17.03.1961
Neðri deild: 77. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

209. mál, meðferð opinberra mála

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er ekki nein nýjung, hvorki í opinberum umr.umr. hér á hv. Alþ. Það er efnislega í tvennu lagi, annars vegar að skipa sérstakan saksóknara, sem taki við því hlutverki, sem dómsmrh. hefur gegnt í þeim efnum, og hins vegar fjölga embættum sakadómara.

Fyrra efnisatriði þessa máls hefur oft legið fyrir hv. Alþ. og hefur verið hér á döfinni í aldarfjórðung. Að þessu sinni er það æði seint fram komið, og eins og fram kom í ræðu hv. seinasta ræðumanns, eru það ýmsir, sem álíta, að hv. Alþingi eigi ekki að keyra í gegn á fáum dögum svo þýðingarmikið mál sem þetta. Ég er þessum hv. þm. að vissu leyti sammála. En þetta mál hefur þó þá sérstöðu, að það hefur efnislega verið athugað hér svo oft áður, og þess vegna hef ég af þeirri ástæðu og ýmsum öðrum fylgt meiri hl. n. í því að mæla með því, að frv. nái fram að ganga.

Það er í fyrsta lagi vegna þess, að ég hef um nokkuð langan tíma fylgzt með þeim umr., sem hafa verið um hugmyndina um saksóknara ríkisins, og mér hefur jafnan verið það áhugamál. Einnig er mér fyllilega kunnugt um, að það er fullt nauðsynjamál að skipa fleiri sakadómara. Þess vegna þykir mér rétt að leggja því lið, að málið fái afgreiðslu, og hef skrifað undir nál. meiri hl. allshn., en þó hef ég gert þar á fyrirvara. Sá fyrirvari er til kominn af því, að ég hreyfði því á fundum allshn., hvort ekki væri rétt, að saksóknarinn yrði skipaður samkv. tillögum hæstaréttar. Þetta embætti er nokkuð einstakt í sinni röð. Það yrði lokið þeirri pólitísku ábyrgð, sem fylgir ákæruvaldinu, meðan það er í höndum dómsmrh., og nú yrði þetta mikla vald í höndum embættismanns, sem nýtur mikillar verndar, eins og opinberir embættismenn gera. Það er þess vegna alveg ljóst, að það verður að vanda sérstaklega til vals á þeim manni, sem þessu embætti gegnir. Nú dettur mér sízt í hug að vantreysta núv. hæstv. dómsmrh. né nokkrum öðrum, sem gegnt hefur því embætti eða er líklegur til þess að gegna því, til þess að velja góðan mann til þessa embættis. En það er ekki nóg, að dómsmrh. geri það. Það er einnig nauðsyn á því, að það sé almennt traust á því í þjóðfélaginu, að svo hafi verið. Þess vegna eru rök mín fyrir þessari brtt. skyld þeim rökum, sem hæstv. dómsmrh. bar fram fyrir því, að stofnað yrði sérstakt saksóknaraembætti, í ágætri framsöguræðu sinni fyrir málinu við 1. umr. í þessari hv. d. Hann benti á, að það væri ekki svo mikil hætta á því, að dómsmrh. misbeitti valdi sínu sem ákærandi. En hins vegar taldi hæstv. dómsmrh., að í kringum slíkt vald, meðan það væri í höndum stjórnmálamanns, gæti auðveldlega skapazt pólitísk tortryggni. Ég er alveg sammála hæstv. dómsmrh. um það, að engin ástæða er til þess að vantreysta dómsmrh. í þessum efnum. En það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir tortryggni meðal almennings, og það gildir ekki einungis um meðferð ákæruvaldsins í hverju einstöku tilfelli, heldur ekki síður um skipun þess embættismanns, sem með þetta vald á að fara. Af þessum ástæðum hefur mér þótt rétt að kanna undirtektir hv. þdm. undir þessa hugmynd og hef flutt um þetta brtt. á þskj. 525. Það er sannfæring mín, að ef þessi brtt. yrði samþykkt, mundi það auka traust almennings á þessu mikilvæga embætti og draga úr möguleikunum á því, að í kringum það skapaðist pólitísk tortryggni.

Þó að það séu í sjálfu sér ekki nein rök, hvað sagt hafi verið eða álitið fyrir nær 30 árum, vil ég þó að lokum geta þess, að hæstv. núv. fjmrh. bar fram frv. til laga árið 1934 um opinberan ákæranda, sem gekk í þessa sömu átt, og í 1. gr. þess frv. er gert ráð fyrir því, að þáv. handhafi æðsta valds í landinu, nefnilega konungurinn, skipi opinberan ákæranda eftir tillögu hæstaréttar. Og þau rök, sem hæstv. fjmrh. færði fyrir þessu á þeim tíma, eru á þann veg, að mér virðast þau enn vera í fullu gildi.