20.05.1960
Efri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

166. mál, tollvörugeymslur

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta frv. til athugunar. Á fundi þeim, þar sem málið var tekið fyrir, mættu þeir Sigtryggur Klemenzson ráðuneytisstjóri og Unnsteinn Beck tollgæzlustjóri, og gáfu þeir n. ýmsar gagnlegar upplýsingar um hina tæknilegu hlið varðandi framkvæmd þá, sem fyrirhuguð er á þessum málum. Niðurstaða af athugunum n. er í stuttu máli sú, að n. fellst á þau rök, sem fram hafa verið borin fyrir því, að það að gera kleift að taka þetta fyrirkomulag upp muni í ýmsum dæmum geta haft í för með sér hagkvæmni og sparnað. Mælir n. því með því, að frv. verði samþ., en þó með tveimur minni háttar breyt., sem bornar eru fram á þskj. 485.

Önnur brtt. n. er við 13. gr. frv. og er þess efnis, að heimildir til þess að setja á fót tollvörugeymslur eru ekki, eins og frv. í sinni upphaflegu mynd gerir ráð fyrir, bundnar við Reykjavík og Keflavíkurflugvöll. Það kom að vísu fram á fundi n. með áðurnefndum sérfræðingum, að sú breyt., sem n. leggur til að verði gerð í þessu efni, muni ekki í nánustu framtíð hafa raunhæfa þýðingu, en n. taldi þó rétt að binda þessa heimild ekki við þessa tvo staði, ef aðrir staðir á landinu að öðru leyti fullnægðu þeim skilyrðum, sem lögin gera ráð fyrir að fullnægt þurfi að vera til þess að koma slíkum tollvörugeymslum á fót.

Hin brtt. n. er við 15. gr. og er þess efnis, að við upptalningu þá, sem er í 3. mgr. 15. gr., verði bætt þeim vörum, sem 2. mgr. 11. gr. fjallar um. Það mun nánast hafa verið af vangá, að þetta féll niður í frv., enda mjög eðlilegt, að þær vörur, sem um getur í 2. mgr. 11. gr., falli undir þessa upptalningu.