16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt og til áréttingar. Hæstv. ráðh. segir, að það hafi engar nýjar reglur verið gefnar út um hegðun landhelgisgæzlunnar, það gildi enn sömu reglur og 1958. En þá er mér spurn: Hvers vegna þurfti þá foringinn á varðskipinu Þór að spyrja forstjóra landhelgisgæzlunnar, hvað hann ætti að gera? Hann gerði það ekki 1958. Það lágu ekki heldur fyrir neinar sannanir um brot þá, aðeins grunsemd. Hvers vegna þurfti hann að spyrja, hvort hann ætti að hætta, hvað áetti að gera? Hvers vegna fékk hann skipun um að hætta að skjóta aðvörunarskotum? 1958 skaut hann fjórum aðvörunarskotum og svo einu föstu skoti. Er það kannske ný regla, að í slíkum tilfellum þurfi foringjarnir að spyrja, hvað þeir eigi að gera, hvort þeir eigi að hætta að gera skyldu sína? Það lá engin sönnun fyrir í þessu máli, en landhelgisgæzlan hefur sjálf gefið það í skyn, að hún hafi ekki efazt um brot togarans, með því að gefa varðskipinu skipun um að fara að reyna að slæða upp vörpu hans. Það er upplýst, að varðskipið Þór sigldi samhliða togaranum, en ég get ekki fullyrt, hvað langan tíma, en samkvæmt fyrirskipun landhelgisgæzlunnar gerði það ekkert til þess að taka hann. Og kl. 11 og eitthvað, ég man ekki hvað margar mínútur var eftirförinni hætt samkvæmt fyrirskipun. Er þetta ekki önnur hegðun, er þetta ekki önnur framkoma af hálfu varðskipsforingja en 1958, þegar varðskipið Þór hikaði ekki við það, þó að það væri undir fallbyssukjöftum beitiskipsins Russells, að skjóta föstu skoti að togara sem var innan 3 mílna markana og þó ekki staðinn með fullum sönnunum að landhelgisbroti, en aðeins með grunsemdum? Er það ekki önnur framkoma? Og hverju sætir það?

En ég spurði ekki aðeins um það, hvort það giltu nú nýjar reglur, á meðan stæði á samningunum, — ég spurði: Á maður að trúa því, að forstjóri landhelgisgæzlunnar, herra Pétur Sigursson, hafi um kvöldið 13. nóv., þegar hann gefur foringja varðskipsins Þór skipun um að hætta að skjóta aðvörunarskotum og hætta að reyna að gera skyldu sína að taka togarann, — að hann hafi þá ekkert samband haft við yfirmann sinn, hæstv. dómsmrh.? Á maður að bæta því við það, sem maður kann að hafa til þess að gagnrýna þessa ákvörðun forstjóra landhelgisgæzlunnar, að hann hafi vanrækt það að hafa samband við sjálfan æðsta yfirmann landhelgisgæzlunnar, hæstv. dómsmrh.? Ég óska eftir svari við þessu.