15.12.1960
Sameinað þing: 24. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

113. mál, fjáraukalög 1959

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur yfirfarið frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1959 og ekki fundið neitt athugavert við það og leggur einróma til, að það verði samþ.

Það bar á góma meðal fjárveitingarnefndarmanna, að í frumvörpum til fjáraukalaga er að vísu ekki allt tekið með, en sú venja mun hafa skapazt í sambandi við þessi frumvörp. En segja má, að það komi ekki að sök, sérstaklega þegar reikningar fyrir viðkomandi ár eru jafnframt lagðir fyrir þingið, þar sem allt sést, bæði hvað tekjur og gjöld hafa farið fram úr áætlun eða orðið undir áætlun. En í frumvörpum til fjáraukalaga eru einungis teknir þeir gjaldaliðir, sem hafa farið fram úr áætlun, og þó ekki allir, t.d. er ekki tekinn alþingiskostnaður þar með.

Þess má þá einnig geta í sambandi við fjáraukalög fyrir árið 1959, að umframgreiðslur á gjaldaliðum fjárlaga það ár hafa orðið óvenjulega litlar, og jafnframt má á það benda, að frá því ári munu ekki vera neinir ógreiddir víxlar upp á framtíðina.