04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson) [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði þar komið ræðu minni í gærkvöld eða réttar sagt í nótt, að það voru örfáar spurningar, sem ég vildi bera upp fyrir hæstv. fjmrh. Nú gat ég því miður ekki verið hér milli þrjú og fjögur, og þá var hann hérna, og nú er ég kominn aftur í pontuna, og þá er hann ekki hérna. Það vill ganga hálferfiðlega. Ekki vil ég kenna honum um það núna, en vænt þætti mér um, ef hann væri látinn vita, ef hann mætti rétt skjótast upp, annars mun ég bera fram mínar fsp. og tjá honum þær þá utan fundarins á eftir.

Ég hef á þskj. 53 lagt fram mitt nál. sem 1. minni hl. fjhn. Það, sem ég fyrst og fremst deili á í sambandi við þetta mál, það er að ætla sér að afgr. þetta frv. sem lög um bráðabirgðafjárgreiðslur, án þess að áður hafi farið fram sú umr. á Alþingi, 1. umr. um fjárl., þar sem orðin er föst venja að fjmrh. gefi mjög ýtarlega og mikla skýrslu um ástand ríkisbúskaparins. Enn fremur deili ég á það, að eins og ég hef greint í sambandi við annað mál á dagskránni, þá óttist ég, að ríkisstj. sé að búa sig undir að taka mjög skaðlega stefnu í efnahagsmálunum og kunni að slá þeirri stefnu fastri sem sinni, áður en hún hefur gefið Alþingi tækifæri til þess að ræða slíka stefnu eða slíka stefnubreytingu við hæstv. ríkisstjórn.

Ég álit þess vegna, að Alþingi beri að skapa hæstv. ríkisstj. það aðhald, að hún geri þetta tvennt, áður en þingið sé sent heim. Alþingi hefur vald á því, að það er ekki hægt að senda það heim, fyrr en búið er að samþ. þessi lög og raunar fleiri. Þess vegna álít ég, að það sé rétt af þessari hv. d. að gera það að skilyrði fyrir að samþ. þessar bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði á tveim fyrstu mánuðum næsta árs, að áður hafi ríkisstj., eins og greinir í rökstuddu dagskránni, í fyrsta lagi gert við 1. umr. fjárlaga grein fyrir ástandi ríkissjóðs, eins og lög mæla fyrir, og í öðru lagi skýrt Alþingi frá efnahagsstefnu sinni. Þessu tvennu sé fullnægt, hæstv. ríkisstj. geri þetta tvennt, skýri Alþingi við 1. umr. fjárlaga frá ástandi ríkissjóðs, þannig að alþm. hafi raunverulega grundvöll og ekki neinar sögusagnir eða óákveðnar tölur að byggja á í því sambandi, og í öðru lagi skýri Alþingi frá efnahagsstefnu sinni, ef ríkisstj. er komin það langt, eins og virtist af yfirlýsingu, sem hraut út úr hæstv. fjmrh., að hún er búin að ákveða, hvaða nýtt efnahagskerfi hún ætlar að taka upp, — sé hún hins vegar ekki búin að ákveða þetta, hafi það ekki verið að öllu leyti rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði hér, — ég held, að það hafi verið í Sþ. í fyrradag, — þá skýri hún Alþingi frá, hvaða bollaleggingar hún er með viðvíkjandi efnahagsstefnunni. Ég hef reynslu af því, að ef ríkisstj. fer að ákveða það í löngu þinghléi, hvaða stefnu hún ætlar þannig að taka upp, þá verður þetta nokkuð einhliða ákveðið og athugað. Þá er hætta á, að þær ráðleggingar, sem fram kynnu að koma, sérstaklega frá stjórnarandstöðunni, í þessum efnum, þær sem máske hefðu verið teknar til greina, ef þær hefðu komið fram, á meðan hæstv. ríkisstj. var enn þá með málið á umhugsunarstigi, verði ekki teknar til greina, þegar ríkisstj. er búin ásamt sínum þingflokkum að koma sér endanlega niður á þetta.

Þess vegna eru þær spurningar, sem ég vildi í sambandi við þá afstöðu, sem ég hef lýst, og mína rökstuddu dagskrá bera fram til hæstv. fjmrh., þessar:

1. Vill hæstv. fjmrh. og ætlar hann nú, áður en Alþingi yrði sent heim og þessi lög samþ., gefa Alþingi yfirlit yfir ástand ríkissjóðs og útflutningssjóðs, svo sem venja hefur verið til, föst og næstum lögbundin, að gert hefur verið í sambandi við 1. umr. fjárlaga? — Þetta er mín fyrsta spurning.

2. Svo framarlega sem þessu væri svarað neitandi, — sé því svarað játandi, að hæstv. fjmrh. ætli að gefa okkur þessa skýrslu, þá þarf ekki að svara annarri spurningunni, — en ef hann skyldi svara því neitandi, þá er mín önnur spurning: Hve mikið fé er það, sem að áliti hæstv. fjmrh. vantar á næsta ári í ríkissjóð og útflutningssjóð? Það hafa verið á reiki þær tölur, sem kastað hefur verið fram í þessu sambandi. Eitt blað borgarinnar hefur það eftir hæstv. forsrh., að hann hafi átt að segja á fundi í stjórnmálafélagi Sjálfstfl., Varðarfélaginu, að það mundi vanta um 250 millj. kr. Okkur heyrðist hæstv. fjmrh. segja hér í fyrradag, að það mundi vanta í þessa sjóði 200–300 millj. kr., en hins vegar höfðum við, að því er manni skildist, yfirlýsingar frá þeirri ríkisstj., sem hefur setið að völdum lengst af þessu ári, um, að þetta væri allt í mjög góðu lagi. Ég vildi þess vegna, ef fyrstu spurningunni eða óskinni yrði svarað neitandi, leyfa mér að spyrja: Hvað er það, sem vantar í þessa sjóði? Eru það 200 millj., 250 millj., 300 millj. eða eitthvað annað? Og hvernig fær það staðizt samanborið við yfirlýsingar fyrrv. ríkisstjórnar?

3. spurning mín er svo út frá því, sem hæstv. fjmrh. sagði, — ég held líka í fyrradag, — að það væri ákveðið, það væri stefna ríkisstj., held ég að hann hafi orðað það, að taka upp nýtt efnahagskerfi. Hvert er þetta nýja efnahagskerfi, sem ríkisstj. hefur ákveðið að taka upp?

Ég skal geta þess, um leið og ég legg þessar þrjár spurningar fyrir hæstv. fjmrh., að í sambandi við annað mál, sem er hér á dagskránni nú á eftir, bráðabirgðabreytingu og framlengingu nokkurra laga, eða „bandorminn“, eins og hann hefur verið kallaður, þá kom ég fram í umr. í gær, 1. umr. um það mál, með mjög margar fsp., sem snerta það mál, sérstaklega í sambandi við söluskattinn, og enn fremur kom ég þar með nokkrar ágizkanir í sambandi við það hugsanlega efnahagskerfi, sem hæstv. ríkisstj. kynni að vera að hugsa um að taka upp, svo fremi sem það gengi erfiðlega að fá að vita beint frá hæstv. fjmrh. um þetta nýja kerfl. Það mun ég hins vegar ræða í sambandi við „bandorminn“ sjálfan og mun ekki blanda því inn í þessa umr., enda vonast ég til, að það verði líka hægt að ræða við hæstv. fjmrh. í sambandi við það mál, því að þar er margt og mikið. Máske hefur hann þegar fengið boðin um það, því að hér var einn hæstv. ráðh. í gær, sem lofaði mér því statt og stöðugt að flytja hæstv. fjmrh. þau boð og þær spurningar og þær aths., sem ég hafði að gera, sem að vísu voru allmargar. En fari nú svo, að hæstv. ráðh. hafi ekki fengið öll þau skilaboð, þá mundi ég ekki telja eftir mér — (Fjmrh.: Ég hef ekki fengið þessi skilaboð.) Það er nefnilega það. Þá býst ég við, að ég verði í sambandi við næsta mál á dagskránni að endurtaka máske eitthvað af því. Ég var einmitt hræddur um þetta allan daginn í gær og allt kvöldið og var þess vegna mjög mikið að sakna hæstv. fjmrh. Það er aldrei á það að treysta, þegar menn eiga að flytja svona á milli.

Ég ætla þess vegna ekki að orðlengja þetta meira, ekki sízt fyrst hæstv. fjmrh. er nú hér mættur og hefur nú tækifæri til þess að svara þessum spurningum mínum.