24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Mál það, sem þetta frv. fjallar um, jafnrétti kvenna og karla um launakjör, er ekki nýtt af nálinni hér á hv. Alþ. Frumvörp hafa verið flutt varðandi það efni, og þegar hefur allmikið áunnizt. Þegar ég segi, að allmikið hafi áunnizt, hef ég þar fyrst og fremst í huga ákvæði laga um launajafnrétti kvenna og karla i þjónustu ríkisins. Frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var á sínum tíma samið af hæstv. núv. fjmrh., Gunnari Thoroddsen, að beiðni ríkisstj. Hann skilaði um það frumvarpi til stjórnarinnar árið 1951, en stjórnin lagði það fyrir Alþingi 1953, mjög lítið breytt. Tillögur Gunnars Thoroddsens um launajafnrétti kvenna og karla og grg. fyrir þeim, sem hvort tveggja var lagt fyrir þingið óbreytt, voru á þessa leið:

„Konur og karlar hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf.“ Þetta ákvæði er í niðurlagi 3. gr. l. um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Í grg. með frv. sagði um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta: „Í lok 3. gr. eru settar tvær meginreglur um jafnrétti kvenna og karla um opinber störf:

1. Konur og karlar skulu hafa jafnan rétt til opinberra starfa. Með lögum nr. 37 frá 1911 var svo ákveðið: „Til allra embætta hafa konur sama rétt og karlar, enda hafa þær í öllum greinum, er að embættisrekstri lúta, sömu skyldur og karlar.“ Með ákvæði þessa frv. er jafnréttisreglan látin ná til allra opinberra starfsmanna. Ef ákvæði kynnu að finnast í einstökum lögum, reglugerðum eða öðrum fyrirmælum í þá átt, að karlar einir eða konur einar hafi rétt til einhvers opinbers starfs eða forgangsrétt, munu slík ákvæði falla úr gildi með lögfestingu þessa frv. Slík ákvæði munu þó tæpast til í íslenzkri löggjöf, nema ef skilja ber 3. gr. l. nr. 76 20. des. 1944, um Hjúkrunarkvennaskóla Íslands, þannig, að skipa megi konur einar til þess að veita skólanum forstöðu.

2. Konur og karlar skulu hafa rétt til sömu launa fyrir sams konar störf. Meginsjónarmið við ákvörðun launa á að vera hæfileikar og þekking, en ekki kyn. Hér er því slegið föstu jafnrétti kvenna og karla um launakjör.“

Þetta var úr grg. frv. Í framsöguræðu sagði þáv. fjmrh. um þetta atriði frv. orðrétt svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar er og ákveðið, að konur og karlar hafi jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf. Er þetta í sjálfu sér mjög þýðingarmikið atriði.“

Með frv. þessu og l. frá 1954, um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, er stefnan mörkuð svo ljóst sem verða má um ríkisstarfsmenn og þar með brautin rudd í löggjöfinni fyrir launajafnrétti kvenna og karla einnig í öðrum starfsgreinum.

Á þingi, er sat 1953-54, fluttu 9 af þm. Sjálfstfl., — þrír þeirra eiga nú sæti í þessari hv. þd., — þáltill. um staðfestingu jafnlaunasamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, um jöfn laun kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf. Þáltill. var breytt nokkuð í meðförum þingsins, og samþykkt var ályktun um að skora á ríkisstj. að undirbúa nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að jafnlaunasamþykktin gæti orðið staðfest á Íslandi.

Á Alþingi 1956–57 var samþ. þáltill. þáv. ríkisstj. um heimild til að fullgilda jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, og jafnframt var samþykkt viðbótartillaga frá einum þm. Reykv., Ragnhildi Helgadóttur, um að fela ríkisstj. að gera ráðstafanir hið fyrsta til, að samþykktin komist í framkvæmd hér á landi.

Samkv. þáltill., sem samþykkt var vorið 1958, skipaði þáv. félmrh. fimm manna nefnd í maí sama ár til þess að athuga, að hve miklu leyti konum og körlum væru greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt störf, og gera tillögur um ráðstafanir til að tryggja fullkomið launajafnrétti. Eins og vikið er að í grg. með frv. því, sem hér liggur fyrir, mun sú nefnd enn ekki hafa skilað tillögum eða boðað, að þeirra væri að vænta á næstunni, svo að vitað sé.

Með fullgildingu á jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar gangast aðildarríkin undir það að vinna að launajafnrétti karla og kvenna. Um það segir svo í 2. gr. samþykktarinnar, sem hljóðar þannig orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Með þeim ráðum, er hæfa þeim aðferðum, sem hafðar eru við ákvörðun launataxta, skal hvert aðildarríki stuðla að því og tryggja það, að svo miklu leyti sem það samrýmist þessum aðferðum, að reglan um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf taki til alls starfsfólks.

2. Þessari reglu skal komið til framkvæmda með: a) landslögum eða reglugerðum, b) ráðstöfunum, sem komið er á eða viðurkenndar eru með lögum til ákvörðunar á launum, c) heildarsamningum milli vinnuveitenda og verkamanna eða d) með þessum mismunandi aðferðum sameiginlega.“

Það er alkunna, að samningaleiðin er sú aðferð, sem tíðkanleg er hér á landi við ákvörðun vinnulauna. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er hins vegar lagt til, að lögboðin verði hækkun í áföngum á kaupi kvenna í tilteknum fjölmennum starfsgreinum, unz fullum launajöfnuði karla og kvenna sé náð. Því skal ekki neitað, að margur mundi telja æskilegra að fara samningaleiðina. En þegar það er haft í huga, hve seint hefur miðað í átt til launajafnaðar með frjálsum samningum og það síðustu árin, þegar kröfurnar um jöfnuð hafa verið hvað háværastar, — þannig hefur á 6 síðustu árum hlutfall kvennakaups í almennri verkakvennavinnu miðað við karlmannakaup aðeins þokazt úr 76 upp í 78%, — þá virðist svo langt í land, að leita verði annarra leiða, og kemur þá tæpast önnur leið til greina en lagasetning, eins og hér er lagt til.

Í jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er miðað við jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf. Eins og vikið er að í grg. með frv., eru fyrirsjáanlegir miklir erfiðleikar við framkvæmd á mati því, sem jafnlaunasamþykktin gerir ráð fyrir á verðmæti hinna ýmsu starfa. Verður því að telja, að sú leið sé bæði auðfarnari og heppilegri að miða við sömu laun fyrir sams konar störf.

Heilbr.- og félmn. hefur haft frv. til meðferðar og hefur sent það ýmsum aðilum til umsagnar og umsagnir borizt frá þeim flestum. Samtök vinnuveitenda, nánar tiltekið Félag ísl. iðnrekenda, Félag íslenzkra stórkaupmanna, Kaupmannasamband Íslands, Vinnumálasamband samvinnufélaganna, Vinnuveitendasamband Íslands og Verzlunarráð Íslands, hafa öll í sameiginlegu bréfi tjáð sig andvíg frv., og miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur einnig lagt gegn frv. Aðrir, sem svarað hafa, eru frv. meðmæltir. Þeir eru: Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Iðja, félag verksmiðjufólks, Landssamband verzlunarmanna. Verkakvennafélagið Framsókn fékk einnig frv. til umsagnar. Það hefur á einhvern hátt misfarizt fundarsamþykkt frá félaginu, áskorun um að samþykkja frv., en formaður félagsins mun hins vegar hafa tjáð formanni heilbr.- og félmn. um þá samþykkt. Aðrir aðilar, sem sent hafa áskorun um að samþykkja frv., eru Verkakvennafélagið Framtíðin í Hafnarfirði, Kvenfélag Alþfl. í Reykjavik, Bandalag kvenna í Reykjavík og 35 kvenfulltrúar á 27. þingi Alþýðusambands Íslands. — Þetta eru þær umsagnir og áskoranir, sem mér er kunnugt um.

Efni þessa frv. er í stuttu máli það: 1) að farið skuli löggjafarleiðina til jöfnunar á launakjörum kvenna og karla í tilteknum starfsgreinum, 2) að greiða skuli sömu laun fyrir sömu störf, en ekki miðað við mat á því, hvað séu jafnverðmæt störf, og 3) að launajöfnuði skuli náð í áföngum á sex árum héðan í frá. Að öðru leyti vísa ég til frv. sjálfs og grg. þeirrar, sem því fylgir.

Heilbr.- og félmn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n., við þrjú, sem stöndum að nál. á þskj. 615, leggjum til, að frv. verði samþykkt óbreytt, en Karl Kristjánsson og Alfreð Gíslason hafa skilað sérálitum og brtt., en Alfreð Gíslason var fjarverandi, þegar málið var afgreitt í nefndinni.