21.03.1961
Neðri deild: 79. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ein brtt. á þskj. 561, sem ég vildi leyfa mér að gera aths. við, en það er 15. till., þar sem gert er ráð fyrir að breyta kosningu endurskoðenda. Í þessu frv. er yfirleitt gert ráð fyrir, að allar kosningar gildi til fjögurra ára, þ.e. eins og kjörtímabil sveitarstjórnar er, og var svo einnig með endurskoðendur. Ég sé ekki ástæðu til, að það þurfi að hafa þessa kosningu frábrugðna öðrum kosningum, sem fram fara hjá sveitarstjórnum, og ég álít, að það geti verið til þess að skapa meiri festu í störf þessara manna eins og annarra þeirra manna, er þarna starfa, að láta þá starfa heilt kjörtímabil. Ég lít svo á, að það sé einmitt skoðun þeirra, sem að málinu unnu í upphafi, að það ætti að skapa þessa festu með því að gera ráð fyrir, að starfsmenn allir væru yfirleitt ráðnir heilt kjörtímabil. Þess vegna finnst mér, að þessi breyting sé til hins verra. Og ég vildi leyfa mér að mælast til þess við hv. n., að hún félli frá þessari brtt., því að ég sé ekki, að hún sé á neinn hátt til bóta, því að það er ekki frekar ástæða til að ætla, að lélegir menn veldust í endurskoðun, heldur en í önnur störf, sem þó er ætlazt til að þeir sinni í fjögur ár. Af þessari ástæðu leyfi ég mér að fara fram á það við n., að hún taki þessa tillögu til baka.

Ég hefði gjarnan viljað, að n. hefði gert hér fleiri brtt., eins og t.d. við 11. gr., þar sem gert er ráð fyrir valdsviði sýslunefnda gagnvart hreppsnefndum. Ég benti á það við 1. umr. málsins, að þetta væri orðið úrelt fyrirkomulag, sem við notuðum yfirleitt ekki í daglegum störfum og ættum þess vegna ekki að halda í. En þrátt fyrir það, þó að þessar breytingar hafi ekki verið gerðar, þá tel ég málið mjög til bóta frá því, sem er, og vil, að það nái fram að ganga, þó að ég hefði talið æskilegra, að þessi breyting hefði einnig verið á gerð.