31.01.1961
Efri deild: 50. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil fullyrða, að það sé daglegur atburður, að af hálfu bæði ríkisstjórna og þm. sé almenningi gerð grein fyrir meginefni mála, áður en þau eru formlega borin fram á Alþ. vil fullyrða, að það sé daglegur atburður. Hv. þm. blandaði því svo saman, hvort þessi þm., sem hér átti hlut að máli, hefði misfarið með trúnað, vegna þess að hann hefði heyrt um þau mál á flokksfundi. Það er vitanlega þess flokks og ríkisstj. að meta það, hvort þm. hafi gert það. En ég fullyrði, að svo er ekki í þessu tilfelli. Hér er ekki um neitt leyndarmál að ræða, heldur einungis meginatriði málefnis, sem lengi hefur verið til undirbúnings.

Hv. þm. gat um það í sinni fyrri ræðu, að það hefði komið fyrir, að brezkur ráðherra hefði orðið að segja af sér vegna þess, að hann hefði nokkrum klst. áður en hann hélt ræðu sína sagt frá efni fjárlagafrv., sem ríkisstj. bar fram. Það er alveg rétt, að þetta hefur komið fyrir í brezka þinginu, en það var vegna þess, að með þessari frásögn var vissum fjármálamanni gefið færi á því að afla sér gróða í kauphöllinni í London, sem hann hefði ekki fengið, ef hann hefði ekki haft þá vitneskju, sem hann öðlaðist með þessum hætti. Það er ekki skýrt frá neinu slíku í þeim ummælum, sem höfð eru í Morgunblaðinu, né var það gert í þeirri ræðu, sem þessi hv. þm., hæstv. forseti Nd., hélt í Varðarfélaginu í gær og ég hlustaði á. Þess vegna er hér mjög ólíku saman að jafna og gersamlega ósambærilegu. Í brezka þinginu hefur þessi tiltekni háttur þar að auki komizt á varðandi fjárlagafrv. — og ég vil segja fjárlagafrv. fyrst og fremst. Mér er ekki kunnugt um, að það sé algild regla þar. Ég játa, að ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega, en ég hef alltaf skilið það svo, að það gilti fyrst og fremst um fjárlagafrv. En það skiptir ekki heldur máli, hvaða reglur eru um þetta í Bretlandi.

Ég fullyrði, að engin slík regla hefur nokkurn tíma átt sér stað varðandi flutning mála á Alþingi Íslendinga, og þegar hv. þm. gat þess, að ég hefði ekki nefnt nein dæmi þess í minni fyrri ræðu, að slíkt hefði áður borið við, þá er það eðlilegt. Menn hafa ekki á takteinum dæmi um það, sem er alveg sjálfsagður hlutur og menn hafa þess vegna ekki lagt sérstaklega á minnið. En það rifjast þó upp fyrir mér, að á s.l. vori réðust hv. flokksbræður hv. þm. mjög á hæstv. forsrh. fyrir það, að hann hefði haldið ræðu í Varðarfélaginu um mál, sem var ekki þá búið að flytja hér á Alþ., svo að þar er a.m.k. eitt dæmi, sem ég veit að hv. þm. minnist jafnvel og ég. Hv. þm. getur sagt, að það dæmi hafi ekki verið til eftirbreytni. En aðfinningin, sem þá var borin fram, var einungis venjulegt nöldur stjórnarandstæðinga, alveg eins og það kom glögglega fram hjá hv. þm., að það voru nokkur sárindi hjá honum yfir því, að hann sem stjórnandi í Seðlabankanum hefði ekki fengið þessa vitneskju með öðrum hætti en að lesa hana í Morgunblaðinu. Hann er í stjórnarandstöðu nú og verður að sætta sig við það, að það eru vitanlega stjórnarstuðningsmenn, sem fá fyrr að vita um ráðagerðir ríkisstj. heldur en stjórnarandstæðingar.

Eins og ég segi, hér er um algilda reglu að ræða og enda sjálfsagt, að það er liður í venjulegri stjórnmálastarfsemi, að menn fræða almenning og fyrst og fremst sína stuðningsmenn um meginatriði þeirra mála, sem þeir hverju sinni berjast fyrir. Þetta er óhjákvæmilegt og hefur ætið verið tíðkað á Íslandi.