21.10.1960
Neðri deild: 8. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (1970)

35. mál, skólakostnaður

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir á þskj. 35, var flutt á síðasta þingi af þeim Sigurði Bjarnasyni, sem þá set sem varaþm. fyrir mig í fjarveru minni, og Sigurði Ágústssyni, hv. 2. þm. Vesturl. Þetta frv., sem var 140. mál Nd., á þskj. 346, kom svo seint fram, að því var fyrst vísað til hv. menntmn. 12. maí, eða nokkru áður en þingi var slitið. N. sendi frv. til umsagnar þann 16. maí til fræðslumálastjóra og til ráðunautarins Aðalsteins Eiríkssonar, en umsagnir þeirra komu ekki til n. fyrr en eftir að þingi var slitið. Málið fékk því enga afgreiðslu á s.l. þingi.

Við frv. á s.l. þingi bar hv. 4. þm. Sunnl. fram brtt. á þskj. 456 í fimm liðum, sem breyttu að sjálfsögðu allmikið frv., ef samþ. hefðu verið. Hafa brtt. hv. þm. einnig verið athugaðar af Aðalsteini Eiríkssyni og hann einnig sent umsögn um þær, og skal ég ræða nokkru nánar um það síðar.

Okkur flm. þótti rétt að bera frv. fram á ný hér óbreytt, eins og það var borið fram á síðasta þingi á þskj. 346. Það er ekki vegna þess, að við teljum, að ekki beri að athuga brtt. þær, sem fram komu, eða við séum út af fyrir sig ósammála um brtt., heldur þótti okkur rétt að bera frv. fram algerlega óbreytt og sjá, hvort kostur væri á því að fá það samþykkt þannig eða með þeim breyt., sem fram voru bornar á síðasta þingi og ég geri ráð fyrir að komi a.m.k. til umr. eða ef til vill verða þær bornar fram aftur nú á ný.

Þetta frv., sem er í þremur megingreinum, er þess efnis, að ríkissjóður taki nokkru meiri þátt í kostnaði við héraðsskólahald en nú er. Það er vitað, að þeir aðilar, sem halda uppi þessum skólum, hafa enga fjárhagslega möguleika til þess að standa undir þeim kostnaði, eins og hann er nú ákveðinn í lögum, og árangurinn verður sá, að skólarnir níðast niður, viðhaldið verður miklu meira árlega en það þyrfti að vera, og skólarnir geta engan veginn sinnt því hlutverki, sem þeir eiga að sinna, eins og ef hægt væri að halda þeim í fullkomnu ásigkomulagi.

Ég skal ekki eyða tíma hv. d. í að ræða mjög um frv. sjálft, heldur vísa til ýtarlegrar grg. um þetta mál, en þó einkum til þeirra umsagna, sem hafa komið fram frá þeim tveimur aðilum, sem ég minntist hér á áðan, en þær liggja nú fyrir hv. menntmn. Vildi ég mega mælast til þess, að þau gögn yrðu athuguð mjög gaumgæfilega af n., sem fær þetta mál til meðferðar. Þessi gögn eru mjög ýtarleg, einkum og sér í lagi frá Aðalsteini Eiríkssyni, og skal ég ekki fara ýtarlega út í hvert atriði þar, en aðeins minnast á nokkur atriði, sem sýna, hversu það er aðkallandi, að málið verði leyst, og um leið vil ég leyfa mér að minnast á bréf frá fræðslumálaskrifstofunni, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Fræðslumálastjóri dvelst nú erlendis um mánaðartíma, en af viðræðum við hann er mér kunnugt um, að hann er fylgjandi því, að stofn- og rekstrarkostnaður héraðs- og húsmæðraskóla verði að fullu greiddur úr ríkissjóði.“

Í hinni löngu og ýtarlegu umsögn frá fjármálaeftirlitsmanni skólanna er sagt m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel, að sá kostnaðarauki fyrir ríkissjóð, ca. 384500 kr., sem af lagabreytingunni sjálfri leiðir, ef frv. á þskj. 346 yrði samþykkt, eða að sporið yrði stigið til fulls, eins og gert er ráð fyrir í brtt., þar sem kostnaður yrði aukinn um 1034300 kr., sé hverfandi á móti því, sem ynnist við breytinguna. Benda má á, að sá mismunur á útgjaldaaukningu ríkissjóðs, ef brtt. yrði samþykktar í stað frv., þ.e. 1034300 kr. á móti 384500, eða 649800 kr., mundi geta jafnazt og vel það með því, að ríkisvaldið fengi þá eitt umráð yfir þessum stofnunum, m.a. til ráðstöfunar fyrir gistihús að sumrinu til.

Ég tel, að frv. á þskj. 346, með þeim breyt., sem ég hef lagt til að væru á því gerðar, sé til mikilla bóta, en leysi þó ekki þann vanda í þessum málum, sem ég tel höfuðatriði og skiptir mestu máli, það að leysa skólana undan forsjá hins fjárframlagatrega og oft getulausa aðila, sýslufélaganna, og að losa ríkissjóð við þann samstarfsaðila, af ástæðum, sem áður er greint frá.

Kostir frv. umfram þær reglur, sem nú gilda, eru þessir: Meira samræmi milli skólanna og sýslufélaganna innbyrðis í rekstrarkostnaði. Óeðlilegar sjóðsmyndanir verða engar, sbr. það, sem áður er sagt. Hækkun á stofnkostnaðarhlutfalli ríkissjóðs nemur meira en rekstrarhækkun sýslufélaga og ætti að tryggja haldbetri stofnkostnaðarframkvæmdir, af ástæðum, sem áður eru tilgreindar.

Með hliðsjón af því, sem ég hef reynt að gera grein fyrir í bréfi þessu og fylgigögnum þess, eftir þeirri reynslu, sem ég hef fengið í þessum málum undanfarinn áratug, leyfi ég mér að mæla eindregið með brtt. á þskj. 456, ásamt viðbót minni við 5. lið þeirra, en til vara með frv. á þskj. 346 ásamt þeirri breyt., sem ég hef á því gert.“

Þetta eru ummæli hv. fræðslumálaráðunautar ríkisstj. í skólamálum.

Ég vil því vænta þess, að þetta frv., sem hér er borið fram, verði samþykkt á þessu þingi. Það er vitað, að þeir skólar, sem hér um ræðir, eru ekki lengur skólar sérstaklega fyrir þau héruð, þar sem þeir starfa, heldur sækja þangað orðið nemendur svo að segja úr öllum fjórðungum landsins, og slíkt mundi ekki vera, ef skólarnir hefðu ekki fengið það álit, að þeir séu góðar menntastofnanir, þar sem það er torveldara fyrir aðra aðila að sækja og dveljast þar við nám en vera í þeim skólum, sem til eru í þeirra heimahéruðum.

Ég vil leyfa mér að óska, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn., og vænti þess, að hv. menntmn. afgreiði fljótt þetta frv., þar sem fyrir henni liggja nú gögn, sem ég hef rætt hér um, og engin ástæða er því til að tefja málið með því að senda það á ný til umsagnar. Vænti ég einnig, þegar það kemur frá n., að þessi hv. d. fallist á þær tillögur, sem gerðar verða af n., og afgreiði málið til hv. Ed. og að hún síðan afgreiði málið svo fljótt, að það mætti verða að lögum á þessu þingi.