03.03.1960
Neðri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

75. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. fer fram á það að styrkja sandræktun eins og ræktun annars lands, en með l. nr. 29 1955 var sá munur gerður á þessu, að ræktun sanda var sett skör lægra en önnur ræktun. Ég tel, að það hafi komið í ljós, að þessi breyt. 1955 hafi verið gerð af misskilningi og sé á engan hátt réttmæt, því að ef sandræktunin á að vera varanleg, er hún eins kostnaðarsöm og önnur ræktun. Það þarf miklu meira áburðarmagn og lengur í sandræktunina en í ræktun annars lands, ef sandræktunin á að vera varanleg. Það hefur að vísu ekki verið ýkjamikill munur á þessu, en það mun þó vera nærri 25% lægri styrkur á sandræktun en á ræktun annars lands, eða um 300 kr. á hektara. Þykir sanngjarnt að breyta þessum lögum í það horf, sem þau voru fyrir 1955, miðað við þá reynslu, sem fengin er, síðan breytingin var gerð.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.