatta? Það fékkst á þessu nokkur skýring hjá hv. 9. landsk. Hann sagði, að óbeina skatta væri ekki hægt að svíkja, m.ö.o.: söluskatt er ekki hægt að svíkja. Það er nokkuð rétt í þessu hjá honum. Þeir, sem kaupa vörur, geta ekki svikizt um að borga þennan skatt, það er alveg rétt, því að hann er innifalinn í verðinu. Getur þá enginn svikizt um að borga skattinn? Þarná kemur höfuðmeinsemdin í þessu máli. Það er lagður á söluskattur í staðinn fyrir tekjuskatt. Söluskattinn er ekki hægt að svíkja, þ.e. þeir, sem eiga að greiða hann, verða að greiða hann. En þeir, sem innheimta hann og eiga að skila honum í ríkissjóð, geta svikið og þeir geta svikið alveg eins mikið og hinir, sem telja fram til tekjuskatts.

Þetta er það viðfangsefni, sem Alþfl. hefur nú tekið sér sem hugsjónamál. Ég held, að það sé eina hugsjónamálið, sem sá flokkur á núna til, þ.e. að lögfesta söluskatt í staðinn fyrir tekjuskatt, — söluskatt, sem gjaldendur geta ekki svikið, en innheimtumennirnir geta svikið. Þetta er hugsjónamál Alþfl.

Nú er það ekki einu sinni svo, að skattsvikin, sem Sjálfstfl. heldur svo drjúgt fram, réttlæti þetta mál að öllu leyti, því að tekjuskattur er ekki úr sögunni, og ef hægt er að svíkja tekjuskatt á annað borð, er alveg eins hægt að svíkja þann skatt, sem eftir er, eins og hægt var að svíkja hinn, sem nú á að afnema. Þá hlýtur ástæðan að liggja í því, að þeir, sem nú eiga að greiða tekjuskatt hér eftir, hafi aldrei verið grunaðir um skattsvik, en þeir, sem eiga nú ekki að greiða hann lengur, hafi framið þessi skattsvik, m.ö.o.: hátekjumennirnir hafa aldrei svikið tekjuskattinn, þess vegna má vera tekjuskattur á þeim áfram, en lágtekjumennirnir hafa svikið hann, svo að það verður að afnema skattinn. Það eru dáfalleg rök þetta.

Svo sagði hv. frsm. n., að þetta væri engin aðdróttun um óheiðarleika manna umfram aðra menn yfirleitt. Nú, hvað er það þá? Hvað er það þá, fyrst á að afnema tekjuskatt vegna skattsvika? Er það þá ekki aðdróttun um óheiðarleik.? Jú, hann sagði „umfram aðra menn“. M.ö.o.: það eru þá allir landsmenn svona, eftir því sem orð hans sjálfs féllu.

Þá lagði hv. frsm. meiri hl. mikla áherzlu á það, að annað höfuðmarkmið þessa máls væri að bæta upp gengislækkunina og álögur ríkisstj. með því að fella niður tekjuskattinn. Það fer víst ekki milli mála, að til þess átti leikurinn að vera gerður, að sögn hæstv. ríkisstj. Þannig hafa stjórnarflokkarnir auglýst þetta mál í allan vetur og reiknað með í öllum dæmunum sínum um það, hvernig fólk fengi upp bættar álögurnar. Auglýst hefur verið, hvað menn mundu græða mikið á því að sleppa við tekjuskattinn. En það verður lítið úr þessum útreikningi stjórnarsinnanna, þegar nú eru fluttar skýrslur hver af annarri um það, að allur gróðinn nemur ekki nema nokkrum hundruðum króna hjá lágtekjumönnum eða kannske 1–2 þús. á fjölskyldu við að sleppa við skattinn, en lágtekjumenn fá á sig þúsundir og aftur þúsundir af álögum í gengislækkun og söluskatti.

Það er ómögulegt, að það fari fram hjá almenningi, hvert hlýtur að vera aðalmarkmið stjórnarflokkanna og þá fyrst og fremst aðalflokksins í þessu máli, Alþfl., sem á þetta hugsjónamál. Með því að bera málið fram, á að lækka beina skatta á hátekjumönnum, þó að hinir fljóti með, sem eru lágtekjumenn. Það er aðaltilgangurinn, því að aðalhagnaðurinn er hjá hátekjumönnunum, en ekki hinum. Þetta hlýtur að vera aðalmarkmiðið með málinu. Það er ekki vegna neinna skattsvika, því að tekjuskattur á að vera áfram. En söluskattur er tekinn upp í staðinn, þó að hægt sé að svíkja hann, alveg eins og tekjuskattinn. Höfuðmarkmiðið er því tvímælalaust fyrst og fremst það að lækka skatta á hátekjumönnum og lækka þá svo, að nemur þúsundum og tugum þúsunda á mann. Með þessum hætti fá hátekjumennirnir bætta að fullu og kannske mun meira en að fullu þá kjaraskerðingu, sem ríkisstj. er nú að leiða yfir þjóðina, þegar hinir fá ekki bætta þá kjaraskerðingu sem neinu nemur.

Eitt af því, sem hv. 9. landsk. sagði, var það, að fallið hefði niður lína í prentun í þessu frv. En það vantar enga línu í þetta frv. Þar stendur skýrum stöfum, hvað tekjuskattur skuli vera af 90–110 þús., svo að það er enginn vafi á því, að hæstv. stjórnarflokkar hafa ætlað að hafa skattfrjálst allt, sem væri yfir 110 þús. Ég vil ekki fara að bera þeim á brýn, að þeir viti ekki, hvað þeir settu í frv., sem tveir flokkar með öllum sínum sérfræðingum eru búnir að vera að undirbúa nú lengi og það jafnvel allan veturinn. (Fjmrh.: Eru rökin svona fátækleg, að það þurfi að nota prentvillur? ) Það er engin prentvilla í frv., ekki nokkur. Það stendur skýrum stöfum þarna það, sem þeir hafa viljað láta standa þarna. En hitt er lofsvert, og hæstv. ráðherra ætti að taka því með ánægju, að stjórnarflokkarnir hafa fallið frá ívilnun á hátekjumönnum, svo að nemur tugum þúsunda á þeim, sem hefðu nú komizt í skatt yfir þetta mark, sem fræga línan greinir frá. En það verður sannarlega að segja það, að það var á síðustu stundu, sem þeir gerðu það, en betra seint en aldrei.

Þá drap hv. 9. landsk. á nauðsyn þess að fella niður með öllu beina skatta, og þar með hefur maður staðfestingu á því, hver næsti áfangi muni verða. Skattarnir eiga að falla niður alveg. Það er hugsjón Alþfl. En hann bætti því við, að lækkun útsvara kæmi í staðinn fyrir álögurnar, sem fylgja „bjargráðunum“ svokölluðu. Það er nú komið fram stjórnarfrv. um lækkun útsvara, og það er svo dásamlega úr garði gert, að ég tel rétt að drepa á það líka. Skattstiginn fyrir útsvörin er óbreyttur, t.d. hér í Reykjavík, alveg óbreyttur, en hver er breytingin? Breytingin er sú, að það á að draga frá skattskyldum tekjum útsvar fyrra árs, og af því leiðir, að þeir, sem höfðu nokkurt verulegt útsvar, lækka í útsvari, en hinir, sem höfðu ekkert útsvar eða sama sem ekkert útsvar, lækka ekki neitt. Allt er þetta í sömu áttina, alveg bein lína, hrein stefna hjá Alþfl. í þessu hugsjónamáli hans. Enn eiga að bætast við kjarabætur hjá hátekjumönnum í landinu, þegar útsvarslagafrv. er orðið að lögum. (Gripið fram í.) Ég kannast ekki við það, að neinn flokksbróðir minn hafi undirbúið útsvarslagafrv., að öðru leyti en því, að kallað var í tvo oddvita til að líta yfir skattstiga í sveitum. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni? ) Nei, ég á ekki mikið eftir, enda vil ég gjarnan styðja hæstv. ríkisstj. í því, að hún geti komið þessu máli gegnum hv. Ed. í dag, svo að ég skal vera stuttorður. (Forseti: Það var hugmyndin að fresta fundi núna laust fyrir kl. 4.) Já, herra forseti. Ég skal leitast við að vera stuttorður.

Hv. 9. landsk. hefur gefið tilefni til að minna á það, að með útsvarslagafrv. á enn að hraða ferðinni í þá sömu átt, sem gert er með þessu tekjuskattsfrv., þ.e. með skattalækkun hvað snertir hátekjumennina, en einskisverðum lækkunum fyrir lágtekjumennina.

Hann sagði, að upphaflega hefði verið sú hugmyndin með beinum sköttum að koma á meiri auðjöfnun í landinu. Nú þyrfti þess ekki með, því að nú væru til miklu betri tæki til að koma auðjöfnuninni á, miklu meiri tækni, miklu betri tækni. Hann nefndi eitt af þessum tækjum, það er svokölluð gildra, sem Alþýðublaðið var að skrifa um fyrir nokkrum dögum. Þeir eru nefnilega komnir í gildru, hátekjumennirnir núna, og hún er óþokkaleg. Hún er nefnilega þannig, að þótt þeir græði 10–20 þús. á tekjuskattsfrv. þessu, þá freistast þeir til þess að kaupa fyrir þær þúsundir einhverja lúxusvöru, sem er hátolluð. Þetta er auma gildran! Þetta er gildra, sem Alþfl. sér um að verkalýðurinn almennt lendi ekki í. Hann á ekki að lenda í þeirri gildru að freistast til að fara að kaupa lúxusvöru, eftir að bjargráð Alþfl. eru komin til framkvæmda.

Mikil hamingja er það að vera fátækur, eins og Davíð sagði einu sinni. Það er svo mikil hamingja, að menn lenda alls ekki í neinni gildru. Þjóðin má vera þakklát Alþfl. fyrir það að bjarga öllum almenningi írá þeirri gildru að kaupa dýrar vörur fyrir það, sem þeir græða á tekjuskattslækkun Alþfl.?

Ég vil verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að ljúka máli mínu, en ég vil að lokum segja það. að s.l. föstudag, — ég held, að það hafi verið 1. apríl, — voru þessi frv. tekin á dagskrá, tekjuskattsfrv. í þessari hv. d. og útsvarslagafrv. í hv. Nd. Þennan sama dag sögðu dagblöðin frá ferlegum atburðum, sem gerzt höfðu hér í bæ. Mig minnir, að Alþýðublaðið segði frá einhverjum manni, sem kastaði sér niður úr kolakrananum, niður í poll, og birti blaðið mynd af öllu saman. En þessar frásagnir dagblaðanna voru allar leiðréttar daginn eftir og eru í daglegu tali kallaðar 1. apríl-fréttir, og hafa menn gaman af. — Mér sýnist, að hér á hæstv. Alþingi hafi líka gerzt 1. apríl-atburður, þ.e. þegar Alþfl. leggur fram hugsjónamálið sitt um tekjuskattslækkun handa þeim ríku og útsvarslækkun handa þeim sömu. Ég er hræddur um, að það geti farið svo fyrir þessum flokki, að afleiðingarnar verði litlu betri fyrir hann en fyrir mann, sem kastar sér niður úr kolakrananum niður í poll. — [Fundarhlé.]