24.10.1960
Sameinað þing: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

1. mál, fjárlög 1961

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Frv. til fjárl. fyrir árið 1961 liggur hér fyrir til 1. umr. Áður en ég vík að frv. sjálfu, undirbúningi þess, sjónarmiðum og stefnu, sem það er byggt á, vil ég rekja afkomu ríkissjóðs á árinu 1959 og gera nokkra grein fyrir fjárhagshorfum þess árs, sem nú liður.

Ríkisreikningurinn fyrir s.l. ár er prentaður, og hefur honum verið útbýtt meðal hv. alþm. Yfirskoðunarmenn Alþingis hafa lokið endurskoðun og skilað aths. Þær eru nú hjá hlutaðeigandi ráðuneytum og forráðamönnum ríkisstofnana til athugunar og andsvara. Að fengnum þeim svörum munu yfirskoðunarmenn gera till. varðandi þau málsatriði, sem þeir hafa fundið að. Eru niðurstöður yfirskoðunarmanna ýmist með þeim hætti, að þeir telja málið upplýst með svarinu eða svo búið megi standa eða aths. sé til athugunar eða viðvörunar framvegis eða loks, að þeir vísa málinu til aðgerða Alþingis. Síðan er samið frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningnum og frv. til fjáraukalaga, þar sem upp eru teknar greiðslur þær úr ríkissjóði, sem hafa verið inntar af höndum umfram fjárlög.

Ríkisreikningur er ekki endanlega afgreiddur, meðferð hans ekki lokið, fyrr en Alþingi hefur afgreitt lög um samþykkt á honum og þau lög hafa verið staðfest.

Um langan aldur hefur haldizt sá siður í landi voru, að ríkisreikningur væri eigi afgreiddur endanlega fyrr en tveim eða þrem árum eftir ,að lauk reikningsári. Þetta eru bágir búskaparhættir. Þegar ég flutti fjárlagaræðu 8. febr. 1960, hafði t.d. enn ekki verið unnt að leggja fyrir Alþingi frv. um samþykkt á ríkisreikningi ársins 1957. Um þetta segir svo í fjárlagaræðunni:

„Á þessu verður nú gagnger breyting. Ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að hraða þessum störfum svo, að ríkisreikningar fyrir árin 1957, 1958 og 1959 verði allir lagðir formlega fyrir Alþingi á þessu ári til afgreiðslu. Sú fasta regla þarf að komast á, að ríkisreikningur sé endanlega afgreiddur og lögfestur á næsta ári eftir reikningsárið:

Þessar fyrirætlanir hafa nú orðið að veruleika. Frv. um ríkisreikninginn fyrir 1957 var afgreitt á Alþingi 2. júní 1960. Frv. um ríkisreikning fyrir 1958 var lagt fram í byrjun þessa þings og er komið til n. Frv. um ríkisreikninginn 1959 verður lagt fyrir Alþingi nú á næstunni og væntanlega afgreitt fyrir jól.

Ríkisreikningurinn fyrir 1959 liggur fyrir prentaður, eins og ég gat um. Skal ég nú rekja niðurstöðutölur hans og gera stutt yfirlit yfir afkomu s.l. árs.

Á rekstrarreikningi urðu tekjur 1059.9 millj. eða 29.3 millj. umfram fjári. Rekstrargjöld urðu 954.4 millj., eða 7.2 millj. umfram fjárl. Umframgreiðslur rekstrargjalda hafa þannig á árinu 1959 orðið svo litlar, aðeins ca. 0.76%, að einstakt er. Rekstrarafgangur varð 105.5 millj., eða 22.1 millj. meiri en fjárl. gerðu ráð fyrir. Innborganir á eignahreyfingareikningi urðu 159 millj., útborganir 239 millj. Helztu umframgreiðslur þar urðu þessar: Flugvallagerð 5.5 millj., atvinnuaukningarfé 4.2 millj., vanskil á lánum með ríkisábyrgð 9 millj. Aðrir fjárlagaliðir urðu rúmlega 1 millj. undir áætlun.

Langsamlega mestur hluti þeirra innborgana og útborgana, sem færðar eru á eignahreyfingareikningi utan fjári., koma bæði sem innborganir og útborganir, svo sem tekin lán, sem eru endurlánuð, skuldabréf stóreignaskatts, sala fiskiðjuvers, geymslufé o.fl. En skv. þeim reglum, sem fylgt hefur verið undanfarin ár um útreikning á greiðslujöfnuði, varð hann á árinu 1959 hagstæður um 2 millj. og 61 þús., og er þá ekki reiknað með greiðsluafgangi ársins 1958, eins og gert var í fjárl. fyrir 1959.

Á árinu 1959 voru tvær ríkisstj. á Íslandi. Núv. stjórn tók við störfum 20. nóv., en meginhluta ársins, eða rúmlega 10 1/2 mánuð, fór með völd ríkisstj. Emils Jónssonar, og var fjmrh. hennar Guðmundur Í. Guðmundsson.

Þegar fjári. fyrir yfirstandandi ár voru samin, en þau voru afgr. á Alþingi í marzlok, var óvenjulega erfitt að áætla tekjur ríkisins. Að meiri hluta miðast þær við innflutning til landsins. Tekjuáætlun fjárl. varð því að byggjast á áætlun um innflutning vara á þessu ári. Nú var það eitt af meginatriðum viðreisnarinnar að draga úr innflutningi til þess að jafna hinn geigvænlega halla á viðskiptum við útlönd, sem var að því kominn að hvolfa þjóðarfleyinu. Gengisbreytingin og sú verðhækkun á vörum erlendis frá, sem af henni leiddi, hlaut að draga úr innflutningi. Á hinn bóginn var líklegt, að viðskiptafrelsi og lausn úr innflutningsfjötrum, mundi auka innflutning. Ógerlegt var að segja fyrir fram með nokkurri vissu, hvernig viðureign þessara gagnverkandi afla mundi ljúka. Eftir vandlega íhugun var tekjuáætlunin ákveðin eins og fjárl. sýna. Var þá byggt á þeirri innflutningsáætlun, að heildarinnflutningurinn mundi verða rúmlega 2 200 millj. kr.

Hv. stjórnarandstæðingar deildu fast á ríkisstj. og þingmeirihluta fyrir þennan þátt í afgreiðslu fjári. og töldu, að tekjuáætlunin væri allt of lág. En ríkisstj. vildi fara varlega um áætlun ríkistekna á slíkum tímum breytinga og óvíssu. Reynslan hefur sýnt, að ríkisstj. hafði rétt fyrir sér og að hér var sízt of varlega farið.

Eftir því sem næst verður ályktað af þróun innflutningsmála, það sem af er þessu ári, er líklegt, að heildarinnflutningur í ár verði að vísu nokkru meiri en innflutningsáætlun fjárl. gerði ráð fyrir. En hins vegar breytist samsetning innflutningsins mjög verulega. Innflutningur hátollavöru hefur dregizt saman mun meira en gert var ráð fyrir. Af þessu leiðir, að tekjur ársins 1960 munu væntanlega ekki ná áætlun fjárl., eftir því sem nú horfir. Lítur út fyrir, að aðflutningsgjöldin í heild verði nokkrum milljónatugum lægri en fjárl. gera ráð fyrir. Sumir aðrir tekjuliðir fara fram úr áætlun, en þó ekki nægilega til þess að jafna tekjumissinn af aðflutningsgjöldum. Í heild verður því, eins og nú horfir, að gera ráð fyrir því, að nokkuð skorti á, að heildartekjur ríkissjóðs í ár nái áætlun fjárlaga.

Varðandi útgjöld ríkisins hefur verið kappkostað að halda þeim í skefjum, og er árangurinn sá, að ríkisútgjöldin verða á þessu ári í fyrsta sinn undir áætlun fjárlaga. Ríkisstj. leggur á það megináherzlu að mæta rýrnun tekna með sparnaði í útgjöldum, svo að jöfnuður náist í fjármálum ríkisins á þessu ári. Enn er of snemmt að segja um það með víssu, hver endanleg afkoma ríkissjóðs verður á árinu 1960, en allt bendir þó til þess, að takast megi að ná því markmiði, sem stefnt er að, jafnvægi milli gjalda og tekna. Fram að þessu hefur afkoma ríkissjóðs á árinu verið allmiklu betri en á sama tíma tvö undanfarin ár. Í lok september var viðskiptaskuld við Seðlabankann t.d. 50 millj. lægri en sömu daga 1958 og 1959. Hins vegar munu tiltölulega meiri gjöld koma til á síðustu mánuðum ársins en undanfarin ár vegna þess, hve almannatryggingar og niðurgreiðslur hækka í ár. Það er því ekki hægt að gera ráð fyrir, að þessi staða haldist, en hins vegar ætti ekki að vera hætta á greiðsluhalla.

Undanfarna áratugi hafa útgjöld fjárl. hækkað ár frá ári, svo að það hafa þótt litlar fréttir, þótt lögð væru fram á hverju þingi hæstu fjári. í sögu þjóðarinnar. Einstakar útgjaldagreinar fjárl. hafa yfirleitt farið hækkandi, nema 19. gr., sem fjallar um óviss útgjöld, dýrtíðarráðstafanir, niðurgreiðslur og uppbætur, því að með þá grein hefur verið hringlað fram og aftur og þessi útgjöld ýmist höfð í fjárl. eða færð á útflutningssjóð eða dýrtíðarsjóð, eftir því sem henta þótti hverjum tíma og hverri stjórn.

Við undirbúning fjárlfrv. fyrir 1961 var reynt að snúa inn á aðra braut og freista þess að færa gjöldin niður. 14 eru útgjaldagreinar fjárl. Þessi viðleitni hefur borið þann ávöxt, að 10 af 14 útgjaldagreinum fjárl. lækka nú frá gildandi fjárlögum. Þótt ekki sé hér um stórar fúlgur að ræða, miðað við heildarupphæð fjárl., er það stefnubreytingin, sem máli skiptir. Risabygging ríkisins verður ekki endurskoðuð og endurskipulögð á nokkrum mánuðum, en mestu varðar, að starfið sé hafið með hentugum vinnubrögðum og réttu hugarfari.

En 4 útgjaldagreinar fjárl. er ekki unnt að lækka. Þvert á móti hækka þær og sumar verulega. Framlög ríkissjóðs til trygginga og fjölskyldubóta hækka frá gildandi fjárl. um 57 millj. kr. Hinar stórauknu fjölskyldubætur, sem lögfestar voru á síðasta þingi; eru greiddar í 9 mánuði þessa árs; en 12 mánuði næsta ár. Sama máli gegnir um 44% hækkunina á ellilífeyri og skerðingarákvæðið, að draga skuli frá ellilaunum þá upphæð, sem hið aldraða fólk vinnur sér inn, verður nú afnumið. Önnur grein, sem hækkar, er um eftirlaun og framlög til lífeyrissjóða. Hin þriðja er sjúkrahúsamálin og hin fjórða skólamál. Þessar fjórar greinar, félagsmál, eftirlaun, skólar og sjúkrahús, hækka samtals um um rúmar 73 millj. kr.

Í fjárlagaræðunni í febrúar ræddi ég nokkuð um nauðsyn þess að endurskoða starfskerfi og starfshætti ríkisins og taka upp skipulega hagsýslu (rationaliseringu) á vegum ríkisins. Til þess að ná raunhæfum árangri um sparnað í opinberum rekstri, aukna hagkvæmni og bætt skipulag þyrfti að vinna að því að staðaldri af kunnáttumönnum. Með þessum hætti hefur þegar verið unnið að ýmsum málefnum ríkisins, einstakir þættir teknir til rannsóknar, kannaðir ofan í kjölinn og gerðar tillögur um nýja skipan. Ég taldi þá upp tólf atriði, sem tekin yrðu til athugunar í sparnaðarskyni. Það hefur verið gert um þau öll, og mun það koma fram í yfirliti hér á eftir. En auk þeirra hefur fjöldi annarra atriða einnig verið tekinn til meðferðar. Í mörgum tilfellum eru þessar athuganir að sjálfsögðu enn á byrjunarstigi.

Þær lækkanir, sem gerðar eru í fjárlagafrv. frá gildandi fjárlögum, skulu nú raktar í stórum dráttum og einnig minnzt á önnur þau mál, sem unnið hefur verið að á þann hátt, er ég gat um.

1) Vextir af lánum ríkissjóðs eru taldir í 7. gr. fjárlaga. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru að miklu leyti bundnar af lánssamningum á skuldabréfum. Þessar greiðslur hækka nokkuð, aðallega vegna nýrra byggingarlána landsspítalans og framlags til alþjóðabanka og gjaldeyrissjóðs, en breytileg er vaxtagreiðsla af viðskiptaláni ríkissjóðs hjá Seðlabankanum. Skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hefur verið töluvert lægri að jafnaði á þessu ári en undangengin ár, og að því er stefnt, að viðskiptaskuld ríkissjóðs verði haldið svo í skefjum á næsta ári, að unnt sé að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs af þeirri sök, og er sú áætlun lækkuð um 300 þús. kr. frá gildandi fjárlögum.

2) Kostnaður við forsetaembættið lækkar samkvæmt tillögu forseta Íslands um 38 þús. kr. frá gildandi fjárlögum.

3) Alþingiskostnaður er lækkaður um eina millj. kr. Sú lækkun er byggð á þeim ásetningi ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar, að þinghald verði styttra en tíðkazt hefur um hríð. Með bættum undirbúningi þingmála, samheldni og einbeitni ábyrgra ráðamanna má hafa skemmra þing og þó betri skil. Við röskari vinnubrögð Alþingis geta milljónir sparazt og vegur þess vaxið.

4) Í París hafa verið tvær skrifstofur á vegum Íslands, sendiráðið og skrifstofa fastafulltrúa Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu og Efnahagssamvinnustofnuninni. Nú verða þessar skrifstofur sameinaðar undir stjórn eins sendiherra, í stað þess að tveir voru áður. Við þetta sparast rúmlega 800 þús. kr.

5) Kostnaður við þátttöku í alþjóðaráðstefnum á vegum utanrrn. er lækkaður um 320 þús. kr.

6) Kostnaður við álagningu skatta er lækkaður um rúmar 2 millj. kr. Samkvæmt núgildandi lögum er tekju- og eignarskattur ákveðinn af skattanefndum í hreppum og skattanefndum eða skattstjóra í kaupstöðum. Undirskattanefndir eru nú 219 að tölu og í hverri 3 menn, eða samtals 657 menn, en skattstjórar eru nú 10 í kaupstöðum. Nú er ráðgert, að þessu kerfi verði gerbreytt, landinu verði skipt í nokkur skattumdæmi, t.d. 8 að tölu, og í hverju þeirra verði einn skattstjóri, sem fari með skattálagningu og leysi af hólmi undirskattanefndir þær, sem nú fara með þessi störf. Með þessu á m.a. að vinnast lækkun útgjalda, meira samræmi um skattálagningu og betra eftirlit með framtölum. Gert er ráð fyrir. að núverandi yfirskattanefndir, 24 að tölu, verði einnig lagðar niður og skattstjórar taki við störfum þeirra. Skattstjórar með æfðu starfsliði eiga að ná betri árangri í störfum en menn, sem verða að vinna slík störf í hjáverkum. Er á engan hátt verið að vanmeta störf þeirra, þótt á þetta sé bent, heldur einungis drepið á þá staðreynd, sem hlaut að verða afleiðing af kerfinu sjálfu og því, hvernig að nefndunum hefur verið búið.

7) Skipting vegafjár undanfarin ár hefur verið óhagkvæm og mikið fé farið til spillis. Vegafénu hefur verið skipt í yfir 200 staði og oftlega komið smáupphæðir, niður í 10 þús. kr., á hvern veg. Í fjárlagaræðunni í febrúar var bent á, að eins og nú væri háttað vegagerð hér á landi, með stórvirkum vélum og tækjum, færi a.m.k. önnur hver króna til ónýtis við þessar smáu fjárveitingar. Þeim væri beinlínis fleygt í kostnað við flutninga á vélum og mannskap til og frá. Það væri til hagsbóta fyrir alla aðila, fyrir ríkissjóð og það fólk í byggðum landsins, sem á að njóta veganna, að upphæðirnar væru stærri og færri, þannig að hver króna nýttist betur.

Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri hefur verið mikill talsmaður þess, að hér yrði breytt um til bóta. Fjvn. brást vel við og lagði ótrauð inn á hina nýju braut við afgreiðslu gildandi fjárlaga, og niðurstaðan varð þessi: Árið áður. 1959, var fjárlagafé og benzínskattur til nýbyggingar vega samtals 21 millj. 180 þús. kr. og var því skipt á 219 vegi. Í ár var fé til nýbyggingar vega 16 millj. 480 þús. kr. á 13. gr. fjárlaga, 61/2 millj. af benzínskatti og 4 millj. á 20. gr. til vegabóta, samtals í ár 26 millj. 480 þús., eða 5 millj. og 300 þús. kr. hærra en á árinu 1959. Þessu fé var skipt á 163 vegi í stað 219 í fyrra, en það er fækkun um 56 staði. Vegaféð í heild hækkaði því frá árinu áður um 25%, en vinnustöðunum fækkaði um 25%. Verður þetta að teljast verulegur ávinningur í fyrstu lotu til bættrar hagnýtingar á vegafé. Ég hef beðið vegamálastjóra að gera grein fyrir því, hver áhrif þessi fækkun fjárveitinga og hækkun hefur haft í sparnaðarátt. Um það segir í grg. hans:

„Í vinnuflokki, sem einungis fæst við undirbyggingu vega, eru oftast 1–2 jarðýtur og 5–6 menn við ræsagerð og þess háttar. Að flytja slíkan flokk með öllum viðleguútbúnaði kostar tæpast mínna en 10 þús. kr. Flokkur, sem fæst við viðhald vega og þá einnig við að mölbera nýja vegi, hefur eina vélskóflu eða ýtuskóflu, 4–6 bíla og 3–4 menn. Flutningur á slíkum flokki kostar um 8 þús. kr., en þá þarf sérstök flutningatæki fyrir vélskófluna. Ef um ýtuskóflur er að ræða, má að jafnaði flytja þær á einhverri bifreið í vinnuflokknum, og sparast þá nokkurt fé og kemst kostnaðurinn niður í 5–6 þús. kr. Með hliðsjón af því, er að framan greinir,“ segir vegamálastjóri, „teldi ég ekki fjarri að áætla, að sparazt hafi um 8 þús. kr. að meðaltali við fækkun hverrar fjárveitingar, eða um 450 þús. kr. á fækkun fjárveitinga úr 219 í 163. Með því að hafa færri en stærri fjárveitingar til vega sparast auk flutningskostnaðar einnig töluverður fastakostnaður við verkstjórn, matreiðslu, aðdrætti og þess háttar, þar sem þessi fastakostnaður er nær hinn sami, hvort unnið er t.d. með einni eða 4–5 jarðýtum, svo að dæmi sér nefnt. Einnig er minni hætta á, að stór vinnuflokkur með mörgum vélum verði verklaus, þó að ein eða fleiri vélar bili, en það getur oft átt sér stað, þar sem aðeins er unnið með einni eða tveim vélum í vegi.

Það er enginn efi á því,“ segir vegamálastjóri að lokum, „að færri en stærri fjárveitingar eru spor í rétta átt, enda hefur fjvn. Alþ, oft verið gerð grein fyrir því og nm. sjálfum verið það vel ljóst, þó að erfiðlega hafi lengst af gengið að fá það sjónarmið viðurkennt í reynd.“

Af þessum orðum og yfirliti vegamálastjóra má ráða, að hér hefur strax í fyrsta áfanga sparazt verulegt fé, a.m.k. 1/2 millj. kr. og væntanlega meira, og hefur það komið héruðunum til góða í meiri vegagerð.

Ég vænti þess, að Alþingi og fjvn. haldi áfram á þessari braut. Og sömu sjónarmið sem eiga við um vegagerð eiga einnig við um margvíslegar framkvæmdir aðrar, t.d. hafnargerðir.

8) Skipaútgerð ríkisins er rekin með miklum tilkostnaði fyrir ríkissjóð. Í fjárlögum ársins í ár er hallinn áætlaður 15 millj. kr. Síðan stofnað var til þessa fyrirtækis fyrir 30 árum, hefur bylting orðið í samgöngumálum. Með hinum miklu vegabótum hafa fólksbílar og flutningabílar tekið við hluta af verkefni strandsiglinga. Skipafélögin hafa nú mörg skip í förum við strendur landsins. Flug var ekki á þeirri tíð, en fjöldi flugvéla flytur farþega og farangur í allar áttir milli áfangastaða allan ársins hring. Það virðist tímabært að endurskoða siglingarnar við strendur landsins og freista þess, hvort eigi er unnt að draga úr hinum mikla kostnaði, en sinna þó samgönguþörfum landsmanna á fullnægjandi hátt.

Í sumar var norskt fyrirtæki, sem veitir aðstoð í hagsýslustörfum og hefur reyndum og þjálfuðum sérfræðingum á að skipa, fengið til að vinna að ýmsum hagsýslustörfum fyrir ríkisstjórnina. M.a. unnu sérfræðingar þess að athugun á fyrirkomulagsbreytingu á strandferðarekstri hér í því skyni, að lækka mætti kostnað við strandferðirnar án þess að draga nokkuð úr þjónustu þeirri, sem Skipaútgerð ríkisins hefur veitt. Fyrstu till. liggja nú fyrir frá hinu norska fyrirtæki, sem í stórum dráttum eru í því fólgnar að breyta svo tilhögun á strandferðaáætlunum, að skipin Hekla, Skjaldbreið og Herðubreið ein geti annazt svo góða þjónustu sem nú er veitt af þeim skipum auk Esju. Sparast þá rekstur Esju, en kostnaðarauki við það, að Hekla færi miklu fleiri ferðir en verið hefur, og annar kostnaðarauki við breytinguna er tiltölulega lítill. Í öðru lagi leggja þeir til að vinna að betri tækni í uppskipun og útskipun, sem reynd hefur verið í Noregi og sparað þar ótrúlega mikið fé og tíma. Sparnaður af þessum ráðstöfunum tvennum er áætlaður um 63/4 millj. kr., þegar miðað er við kostnað þann, er varð á árinu 1959.

Þessar till. eru nú til nánari athugunar í samgmrn., og fæst bráðlega úr því skorið, hvort rétt þykir að gera þessar breyt. að öllu eða einhverju leyti. En á þessu stigi var ákveðið að lækka hallann á Skipaútgerðinni í fjárlagafrv. um 5 millj., úr 15 í 10.

9) Póstmálin hafa lengst af verið rekin með halla, sem ríkissjóður hefur orðið að greiða. Fjárlög hafa jafnan gert ráð fyrir greiðsluhalla, þangað til á fjárlögum í ár, að ákveðið var, að pósturinn skyldi sjálfur standa undir útgjöldum sínum. Sama er um fjárlagafrv. fyrir 1961. Hér skal þó tekið fram, að á árinu 1958 og 1959 rættist betur úr en fjárlög höfðu ráðgert, og varð nokkur tekjuafgangur hjá póstinum þau ár.

10) Síminn hefur kostað ríkissjóð mikil fjárframlög að því leyti, að tekjur hans hafa hvergi nærri hrokkið auk rekstrarkostnaðar fyrir nýjum símalagningum og öðrum framkvæmdum. Greiðsluhalli símans, sem ríkissjóður hefur greitt, hefur verið síðustu 4 ár frá 21/2 millj. upp í 131/2 millj. á ári. Í þessu fjárlagafrv, er reiknað með því, að síminn standi sjálfur undir framkvæmdum sinum, og er þó alls ekki úr þeim dregið.

11) Sameining áfengis- og tóbakseinkasalanna hefur lengi verið rædd og flestum þótt sjálfsögð, þar sem hún mundi leiða til sparnaðar, en úr framkvæmdum hefur ekki orðið. Nú hafa hagsýslufræðingar framkvæmt rækilega rannsókn í því máli, varðandi sameiningu á yfirstjórn, bókhaldi og skrifstofuhaldi. Er það skoðun þeirra, að með sameiningu þessara tveggja fyrirtækja nægi 24 starfsmenn í stað 35, eins og nú er. Megi þannig fækka um 11 manns og muni sparnaður við það nema um 1 millj. kr. á ári. Auk þess muni skrifstofuhúsnæði annarrar stofnunarinnar væntanlega nægja fyrir báðar. Ekki er lokið athugun á sparnaði við hina tæknilegu hlið, þ.e. framleiðslu, geymslu og afgreiðslu. Þessar till. eru nú til athugunar hjá forstjórum fyrirtækjanna, en frv. um sameiningu þessara tveggja fyrirtækja verður lagt fyrir þetta þing.

12) Skipaskoðun ríkisins hefur verið rekin með halla, sem hefur numið að jafnaði frá 1/2 millj. og upp í 730 þús. kr. á ári. Þessi halli er lækkaður í fjárlagafrv. nú niður í 106 þús. kr. Það verður að stefna að því, að þessi þjónusta sem og margvísleg önnur þjónusta, sem ríki og ríkisstofnanir veita, sé seld við sannvirði og standi undir sér, svo að ekki þurfi að jafna hallanum niður á almenning með hærri sköttum og tollum.

13) Kostnaður við eyðingu refa og minka í landi voru er nú um 41/2 millj. kr. á ári. Það er ívið hærra en allt framlag ríkissjóðs til iðnaðarmála á Íslandi. Af þessum kostnaði greiðir ríkissjóður 2/3 hluta eða 3 millj., en sýslu- og sveitarfélög þriðjung. Ólafur Sigurðsson ráðunautur á Hellulandi, sem ritað hefur og talað af meira viti en margir aðrir um minkaeldi, hefur stungið upp á því að létta þessum útgjöldum með öllu af hinu opinbera. Hann stingur upp á því að láta minkabúin, sem hljóta að rísa hér upp á næstu árum til stórfenglegrar gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðina, greiða leyfisgjald, er varið sé til eyðingar villtra loðdýra. Þangað til sú góða tillaga kemst í höfn, verður að draga úr þessum ofboðslega kostnaði hins opinbera. Breyting á núgildandi fyrirkomulagi hefur verið undirbúin í samráði við veiðistjóra, og er fjárveiting í fjárlagafrv. lækkuð um 2 millj.

14) Nefndir eru margar í íslenzku þjóðfélagi, of margar og sumar hverjar of dýrar. Sumir menn vilja jafna nefndum og ráðum við plágur Egyptalands og helzt uppræta þær með öllu. Í lýðræðisþjóðfélagi hafa nefndir ýmsum nytsömum verkefnum að gegna, t.d. að kanna og undirbúa einstök þjóðmál til rannsókna og eftirlits. En hér þarf að hafa hóf á um fjölda nefndarmanna, kostnað við nefndir, ævilengd þeirra, því að fyrir kemur, að nefndir lifi of lengi, og jafnvel að það gleymist að hætta að borga þeim laun.

Athugun hefur farið fram í öllum ráðuneytum á nefndum og störfum þeirra eða starfsleysi, í því skyni að leggja niður þær nefndir, sem ekki er talin þörf fyrir, og draga úr kostnaði. Þessari víðtæku athugun er ekki lokið að fullu enn. Fjöldi nefnda er til orðinn samkvæmt lagafyrirmælum og alþingisályktunum, og þarf þá oft lagabreytingar eða nýjar þingsályktanir til að leggja slíkar nefndir niður. Nú þegar hefur fjmrn. ákveðið að leggja niður eða gera till. til Alþingis um niðurlagningu 250 nefnda, sem undir það ráðuneyti heyra, og er þar langstærsti hópurinn að sjálfsögðu skattanefndirnar:

15) Tillögur hafa verið gerðar um breytingar á fyrirkomulagi við embætti ríkisféhirðis. Miða þær einkum að því, að bankar taki að sér útborgun launa fyrir ríkissjóð í ríkara mæli en nú. Nokkur framkvæmdaatriði eru enn ekki fullráðin, en víst er, að ný tilhögun mun spara töluvert fé.

16) Rækileg og gagnger rannsókn er hafin á fyrirkomulagi og starfsháttum í ýmsum ríkisstofnunum og embættum. Þess má vænta, að af henni leiði till. um endurbætur, er hafi í för með sér það tvennt, sem gjarnan má fara saman, sparnað fyrir ríkissjóðinn og bætta þjónustu.

17) Kostnaður við framkvæmd skyldusparnaðar hefur reynzt óhæfilega hár og óhæfilegt umstang lagt á herðar sparendum. Liggja nú fyrir till. til breytinga, sem losa sparendur við mikið ómak og jafnframt eigá að spara ríkissjóði á aðra milljón króna á ári. Kostnaður við framkvæmdirnar að óbreyttu fyrirkomulagi er áætlaður 2 millj. og 300 þús. kr. á næsta ári, en í fjárlagafrv. er þessi liður færður niður í 1 millj. kr.

18) Kostnaður við framkvæmd orlofslaga er lækkaður, vegna þess að fyrirhuguð er hagkvæmari framkvæmd þeirra laga.

19) Innflutningsskrifstofan var lögð niður á þessu ári. Losað var mjög um höft á innflutningi og gjaldeyriskaupum, og minnkuðu því verkefni þau, sem hún hafði með höndum. Við þeim tóku síðan gjaldeyrisdeildir bankanna og verðlagsnefnd, en verðlagsstjóri og skrifstofa hans hélt áfram. Gert er ráð fyrir að spara yfir 3 millj. kr. við þessar ráðstafanir.

20) Jarðboranir eftir jarðhita eru meðal þeirra framkvæmda, sem halda verður áfram með fullum hraða; svo mikil eru þau verðmæti, sem í aukinni hitaorku liggja. Kostnaður við jarðboranir er í ár tæpar 10 millj, kr., en mun verða á næsta ári um 121/2 millj. með starfrækslu bæði gufuborsins mikla og hins nýja Norðurlandsbors. Eðlilegt er að telja slíkan kostnað að verulegu leyti með stofnkostnaði, þegar heita vatnið eða gufan verður virkjuð síðar. Þess vegna er í ráði að stofna sjóð, er standi undir þessari starfsemi, og taki hann lán, er siðar teljist með stofnkostnaði væntanlegra virkjana. Í fjárlagafrv. eru veittar 6 millj. kr. í þessu skyni. Er það lækkun um 3.6 millj, frá gildandi fjárlögum, en eins og áður greinir, verður séð fyrir fjárþörfinni að fullu á annan veg.

21) Bifreiðakostnaður ríkisins er í sérstakri athugun, og verður síðar gerð grein fyrir niðurstöðum þeirrar athugunar og úrræðum til sparnaðar.

22) Húsnæði stjórnarráðs og ríkisstofnana þarfnast mikilla breytinga. Sumpart er skrifstofuhúsnæðið svo óhentugt, að ekki er hægt að koma við hagkvæmari og ódýrari starfsháttum. Sumpart er það mjög dýrt húsnæði, sem ýmis ríkisfyrirtæki hafa á leigu. Í yfirliti, sem gert var í sept. s.l. um leiguhúsnæði ríkisstofnana, kom í ljós, að ársleiga þeirra er 9 millj. Ríkissjóður verður að hraða því að koma upp eigin húsakosti fyrir sjálfan sig og sína starfsemi. Töluverðar fúlgur eru þegar í byggingarsjóði, og verulegan sparnað í rekstrarkostnaði ríkisins mundi það hafa í för með sér, ef ríkissjóður kæmi upp hentugu húsnæði fyrir flestar af skrifstofum sínum og stofnunum.

23) Greiðslur afborgana og vaxta vegna smíði barðskipsins Óðins eru lækkaðar í frv. um 3 millj. 750 þús. kr., vegna þess að hagstæðara lán mun fást vegna byggingar varðskipsins en nú er.

24) Ríkisábyrgðir á lánum fyrir ýmsa aðila og vanskil á þeim lánum, er á ríkissjóð falla, eru orðin geigvænleg. Á þessu ári verða greiðslur ríkissjóðs vegna vanskila á lánum með ríkisábyrgð væntanlega um 40 millj. kr. Þessar upphæðir hafa farið hækkandi ár frá ári siðasta áratug.

Í fjmrn. hefur verið samið frv. til laga um ríkisábyrgðir í samræmi við þál., sem Alþingi samþykkti fyrir skemmstu að tillögu hv. 6. þm. Norðurl. e., Magnúsar Jónssonar. Þetta frv. um ríkisábyrgðir, sem miðar að því að tryggja betur hag ríkissjóðs en nú er og að betur sé fylgzt með fjárhag þeirra aðila, sem ríkisábyrgð fá, — og það er vissulega einnig þeirra hagur, — þetta mál verður rætt nánar á Alþingi, þegar frv. verður lagt fram, og skal ég því ekki rekja þetta vandamál frekar að sinni.

Ég skal nú gera grein fyrir helztu breytingum á gjaldahlið fjárlagafrv. frá gildandi fjárlögum til viðbótar því, sem ég hef þegar rakið.

7. gr. fjárlaga, vaxtagreiðslur af lánum, lækkar um 96 þús. kr., eins og fyrr er getið.

8. gr., kostnaður við æðstu stjórn landsins, lækkar um 38 þús. kr.

9. gr. Alþingiskostnaður er áætlaður 9 millj. 550 þús. og, lækkar um eina milljón.

10. gr. fjárlaga er þríþætt: 1. liður er kostnaður við stjórnarráðið, sem er áætlaður 19.4 millj. og lækkar um 162 þús., 2. liður er utanríkismál, áætlað 17.8 millj., og 3. liður tillög til ýmissa alþjóðastofnana, 3.8 millj. Þessir tveir liðir, sem eru einn rómverskur liður í gildandi fjárlögum, lækka samtals um 936 þús. Vegur þar þyngst sameining sendiherraembættanna í París. Samtals lækkar, því 10. gr. fjárlaga um 1 millj. 98 þús. kr.

11. gr. A fjallar um dómgæzlu og lögreglustjórn. Kostnaður er áætlaður 77.3 millj. og hækkar um 1.2 millj., þar af 345 þús. aukinn kostnaður vegna landhelgisgæzlu, en rekstur hennar kostar nú 34 millj. kr. á ári auk vaxta og afborgana af kaupverði hins nýja varðskips, Óðins.

11. gr. B, kostnaður vegna innheimtu tolla og skatta, er samtals 26.3 millj. og lækkar frá gildandi fjárlögum um 1.6 millj.

11. gr. C, sameiginlegur kostnaður, lækkar um 50 þús.

11. gr. í heild lækkar því um 519 þús.. kr.

12. gr. er um læknaskipun og heilbrigðismál. Þau útgjöld eru áætluð 49.2 millj. og hækka um 4.4 millj., þrátt fyrir það að rekstrarhalli heilsuhælanna á Vífilsstöðum og í Kristnesi lækkar um 850 þús. En hinn aukni kostnaður stafar að nokkru af því, að viðbygging landsspítalans verður tekin í notkun á árinu og þar, þarf 40, nýja starfsmenn: lækna, hjúkrunarkonur og starfsstúlkur. Enn fremur tekur ríkissjóður nú að sér allan rekstrarhalla fæðingardeildarinnar, þar eð Reykjavíkurþær, sem áður hefur greitt 2/3 af rekstrarhallanum, hefur nú komið á fót fæðingarheimili, sem bærinn stendur einn straum af.

13. gr. fjallar um samgöngumál. A-liður, framlög til vegagerða,, hækkar upp í 52 millj. alls, og til, kaupa á vegavinnuvélum er hækkað um 1/2 millj. B-liður, samgöngur á sjó, lækkar um 5 millj. 250 þús., aðallega vegna þess, að hallinn á Skipaútgerðinni er lækkaður úr 15 millj. í 10. C-liður, vita- og hafnamál: framlag til hafnarmannvirkja og lendingarbóta er óbreytt, 13.4 millj., til áhaldakaupa er hækkað um 1/2 millj., til hafnarbótasjóðs eru veittar 2 millj., eins og lög mæla, en sérstök aukaframlög til hafnarbótasjóðs vegna tveggja hafna áttu aðeins að gilda í eitt ár og falla því niður nú. Smávægilegar breytingar eru á öðrum liðum, 13. gr., flugmálum og veðurþjónustu. Heildarútgjöld 13. gr. lækka um 3.8 millj. kr.

14. gr. fjárlaga fjallar um kennslumál, söfn og listir. Sú grein hækkar um tæpar 12 millj. kr. Kostnaður við barnafræðslu hækkar um 2.8 millj. og við gagnfræðamenntun um 6.2 millj. Vegna nemendafjölgunar verða barnakennarar 42 .fleiri en á, síðasta skólaári, og gagnfræðakennurum fjölgar um 30. Þá eru veittar 930 þús. kr. til vísindalegra og hagnýtra rannsókna á grunnvatni á Íslandi.

15. gr., kirkjumál, áætlað 13.3 millj., lækkar um 109 þús. kr.

16. gr., til atvinnumála, áætlað 143.9 millj. og lækkar um 5.1 millj. Helztu breytingar eru þessar:

Framlög vegna landbúnaðarmála, 77.3 millj., lækka um 2.2 millj., og er það aðallega vegna lækkunar við eyðingu refa og minka.

Framlög til sjávarútvegsmála hækka um 1 millj., en til raforkumála lækka hins vegar um 3.6 millj. vegna þeirra breytinga, sem áður er getið, um fjáröflun til jarðborana.

16. gr. samtals lækkar um 5.1 millj.

17. gr., félagsmál, nemur nú 376 millj. kr. og hækkar um 55.7 millj., aðallega vegna aukinna almannatrygginga.

18. gr., eftirlaun og framlög til , lífeyrissjóða, hækkar um 11/2 millj.

19. gr., óviss útgjöld, — langhæsti liðurinn, niðurgreiðslur vöruverðs, er óbreyttur, aðrir liðir breytast nokkuð innbyrðis: Niðurstaða 19. gr. verður lækkun um 1/2 millj.

20. gr., eignabreytingar, lækkar um 10.3 millj. kr.

Heildartala útgjalda er 1552 millj., og er það 50.9 millj. hærra en í fjárlögum fyrir 1960, og greiðsluafgangur er áætlaður 817 þús. kr.

Á tekjuáætlun frv. verða nokkrar breytingar frá gildandi fjárlögum, og er þá höfð hliðsjón af reynslunni í ár.

Með vísun til þess, er ég sagði áður um væntanlegar tekjur yfirstandandi árs, eru áætlaðar tekjur af aðflutningsgjöldum lækkaðar nokkuð. Verðtollur er áætlaður 343.6 millj., lækkar um 21.4 millj. Innflutningssöluskatturinn eldri er áætlaður 148 millj., lækkar um 9 millj. Leyfisgjöld af bifreiðum eru áætluð 31 millj., lækka um 22 millj. Hins vegar hækka tekjur af ríkisstofnunum um 27.1 millj., upp í 290 millj., og ýmsir, smærri tekjuliðir hækka nokkuð.

3% söluskatturinn og 8% innflutningssöluskatturinn, sem lögleiddir voru á siðasta þingi, eru í gildandi fjárlögum áætlaðir 280 millj., þar af fimmtungur eða 56 millj. til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þeir tóku gildi, er fjórðungur ársins var liðinn. Miðað við það, að þeir verði í gildi allt árið 1961, er gert ráð fyrir, að þeir skili rúmlega 350 millj., þar af rúmlega 70 millj. til sveitarfélaganna, í stað 56 millj. í ár.

Þær efnahagsráðstafanir, sem stofnað var til á öndverðu þessu ári; höfðu tvíþætt markmið: að binda endi á greiðsluhallann. við útlönd og á verðbólguna innanlands. Til þess að ná þessum árangri var nauðsynlegt að skrá rétt gengi og afnema útflutningsbótakerfið, að halda útlánum bankanna innan þeirra marka, sem sparifjármyndunin setur, að reka ríkisbúskapinn án greiðsluhalla og að rjúfa tengingu kauplags og afurðaverðs við vísitölu. Til. þess að draga úr þeirri kjaraskerðingu, sem þessar nauðsynlegu ráðstafanir hlutu að leiða til, og jafnvel að eyða kjaraskerðingunni með öllu hjá, þeim, er verst voru settir, voru ellilífeyrir og fjölskyldubætur hækkaðar stórlega og niðurgreiðslur nauðsynja auknar nokkuð. Í sömu átt miðuðu þær skattabreytingar, sem, framkvæmdar voru, afnám tekjuskatts á almennum launatekjum og lækkun útsvara, en álagning söluskatts til að vega á móti tekjumissinum, er ella hefði hlotizt af þeirri lækkun.

Þó að enn sé skammt liðið, síðan þessar ráðstafanir voru framkvæmdar, og alllangur tími hljóti að líða, áður en þær bera fullan árangur, er nú þegar hægt að benda á þýðingarmikla áfanga, sem náðst hafa.

Gjaldeyrisstaðan hefur þegar batnað nokkuð, og má búast við verulegum bata hennar á næstu mánuðum. Þetta er því athyglisverðari árangur, sem innflutningur hefur á þessu sama tímabili verið gefinn frjáls að miklu leyti og útflutningsatvinnuvegirnir hafa beðið mikinn hnekki vegna verðfalls á fiskimjöli og lýsi og vegna lélegra síldveiða á s.l. sumri og lítils afla togaranna. Hækkun verðlags hefur ekki orðið meiri en gert hafði verið ráð fyrir og óhjákvæmilega hlaut að leiða af breytingu gengisskráningarinnar. Vísitala framfærslukostnaðar, sem tekur tillit til hækkunar fjölskyldubóta og lækkunar beinna skatta, var 102 stig 1. okt. s.l., eða tveim stigum hærri en hún var, áður en þessar ráðstafanir komu til framkvæmda. Má búast við, að öll áhrif ráðstafananna komi fram í vísitölunni fyrir áramót og verði hún þá ekki yfir 104 stig. Úr því má gera ráð fyrir, að verðlag haldist stöðugt, svo framarlega sem kaupgjald hækkar ekki innanlands eða verðlag erlendis og svo framarlega sem bankaútlán aukast ekki um of og ríkisbúskapurinn er rekinn án halla.

Sparifjármyndun hefur þegar aukizt, og má búast við enn meiri aukningu hennar á næstunni, haldist verðlag stöðugt. Hækkun vaxtanna hefur haft greinileg áhrif í þá átt að draga úr eftirspurn eftir lánsfé og auka sparifjármyndun.

Það gat auðvitað ekki hjá því farið, að takmörkun bankaútlána og hækkun vaxta hefði í för með sér erfiðleika fyrir atvinnufyrirtækin í landinu, ekki sízt vegna þeirrar auknu rekstrarfjárþarfar, sem af gengisbreytingunni leiddi. Þessir erfiðleikar hafa reynzt miklir, og þeir hafa reynzt enn meiri en ráð hafði verið fyrir gert vegna verðfalls útflutningsafurðanna og aflaleysis. Samt sem áður hafa hrakspár stjórnarandstæðinga um atvinnuleysi ekki rætzt.

Eigi fullur árangur að nást af efnahagsráðstöfununum, verður að sjálfsögðu að halda fast við þá stefnu, sem í upphafi var mörkuð. Bankaútlán mega ekki aukast umfram sparifjármyndun, þau standa í beinu sambandi og hlutfalli við hana. Ríkisbúskapurinn verður að vera rekinn hallalaust. Og kaupgjald má ekki hækka, fyrr en gjaldeyrisstaðan er komin í eðlilegt horf, og þá að sjálfsögðu ekki meira en svarar til aukinnar framleiðni. Það kostar margvíslega erfiðleika í bili, ekki sízt vegna þeirra áfalla, sem þjóðarbúskapurinn hefur orðið fyrir í verðfalli og aflaleysi. En þegar fullur árangur hefur náðst af efnahagsaðgerðunum, þá skapast nýr grundvöllur fyrir bætt lífskjör og vaxandi velmegun fólksins.