23.03.1961
Efri deild: 80. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Við þessa umr. liggja enn fyrir allmargar brtt., sem ég skal fara nokkrum orðum um.

Nú hafa verið lagðar fram þær brtt., sem ég boðaði og fjhn. stendur sameiginlega að. Þessar till. eru í rauninni báðar aðeins til leiðréttingar, og legg ég að sjálfsögðu til, að þær verði samþ.

En eins og ég tók fram við 2. umr. málsins, hef ég haft til athugunar síðan þá brtt. á þskj. 548 frá hv. 3. þm. Norðurl. v. Því miður hefur ekki verið unnt sökum annríkis að hafa fund í fjhn., þannig að það, sem ég segi hér, eru aðeins skoðanir mínar, en aðrir hv. nm. eru óbundnir af því. En ég hef, eins og ég talaði um við 2. umr. málsins, rætt þessar tili. við sérfræðinga þá, sem undirbjuggu seðlabankafrv., og á grundvelli þeirra viðræðna hef ég komizt að þeirri niðurstöðu um einstakar brtt., sem ég mun nú segja frá í nokkrum orðum.

Hvað snertir 1. brtt., við 15. gr. frv., sem er í rauninni aðeins orðalagsbreyting, þannig að í stað þess að talað er um, að Seðlabankinn hafi heimild til þess að kaupa og selja ríkisskuldabréf og önnur fyrsta flokks verðbréf, komi í staðinn fyrir „fyrsta flokks verðbréf“: trygg verðbréf, þá tel ég, að það orðalag sé til bóta og mun greiða þessari brtt. atkv.

2. brtt. er þess efnis, að nú þegar sé gert ráð fyrir því í lögunum, að Búnaðarbanki Íslands fái heimild til þess að verzla með erlendan gjaldeyri. Ég sé mér ekki fært að mæla með samþykkt þessarar brtt. Sú leið hefur verið valin í þessu efni að gera ráð fyrir því að svo stöddu, að aðeins þeir tveir viðskiptabankar, sem gjaldeyrisverzlun hafa með höndum, Útvegsbankinn og Landsbankinn, eins og hann kemur til að heita nú, hafi þessa heimild áfram, en hins vegar er veitt í 19. gr. heimild til handa bankastjórn Seðlabankans að leyfa öðrum bönkum svo og póststjórninni að verzla með gjaldeyri innan þeirra takmarka, sem hún ákveður. Ég tel nægilegt, að þessi heimild sé fyrir hendi, og ekki ástæður til þess að taka af þeim þremur viðskiptabönkum, sem nú eru starfandi og hafa ekki leyfi til þess að verzla með erlendan gjaldeyri, einn út úr og ákveða þegar í stað, að sá banki fái þessa heimild. Ég hygg, og það hefur komið fram í umr. um þessi mál, að nokkurn undirbúning þurfi til þess af hálfu þeirra viðskiptabanka, sem hafa ekki áður haft slíkt leyfi, að þeir verði færir um að leysa þetta hlutverk af hendi. Tel ég því eðlilegt, að heimild til handa öðrum viðskiptabönkum en þeim, sem þegar hafa gjaldeyrisverzlunina, sé látin bíða, þar til seðlabankastjórnin telur, að þeir að öðru leyti fullnægi eðlilegum skilyrðum í þessu efni, og telur að öðru leyti eðlilegt, að fleiri bankar hafi þessi réttindi, þannig að í stuttu máli legg ég til, að þessi tili. verði að svo stöddu felld.

Næstu brtt. hv. 3. þm. Norðurl. v. ganga út á það, að í stað þess að nota orðið bankastjórn um þrjá bankastjóra Seðlabankans sé notað framkvæmdastjórn. Það er efni 3. og 4. brtt. og 5. brtt., stafl. a. Ég er hv. flm. í rauninni sammála um, að betur mundi fara á því að nota orðið framkvæmdastjórn en bankastjórn, því að bankastjórn ætti í rauninni eðli málsins samkvæmt að vera nokkru víðtækara hugtak. Annað mál er það, að sá agnúi er á því að samþykkja þessar brtt., að það yrði einnig að breyta til samræmis samsvarandi ákvæðum í frv. um Landsbanka Íslands og Útvegsbankann, þannig að þau frumvörp, sem annars hefur ekki verið breytt í þessari hv. d., yrðu þá einnig að fara til Nd. Í öðru lagi tel ég, þó að ég mundi að vísu telja það orðalag, sem hv. flm. leggur til, betra, að í lögunum komi það svo skýrt fram, hvað átt er við með bankastjórn, að það muni ekki valda sérstökum misskilningi, þó að þetta sé óbreytt, þannig að tillaga mín hvað þessar tillögur snertir er sú, að þær verði ekki samþykktar, af þeim ástæðum, sem ég hef greint.

Stafl. b í 5. brtt., sem er við 26. gr. frv., gengur út á það, að í l. séu ákveðin fyrirmæli um það, hverjir hafi umboð til þess að skuldbinda bankann. Sérfræðingarnir, sem ég ræddi við, sögðu, að þeirra ætlun hefði að vísu verið sú, að um þetta yrðu sett ákvæði í reglugerð. Hins vegar sé ég, að í l. um Landsbankann og Útvegsbankann eru samsvarandi ákvæði í l. sjálfum. Mér finnst því, að meira samræmi væri í því að setja slík ákvæði einnig í lögin um Seðlabankann, op þar sem brtt. er einmitt í fullu samræmi við ákvæði hinna lagafrv. hér að lútandi, þá legg ég til, að þessi brtt. verði samþykkt.

6. brtt. gengur út á það, að Alþingi kjósi endurskoðendur bankans, þar sem frv. gerir ráð fyrir því, að bankaráðið sjái um endurskoðunina. Það er auðvitað álitamál, hvað sé réttara í þessu efni, og verulega efnislega þýðingu hefur það að mínu áliti ekki, hvor leiðin mundi vera farin, því að bankaráðið er kosið af Alþingi, þannig að þeir, sem í því eiga sæti, eru fulltrúar Alþingis gagnvart bankanum, þannig að óbeint má segja, að það sé í umboði Alþingis, sem endurskoðunin fer fram, þó að frv. væri samþykkt óbreytt. Sérfræðingarnir tjáðu mér, að það, sem fyrir þeim hefði vakað með því að gera ráð fyrir því, að bankaráðið sæi um endurskoðunina, væri, að bankaráðsmenn fengju meira aðhald um það en ella að kynna sér málefni bankans, fjárreiður o.s.frv. Þetta verður auðvitað matsatriði, en ég lít svo á, að þetta atriði hafi ekki þá þýðingu, að ástæða sé til þess að samþykkja þessa brtt.

7. brtt. fjallar um þagnarskyldu starfsmanna bankans. Ég sé það við nánari athugun, að það er að víssu leyti ósamræmi í ákvæðum, sem lúta að þessu, hvað snertir seðlabankafrv. annars vegar og frumvörpin um viðskiptabankana hins vegar, þar sem auðsætt er, að þagnarskylduákvæðin í seðlabankafrv. eru miklu strangari en samsvarandi ákvæði í frumvörpunum um viðskiptabankana. Í rauninni finnst mér þetta öfugt við það, sem eðlilegt væri, því að telja verður líklegt, að starfsmenn viðskiptabankanna komist að miklu fleiri leyndarmálum en starfsmenn Seðlabankans. Ég tel það því til bóta, að þessi brtt. verði samþykkt, og legg það til.

8. og síðasta brtt. á þskj. 548 gengur út á það, að í reglugerð skuli sett fyrirmæli um lífeyrissjóð starfsmanna bankans. Hér er aðeins um það að ræða, hvort þessi ákvæði skuli vera í reglugerð eða lögum, og má á það benda, að í 31. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að bankaráð ákvarði laun bankastjóra og annarra starfsmanna bankans svo og eftirlaun. Í frv. um viðskiptabankana eru samsvarandi fyrirmæli og í frv. um Seðlabankann. Þar er einnig gert ráð fyrir því, að slík ákvæði skuli sett í reglugerð. Ég teldi því meira samræmi í því að hafa þetta óbreytt og get ekki mælt með þessari síðustu brtt. En annars er hér aðeins um það að ræða, hvort þessi ákvæði eigi að vera í reglugerð eða lögum, og við undirbúning laganna hefur verið gengið út frá því sem eðlilegum og sjálfsögðum hlut, að um þetta yrðu sett ákvæði í reglugerð, þó að það sé ekki beint tekið fram í lögunum sjálfum að öðru leyti en því, sem stendur í 31. gr. og hér er vitnað í.

Að lokum vildi ég aðeins fara örfáum orðum um brtt. á þskj. 579, sem borin er fram af hv. 9. þm. Reykv., þess efnis, að breytt sé nafni bankans, þannig að í stað nafnsins „Seðlabanki“ komi: Þjóðbanki. Ég skal ekki draga neina fjöður yfir það, að ég tel, að frá hinu fræðilega sjónarmiði séð sé Seðlabankaheitið ekki alls kostar heppilegt, vegna þess að seðlaútgáfan er aðeins hluti af því hlutverki, sem bankanum er ætlað. Og ef skipta ætti um nafn, þá kæmi nafnið Þjóðbanki náttúrlega mjög til álita. Hins vegar eru að mínu áliti tveir agnúar á því að gera þessa nafnbreytingu, sem ég tel það mikla, að ég sé mér ekki fært að mæla með því, að þessar brtt. verði samþ., þó að ég viðurkenni fullkomlega þau rök, sem þeim liggja að baki. Má í fyrsta lagi nefna það, að nafnið Seðlabanki, þó að það sé e.t.v. ekki alls kostar heppilegt, hefur nú þegar fengið talsverða hefð. Þetta nafn hefur í rauninni haldizt allt frá því að lögin um Landsbankann voru sett árið 1927, en þá var honum skipt í þrjár deildir, seðladeild, sparisjóðsdeild og veðdeild, en seðladeildin fékk þá þegar nafnið Seðlabanki. Þótt orðið væri mjög rótgróið í daglegu tali að tala um seðladeild, þá hét hún frá upphafl Seðlabanki. Þegar aðskilnaðurinn var gerður í milli seðlabankans og viðskiptabanka Landsbankans með bankalöggjöfinni 1957, var tekið upp nafnið Seðlabanki, og hefur stofnunin starfað undir því nafni síðan. Annar annmarki, sem mundi vera á nafnbreytingunni, sem er að vísu ekki eins mikilvægur, er sá, að þýðingin á heitinu Landsbanki á ensku máli hefur verið The National Bank of Iceland, og leggur Landsbankinn mikla áherzlu á það, að hann fái eftir þá breytingu, sem nú verður gerð, að halda því nafni áfram og telur það máli skipta fyrir sín viðskipti erlendis. Mér finnst það dálítið andkannalegt, ef maður notar nafnið Þjóðbanki, að þýða það öðruvísi á enska tungu en sem National Bank, sem væri eðlilegasta og réttasta þýðingin. Maður getur auðvitað hugsað sér slíkt, en dálitið væri það andkannalegt, en hitt er sjálfsagt, að fara að óskum Landsbankans um það, að hann þurfi ekki að breyta sínu enska heiti.