21.03.1961
Neðri deild: 79. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta neinar kappræður um þetta mál. En ég vil segja það í fyrsta lagi, að það er svo um suma aðra starfsmenn, sem kosnir eru til fjögurra ára, að það er náttúrlega möguleiki til þess að endurkjósa þá. Hins vegar verður framkvæmdin sú, ef endurskoðendur eru kosnir aðeins til eins árs í senn, þá endurskoða þeir þá reikninga, sem þá liggja fyrir, og er ekki litið á þá sem endurskoðendur á milli þátta. Ef þeir hins vegar eru kosnir til fjögurra ára, eru þeir alltaf til kvaddir, og þeir ættu hægara með að hafa áhrif í sínu starfi, ef þeir væru kosnir allt kjörtímabilið. Og mér finnst óeðlilegt, að þeir séu teknir út úr þeim ramma, sem yfirleitt miðar hér við það, að þessi störf séu öll til fjögurra ára, og er það auðvitað út frá því, að meiri festa skapist um hreppsmálin með þeim hætti. Þess vegna vil ég enn á ný biðja hv. n. að athuga þetta mál, því að þetta er sízt til bóta, en gæti hins vegar orðið til hins verra, því að það hvílir vissulega meiri ábyrgð á endurskoðanda, sem er kosinn til fjögurra ára í senn, heldur en þeim, sem er kosinn til þess að afgreiða eina reikninga.

Út af 11. gr. vil ég segja það, að það er jafnrétt, sem ég benti hér á við 1. umr. þessa máls, að þessi ákvæði, álit sýslunefnda, sem þarna er gert ráð fyrir að þurfi að leita eða fá samþykki til, þau eru jafnúrelt og þýðingarlaus, þó að ráðuneytisstjóri eða einhver annar hafi lagt sína blessun yfir þau. Ég vil segja það, að þegar er verið að setja nýja löggjöf, á hún að miðast við þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi, en ekki við þá framkvæmd, sem eðlileg var, þegar þau lög voru sett, sem við erum nú að afnema.