13.05.1960
Efri deild: 76. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta stjórnarfrv., sem hér liggur fyrir, hafa stjórnarblöðin sagt að boðaði nýja tíma, með því væri horfið frá haftapólitík til langþráðs frelsis í verzlun og viðskiptum. Mbl. sagði eitthvað á þessa leið: Loksins, loksins hefur nú Sjálfstfl. fengið aðstöðu til að sýna, að hann vill í raun og sannleika efla einstaklingsframtakið og einstaklingsfrelsið.

Já, „loksins, loksins lyftist vorsins brá.“ Og þeir segja í stjórnarherbúðunum, að það vori vel, því að sólin og blærinn leggi saman. Hreinskilinn Sjálfstfl.-maður, framámaður, sagði nýlega: Sjálfstfl. stendur betur að vigi nú til að vinna að sínum stefnumálum, vegna þess að Alþfl. vinnur með honum, heldur en þótt hann hefði sjálfur fengið meiri hl. í síðustu kosningum.

Sólin og blærinn leggja saman þetta vor hjá Sjálfstfl.

Og einmitt þetta, sem sjálfstæðismaðurinn sagði, virðist vera hárrétt. Hér eru tveir samrýmdir að verki, þó að það sé ekki sólin og blærinn. Samkomulagið virðist svo fullkomið með þessum flokkum, að þeir gætu sungið og geta sungið fullum rómi: Tveir við stýrum einu geði. — Þetta frv., sem þeir flytja saman, er í raun og veru slíkur söngur. Ef Sjálfstfl. hefði flutt það einn, hefði gegnt allt öðru máli. Nú er það borið fram líka af Alþfl., sem nýtur enn nafns sins hjá trygglyndum kjósendum, sem studdu hann til góðra verka fyrrum, hversu lengi sem sú tryggð þolir það, sem nú er að gerast.

Einhver sjálfstæðismaður var hér um daginn að bregða framsóknarmönnum um það, að þeir vilji viðhalda höftum. Ég tel slíkt, að vilja viðhalda höftum, ámæli eða lof eftir því, hvað um er að ræða. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. lagði áherzlu á, að þeir, sem framkvæmdu höft, væru oft hlutdrægir, og það getur satt verið. Hann sagði, að svo færi gjarnan þar, að óvinurinn hirti hinn síðasta. En hvernig er hinn fátæki settur í samkeppninni við hinn ríka, þar sem ekki er af nógu að taka og engin skömmtun? Hver hirðir hann?

Öll þjóðfélagsstarfsemi og skipun mála til bræðralags er vitanlega unnin í veikleika eins og allt, sem við mennirnir gerum. En eigum við þess vegna að gefast upp við að skipta á milli manna samfélagsréttindum, en láta þann, sem betur má sín, taka það, sem hann getur, fram yfir þann, sem miður má sín? Nei, við verðum að basla í áttina til að reyna að verða réttlátir, þótt í veikleika sé og stundum mistakist. Við komumst ekki hjá því að hafa nefndir í þjóðfélögum okkar til að skipta. Hitt er svo annað mál, að hóf þarf að vera á hverjum hlut.

Félagsleg samstaða hlýtur að leiða af sér bæði boð og bönn. Því meira sem þjóðfélagið gerir fyrir þegnana, því háðari verða þeir að vera fyrirmælum í þjóðfélaginu. Þeir, sem sitja saman að matborði, verða að hlíta borðsiðum. Enginn má við matborðið háma í sig, svo að aðrir fái lítið eða ekkert. Það eru einföld og óskráð lög borðsiða og almennrar kurteisi, sem gilda sem betur fer yfirleitt við matborðið. En slík óskráð lög nægja ekki um allt, sem menn þurfa til sín, en er ekki til ótakmarkað af, og þess vegna þarf að skammta.

Þjóð, sem mikið þarf að kaupa erlendis frá, eins og Íslendingar þurfa, og hefur ekki gjaldeyri til að kaupa nægju sína, verður að skammta í stærri eða minni stíl til þess að jafna milli manna við sitt allsherjarborð og til þess líka að það, sem keypt er, fari til þeirra hluta, sem eru nauðsynlegastir. Þar gilda ekki óskráðar reglur kurteisinnar eins og við matborðið. Og að hafa skortinn fyrir skömmtunarstjóra fer ekki aðeins í bága við jafnaðarmennsku, heldur er það hálfgerð villimennska, miðað við menningu og möguleika nútímans. Það er ekki hægt bæði að sleppa og halda í senn. Það er ekki hægt bæði að njóta frelsis frummannsins og öryggis þegnsins í skipulegu þjóðfélagi, þar sem menn eru skyldaðir til fóstbræðralags og njóta þess líka og vilja auðvitað ekki án þess vera. Þjóðfélagsþegninn verður að þola boð og bönn til þess að frelsast frá öryggisleysi frummannsins.

Talið um „að frelsa menn“ í þessu þjóðfélagi frá viðskiptahöftum er að mínu áliti að verulegu leyti undirstöðulaus áróður. Allt annað mál er um hið andlega frelsi en hið efnalega og viðskiptalega. Það er andlegt frelsi, málfrelsi, ritfrelsi o.s.frv., sem manninum er mikilsverðast af öllu og samrýmist fullkomlega skyldum hans í efnahagslegu samfélagi. Andlega frelsið getur samrýmzt skyldum og boðum og bönnum að því er snertir hið efnahagslega í mannfélaginu.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, ber þetta líka með sér. Það er alls engin frelsisskrá, þvert á móti. Það eykur möguleika stjórnarvalda til að herða á höftum.

Íslendingar tóku fyrst upp skömmtun eða höft með opinberum aðgerðum í utanríkisog viðskiptamálum á tímabili fyrri heimsstyrjaldarinnar. Félagsleg nauðsyn knúði. Menn fundu, að þeir sátu við sama borð. Fyrsti skömmtunarstjóri á Íslandi var þá ráðinn. Hann var ekki framsóknarmaður. Hann var enginn annar en Jón Þorláksson, sem stuttu seinna varð formaður Íhaldsflokksins, sem er sama sem Sjálfstfl. Fyrsta ríkisstj., sem fékk samþ. sérstök lög um innflutningshöft, var stjórn undir forsæti sjálfstæðismanns, stjórn Jóns Magnússonar, 1920. Þau eru nr. 1 frá 8. marz 1920.

Ég segi ekki frá þessu neinum til hnjóðs. Ég segi frá þessu sem staðreyndum til þess að mótmæla því, að Sjálfstfl. geti talið sig hafa verið á móti höftum, en Framsfl. sérstaklega sekan um haftapólitík.

Ef litið er yfir þær n. og ríkisstj., er stjórnað hafa þeim málum, sem kölluð eru „höft“, lítur það þannig út: Sex sinnum hafa verið sett ný lög um innflutnings- og gjaldeyrismál ásamt tilheyrandi eða um hin svokölluðu höft. Fyrstu lögin setti, eins og ég sagði áðan, stjórn Jóns Magnússonar. Og má því segja, að sú ríkisstj. hafi verið höfundur verzlunarhaftanna, en hún naut forustu Íhaldsflokksins, sem nú heitir Sjálfstfl. Næstu lög voru sett af stjórn Hermanns Jónassonar, sem naut stuðnings Framsfl. og Alþfl. Þriðju lögin eru sett af forsetastjórninni, sem var undir forustu Björns Þórðarsonar, en skipuð mönnum úr Sjálfstfl. og Framsfl. Fjórðu lögin eru sett af nýsköpunarstjórninni, en henni veitti forustu Ólafur Thors. Sú stjórn á heiðurinn af því að hafa stofnað tvö ráð í stað eins, sem áður var látið nægja, þ.e. nýbyggingarráð og fjárhagsráð. Fimmtu lögin eru svo sett af stjórn Stefáns Jóhanns og sjöttu lögin, lögin um innflutningsskrifstofuna, af stjórn Ólafs Thors. Sjöundu lögin eru þau, sem eru hér til meðferðar og frv. það, sem til umr. er, hljóðar um. Samhliða lagabreyt. var ávallt skipt um nafn á nefndunum og stundum var breyt. á reglugerðum látin orsaka nafnabreytingu. Innflutnings- og gjaldeyrisráðstöfunarnefndirnar hafa verið 9 og borið þessi heiti, eins og raunar er áður búið að rifja upp við 1. umr. hér: innflutningsnefnd fyrst, önnur nefndin innflutnings- og gjaldeyrisnefnd, þriðja gjaldeyris- og innflutningsnefnd, fjórða viðskiptaráð, fimmta nýbyggingarráð, sjötta fjárhagsráð, sjöunda viðskiptanefnd, áttunda gjaldeyris- og innflutningsdeild, níunda innflutningsskrifstofan. Enn þá á svo að skipta um lög og nafn á úthlutunaraðilum leyfa. Og nú er eftir að athuga frv„ sem fyrir liggur, sem auglýst hefur verið sem „frelsisskrá úr föður hendi.“

1. gr. í frv. og 1. gr. í gildandi lögum eru svo efnislega nákvæmlega eins, að breytingin má teljast aðeins orðaleikur eða sjónarspil.

2. gr. inniheldur þá höfuðbreytingu, að úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa fyrir vörur og gjaldeyrisgreiðslur er flutt frá innflutningsskrifstofunni, sem lögð er niður, til viðskiptabanka þeirra, sem hafa með höndum sölu erlends gjaldeyris. Þetta eru, eins og nú standa sakir, Landsbankinn og Útvegsbankinn.

Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun, að þessir bankar, sem vitanlega hafa hvor um sig sína viðskiptavini, bæði erlenda og innlenda, muni keppa innbyrðis um að gera sínum viðskiptavinum til hæfis fyrst og fremst. Úthlutunarstaðurinn getur því að þessu leyti ekki orðið fullkomlega rólegur vegna hlutleysis. Almennur leyfisbeiðandi getur lent þar á milli hjóla, án þess að ég haldi því endilega fram, að óvinurinn taki hann. Ekki verður séð, að með þessu fyrirkomulagi sé á nokkurn hátt tryggt, að menn fái skjótari eða betri fyrirgreiðslu en áður. Vitanlega verða menn að bíða eftir afgreiðslu eins og áður, ef gjaldeyrir er ekki fyrir hendi, og fá synjun, ef ekki er von til, að úr rætist. Gjaldeyrir vex ekki við þessar tilfærslur úthlutunarvaldsins. Hvað vinnst þá með breytingunni? Hvers vegna á að gera þessa lagabreyt.?

Ef frv. er gegnumlýst, hljóta þær grunsemdir að rísa, að með því vilji ríkisstj. auka vald sitt, m.ö.o.: tilkynningarnar um aukið einstaklingsfrelsi og afnám hafta eru mjög líklegar til að vera blekking, þægilegt hjal í eyra almennings, sem jafnframt er talin trú um, að öll höft séu ólán hið mesta. En á bak við býr einræðishugur ríkisstj., sem vill hafa tögl og hagldir í sinni hendi til að geta hert á höftunum eftir eigin geðþótta og engar n. af öðrum kjörnar til að flækjast fyrir sér.

Í nál. mínu rökstyð ég þetta með dæmum úr frv. sjálfu. Ríkisstj. er skv. 2. gr. heimilt að taka í sínar hendur eða fela sérstökum trúnaðarmönnum úthlutun tiltekinna leyfa. Þarna eru dyr, sem ríkisstj. gæti leitt í gegnum út frá bönkunum alla úthlutun til sín eða sérstakra trúnaðarmanna sinna. Ekkert liggur fyrir um það, að þetta eigi að miðast við eitthvað sérstakt og fátítt. Þarna er ótakmörkuð heimild til valdbeitingar og drottnunar yfir þessum málum.

Skv. 7. gr. mega engir aðilar lengur án stjórnarsamþykkis „semja um lán erlendis til lengri tíma en eins árs.“ Ekki er þetta að auka frelsi einstaklinga eða fyrirtækja.

Í 8. gr. segir: „Ríkisstj. er heimilt að ákveða, að vörur megi ekki bjóða til sölu, selja til útlanda eða flytja úr landi nema með leyfi hennar.“ Áður voru þessi mál í höndum útflutningsnefndar, nú tekur ríkisstj. þau beint í sínar hendur.

Í 14. gr. er svo fyrir mælt, að falla skuli úr gildi l. um úthlutun jeppabifreiða og heimilisdráttarvéla. Á þann hátt ætlar ríkisstj. að leggja undir sig úthlutun jeppabifreiða, sem nú er í höndum 5 manna n., sem kosin er á þann hátt, að stjórn Búnaðarfélags Íslands kýs 2 þeirra, stjórn Stéttarsambands bænda 2 og landbn. Alþingis 1. Ég fyrir mitt leyti finn engin rök fyrir því, að jeppaúthlutunarn. sé afnumin, önnur en þau, að ríkisstj. vilji hafa á sinni hendi smátt og stórt í þessu sambandi, — einræðisvald.

Ríkisstj. hampar því sem sönnun fyrir frelsisstefnu sinni, að hún hafi aukið stórlega frílistann og ætli ekki að beita fjárfestingarhöftum, eins og sakir standa. Þetta lítur í fljótu bragði út sem afnám hafta. En annað kemur á móti, önnur stórkostleg hefting hefur átt sér stað af völdum stj.: Kaupgeta almennings hefur verið skert svo skemmilega, að frílistaaukningin og fjárfestingarheimildirnar eru nánast storkun við almenning.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) var rétt áðan að lýsa því, hvernig framkvæmdir drægjust saman. Það er óhætt að gefa þeim heimild til að kaupa, sem enga kaupgetu hefur og enga möguleika til lántöku. Það er það, sem er þarna gert. Verðlagshækkunin, útlánasamdrátturinn, vaxtaokrið, flutningur sparifjárins utan af landsbyggðinni í ríkisbankann er allt saman höft á framtaki. Og slík höft eru ekki í samræmi við menningu nútímans, tæknilega þróun hans og þá félagslegu og efnahagslegu möguleika, sem nútíminn býr yfir. Með því er í raun og veru óvinurinn látinn taka marga. Þetta eru höft afturhalds og þau tilheyra liðnum tíma, — sögu, sem ekki má endurtaka.

Meðferð hæstv. ríkisstj. á alþýðu manna minnir á ævintýrið um risann, sem rændi kóngsdótturinni, dró hana í helli sinn, fjötraði hana með hári hennar sjálfrar niður í stól. Og þegar hann hafði bundið hana þannig við stólinn, að hún gat hvorki hreyft hönd né fót, setti hann í kjöltu hennar disk með lostætum mat, sem hún horfði á og fann ilminn af, án þess að hafa nokkur ráð með að neyta matarins, hversu svöng sem hún var.

Alþýða landsins er nú svipað sett og kóngsdóttirin. Frílisti stj. og afnám fjárfestingarhaftanna er diskurinn með matnum, sem hún nær ekki til og gerir því vont verra. Að vísu geta þeir, sem eru ríkir af fé, notað sér diskinn, maturinn er handa þeim. En það bætir lítið úr skák hjá fjöldanum.

Ég sé í áliti meiri hl. fjhn., að meiri hl. segir, að hin breytta framkvæmd, sem frv. gerir ráð fyrir, hafi í för með sér talsverðan sparnað. Nú verður það ekki séð af frv., að um sparnað sé að ræða, og þær upplýsingar, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. gaf hér áðan um fyrirætlanir um skrifstofuhald við hið nýja kerfi, þær beinlínis spá ekki sparnaði.

Það, sem ég sé í frv. um þetta, er það sérstaklega, að í 10. gr. er ákveðið að taka leyfisgjald, 1% , eins og áður í þágu starfseminnar. Nú hef ég fengið upplýsingar um, að leyfisgjaldið, 1%, hafi gefið um 8 millj. árið sem leið. Grundvöllur þess hefur hækkað, vegna þess að leyfisgjöldin voru tekin af upphæðum leyfanna skv. skráðu gengi og verða það áfram. Þess vegna hefur grundvöllurinn hækkað fyrir álaginu um meira en helming. Og þó að eitthvað gangi saman af leyfum, vegna þess að fleiri vörur fara á frílista og þarf því ekki leyfisgjald í sama stíl af þeim, þá má þó gera ráð fyrir því, að tekjurnar verði ekki minna en helmingi hærri, eða 16 millj. Þetta sýnist algerlega óþarft, og þó að ekki sé gengið út frá því, að bankarnir vinni verk þau, sem þeim verða falin, fyrir ekki neitt, því að 10. gr. gerir ráð fyrir því, að þeir fái sína borgun, þá er enginn vafi á því, að hér er um grófa tekjuöflun að ræða og alveg í mótsögn við það, sem hv. meiri hl. segir, þ.e., að um sparnað verði að ræða.

Ég hef vegna þess arna leyft mér að flytja á þskj. 446 brtt. við 10. gr. um það, að í stað orðanna „allt að 1% leyfisgjald“ komi: allt að 1/2% leyfisgjald. Ég þykist þess fullviss, að með því móti fáist eins miklar tekjur og hafa fengizt að undanförnu, og mér þætti líklegt, að hv. meiri hl. muni styðja þessa till. til þess að sýna, að hann trúi því, sem hann segir sjálfur um það, að sparnað muni leiða af framkvæmdinni, eins og hún á að verða skv. frv.

Jafnframt hef ég leyft mér að flytja á sama þskj. aðra brtt. Hún er við 14. gr. Hún er um það, að orðin „l. nr. 33 8. marz 1951, um úthlutun jeppabifreiða og heimilisdráttarvéla“ falli niður, þ.e. að sú löggjöf verði látin standa og þeir menn, sem þar er ákveðið að úthluti leyfum fyrir jeppabifreiðum, fari með það vald. Það er eðlilegt, að svo verði. Ég sé enga ástæðu til þess að leggja þetta undir ríkisstj. og trúi því varla, að hún geti ekki gengið inn á það að missa þann spón úr valdaaskinum. Það er hrein og bein ósanngirni gagnvart þeim, sem aðallega kaupa jeppabifreiðar, landbúnaðarmönnunum, að afnema það, að fulltrúar samtaka þeirra fari með þetta skiptingarvald. Ég held, að það sé engin ástæða til þess að ætla, að þeir beiti þar, menn, sem eru þannig kjörnir af 3 aðilum, meiri hlutdrægni en hæstv. ríkisstj., sem getur ekki haft svipaðan kunnugleika á eðlilegri skiptingu milli manna á þessum sviðum eins og þeir, sem n, eiga að skipa að lögum og hafa gert að undanförnu. Ég held, að einmitt með því að láta þessa skiptingarreglu haldast sé sízt að óttast, að óvinurinn taki þar nokkurn.

Um frv. í heild vil ég að lokum segja þetta: Það er svo gallað að mínu áliti, að hv. Ed. á að fella það. Ekkert er í frv., sem mælir sérstaklega með samþykkt þess frá mínu sjónarmiði. Núgildandi l. um gjaldeyris- og innflutningsmál eru á engan hátt þannig, að núv. hæstv. ríkisstj. hafi ekki samkvæmt þeim eðlilegt svigrúm. Hún hefur vald yfir frílistunum og hún hefur vald yfir fjárfestingunni, þrátt fyrir það þó að lögum sé ekki breytt. Hin dulbúna einræðisstefna, sem gegnsýrir frv., á engan rétt á sér. Hins vegar tel ég eðlilegt, að löggjöf viðskipta- og peningamálanna verði tekin til endurskoðunar. Þess þarf með alltaf öðru hverju á tímum framfara og breytinga, eins og verið hafa að undanförnu, og þá fyrst og fremst með tilliti til áframhaldandi og meiri framfarasóknar. Ég hef persónulega — ég segi persónulega — enga trú á því, að hægt verði að gefa allt frjálst í þeirri merkingu, sem pólitískir áróðursmenn leggja í orðið, vegna þess að höft í beztu merkingu þess orðs verður að hafa til að frelsa menn frá ójöfnuði og efnahagslegu öryggisleysi. En umfram allt má ekki hafa skortinn fyrir skömmtunarstjóra, ekki kalla hann til verka að fyrra bragði. Ég held, að endurskoðun löggjafarinnar verði bezt framkvæmd með því, að allir þingflokkar standi að henni, og þess vegna legg ég til, að málið verði í þessari hv. deild afgr. með svofelldri rökstuddri dagskrá: „Í trausti þess, að ríkisstjórnin feli fjögurra manna n., er sé þannig skipuð, að hver þingflokkur tilnefni einn mann í n., að undirbúa fyrir næsta reglulegt Alþ. lagasetningu um ráðstafanir í viðskipta- og peningamálum, er m.a. tryggi, eftir því sem kostur er, að almenningur í sveitum og við sjó geti haldið áfram framkvæmdum við eflingu atvinnuveganna og við nauðsynlegar byggingar til endurnýjunar og óhjákvæmilegrar aukningar á húsakosti vegna fólksfjölgunarinnar í landinu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Með afgreiðslu málsins á þennan hátt hygg ég, að bezt sé fyrir því séð, að málefni þessi verði athuguð með gætni og með það fyrir augum, að þjóðinni allri geti orðið til farsældar.