28.03.1961
Sameinað þing: 60. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafur Jóhannesson, lauk máli sínu með því, að nú væri nauðsyn að mynda stjórn á breiðum grundvelli, sem styddist við, að mér skildist, vinnandi menn í sveit og við sjó. Þetta er sama hugsunin og lá til grundvallar fyrir myndun vinstri stjórnarinnar á sínum tíma. En reynslan af henni er ekki þannig, að hún örvi til eftirbreytni.

Þessi hv. ræðumaður spurði líka um afstöðu ríkisstj. í varnarmálunum. Um það vil ég aðeins segja, að ég tel, og ég held, að mér sé óhætt að segja, að það sé afstaða ríkisstj. í heild, að hún telur, að öryggi landsins og öryggi þeirra þjóða, sem standa með okkur í Atlantshafsbandalaginu, eigi að ráða um það, hvort hér verður áfram her í landi, en ekki kommúnistaflokkurinn eða hreyfingar, sem hann stendur að, eins og sú hreyfing, sem hefur kallað sig „Gegn her í landi“ og er af þeim stjórnað og Framsfl. því miður hefur látið blekkjast til að ganga með.

Þessum umr. er nú senn lokið, og væri kannske skaðlítið, þó að fyrr hefði verið. Fátt nýtt hefur komið fram og ræður stjórnarandstöðunnar hafa einkennzt af endurteknum fullyrðingum, sem hafa verið marghraktar áður. En blærinn á umr. hefur mér virzt vera hjá stjórnarandstöðuflokkunum þannig, að ræður kommúnistanna, a.m.k. í gær, voru fullar af illsku og mannhatri, sem greinilegast kom í ljós hjá hv. 7. landsk. þm., Geir Gunnarssyni, — en það, sem einkenndi ræður Framsfl.-manna í gærkvöld, var, að þeir þurftu — ég held allir — að sverja af sér kommúnistastimpilinn, sem þó situr fastur enn eftir sem áður.

Helzta afsökun framsóknarmanna var, að Sjálfstfl. og Alþfl. hefðu áður setið með kommúnistum í ríkisstj. og Alþfl. starfaði með þeim í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þannig að þessum flokkum færist nú ekki að gera sig digra. Hér eins og oft endranær gera þessir menn sig seka um að leyna kjarna málsins með því að segja hálfan sannleikann. Það er út af fyrir sig rétt, að Alþfl. og Sjálfstfl. hafa starfað með kommúnistum og Alþb. bæði í ríkisstj. og bæjarstjórn Hafnarfjarðar, en að lausn ákveðinna mála, sem fyrir fram hefur verið samið um. En ég ætla, að enginn geti vænt þessa flokka um það, þrátt fyrir samstarfið, að þeir hafi tekið upp í einu eða neinu stefnu kommúnista. En það er þetta uggvænlega, sem hefur gerzt nú með Framsfl. Í steingeldri stjórnarandstöðu og án þess að sjáanlegur sé af því nokkur minnsti málefnalegur ávinningur virðist Framsóknarforustan hafa tekið í hverju málinu eftir annað hina kommúnistísku trú. Ég nefni landhelgismálið og herstöðvamálið. Ég nefni verkalýðsmálin og tilheyrandi baráttu gegn efnahagsráðstöfunum. Ég nefni launajafnréttismál kvenna, þar sem kommúnistar sneru Framsfl. í hring á einum sólarhring, og margt mætti nefna fleira af þessu tagi.

Það er út af fyrir sig engin ástæða til að finna að því eða amast við því, þó að unnið sé með einhverjum, sem hefur aðra og kannske fjarstæðukennda skoðun. En þá fyrst er illt nærri, þegar samstarfsflokkurinn fer að gera þessar fjarstæðukenndu skoðanir að sínum skoðunum, og það er það, sem hinum almenna framsóknarmanni finnst forusta flokksins vera að gera og hún hefur ekki getað borið af sér.

Umr. um efnahagsmálin voru svo til nákvæm endurtekning á því, sem búið var að segja mörgum tugum sinnum áður. „Aldrei betri afkoma en 1958,“ sagði hv. 4. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, hér í gær, þ.e.a.s. á þeim tíma, þegar Hermann Jónasson fann sjálfan sig á hengiflugsbrúninni og flúði frá ábyrgðinni í dauðans ofboði. „Framsfl. á enga sök á efnahagsörðugleikunum nú,“ sagði hv. 3. þm. Vesturl., Halldór E. Sigurðsson, en gleymdi þá í svipinn því, sem hv. þm. Ingvar Gíslason hafði sagt á undan honum, að enginn flokkur hefði verið lengur í stjórn en Framsfl. og enginn flokkur hefði átt meiri þátt í að móta „framfarastefnuna“, sem þeir svo kölluðu, en ég vil nú tilfæra innan gæsalappa, því að þessi stefna Framsfl. í efnahagsmálum á undanförnum árum á óumdeilanlega sökina á því, hvernig komið var í árslok 1958, því ástandi, sem nú er verið að reyna að bjarga þjóðinni úr.

Báðir stjórnarandstöðuflokkarnir reyndu að mikla þá kjaraskerðingu, sem átt hefur sér stað hjá almenningi. En báðir gleymdu að geta þess, að þrátt fyrir mikla aukningu á þjóðartekjunum undanfarinn áratug og miklar kauphækkanir hjá launþegunum varð kaupmáttaraukning launa engin og hækkunin hvarf í verðbólguhítina. Þeir gleymdu líka að geta þess, að um áramótin 1958 og 1959 voru báðir þessir flokkar reiðubúnir til þess að gera ráðstafanir til kauplækkunar, sem nam 5–6%, ef þeir fengju að sitja áfram í ráðherrastólunum. En það var nákvæmlega sú lækkun, sem átti sér stað þá. Þetta var tilboð frá flokkunum báðum. Og þegar um þessi mál er rætt, er eingöngu minnzt á hækkun á vöruverði, en vandlega varazt að geta þeirra hliðarráðstafana, sem gerðar hafa verið til þess að draga úr áhrifum þessarar hækkunar, svo sem hækkunar tryggingabóta almannatrygginganna, lækkunar skatta og margs fleira, þannig að raunveruleg útgjöld meðalfjölskyldunnar hækka ekki um 17%, eins og hv. 6. þm. Sunnl., Karl Guðjónsson, gaf í skyn hér í gærkvöld, heldur um 4%.

Húsnæðismálin hefur líka borið á góma, og vandlega hefur verið bent á þær hækkanir, sem orðið hafa á erlendu efni vegna gengisbreytingarinnar. Á hitt var ekki minnzt, að síðari hluta árs 1958, þegar sýnilegt var orðið, að gera þurfti róttækar ráðstafanir í efnahagsmálum, ef halda átti þjóðarskútunni á floti, var ein helzta tillaga Alþb. sú að takmarka fjárfestingarleyfi og jafnvel leggja á fjárfestingarskatt, skatt á leyfi til fjárfestingar, sem ósýnt er, hvort orðið hefði léttbærari en gengisbreytingin. Í þessu sambandi má einnig á það benda, að núv. ríkisstj. tókst á s.l. ári að útvega húsnæðismálastjórn aukið starfsfé, sem nam um 40 millj. kr. eða meira en allar fastar tekjur stofnunarinnar. Úr þessu hafa andstæðingarnir reynt að gera sem minnst. En þeir, sem þess hafa notið, hafa áreiðanlega kunnað að meta það. Á yfirstandandi ári er stefnt að hinu sama, og hefur þegar fengizt loforð fyrir verulegum hluta af því fé. Ef hægt verður að endurtaka þetta svo eitt ár í viðbót, sem reynt verður áreiðanlega, þá mun hægt að afgreiða allar þær lánaumsóknir, sem nú liggja fyrir, enda nauðsynlegt, að hægt verði að afgreiða lánaumsóknirnar nokkurn veginn eftir hendinni, þegar þær berast, og afnumið verði það sleifarlag, sem ríkt hefur, að menn þurfi að bíða tvö, þrjú og jafnvel fjögur ár eftir afgreiðslu á umsóknum sínum.

Ég tel því, að ríkisstj. megi vel við una þann árangur, sem náðst hefur á því tæpa einu og hálfu ári, sem hún hefur starfað. Auk stærstu málanna, efnahagsmálanna og landhelgismálsins, hefur tryggingalöggjöfin verið stórkostlega endurbætt, skattar lækkaðir, bæjar- og sveitarfélögunum tryggðar 70–80 millj. af söluskatti, fé útvegað til húsbygginga meira en nokkru sinni fyrr og nú síðast í gær samþykkt frv. um launajafnrétti kvenna, sem síðasta áratuginn hefur verið ofarlega á baugi, en aldrei tekizt að þoka verulega í áttina. Er hér um geysiþýðingarmikið mál að ræða fyrir íslenzkar konur, og þó að það taki sex ár að koma því í fulla framkvæmd, er tryggt, að á hverju ári þokar í áttina, en áður hafði allt staðið fast. Er þetta sama aðferð og Svíar hafa notað, en þeir hafa jafnan verið forgöngumenn á þessu sviði, þegar um hefur verið að ræða réttindamál kvenna. Þeirra tímatakmark er að vísu 5 ár, en okkar 6. Það breytir ekki öllu, en báðir hugsa sér að ná fullu launajafnrétti á þessu tímabili. Ég tel þess vegna, að ríkisstj. geti eftir atvikum verið ánægð með árangurinn, þegar litið er til ástandsins, sem var, þegar vinstri stjórnin skildi við, og til þeirra erfiðleika, sem við hefur verið að etja á þessu tímabili.

En ég hef sjaldan nú um áratuga skeið vitað stjórnarandstöðu á Íslandi jafnaðþrengda og nú, og aldrei í sögunni hef ég vitað hana grípa til slíkra örþrifaráða og nú. Í tveim örlagaríkustu málunum, sem núv. ríkisstj. hefur fengizt við að leysa, efnahagsmálunum og landhelgismálinu, hefur núv. stjórnarandstaða haft algerlega óraunhæfa afstöðu, rangtúlkað staðreyndir og reynt að afflytja allt, sem gert hefur verið, í þeim tilgangi einum að reyna að koma núv. ríkisstj. á kné og þá ekkert skeytt um, hvað þjóðinni í heild væri heillavænlegast við afgreiðslu þessara mála. Og nú hefur það skeð að lokum, að gripið hefur verið til algerra örþrifaráða, sem aldrei, það ég veit eða man, hefur verið gripið til áður.

Hv. 7. landsk. þm., Geir Gunnarsson, hefur verið látinn flytja tillögu um opinbera rannsókn á starfsemi ákveðins manns, Axels Kristjánssonar í Hafnarfirði, vegna útgerðar og umsjónar hans á togaranum Brimnesi og kaupa á togaranum Keili, allt samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, samtímis sem látið er liggja að því og beinlínis fullyrt í Þjóðviljanum, að um stórfelldar sakir sé að ræða, áður en nokkur athugun fer fram. En þessi rannsóknaraðferð er fordæmalaus með öllu á okkar landi. Vitaskuld verður endurskoðun látin fara fram á venjulegan hátt af ráðuneytunum, en hér er þessu slegið upp sem einhverju svikamáli, áður en hún hefur farið fram. Íslenzkum togurum hefur gengið veiðiskapur illa á s.l. ári og því ekki óeðlilegt, að ýmsir komist í greiðsluerfiðleika. En hér er greinilega verið að beita sömu aðferð og tíðkanleg er sums staðar erlendis og sérstaklega þar, sem kommúnistar hafa sín augu, að reyna að leiða athyglina frá pólitískum ósigri í viðureigninni við ríkisstj. með því að gera tortryggilegan pólitískan andstæðing og gera honum upp sakir, — andstæðing, sem þó hefur verið og er enn þá — enn þá, segi ég — í nánu samstarfi við hv. flm. Til slíkra örþrifaráða hefur íslenzk stjórnarandstaða aldrei þurft að grípa fyrr.

Spark þessa sama hv. þm., Geirs Gunnarssonar, í gærkvöld í þá, sem af litlum efnum, en mikilli fórnfýsi eru að byggja kirkjur hér í höfuðstaðnum, meira að segja eru að byggja kirkju í hinum kommúnistíska bæ Kópavogi, skal ég leiða hjá mér. En tal hans, ég vil segja, geðvonzkutal hans um Alþfl., bæði hér á Alþingi og annars staðar í gær, er sjálfsagt að taka til athugunar, því að það hlýtur að vera ábyrgðarhluti að láta þennan mann styðja þennan vonda flokk í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. En það hefur hann harkað af sér að gera nú í 7 ár þrátt fyrir allt, og er sjálfsagt mál til komið, að því linni.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ríkisstj. mun óhikað halda fram þeirri stefnu, sem hún hefur markað, í trausti þess, að hún geti á þann hátt leitt þjóðina til betri lífskjara, og í fullvissu um það, að á þann hátt einan geti þjóðin fengið að njóta þeirrar aukningar, sem þjóðarframleiðslan á hverjum tíma gefur tilefni til, en hún hverfi ekki í verðbólguhítina, eins og hefur verið mörg undanfarin ár. — Góða nótt.