14.02.1961
Neðri deild: 63. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (1854)

100. mál, fæðingarorlof

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera óánægður yfir þeim umr., sem hafa farið fram hér um þetta mál, því að mér sýnist ekki bera eins mikið á milli og ætla mætti, og vil m.a. benda á, að hv. frsm. minni hl. gerði enga tilraun til þess að hrekja þau rök mín, að málið væri engan veginn vel undirbúið, og þær ábendingar, að ýmsum ákvæðum þyrfti að breyta í frv., ef það ætti að verða að lögum. Fannst mér hann fallast á það. Ef það er m.a. hans tilætlun, að þær konur, sem hafa með annarri löggjöf tryggingu fyrir að halda sínum fulla orlofsrétti, eigi jafnframt að fá orlofsfé úr þessum sjóði, þykir mér hér of langt gengið. Ef það er ekki tilætlunin, þá þarf að kveða miklu nákvæmar á um það atriði.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. skýrði réttilega í umræðu um sína till., sem hv. 4. landsk. misskildi, að hér er um að ræða viðbót við fæðingarstyrki, sem nú eru, ef till. er samþykkt. Á engan annan hátt verður ákvæði frv. skilið ef það er samþykkt óbreytt, en að það sé viðbót við þriggja mánaða orlof hjá hvaða konu sem fengi annað orlof, hvort sem hún hefur tryggt sér það með löggjöf eða samningum. Og sé það ekki ætlunin, verður að breyta frv. Það getur vel verið, að það hafi ekki verið hugsað af hv. flm., en svona verður að skilja frv. Af mér er það skilið þannig, og ég hygg, að það verði að vera miklu skýrari ákvæði, ef það á ekki að vera þannig skilið almennt. Og ýmislegt annað, sem ég benti á, hefur hann viðurkennt og þykir mér vænt um að heyra, að hann álítur, að þar hafi ég farið með réttan skilning á málinu.

Ég skal svo svara hér einu veigamiklu atriði, sem hv. frsm. minni hl. kom að og ég tel að sé eitt af grundvallaratriðunum í málinu. Hann spurði, hvaða mismunur sé á því að tryggja konum, sem starfa hjá ríki og bæjum, með löggjöf fæðingarorlof eða þessu frv., sem hér er til umræðu. En hér er reginmunur á. Með ákvæði um fæðingarorlof fyrir konur í þjónustu ríkis og bæja er um að ræða hreinan launahluta. Ríkið hefur sett launalög fyrir starfsfólk sitt, bæði karla og konur, og einnig lög um réttindi og skyldur, og fæðingarorlofið þar er einn þáttur í þeirra launum. Það þýðir ekkert að hrista höfuðið yfir því, það er þannig. Það er ekki neitt annað. Það er einn hluti af þeirra launum, sem hefur komizt inn í löggjöf, en ekki samninga, vegna þess að ríkið hefur ekki samninga við sitt fólk um laun, heldur lög. Og ef hv. flm. vill taka upp þá aðferð að setja lög um öll laun í landinu þá getum við sannarlega rætt um það, hvort ekki á að taka inn í þau launalög að tryggja konum þriggja mánaða orlof. Og nákvæmlega sama er um þær konur, sem hafa fengið orlof með sérstökum samningum, að þar er þeim tryggður hluti af launum, svo að það er allt annars eðlis en það mál, sem hér er til umræðu. Ég er vel til viðræðna um það við hv. frsm., hvort við getum sett okkur niður og samið um það, hvaða leið eigi að fara til þess að tryggja öllum þegnum þjóðfélagsins ákveðin laun, svo að við með því móti getum stöðvað það böl, sem af því er í landinu, að um þetta er alltaf verið að deila. Það hefur verið stöðvað með launalögum hvað snertir starfsmenn ríkisins. Þar hafa þeir menn ekki leyfi til þess að taka þau á annan hátt, heldur verður að vera löggjöf um það og samkomulag milli þeirra aðila, hvernig þeim málum skuli skipað, svo að á milli þessara tveggja mála er regimunur, og er ekkert samhengi þar á milli, að það sé rétt af þeim ástæðum að setja þessi lög, vegna þess að það hafi verið tekið inn í launalög ríkisins.

En áður en ég fer að ræða nánar um þessi atriði, vil ég taka fram, að mér þykir mjög leitt að hafa hlustað á þau ummæli hv. frsm. minni hl., að hann vænir mig um, að ég hafi ekki hermt rétt eftir forstjóra Tryggingastofnunarinnar, sem ég átti tal við. Sú vinnuaðferð er ekkert ný, a.m.k. ekki í þeim nefndum, sem ég hef starfað í, að í stað þess að kalla á menn til viðtals við alla nefndina, þá sé formanni falið að ræða við þá, og á nefndin jafnan aðgang að því síðar meir, ef hún vænir formann um það að fara með rangt mál, að kynna sér það. Og ef hv. frsm. hefði látið orð að því liggja til mín sem formanns, að ég hafi ekki farið með rétt mál, þá hefðu nál. ekki verið gefin út, fyrr en forstjóri Tryggingastofnunarinnar var búinn að koma og tala við n. alla. Það var vitanlega skylda mín. En hann óskaði sjálfur eftir því að gefa ekki skriflega umsögn um málið. Út af þessu vildi ég mega beina þeirri spurningu til hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki nú fresta þessari umr. og gefa n. tækifæri til þess að ræða þetta mál á ný og kalla þá fyrir sig forstjóra stofnunarinnar og fá þannig úr því skorið, hvort ég hafi haft eftir honum röng ummæli eða ekki, því að það tel ég vera nokkuð höggvið nærri mínum þingsóma, ef það er borið á mig, að ég sé að fara með rangt mál frá þeim aðilum, sem hafa rætt við mig sem slíkan. Ég skal m.a. benda á, að þetta kom fyrir einnig í sambandi við erfðafjárskattinn. Þar óskaði ekki borgarfógeti að mæta hjá n., heldur gefa mér sem formanni ýmsar upplýsingar í sambandi við það mál, sem ég flutti n., og ég varð ekki var við, að það væri neitt rangt, það sem hann sagði. Hann óskaði ekki heldur að gefa skriflega umsögn um það atriði. En ég vildi mega beina því til hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki af þessum ástæðum fresta umr. og n. svo taka þetta mál til athugunar, sem þá og mundi taka til athugunar till. frá hv. 1. þm. Norðurl. v. En það vil ég taka fram, að þá óska ég eftir því, að þessu máli sé frestað, þar til ég fæ tækifæri til að koma aftur og taka sæti í n. sem formaður, því að ég er nú á förum til Norðurlanda í sambandi við fund Norðurlandaráðs og get því ekki byrjað á starfi nefndarinnar fyrr en eftir 14 daga, svo að ég óska eftir því, að málið verði ekki afgreitt í nefndinni, ef því verður frestað, fyrr en ég kem aftur heim.

Þá sagði hv. frsm. minni hl., að spurningar mínar hefði n. ekki samþykkt að senda út. Það hefur ekki verið venja. Hann sagði og, að þær væru ósæmilegar, óréttlátar og í alla staði óeðlilegt að senda slíkar spurningar út til þess að fá ákveðin svör við málinu, því að þær sýndu fullan fjandskap við málið. Ég hélt, að það væri ekki fjandskapur við neitt mál að fá sem flestar upplýsingar frá þeim aðilum, sem málið er sent til umsagnar, og ég tel, að formaður hverrar nefndar hafi fullt leyfi til þess fyrir hönd nefndanna að óska eftir upplýsingum um ákveðin atriði. Ef n. þótti ekki, að þau atriði væru nægilega upplýst, þá gat hún óskað eftir því að fá enn fleiri spurningar fram, og hefði ég verið fús til þess

að senda slíkt bréf, ef hv. frsm. minni hl. hefði óskað eftir því. En vegna þessa vil ég, með leyfi hæstv. forseta, skýra frá, hvað hér er spurt um. Ég segi svo í bréfi til þeirra aðila, sem fengu málið til umsagnar:

„Hjálagt sendir heilbrigðis- og félagsmálanefnd yður frumvarp til laga um fæðingarorlof og biður góðfúslega að senda sér umsögn yðar um frumvarpið hið allra fyrsta. Einkum er óskað umsagnar yðar um eftirfarandi atriði:

Ef lögbjóða á fæðingarorlof, svo sem fyrir er mælt í frumvarpinu, væri þá ekki eðlilegast að taka slíkt ákvæði upp í hina almennu tryggingalöggjöf, annaðhvort sem aukinn fæðingarstyrk eða á annan hátt, og láta það þá ná til allra kvenna, sem börn fæða?“

Er nokkuð ósæmilegt við að setja svona spurningu fram? Ef það er ósæmilegt af mér að hafa spurt þannig, þá er það sannarlega ósæmilegt af hv. 1. þm. Norðurl. v. að bera fram svona till. Ég get ekki búizt við, að hann fallist á það. — Önnur spurningin er:

„Samkvæmt gildandi lögum um orlof er manni óheimilt að vinna fyrir kaupi í starfsgrein sinni, á meðan hann er í orlofi. Teljið þér rétt, að slíkt ákvæði sé sett inn í frumvarpið?“

Er það ósæmilegt að spyrja um þetta í sambandi við orlofslöggjöf, þegar þetta ákvæði er í hinni almennu orlofslöggjöf í landinu? Ég veit, að það mun ekki hafa vakað fyrir hv. flm., hvað sem um er að ræða um hv. frsm. minni hl., þá mun það ekki hafa vakað fyrir hv. flm., að konan gæti t.d. haft full laun meiri hluta meðgöngutímans og þess utan fengið orlof. Og þess vegna er spurt þannig. En hvernig átti þá, ef það er ekki til ætlazt, að konan hvíli sig þann tíma, að tryggja það, að það ákvæði væri ekki brotið, því að um það er ekkert í þessu frv.? En um það eru ákveðin ákvæði í almennu orlofslöggjöfinni. — Í þriðja lagi var spurt:

„Teljið þér eðlilegt, að þeir vinnuveitendur, sem engar konur hafa í þjónustu sinni, greiði einnig orlofsfé til sjóðsins, og ef svo er, þá í hvaða hlutfalli við þá, sem eingöngu hafa konur í þjónustu sinni?“

Ég sé ekki, að það sé neitt ósæmilegt að spyrja þannig, og það bendir ekki neitt til þess, að ég hafi verið andvígur afgreiðslu málsins. — Þá var enn spurt:

„Teljið þér, að ef frumvarpið verður að lögum, kynni það einhver áhrif að hafa á ráðningu kvenna til starfa til jafns við karlmenn, eftir að jöfn laun karla og kvenna eru viðurkennd fyrir sömu vinnu, þar sem vinnulaun kvenna undir vissum kringumstæðum gætu orðið 25% hærri, þótt mismunur verði greiddur úr orlofssjóðnum?“

Ég sé ekki, að það sé nein goðgá að spyrja þannig. Það er vitanlegt, að þegar sú löggjöf er komin á, — og ég veit a.m.k., að hv. 4. landsk. óskar eftir, að það verði sem fyrst, — það þekki ég af baráttu hans fyrir því máli, að það séu greidd sömu laun fyrir karla og konur í þessu landi, sem og er farið að gera víða, — þá er ekkert um það að ræða, að kjör þeirra kvenna, sem fá þetta aukreitis, yrðu miklu betri en annarra, og þar af leiðandi hafa þær þá fengið miklu hærri laun. — Svo segi ég enn:

„Teljið þér ekki eðlilegt, að sett verði í frumvarpið ákveðin iðgjaldsgreiðsla atvinnurekenda, svo sem gert er í orlofslögunum, og ef svo er, þá að hvaða hámarki?“

Um þetta er ekkert í frv. Atvinnurekandinn og ríkið vita ekkert um það, hvaða iðgjald þeir eiga að greiða á hverju ári. Það er alveg óákveðið. Það yrði að reikna þetta út eftir þeim kröfum, sem koma á sjóðinn á hverju ári, og mér finnst ekkert óeðlilegt, þótt um þetta sé spurt.

Og svo er sagt hér síðast: „Sérhvað það annað, sem geti orðið til leiðbeiningar við setningu laga um fæðingarorlof.“ Er það þessi setning kannske, sem er ósæmileg?

Ég vil nú skjóta því til hv. þd., hvort henni finnist nokkuð af þeim spurningum, sem hafa verið sendar hér út, vera ósæmilegar eða þess eðlis, að það sé ástæða til að víta mig fyrir þær sem formann nefndarinnar.

Þá gat hv. frsm. um það, að það væri ósamræmi í málflutningi meiri hl., þar sem hann héldi því bæði fram, að málið gengi of skammt, og vildi þó ekki samþykkja þetta stig. En í þessu er ekkert ósamræmi. Það er ósamræmi í því frá mínu sjónarmiði að lögbjóða orlof fyrir eina stétt kvenna, án þess að það sé lögboðið fyrir allar konur, sem fæða börn, og er ég þar alveg á sama máli og hv. 1. þm. Norðurl. v. Að meiri hl. leggur ekki til, að þetta Stóra spor sé stigið nú, kemur til af því, að málið er ekki nógu vel undirbúið til þess að stíga það svo fyrirvaralaust, og m.a. hefur ekki verið gert ráð fyrir tekjum á móti, og skal ég koma nokkuð að því, þegar ég ræði brtt., svo að hér er ekki um neitt ósamræmi að ræða í afstöðu hv. meiri hl. til þessa máls:

Hv. frsm. minni hl. sagði í þessu sambandi, að þegar hann hefði farið að ræða þetta við meiri hl., þá hefði allur áhuginn farið út í veður og vind. En ég hef skýrt frá því, hvers vegna við vorum ekki tilbúnir til þess að afgreiða málið á þennan veg, og það er m.a. vegna þess fjár, sem þarf að afla til þess að tryggja það, að þetta verði meira en pappírsgagn.

Hv. frsm. sagði m.a., að sér fyndist ekki, að þetta frv. ætti heima í hinum almennu orlofslögum. Nú er hann kominn á þá skoðun, að það sé ekkert óeðlilegt, að þetta sé fellt inn í hina almennu tryggingalöggjöf og það verði samþykkt þannig sú tillaga, sem fram er komin hér, eftir því sem hann talaði hér áðan, og skal ég koma að því síðar.

Ég skal svo að síðustu, hvað snertir ummæli hv. frsm. minni hl., svara nokkrum orðum þeim ummælum, sem hann hafði hér um samanburð á kjörum þeirra kvenna, sem búa austantjalds, og hinna, sem eru fyrir vestan það, sem honum fannst sjálfsagt að koma hér á. En þegar á að gera samanburð, verður að gera hann að fullu. Hér lét hann þau orð falla, að kjör austan tjaldsins væru nú þau, að karlmenn, sem væru 60 ára gamlir, fengju ellilaun og einnig allar 55 ára konur, og þetta væri nú eitthvað annað á Íslandi. Nú vil ég spyrja í þessu sambandi: Finnst hv. frsm., að þetta sé nægjanlegt til þess að gera raunverulegan samanburð? Mundi ég mega spyrja: Vill hann og gera samanburð um launakjör kvenna og karla austan járntjalds og vestan? Vill hann t.d. upplýsa, hvað menn fá í verðmætum fyrir hverja stund sinnar vinnu austan tjalds og hvað fá þeir vestan tjalds? Ef þeir fá jafnmikið fyrir hverja vinnustund austan tjalds og þess utan þá viðbót að fá þessi fullu laun, sem hann að vísu gat ekki um að væru full laun, þegar þeir hættu að vinna sextugir, þá finnst mér samanburðurinn fullkominn. Sé hins vegar um það að ræða, að lífskjör austan tjalds séu engan veginn sambærileg við lífskjör vestan tjalds, þá horfir málið allt öðruvísi við. Það væru t.d. engin vandræði fyrir okkur hér á Íslandi, ef við mættum lækka laun að svo og svo miklum hundraðshluta og setja það í sérstakan sjóð til þess að gefa mönnum þau sömu laun, þegar þeir væru sextugir. Þetta væru engin vandræði. En það getur vel verið, að hv. þm. sé svo kunnugur launakjörum og lífskjörum austan tjalds almennt, að hann geti fullyrt um þetta. Sögur, sem ganga um þau mál, fara í allt aðra átt. Og raunveruleikinn er þó sá, að þúsundir manna flýja úr þessu ríki vestur yfir takmörkin, því að þeir telja sér trú um eða þeir vita, að þeir geti haft þar betri lífskjör, jafnvel þó að þeir þurfi að bíða eftir ellilaununum, þangað til þeir eru 67 ára. Og eitt er þó alveg víst, að stjórnir þeirra landa, sem eru fyrir austan járntjaldið, opna ekki landamærin, svo að menn megi þó a.m.k. vera sjálfráðir um það, hvort þeir fara eða fara ekki. Það veit hv. þm. eins vel og ég, svo að þessi samanburður hans er einskis virði sem sönnunargagn í þessu máli.

Nákvæmlega sama gildir um, þegar hann er að tala um samanburðinn fyrir austan tjald, að fólkið fái fríar tannlækningar, ef það eru svo miklu betri kjör hér vestan tjaldsins, að þótt kostnaði við tannlækningar sé bætt við, verði kjörin þó enn miklu betri vestan tjaldsins.

Ég skal svo ekki ræða frekar ræðu hv. frsm. minni hl., en snúa mér nokkuð að brtt., sem fyrir liggur.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. lýsti hér baráttu sinni og annarra þm. fyrir því að koma inn jöfnum fæðingarstyrk í lögin á sínum tíma. Mér er mjög vel kunnugt um alla þá baráttu, sem stóð um þessa löggjöf, þegar hún fyrst var rædd og samin hér á Alþingi. Ég átti m.a. þá sæti í heilbr.- og félmn. Ed., og nefndirnar frá báðum deildum unnu saman að þessari löggjöf um langan tíma. Og þar urðu ýmis átök, bæði um mínar tillögur og annarra, m.a. um þá tillögu, sem hér er til umr. En ég vil benda á, að við megum ekki loka augunum fyrir því, að þegar tryggingalöggjöfin á sínum tíma var borin fram og samþykkt, var hún tvíþætt og varð að vera tvíþætt á því stígi. Hún var trygging fyrir komandi kynslóðir og þá kynslóð, sem þá lifði, en hún var jafnframt nokkurs konar fátækrastyrkur, þ.e.a.s., það var tekið tillit til þess í löggjöfinni, hvaða tekjur menn hefðu annars staðar, og það er einmitt þetta, sem réð ákaflega miklu, ekki einungis um þetta atriði í sambandi við fæðingarorlofið, heldur einnig um mörg önnur ákvæði í tryggingalöggjöfinni. En smátt og smátt voru þessar hömlur af teknar, og nú, 1961, er m.a. afnumin viðmiðunin um ellistyrkinn. Hann er nú orðinn tryggingastyrkur eða tryggingatekjur. Hann var áður ellistyrkur, en er nú orðinn hrein og bein tryggingarupphæð, m.a. af því, að menn hafa greitt svo og svo langan tíma í tryggingarnar og eiga þennan rétt eftir svo og svo langan tíma eftir að hafa greitt sín iðgjöld. En það lá ekki fyrir 1945, svo að það var engin andúð á þessari hugmynd á þeim tíma, nema síður sé. Ég man, að við ræddum mikið um þetta atriði í sambandi við tryggingalöggjöfina þá. Og í sambandi við þetta vil ég einnig benda á annað atriði, sem hefur ekki náðst samkomulag um enn og er þó fullkomlega réttlátt, og það er að hafa ekki tryggingasvæðið nema eitt í landinu. Við vitum, að í dag eru þau tvö. Það er mismunur á því, hvaða tryggingaupphæð fólk fær, sem býr á öðru verðlagssvæði og á fyrsta verðlagssvæði. Það er jafnt og þétt unnið að þessari leiðréttingu. En það strandaði allt á því á þeim tíma, að tryggingarnar höfðu ekki getað skapað sér nægilega sjóði til þess að taka við þeim þunga, sem það hlaut að hafa í för með sér að hafa eitt svæði. Og þetta hefur smátt og smátt lagazt, eftir því sem sjóðir hafa orðið sterkari og meiri og tryggingarnar haft yfir meira fé að ráða. Ég vildi láta það koma fram hér, að þetta var meginástæðan fyrir því, að þessi ákvæði komu ekki inn í löggjöfina strax, en ekki hitt, að menn hefðu ekki haft fullkomlega opin augun fyrir því, að það var réttlæti og eina réttlætið að láta fæðingarstyrkinn vera hinn sama fyrir allar konur í landinu, og í því er ég alveg sammála hv. flm. till.

Ég hef fengið upplýst, eins og reyndar hv. 1. þm. Norðurl. v. minntist á hér, að fæðingarstyrkurinn er nú 2160 kr. fyrir hverja fæðingu. Ef ætti að sexfalda hann, eins og forstjóri Tryggingastofnunarinnar taldi að væri nauðsynlegt til að ná þessum kjörum fyrir allar konur, þá yrðu þetta tæpar 13 þús. kr., og það væri sama sem fjórði parturinn af 52 þús. kr. launum, sem konur þá hefðu. Og þó að það sé nokkuð erfitt að reikna það út, hvað þetta gæti orðið að meðaltali, þá taldi forstjóri Tryggingastofnunarinnar, að hann hefði nokkuð örugga vissu um, að hér væri um meðallaun að ræða í landinu hjá konum. Hvort það er rétt eða ekki, það læt ég hann alveg um. En það er alveg víst, að þetta mundi kosta nærri 13 þús. kr., ef sexfalda ætti fæðingarstyrkinn. Ætti hins vegar að samþykkja þá till., sem liggur fyrir hér á þskj. 361, þá mundi þetta nema 6480 kr. fyrir hverja fæðingu, og það mundi hafa kostað 1959 rúmlega 25 millj. kr., en yfir 50 millj., ef ætti að taka fullan sexfaldan fæðingarstyrk. (Gripið fram í.) Það er rétt, að fæðingarstyrkurinn var 1959 8 470 397 kr., og það varð að þrefalda, — ekki fjórfalda, heldur þrefalda, og við erum báðir svo miklir reikningsmenn, ég og hv. 1. þm. Norðurl. v., að þrisvar sinnum 8½ millj. gera þá 25½ millj. (Gripið fram í.) Já, ég fimmfalda hitt, það er alveg rétt. Já, það mundi ekki verða alveg tvöfalt, það er alveg rétt. En þetta mundi muna um 25–26 millj. kr. miðað við 1959 og töluvert miklu hærra nú. En finnst nú ekki hv. þm., sem hefur borið þessa till. fram, að það sé ekkert óeðlilegt, þó að meiri hl. vilji ekki leggja til að samþykkja frv., eins og það liggur fyrir?

Og ég vil nú einnig spyrja hv. frsm. minni hl. að því, hvort rétt sé að samþykkja frv., þegar í fyrsta lagi er till. komin fram um að bylta frv. alveg, svo að það stæði enginn stafur eftir af því, því að því yrði raunverulega bylt svo um, að það er ekki lengur orðið sérstakt frv. um fæðingarorlof kvenna, heldur er það orðið liður í tryggingalöggjöfinni og ætti þá við að vera sett inn sem brtt. við þá löggjöf, því að það er hvort tveggja, að það á að hækka orlofsgjaldið, og það á að fara nákvæmlega eins með tekjurnar, taka þær nákvæmlega á sama hátt og í tryggingalöggjöfinni. Og það er einmitt það, sem meiri hl. n. bendir á, að það sé ekki hægt að samþykkja frv., eins og það er, vegna þess annars vegar, að það þarf að gerbreyta frv., og hins vegar, ef á að ná þessu takmarki: að gera réttinn þann sama fyrir allar konur, þá er þetta orðið stórkostlegt fjárhagsmál. Og ég veit, að hv. flm. till., sem er búinn að sitja hér lengi á þingi og sitja jafnan í fjhn., vera m.a. fjmrh., — ég veit, að hann er mér sammála um, að það sé engan veginn frambærilegt eða yfirleitt hægt að samþykkja í einu lagafrv. yfir 25–26 millj. kr. útgjaldalið, nema því aðeins að gert sé jafnframt fullkomlega ráð fyrir því, hvernig eigi að taka tekjur á móti. Nú segir hann að vísu í sinni till., að það eigi að leggja þessi gjöld á sama hátt á sömu aðila. Þar með er það nýr skattur á hvern gjaldþegn í landinu, það er nýr skattur á atvinnuvegina, það er nýr skattur á sveitarfélögin, og það er nýr skattur á ríkissjóðinn, og fyrir þessum útgjöldum hefur a.m.k. ekki verið gert neitt á þeim fjárlögum, sem búið er að afgreiða. Þetta styður fullkomlega þá till. meiri hl. að vísa málinu til ríkisstj. til undirbúnings. Sjái hæstv. ríkisstj. sér það fært xð taka upp á næstu fjárlög sinn hluta af þeim 25 millj. eða meira, sem það mundi hafa í för með sér að samþykkja þessi lög, þá er eðlilegt, að hún leggi fram á næsta Alþingi stjfrv. um það atriði. Þess vegna finnst mér, að þessi till. einmitt styðji fullkomlega till. meiri hl. um að vísa málinu til ríkisstj. til frekari undirbúnings.

Ég skal hins vegar verða fullkomlega við þeirri ósk hv. 1. þm. Norðurl. v. að halda einn eða fleiri nefndarfundi um till. hans, svo framarlega sem hæstv. forseti vill verða við þeim tilmælum mínum, þótt þau komi ekki fyrr en nú, að fresta umr. og taka málið ekki á dagskrá, fyrr en ég hef aftur tekið sæti á þingi eftir að hafa komið heim frá fundum Norðurlandaráðs.