19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. 5. þm. Vesturl., hæstv. varaforseti þessarar deildar, var sammála mér um það, að ég hefði lög að mæla í þessum efnum. Hann gekk hins vegar út frá því, að fjhn. þessarar hv. deildar yrði sjálf að hafa frumkvæði um það að taka málið, í staðinn fyrir að forseti sendi það til hennar. Málið var afgreitt í Ed. 17. maí, sem sé á þriðjudag. Í gær var fundur í Sþ. Málið er fyrst komið til þessarar deildar raunverulega í dag, og í dag kl. sex er boðaður fundur í fjhn. Væri litið svo á, að fjhn, þyrfti að hafa frumkvæði sjálf til þess að taka þetta mál, venjunnar vegna, hún þyrfti ekki að fá bréf frá forsetanum til þess, — væri litið svo á, að fjhn. sjálf þyrfti að hafa frumkvæði um þetta, þá leiðir þar af, að hver aðili í fjhn. hefur þann hinn sama rétt. Svo fremi sem t.d. tveir eða þrír í nefndinni álitu, að þeir þyrftu ekki um málið að fjalla, vegna þess að þeir mundu bara gefa út till. um að samþykkja þetta áfram, þá hlyti það hins vegar að þýða, að einn eða tveir eða þrír úr nefndinni, sem álitu, að þeir þyrftu um málið að fjalla, hefðu þá rétt til þess að gera það, og þá bæri að gefa þeim tækifæri til þess.

Ég skal viðurkenna, að það mundi ekki þurfa endilega að vísa þessu máli til nefndarinnar, það væri nóg að gefa hlé, þegar þess væri óskað, til. þess að nefndin gæti athugað málið. En hins vegar hefur það oft tíðkazt líka, að málum hefur, þegar þau hafa komið til einnar umræðu aftur, beinlínis verið vísað til nefndar, og er alls ekki óalgengt í þinginu.

Ég álít þess vegna, að sá lagalegi réttur sé með minni tillögu, og ég vildi mega mælast til þess, að ef það verður borið upp að vísa málinu til nefndarinnar, þá sé það samþykkt. En ég gæti líka fellt mig við þann úrskurð hæstv. forseta, að umr. sé frestað og fjhn. gæfist tækifæri til að ræða málið svo að segja af sjálfu sér. Það er líka afgreiðsla á málinu, sem hægt er að sætta sig við.