03.12.1959
Neðri deild: 9. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér hefur verið á það bent, að það sé í mesta máta óvenjulegt að taka fyrir frv., sem tiltekinn ráðh. leggur fyrir þingið varðandi málaflokk, sem hann hefur með að gera, á þeim tíma, sem þessi hæstv. ráðh. sér sér ekki fært að mæta við umr. á Alþingi. Og þeim tilmælum hefur verið beint til hæstv. forseta, að hann íhugi það vandlega, hvort það sé rétt af honum að knýja fram umræður hér á Alþingi um þetta mál, án þess að sá ráðh. sé hér mættur, sem að eðlilegum hætti á að mæta hér og vera til forsvars í sambandi við þetta mál.

Ég veitti því athygli eða mér fannst ég sjá það út úr viðbrögðum hæstv. forseta þessarar d., þegar þessum tilmælum var til hans beint, að hann færi að íhuga sitt ráð. Og ég sá það, að hann þurfti að ráðgast við einn af ráðh. í sambandi við þessi tilmæli, sem hér voru sett fram, og það leyndi sér ekki að mínum dómi, að hæstv. forseti fann það, að hér var verið að gera rangt, og mér er nær að halda, að hann hafi viljað leggja það til við þennan hæstv. ráðh., að stjórnin óskaði ekki eftir því að sækja þetta mál með slíku ofurkappi sem þessu og brjóta þessa þingreglu líka. Mér fannst eins og ég gæti lesið þetta út úr viðbrögðum hæstv. forseta. En hæstv. dómsmrh. kom nú hér upp í ræðupontuna og vildi telja kjark í forsetann að halda áfram þessum þjösnaskap.

En nú vil ég af þessu tilefni benda hæstv. forseta á það, að þrátt fyrir það, þó að hæstv. dómsmrh. vildi láta hér kné fylgja kviði og halda hér áfram á þennan hátt, þá varð hann þó að viðurkenna, — ég skrifaði alveg orðrétt ummæli hans, — en hann sagði: „Þingið á rétt á því, að ráðh. svari fyrirspurnum varðandi þau mál, sem undir hann heyra, þegar þau eru til afgreiðslu á Alþingi.“ Ég skrifaði hér upp þau ummæli hæstv. ráðh., sem sagði: Þingið á rétt á því, að ráðh. svari fsp., sem fram koma. — Meira að segja hæstv. dómsmrh. varð hér að viðurkenna, að þm. ættu skýlausan rétt til þess, að sá ráðh., sem leggur mál fyrir Alþ., sé hér til þess að svara fsp., sem fram koma.

Ég vil í tilefni af þessu endurnýja tilmælin til hæstv. forseta, að hann endurskoði afstöðu sina í þessu máli og fari samkv. sinni eigin sannfæringu og fylgi hér þeim reglum, sem viðhafðar hafa verið í þessum málum áður á Alþingi. Það er engin nauðsyn á því að brjóta einnig þessa reglu nú, því að það má hæstv. forseti vita, að hæstv. dómsmrh. hefði ekki hagað hér sínum orðum á þessa lund, sem hann gerði, ef hann teldi sig ekki verða að viðurkenna, að þm. ættu rétt til þess, að viðkomandi ráðh. mætti og svaraði fsp.

Hæstv. dómsmrh. sagði að vísu, að sér fyndist, að vel mætti halda áfram þessari umr., því að önnur umr. væri enn eftir um málið. Það mætti líka sjá, hvort hér kæmu fram fsp., sem þess væru verðar, að ráðh. ætti hér að gefa svör við þeim. En ég vil í þessu efni minna á það, að þetta mál hefur verið hér til 1. umr. Meginhlutann af þeim tíma, sem málið var til 1. umr., mætti viðkomandi ráðh. hér ekki. Til hans var þá beint hér allmörgum fsp. varðandi þetta mál. Það er því búið að beina fsp. til hæstv. ráðh., þeim fsp., sem þm. eiga rétt á að hann svari hér, svo að notuð séu orð hæstv. dómsmrh. Í sambandi við þann takmarkaða tíma, sem mér er ætlaður hér í sambandi við þetta mál, vil ég einnig mótmæla því. Mér þykir mjög óeðlilegt, eftir að hæstv. dómsmrh. hefur hér talað í alllangan tíma varðandi þessi mál og nokkuð almennt um þau, að þá sé skorinn svo niður ræðutími við mig sérstaklega fram yfir aðra, að ég megi ekki ljúka hér máli mínu, og ég vil bæta hér við nokkrum orðum í trausti þess, að hæstv. forseti sjái, að það er fyllilega réttmætt, að ég fái hér að ljúka mínu máli með tilliti til þeirra umræðna, sem hér hafa farið fram á undan. Ég skal ekki í neinu fara út fyrir það í sambandi við þessar umr. utan dagskrár, sem beint tilefni hefur verið gefið til, t.d. í sambandi við ræðu hæstv. dómsmrh.

Ég tók eftir því, að hæstv. dómsmrh. sagði, að hann teldi, að sú samþykkt, sem hér var gerð áður í kvöld um að skera niður ræðutímann, væri í anda þingskapa. Ég hlýt að spyrja hæstv. dómsmrh. um það, hvort hann telji það vera í anda þingskapa að leyfa aðeins 3–4 þm. að fá tækifæri til þess að tala hér um stórt og þýðingarmikið mál, sem liggur fyrir þinginu til 1. umr., að umræður séu skornar þannig niður, að þeir þm., sem kvatt hafa sér hljóðs strax í upphafi umr., fái ekki að komast að og flytja sína fyrstu ræðu um mál, sem liggur hér fyrir til 1. umr. Getur það verið í anda þingskapa að beita slíkum niðurskurðarákvæðum? Ég trúi því ekki, fyrr en ég heyri það héðan úr ræðustólnum, að hæstv. dómsmrh. haldi því fram, að það sé í anda þingskapa að beita niðurskurði á ræðutíma á þann hátt hér á Alþingi. Ég vil líka mótmæla því, að ég og aðrir alþm. höfum misnotað okkar ræðutíma í sambandi við þau mál, sem hér hafa verið á dagskrá.

Ég gat þess í minni ræðu, þeirri einu, sem ég fékk að flytja hér án hindrunar um þau mál, sem hér liggja fyrir, að það væri með engu móti hægt að binda sig algerlega við það frv., sem þá var á dagskrá, vegna þess að eðlilegt væri að ræða tildrög þess, að frv. var flutt. Og ég ætla, að t.d. hæstv. dómsmrh. hafi ekki sjaldan hér á Alþingi tekið sér heimild til þess að ræða mál á þeim grundvelli.

En viðvíkjandi fjarveru hæstv. fjmrh. er á það bent, að hann hafi beðið annan ráðherra að vera hér í sinn stað. ( SkG: Hvaða ráðherra skyldi það vera?) Já, hvaða ráðh. skyldi það vera? Það hefur a.m.k. ekki heyrzt í honum. Hann hefur ekki fengizt til að svara hér einu einasta orði, ekki einni einustu fsp., sem til hans hefur verið beint. En ég vil spyrja: Hvernig getur staðið á því, að hæstv. fjmrh. mætir ekki á þessum fundi? Það hlýtur þó að vera einhver skýring til á því, af hverju hann getur ekki mætt? Er maðurinn t.d. veikur? Þá væri kannske full ástæða til þess að fresta hér fundi og bíða eftir því, að ræða mætti við hann. Ég efast ekki um, að flokksbræður hans á Alþingi, t.d. hæstv. dómsmrh. og væntanlega forseti d., hljóti að vita um það, hvar hæstv. fjmrh. er staddur. Er hann að gegna einhverjum skyldustörfum nú nærri kl. hálfþrjú að nóttu? Það er ólíklegt. Er hann kannske sofnaður og það megi ekki vekja hann, á sama tíma og þm. er ætlað að ræða hér þau mál, sem hann leggur fyrir Alþingi? Það er útilokað, að það sé ekki hægt að gera hér grein fyrir því, hvar maðurinn er staddur og hvað það er, sem tefur hann. Er það einvörðungu það, sem hefur komið fram í þessum umr., að hann fáist með engu móti til að svara þeim fsp., sem þm. eiga þó skýlausan rétt á, eins og hæstv. dómsmrh. orðaði það hér, að hann svari í sambandi við það mál, sem hann hefur lagt hér inn á Alþingi?

Ég vil nú vænta þess, að hæstv, forseti þessarar d. sjái, þegar hann athugar það, sem hér hefur fram komið, að það er full ástæða til þess fyrir hann, eins og forseta, sem hafa áður gegnt þessu sama starfi, sem hann gegnir nú hér, að segja við þennan fjmrh., sem lagt hefur þetta frv. inn: Það var þín sök og einskis annars, að málið var ekki afgreitt á þessari nóttu. Þú mættir ekki, og ég mun ekki afgr. málið og brjóta þar með gamlar þingvenjur fyrir þann aðila, sem vill ekki gegna sínum þingmannsskyldum á Alþ. og sínum ráðherraskyldum þar. — Ég skora því enn einu sinni á hæstv. forseta að endurskoða afstöðu sína og fallast á það að slíta þessum þingfundi nú og láta fara hér fram umræður um þetta mál á morgun á þeim tíma, sem hæstv. fjmrh. getur gefið sér tíma til þess að sinna sínum þingmannsskyldum.