06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann lengi. en ég ætla mér að svara hv. 9. landsk. (JÞ) því, sem hann vék að mér persónulega, því að hann sá sér einhverja nauðsyn á því að fara út í persónulegar ádeilur, þegar annað dugði honum ekki.

Í fyrsta lagi nefndi hann kosningar í Barðastrandarsýslu, og það er það eina, sem ég ætla að svara honum. Hann taldi, að ég væri svo harður í garð Alþfl. vegna þess, að Alþfl. hefði ekki stutt mig í framboði í Barðastrandarsýslu í fyrra, eins og hann hefði gert 1956. Ef framámenn Alþfl. þurfa að fara að rökstyðja stefnu sína í skattamálum með þessum rökum, er nú orðið illa ástátt hjá flokknum. En þó vil ég gleðja hv. þm. með því, að í fyrra í kosningunum í Barðastrandarsýslu fékk ég meira fylgi en þegar allur Alþfl. studdi mig 1956, en Alþfl. lækkaði þar úr 190 atkv. niður í 66 við það að bjóða fram eigin mann, eftir að hann var kominn í bandalag við Sjálfstfl., m.a. um hugsjónamál Alþfl, að leggja niður beina skatta.