23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mig langar til þess að leggja nokkur orð í belg í sambandi við umr. um það frv., sem hér liggur fyrir.

Við þm. máttum áðan sannarlega hlýða á hina heilögu vandlætingu í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. Ef vandlætingin fólst ekki í sjálfum orðunum, þá var reynt að láta hana felast í blæbrigðunum og framsetningunni. Það var út af fyrir sig ekkert óskemmtilegt, og þessum hv. þm. fer stöðugt fram í leikaraskap sínum. Hann skemmtir okkur með honum í þingveizlum, og þar er þetta mjög vel rómað og ég hef notið þess vel þar, skemmt mér vel og vona með hliðsjón af því, að fram undan er nú ein þingveizlan, að við fáum að hafa okkur þetta til skemmtunar í þeirri veizlu ekki síður en verið hefur í fyrri þingveizlum. Hitt er svo annað mál, hversu lengi þessi leikaraskapur fer vel hér í ræðustólnum í hv. Nd., og spurningin er: Hversu sönn er nú þessi vandlæting og þessi vandlætingartónn og hversu einlægur í raun og veru, þegar hann er krufinn til mergjar? Hæstv. viðskmrh. hefur svarað því að verulegu leyti með því að víkja efnislega að ýmsu því, sem þessi hv. þm. hafði að athuga við það frv., sem hér liggur fyrir, en þó eru ýmis atriði, sem ég vildi til viðbótar víkja nokkuð að.

Hv. þm. segir, að hann sé algerlega á móti þessu frv., að það sé gagnslaust og tilgangur þess sé aðeins að fjölga bankastjórastöðum í Seðlabankanum, fjölga þar bankastjórum um einn. Og hann vék nokkuð að umræðunum, sem fram höfðu farið hér um bankamálin 1957, þegar vinstri stjórnin lagði fram sín frumvörp um bankamálið, Landsbankann og Útvegsbankann og fleiri banka, og taldi, að við hefðum þá ýmsir, sem töluðum á móti þessum málum, haft nokkuð aðra skoðun á þeim en nú. Út af þessu vil ég segja, að það var með allt öðrum hætti, sem sá málflutningur varð til, heldur en nú á sér stað og með allt öðrum tilgangi, og um það verður ekki deilt, því að þeim tilgangi var lýst yfir af þeim mönnum, sem að þessu stóðu þá. Því var lýst yfir af þáverandi stuðningsflokkum vinstri stjórnarinnar, að það bæri nauðsyn til þess, og það var sett fram í kosningayfirlýsingu og í stjórnaryfirlýsingum, að höfuðástæðan væri sú, að sjálfstæðismenn hefðu hreiðrað um sig í peningastofnunum landsins og þar misbeitt svo valdaaðstöðu sinni, að við það yrði ekki lengur unað, og í framhaldi af því yrði að gera breytingar á bankalöggjöfinni. Framhaldið af því varð, að meginbreytingarnar í bankalöggjöfinni þá voru það að koma fyrir 13 stjórnarstuðningsmönnum í nýjum bankastjórastöðum og bankaráðsembættum. Annað var þar ekki um að ræða umfram það, sem rétt er að viðurkenna, að það var gerð þá veruleg breyting á Seðlabankanum, þó að það skref væri ekki stigið nema til hálfs. Það var þá bent á það af okkur andstæðingum ríkisstj., að það væru engin rök fyrir slíkrí leiðréttingu á bankalöggjöfinni, og það var margsinnis farið fram á, að nefnd væru einhver dæmi til stuðnings þessum tilgangi, en það var aldrei gert undir allri meðferð málanna hér í þinginu, og það hefur aldrei verið gert. Og mér er ósköp vel kunnugt um það, að ýmsir menn, þeir sem að þessum málum stóðu þá og hafa síðar komið inn í bankana, í bankaráð eða bankastjórastöður, hafa látið í ljós, að það hafi glögglega opnazt augu þeirra fyrir því, þó að síðar hafi orðið, að hér voru algerlega tilefnislausar ástæður fram fluttar.

Hæstv. viðskmrh. vék að því í lok ræðu sinnar, á hvern hátt fjárfestingin hefði verið í aðalatvinnuvegum okkar á undanförnum 6 árum og þá einmitt m.a. á þeim árum, áður en vinstri stjórnin tók við, og það hefur nú sannazt, að á þeim tíma, einmitt eftir að mynduð var sameiginleg ríkisstj. sjáifstæðismanna og framsóknarmanna 1953, þá er það fyrst og fremst útlánaaukningin, hin nýja útlánaaukning til kaupfélaganna, til samvinnufélagsskaparins í þessu landi, sem einkennir útlánaaukninguna í landinu og e.t.v. varð undirrótin að því, að hægt var að segja, að útlánaaukningin hefði verið verðbólguskapandi í landinu. Þá á fáum árum, 1954, 1955 og 1956, hygg ég, að útlánaaukningin til kaupfélaganna í landinu hafi numið um 250–300 millj. kr., sem fyrst og fremst lá í nýjum endurkaupum Seðlabankans á afurðavíxlum landbúnaðarins á þeim tíma, sem þessir svo vilhöllu og ósanngjörnu menn höfðu hreiðrað um sig í bönkum landsins. (Gripið fram í.) Það hækkaði um milli 50 og 100 millj. á ári, á árunum eftir 1953, eftir að stjórnarsamstarfið milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna þá hófst. Og þessa sáust merki, því að hvar var það, sem menn fóru um landið þá, sem ekki væru hvað mest áberandi, þar sem komið var í kauptún og kaupstaði, hin nýju og háreistu kaupfélagshús, þær nýju og háreistu kaupfélagshallir, þegar hins vegar mátti með engu móti veita neitt fé af þeim, sem þá fóru með fjárfestingarmálin, til uppbyggingar verzlunar og iðnaðar í höfuðborg landsins, allra sízt í húsbyggingum? Ég sagði: Við máttum hlusta á hina heilögu vandlætingu, og það hefur ævinlega verið svo, að þótt mér sé vel við þennan þm. og hafi átt með honum langt og gott samstarf í fjhn., frá því að ég fyrst kom á þing, þá, ef svo mætti segja, fer það í taugarnar á mér, þegar ég heyri þennan tón, þegar fjargviðrazt er yfir því, hversu níðzt sé á hinum dreifðu byggðum og kaupfélögunum og samvinnufélagsskapnum, á sama tíma sem þessi félagsskapur dró þó til sín hlutfallslega miklu meira fjármagn en nokkur annar sambærilegur félagsskapur eða rekstur í þessu þjóðfélagi.

Þetta bendi ég á til þess að undirstrika það, sem ég sagði, að það hafa legið allt önnur sjónarmið til grundvallar þeirri endurskoðun á bankalöggjöfinni, sem nú á sér stað, heldur en í tíð vinstri stjórnarinnar. Mér er kunnugt um það, að bæði þetta frv, og önnur, sem fram hafa verið borin, hafa verið vandlega undirbúin og með það eitt fyrir augum að koma efnislega betri skipan á þessi mál, en ekki með hliðsjón af því að hrinda einhverju ímynduðu ofurvaldi eða pólitísku valdi andstæðinga, sem þyrfti að taka í hendur núverandi stjórnarsinna.

Það var ekki heldur lítið einkennandi, að þegar var verið að gera breytingarnar á bankalöggjöfinni 1957, þá var einn banki, sem þurfti ekki að hreyfa við. Það var Búnaðarbankinn. Stjórnarsinnar voru þá og framsóknarmenn í hreinum meiri hluta í bankaráði þessa banka, og þar var einn bankastjóri, sem var þeirra flokksmaður og iðulega í framboði og pólitískum herferðum fyrir þennan flokk úti um mismunandi byggðir og kjördæmi þessa lands. Á þeim banka var nú á s.l. þingi gerð breyting, efnisleg breyting, til þess að koma heilbrigðari skipun á málin, einmitt frá sama sjónarmiði og gert er nú í þeim frv., sem hér liggja fyrir. En öllum öðrum bönkum var svo vendilega breytt eða löggjöfinni, að það var m.a. aðalatriðið að breyta ákvæðunum um bankaráðið, og þeim var breytt þannig, að Alþingi átti bara að kjósa fjóra af fimm, svo skyldi ráðh. skipa þann fimmta. Eini og augljósi tilgangurinn með þessu var að hlunnfara stærsta flokk þjóðarinnar, að gera honum ókleift að njóta þess réttar, sem hann styrkleika sínum samkvæmt átti að njóta á löggjafarsamkomu þjóðarinnar.

Það er ekki að búast við því, að málefni, sem þannig eru til komin, standi til lengdar, og þess vegna hlaut að koma að því fyrr eða seinna, að hér yrði gerð á bragarbót, eins og nú er verið að leitast við að gera.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur gefið út nál., óvanalega langt, upp á rétt þrjár síður, um seðlabankafrv. En um hvað fjallar þetta nál.? Það fjallar um aðeins einn þátt þessara mála, þ.e. það ákvæði frv., að Seðlabankanum sé heimilt að ákveða, að nokkur hluti af fé innlánsdeilda kaupfélaganna skuli bundinn í Seðlabankanum á sama hátt og fé sparisjóðanna og bankanna. Um þetta eitt fjallar allt nál., og um þetta er talað í þessum líka vandlætingartón og lögð á það megináherzla, að með þessu sé verið að draga fé frá hinum dreifðu byggðum landsins og til höfuðstaðarins. Og svo mikil áherzla var á þetta lögð, að það mátti helzt á því skilja, að það væri hreinlega verið að stela þessu fé frá þessu fólki úti í hinum dreifðu byggðum. Hv. þm. sagði það ekki, en það var verið að taka féð og binda það í Seðlabankanum. Hæstv. viðskmrh. benti réttilega á, að Seðlabankinn er sameiginleg stofnun landsmanna, og enda þótt eitthvað af fé innlánsdeilda og sparisjóða sé bundið í Seðlabankanum, þá er það. auðvitað eign sparisjóðanna og innlánsdeildanna eftir sem áður, og það er auðvitað alveg óséð um það enn, nema þetta geti orðið hinum dreifðu byggðum til hins mesta gagns, þegar mest þarf á að halda. Slíkar bindingar eigna, eins og hér er um að ræða, fara auðvitað eftir því, hvernig peningamálin eru á hverjum tíma í þjóðfélaginu. Það kann að vera þörf þeirra á víssum tímum, en á öðrum tímum kann að standa allt öðruvísi á, og þetta fé er, eins og ég sagði, eign þessara aðila, styrkir aðstöðu þeirra og gæti komið þeim til miklu meiri styrktar síðar meir en menn í dag gera sér grein fyrir. Auk þess er það ekki dregið frá hinum dreifðu byggðum, það sem í Seðlabankann fer, og megintilgangurinn m.a. með því er að hafa áhrif á jafnvægið í peningamálunum og jafnvægið í byggðum landsins og til þess m.a., að Seðlabankinn hafi aðstöðu til þess að veita þessu fé og öðru í framleiðslustarfsemina fyrst og fremst, í útflutningsframleiðslu þjóðarinnar, eins og gert var á s.l. ári. Það fé, sem dregið var frá sparisjóðum og peningastofnunum utan af landi og bundið i Seðlabankanum, hefur að langmestu leyti, ef ekki allt og miklu meira, farið í útlán út á landið, út í verstöðvarnar í hinum dreifðu byggðum til þess að halda uppi framleiðslustarfseminni og útflutningsframleiðslu landsmanna á þessum stöðum. Þarna liggur þetta fé. Ærin, sem tekin var að vestan, það getur vel verið, að hún liggi núna í fiski í Vestmannaeyjum eða í einhverri annarri verstöð þessa lands, svo að við förum að tala í myndríku máli eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. Og með þessu, með því að benda á þetta eðli málsins, þá er svarað þeirri spurningu, sem varpað var fram af hv. þm., hver geti bent á nauðsyn þess að gera slíkar fjárkröfur, eins og hann nefndi, á hendur afskekktu byggðarlagi. Það veit enginn, hvaða afskekkt byggðarlag verður svo aðnjótandi þessa fjármagns, sem Seðlabankinn hefur bundið á sínum reikningum, og það miðast auðvitað algerlega við það, hvernig uppbyggingin i þjóðfélaginu er og hvert fjármagninu er veitt í gegnum aðrar peningastofnanir.

Annars þótti mér vænt um það, sem fram kom hér hjá hæstv. viðskmrh., að hann gerði þessum hv. þm. það tilboð, hvort hann mundi vilja fyrir sitt leyti fallast á það eðlilega sjónarmið, að innlánsdeildirnar nytu þá ekki lengur sömu sérréttinda og sparisjóðirnir, og veigamesta atriðið er þar skattfrelsið. Það var á sínum tíma barizt hart af þessum hv. þm. og öðrum þm. fyrir því, að innlánsdeildirnar skyldu njóta sömu réttinda og sparisjóðirnir. Þegar búið er að koma því í kring, að þær njóti sömu réttinda, þá má ekki leggja á þær sömu skyldur. Það er út af því, sem nú er andmælt þessum ákvæðum. En ef þessi hv. þm. vill fallast á það, eins og hæstv. viðskmrh. sagði, að þessar stofnanir nytu ekki þeirrar sömu lögverndar og þeirra sömu sérréttinda, þá segi ég líka fyrir mitt leyti, að þá finnst mér ástæða til að endurskoða þau ákvæði, sem hér er um að ræða, og væri þá kannske allt þetta tilefni til þess, að ákvæðin um innlánsdeildir kaupfélaganna væru tekin til heildarendurskoðunar.

Það er látið í veðri vaka við fólkið, að þetta séu sparisjóðir, þetta séu sparideildir kaupfélaganna, og það er meira að segja gert yfirboð í sparifé fólksins, borgaðir hærri vextir en sparisjóðir og bankar geta boðið eða hafa boðið. Svo safnast féð fyrir. Svo kemur fólkið og vill taka út féð. Nei takk, herra minn. Það liggur ekki fyrir. Þetta er samkvæmt lögunum um rekstrarfé kaupfélaganna, og rekstur kaupfélagsins í dag þolir ekki, að féð sé útborgað, svo að þú færð ekkert útborgað. — Væri ekki rétt að athuga þetta allt saman?

Eðli málsins er svona, og það er hægt að færa mörg dæmi fram þessu til sönnunar. Lögin eru svona, og ef hv. þm. hefur ástæðu til þess að segja, að þetta sé ekki svona, og rengja þetta, þá getur hann komið upp og talað á eftir mér. En honum hefur ekki nægt að stýra innlánsdeild kaupfélaganna, hann þurfti líka að stýra útibúi Búnaðarbankans. Það er eitt dæmið um það, að framsóknarmenn ætla sér venjulega nokkuð annan hlut en öðrum.

Það er þannig goðgá, að sjálfstæðismaður sitji í bankastjórn bankastofnunar með öðrum mönnum, við hliðina á framsóknarmönnum og Alþýðuflokksmönnum og Alþýðubandalagsmönnum. En hitt eru talin alveg sjálfsögð forréttindi framsóknarmanna, að sitja einir í einni af stærstu bankastofnunum landsins og víðast í útibúum þeirra, bæði nýreistum og eldri.

Hv. 4. þm. Austf. (LJós) ræddi um þessi ákvæði hér varðandi bindinguna á innlánsdeildum kaupfélaganna og lýsti þeirri skoðun sinni, að þetta væru ekki almennar peningastofnanir. Ég er honum efnislega alveg sammála um þetta. Hér er einmitt um aðrar peningastofnanir að ræða en sparisjóðina, og þá er rétt að endurskoða og taka til athugunar einmitt lagaákvæði um þessar stofnanir, bæði þau, sem veita þeim réttindi, og þau, sem leggja á þau skyldur. Fyrir mitt leyti skal ekki standa á mér i fjhn. að ræða þessi mál einmitt út frá þessu sjónarmiði við hv. 4. þm. Austf. og hv. 1, þm. Norðurl. v. Hv. 4. þm. Austf. komst beinlínis þannig að orði, hann sagði: Þetta eru stofnanir, sem reknar eru fyrir aðra starfsemi en almenna peningastarfsemi. — Þær eru reknar fyrir aðra starfsemi.

Ég skal svo aðeins víkja að því, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. lagði megináherzlu á í ræðu sinni efnislega í sambandi við frv., og það eru 11. og 12. gr., að hann a.m.k. treysti hv. þm. til þess að greiða atkv: á móti þeim. Nú er það svo, eins og bent hefur verið á og kemur fram í grg þessa frv. og fram hefur komið í umr., að ákvæðin í frv. varðandi rétt Seðlabankans til þess að binda fé sparisjóða og peningastofnana eru mjög mikið takmörkuð, miðað við það, sem áður var, í þeim lögum, sem hann og hans flokksmenn stóðu að því að samþ. 1957. Þar var sagt í 16. gr. landsbankalaganna frá 1957, að stjórn Seðlabankans væri heimilt að ákveða, að bankar og sparisjóðir skuli eiga innistæður í Seðlabankanum og hve miklar, það gat Seðlabankinn ákveðið, enda skal stjórnum banka og sparisjóða skylt að veita Seðlabankanum upplýsingar um starfsemi sína, svo sem um innlán og útlán. Seðlabankinn hefur sem sagt eftir núgildandi lögum ótakmarkaða heimild til þess að binda innistæður banka og sparisjóða í Seðlabankanum. En í þessu frv. er heimild hans takmörkuð við 20% af innistæðufé viðkomandi stofnana, sem ávísa má á með tékka, og takmörkuð við 15% af öllum öðrum innistæðum.

Þeir, sem hafa staðið að því að segja: Þetta er Seðlabankanum alveg ótakmarkað og frjálst og heimílt að ákveða án nokkurrar bindingar, þeir fyllast nú vandlætingu yfir því, að það skuli vera sett þau takmörk á, að Seðlabankinn megi aldrei gera kröfurnar hærri en svo, að þar verði um 20 eða 15% hámark að ræða.

Í 12. gr. er Seðlabankanum heimilað að ákveða, að innlánsstofnanir, sem um ræðir í 10. gr., skuli eiga ríkistryggð verðbréf eða önnur trygg verðbréf, er nemi allt að 10% af innstæðum hjá þeim, nema hærri upphæð sé ákveðin í lögum. Þetta eiga þm. alveg sérstaklega að fella. Nú er það svo, að í landsbankalögunum, útvegsbankalögunum og í öllum öðrum bankalögum, sem hér hafa verið samþ., er það í lögum þessara banka sjálfra, að þeir skuli eiga a.m.k. 15% af innistæðufénu í ríkistryggðum eða á annan hátt vel tryggðum bréfum, enda segir hérna: Ef ekki er hærri upphæð ákveðin í lögum, er tiltekið mark 10%. En bæði í útvegsbankalögunum og landsbankalögunum, sem fyrir liggja, í þeim lögum sjálfum er bönkunum sett, að þeir verði að eiga 15% í slíkum tryggðum bréfum. Þetta eru öryggissjóðir og alveg nauðsynlegir öryggissjóðir þessara peningastofnana, og þegar settar eru upp svona peningastofnanir, eins og t.d. Verzlunarbankinn, sem sett voru lög um á s.l. ári, var í till. frá þeim mönnum sjálfum, sem setja upp þennan banka, alveg sambærilegt ákvæði.

Það hefur verið einn af erfiðleikunum við bankareksturinn á undanförnum árum hjá okkur, hvað bankarnir hafa verið lítið „liquid“ og greiðsluerfiðleikar þeirra hafa oft verið miklir. Þeir hafa átt litla sjóði og eiga alls ekkí neina daglega sjóði, má segja, og þeirra öryggi felst fyrst og fremst í því að eiga í fórum sínum, ef þeir þurfa að mæta óeðlilegum sveiflum, nægjanlega mikil tryggð verðbréf, sem þeir þá geta til bráðabirgða fengið lán út á hjá Seðlabankanum og sett að veði fyrir slíkum lánum, sem Seðlabankinn veitir þessum stofnunum.

Sama ákvæði er í sparisjóðalöggjöfinni, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. vék að. Svo vildi hann telja þetta allt saman: það eru 10% í sparisjóðslögunum, 10% í seðlabankalögunum og 10 og 15% í lögunum um bankana sjálfa, og þá er nú orðið æði lítið eftir til þess að moða úr. Er furðulegt, að jafnglöggur fjármálamaður og hér á hlut að máli skuli gera sér leik að málflutningi eins og þessum.

Það er ekkert, sem felst í 12. gr. þessa frv., sem ekki er í allri bankalöggjöfinni og einnig í sparisjóðalöggjöfinni, og í 11. gr. er stórkostleg takmörkun á heimild Seðlabankans til fjárbindingar fram yfir það, sem áður hefur verið. En þessu á alveg sérstaklega að gjalda varhuga við, og beinir hv. þm. áskorun til þm. um að fella þetta a.m.k., skorar sérstaklega á þm. að greiða atkv. gegn 11. og 12. gr.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta nú. Mér er kunnugt um það, eins og ég sagði áður, að undirbúningur þessa máls hefur verið mjög vandaður, og ég er sammála hv. 6. landsk. þm., frsm: meiri hl. fjhn., að með samþykkt þessa frv. og ef það verður að lögum er mjög merkilegt spor stigið í peningamálum og bankalöggjöf þessa lands. Það var stigið spor í áttina 1957. Hér er farið lengra á sömu braut og miklu lengra, og sannleikurinn er sá, að reynslan af þeirri skipan, sem tekin var upp árið 1957, hefur einmitt ýtt undir að taka skrefið til fulls, að gera Seðlabankann lögum samkvæmt að algerlega sjáifstæðri og óháðri stofnun.

Það er líka ánægjulegt, að langmestur meiri hluti þm. mun vera í meginatriðum sammála þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég get alveg fallizt á ýmis þau sjónarmið, sem fram komu í ræðu hv. 4. þm. Austf., að það má segja, að það séu gallar á þessari löggjöf, og formlega er það alveg rétt, að stofnlánadeild, eins og hér er gert ráð fyrir að sé í Seðlabankanum, ætti þar ekki að vera. Hún á að vera annars staðar. Um þetta er mér líka kunnugt, og mikið hefur verið rætt um það við undirbúning málsins. Sannast að segja munu alveg sérstakar ástæður hafa átt sinn drjúga þátt í því og drýgstan þátt í því, að þetta ákvæði er nú í seðlabankafrv., sem hér er lagt fyrir, og það eru tengsl þessa máls við annað frv., sem hér er í þinginu, um opnun nýrra lánaflokka í stofnlánadeildinni, að reyna að rétta sjávarútveginum hjálparhönd og veita lengri lán vegna þess mikla lánsfjárskorts, sem verið hefur á undanförnum árum, en það er fyrst og fremst, eins og hv. þm. vita, hugsað að breyta stuttum lánum í viðskiptabönkunum í lengri lán í stofnlánadeild Seðlabankans. Það mál átti sinn undirbúning á s.l. sumri og mun eiga langdrýgsta þáttinn í því, að að sinni er ekki lengra gengið í þessu efni. En frá sjónarmiði seðlabankalöggjafar út af fyrir sig er það rétt skoðað, að slíkt ákvæði væri annars staðar betur komið. En ríkisstj. og þeir, sem styðja hana og að báðum þessum málum hafa staðið, hafa ekki treyst sér á þessu stigi málsins til að ganga lengra í því efni.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta og lýk máli mínu.