16.02.1961
Neðri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (1819)

38. mál, loðdýrarækt

Ágúst Þorvaldsson:

Hæstv. forseti. Eins og þingmönnum mun vera kunnugt, var þetta mál hér einnig til meðferðar á Alþingi í fyrra. Þá var borið fram frv. hér á Alþ. um að stefna til minkaeldis í landinu. Landbn. þessarar hv. d. fékk það frv. þá til meðferðar, en málið dagaði uppi á Alþingi, og nál. minnir mig að væri ekki gefið út. Nú kom málið fyrir aftur, og þar sem hér er um í raun og veru stórt mál að ræða, þá taldi ég ekki og ég held enginn af nm. í landbn. sæmandi að láta málið ekki fá afgreiðslu, því að hvort sem við erum andstæðingar minksins eða við erum það ekki, þá verðum við að viðurkenna, að það er staðreynd, sem fyrir liggur, að aðrar þjóðir, sérstaklega frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, hafa geysimiklar tekjur af eldi þessa dýrs. Og þar sem við Íslendingar vorum í fornöld allmiklir grávöruframleiðendur, á meðan veiðiskapur var stundaður hér, og útflytjendur þeirrar vöru þá, þá verð ég að segja fyrir mitt leyti, að mér finnst það ekki óeðlilegt, þó að ýmsir Íslendingar nú á dögum hinna miklu framkvæmda og framfara hugsi sér gott til glóðarinnar að gerast grávöruútflytjendur að nýju. Mér þykir þess vegna alleinkennileg sú afstaða, sem hefur komið hér fram hjá vissum hv. þingmönnum um það, að þeir vilji ekki einu sinni leyfa, að málið sé athugað, að ríkisstj. sé falið að afla allra þeirra gagna, sem hugsazt geta um þetta mál, og að hún undirbúi og leggi fram frv., þar sem gert sé ráð fyrir innflutningi eða eldi þessa dýrs í landinu.

Ég segi fyrir mig, að þegar ég skrifaði undir þetta nál., já gerði ég það af því, að ég vil fá úr þessu skorið, hvort það sé hugsanlegur möguleiki á því, að við getum stofnað til minkaeldis í landinu án þess að skaða okkur á öðrum sviðum umfram það, sem við megum við gera, og það er engin afstaða frá mér um það með undirskrift minni undir þetta nál., hvort ég er með minkainnflutningi og minkaeldi eða ég er mótfallinn því. Það kemur í ljós á sínum tíma, ef ég á sæti hér á Alþingi, þegar frumvarp um slíkt efni væri komið fram, — frv., sem væri samið að undangenginni vísindalegri og nákvæmri athugun á málinu. Ég tel það ekki sæmandi af okkur Íslendingum að láta ekki slíka athugun fara fram. Og í trausti þess, að það verði gert, hef ég undirritað þetta nál. með meðnm. mínum í landbn.

Það getur vel verið, að það megi toga og teygja orðalag í þessu nál. sitt á hvað. Það er svo um flest málefni, að við getum togazt á um orðalag óendanlega, og ég get vel viðurkennt, að það megi einnig gera það í þessu nál. En ég álít, að það eigi ekki að vera því til fyrirstöðu, að álitið sé samþykkt og málinu vísað til ríkisstj. á þeim grundvelli, sem hér er lagt til. Ég álít, að allir þm., sem það samþykkja, séu eftir sem áður algerlega óbundnir um afstöðu til þess, hvort hér verði komið upp minkaeldi ellegar ekki.

Þetta vildi ég segja í sambandi við málið, en ætla ekki að lengja umr. um það að öðru leyti.