31.10.1960
Neðri deild: 15. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (1998)

77. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um breyt. á l. nr. 48 frá 28. maí 1957, um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, er flutt vegna þeirra miklu breytinga, sem orðið hafa á verðlagi í landinu undanfarin ár, og þó einkum vegna laga um efnahagsmál, sem samþykkt voru á þessu ári.

Samkv. 5. gr. nefndra laga leggur ríkissjóður fram 5 millj. kr. árlega til að undirbúa ræktun lands vegna byggðahverfa og nýbýla einstaklinga. Þetta framlag var ákveðið í maí 1957, og hefur því verðgildi hverrar krónu minnkað mjög síðan. Grasfræ er t.d. tvöfalt dýrara nú, jarðræktarvélar einnig. Áburður hefur hækkað og vinnulaun nokkuð. Öll hækkunin er þó ekki komin fram enn, því að litið sem ekkert hefur verið keypt afjarðræktarvélum síðan efnahagslögin voru samþykkt á þessu ári.

Í framkvæmd hefur fé því, sem ríkissjóður greiðir samkv. 5. gr. landnámssjóðsl., verið varið þannig, að hvert nýbýli hefur fengið 35 þús. kr. framlag til jarðræktar. Verði þetta frv. samþykkt óbreytt, er gert ráð fyrir, að hvert býli fái 50 þús. kr. Er það sízt meira framlag en verið hefur, þegar tekið er tillit til þeirra breytinga, sem orðið hafa á verðlaginu.

Hvert nýbýli hefur fengið 25 þús. kr. framlag til þess að byggja íbúðarhús. Ríkissjóður hefur greitt árlega 1½ millj. í því skyni samkv. 26. gr. nefndra laga. Þetta framlag hefur alltaf verið of lítið, en nú er það algerlega ófullnægjandi. Við leggjum því til, að 26. gr. breytist þannig, að framlag ríkissjóðs verði 2 millj. árlega, en styrkur til að reisa íbúðarhús á nýbýlum hækki úr 25 þús. í 40 þús. kr.

Í 12 ár hefur verið unnið að stofnun nýbýla hér á landi samkv. sérstakri löggjöf, og á þessu tímabili hafa 740 nýbýli fengið framlag frá ríkissjóði. Í fyrstu var framlagið aðeins til jarðræktar og nam þá ekki nema 12 þús. kr., en frá 1957 hefur einnig verið veitt framlag til húsabóta. Það skal tekið fram, að nokkuð af þessum 740 nýbýlum eru jarðir, sem farið hafa í eyði, a.m.k. í bili, og víða mun vera um skiptingu jarða að ræða. Þetta skiptir ekki svo miklu máli. Aðalatriðið er, að nýbýlalöggjöfin hefur borið árangur. Sveitabýlin eru sennilega 10% fleiri vegna þess stuðnings, sem nýbýlin hafa notið, og flest þessi býli hafa sæmilegan húsakost og eru frekar vel í sveit sett. Hitt gefur auga leið, að verði framlag ríkisins ekki hækkað og lán aukin að krónutölu með tilliti til breytts verðlags, þá getur þessi þróun ekki haldið áfram.

Á síðasta þingi voru samþ. lög þess efnis, að heimilt væri að veita bændum, sem hefðu þröngan fjárhag, jafnt framlag til að byggja íbúðarhús og þeir fá, sem reisa nýbýli. Slík framlög áttu að greiðast af því fé, sem landnám ríkisins hefur til umráða samkv. 41. gr., en ekki var gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu. Á frv. til fjárlaga fyrir árið 1961 er ekki heldur gert ráð fyrir fjárveitingu í þessu skyni. Við höfum fengið það upplýst hjá landnámsstjóra, að hann geti í mesta lagi lagt fram 750 þús. kr. á þessu ári eða næsta ári af því fé, sem ríkið leggur fram samkv. 41. gr.

Verðlag og byggingarefni hefur hækkað um 50–70% á þessu ári. Ég hygg, að kostnaður við að byggja íbúðarhús hafi allt að því tvöfaldazt s.l. 3 ár. Þeir bændur, sem hafa verið að byggja íbúðarhús s.l. 2 ár eða eiga það eftir, eru flestir efnalitlir eða hafa haft slæma aðstöðu á einhvern hátt. Mikill meiri hluti bænda hefur þegar byggt upp á jörðum sínum. Hitt hlýtur öllum að vera ljóst, að þeir, sem eiga eftir að byggja íbúðarhús, geta það ekki nema fá meiri aðstoð en verið hefur. Árið 1959 voru færri íbúðarhús byggð en 1957 og 1958. Og í ár munu mjög fáir hafa byrjað á byggingu íbúðarhúsa.

Það vita allir, sem til þekkja, að þeir bændur, sem staðið hafa í byggingarframkvæmdum s.l. 2–3 ár, eru yfirleitt mjög skuldugir. Mikill hluti slíkra skulda eru lausaskuldir með háum vöxtum. Lánsfjárskortur er mikill og fast gengið eftir, að skuldir séu greiddar. Þetta veldur því, að slíkir bændur verða þreyttir á erfiðleikunum og hætta búskap, nema þeir geti fengið lán með skaplegum kjörum og í sumum tilfellum fjárhagsaðstoð. Ríkisvaldinu er skylt að leysa úr þessu vandamáli nú, því að efnahagslöggjöfin var þess valdandi að auka erfiðleika allra, sem eru að byggja, þannig að það, sem áður var framkvæmanlegt, er nú ógerlegt.

Íslendingar urðu á eftir flestum eða öllum menningarþjóðum með ræktun og húsabætur. Þeir þekktu tæpast plóginn og bjuggu í hálfgerðum jarðhúsum. S.l. 30 ár hefur orðið á þessu mikil breyting. Fullkomnar jarðvinnsluvélar eru nú notaðar og yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar býr í góðum húsum. Ýmsar ástæður valda því, að þetta hefur tekizt. Viðurkenna verður, að félagsleg aðstoð hefur átt sinn mikla þátt í því. En þrátt fyrir þetta eigum við meira af óræktuðu landi, sem auðvelt er að rækta, en flestar aðrar þjóðir, sé miðað við stærð landsins og fólkstölu, og enn búa nokkrir við lélegan húsakost.

Það er ekkert athugavert við það, þó að nokkur býli hafi farið í eyði, sem í mörgum tilfellum hafa verið illa staðsett, en önnur verið byggð í staðinn, þar sem ræktunar- og samgönguskilyrði hafa verið betri. Slíkt getur verið hagkvæmt frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Við eigum nýbýlalöggjöfinni það að þakka, að bændabýlum hefur lítið eða ekkert fækkað, þó að margar jarðir hafi farið í eyði. Við þurfum ekki að efast um, að þrátt fyrir misjafna fjárhagslega og pólitíska veðráttu heldur þróunin áfram og á að halda áfram. Við eigum að rækta okkar land eins og aðrar þjóðir. Hér er hægt að rækta korn og kartöflur, a.m.k. í vissum landshlutum. Sauðfjáreign okkar getum við margfaldað, þó að beitartilhögun þurfi að verða önnur en nú er. Það er ekki til neins að ætla að hafa allt féð að sumrinu á misjöfnum afréttum og láta það hanga við girðingar, þegar haustar. Heimalöndin þarf að rækta og girða í sundur og beita búpeningnum meira og minna á ræktað land.

Ég er sannfærður um, að við höfum möguleika til þess að flytja út sauðfjárafurðir fyrir mörg hundruð milljónir króna árlega, þótt enn sé fjármagnið of lítið og hendurnar of fáar, sem að því vinna, til þess að það sé framkvæmanlegt í bili. En þetta á allt eftir að breytast. Fólkinu fjölgar, og fjármagnið vex.

Ég hef drepið á þetta hér vegna þess, að við verðum að gera það upp við okkur nú, hvort við viljum, að hætt sé að reisa nýbýli, og hvort við viljum, að þeir bændur, sem eru að byggja eða eiga það eftir, yfirgefi býli sín vegna fjárhagsörðugleika og þau fari í eyði. Flestir slíkir bændur eru búnir að rækta meira eða minna, kaupa vélar og byggja útihús. Þarna er því um tugmilljóna verðmæti að tala, sem fara að miklu leyti forgörðum, ef engin fyrirgreiðsla er veitt. Það þarf ekki alltaf þungt lóð, til þess að vogarskálarnar verði jafnar, og tiltölulega lítil aðstoð getur ráðið úrslitum í mörgum tilfellum. Flestar eða allar nágrannaþjóðir okkar styrkja nýbýli og nýbyggingar með beinum framlögum og hagkvæmum lánum. Norðmenn lána t.d. 90% af byggingarkostnaði til 47 ára með 3½% vöxtum. Í vissum tilfellum er hluti af lánunum vaxtalaus. Hámarksstyrkur er allt að 20 þús. kr. norskar, sem gerir á annað hundrað þús. ísl. kr. Írland veitir um 275 punda styrk út á 5 herbergja íbúðir. Jafnvel Belgir, sem búa í einhverju þéttbýlasta og bezt ræktaða landi álfunnar, veita allt að 20% styrk til þess að byggja gripahús í vissum tilfellum.

Því verður ekki neitað, að sjómenn og bændur eru í fremstu víglínu íslenzks atvinnulífs. Hygginn hershöfðingi veit, að hermennirnir berjast illa, ef þeir eru svangir og kaldir. Vitanlega eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að greiða há vinnulaun og hve mikla opinbera aðstoð er hægt að veita.

Vera má, að einhverjir bendi á, að við förum með frv. þessu fram á, að útgjöld ríkisins séu aukin um 5½ millj. kr., án þess að benda á leiðir til tekjuöflunar. Því vil ég svara þannig, að samkvæmt 16. gr. fjárlagafrv. eru framlög til jarðræktar og framræslu áætluð 26 millj. Er það sama upphæð og á s.l. ári. Vitað er, að mjög hefur dregið úr framkvæmdum, sennilega er um samdrátt að ræða, sem nemur frá 25 til 30%, þó að endanlegar skýrslur séu ekki komnar. Þetta þýðir það, að 16. gr. fjárlaga þarf ekki að hækka, þó að frv. þetta verði samþykkt. Á það má einnig benda, að ýmsir útgjaldaliðir samkv. 16. gr., þótt ekki sé lengra farið, hafa ekki mikla hagnýta þýðingu og væri skaðlítið fyrir íslenzka bændastétt og þjóðarbúið, þótt sumir væru lækkaðir eða felldir alveg niður. Hitt fullyrði ég, að engin útgjöld samkv. 16. gr. fjárlagafrv. eru jafnnauðsynleg og það er að veita þeim bændum aðstoð, sem nú eru að gefast upp fjárhagslega vegna þeirra aðgerða, sem þing og stjórn hafa þegar gert.

Ég get ekki fullyrt, hve margir þeir bændur eru, sem á aðstoð þurfa að halda. Væri ekki fjarri lagi, að þar væri um að ræða 10% íslenzkra bænda.

Frv. því, sem hér liggur fyrir, er ekki ætlað að ná nema til þeirra, sem hafa verið að byggja íbúðarhús s.l. 2–3 ár. Ég get ekki nákvæmlega fullyrt, hversu mörg hús hafa verið byggð s.l. 2 ár, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, má ætla, að það hafi verið eitthvað milli 50 og 60 hús s.l. ár og eitthvað rúm 100 árlega árin 1957–58. Þetta er náttúrlega ekki há tala. En athuga ber, þegar þetta mál er rætt, að aðstaða bænda hefur verið ákaflega misjöfn.

Ég skal játa það, að við, sem byrjuðum búskap fyrir 30 árum, höfðum erfiða aðstöðu frá tæknilegu sjónarmiði. En við vorum búnir að gera hlutina áður en verðlagið breyttist. Þeir, sem hafa verið að byggja síðustu 3–4 árin, hafa haft allt aðra aðstöðu, og þeir, sem eiga eftir að byggja, hafa hana enn verri, þannig að verð á húsum, sem þeir hafa byggt, hefur verið margfalt hærra. Það má heita, að nú sé útilokað fyrir bónda að ráðast í að byggja íbúðarhús nema fá miklu meiri aðstoð en verið hefur, annaðhvort með lánum eða beinum framlögum. Ég skal játa, að yfirleitt er ég á móti beinum framlögum. Ég álít, að það sé bezt, að hver reyni að vera ábyrgur sinna gerða, en í vissum tilfellum getur það verið nauðsynlegt, og það getur verið hyggilegt frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Við förum fram á samkv. 3. gr. í frv. þessu, sem hér liggur fyrir, að tillagið sé hækkað um 2½ millj. Landnámsstjóri hefur upplýst, að hann geti í mesta lagi misst 750 þús. af því fé, sem honum er ætlað til þess að styrkja stækkun á þeim túnum, sem minnst eru eða fyrir innan 10 hektara. En þetta þýðir það, ef miðað er við 25 þús. kr. framlag, eins og er nú til húsabóta á nýbýlum, að það er aðeins hægt að styrkja 30 bændur í bili. Það er aðeins búið að veita 5 bændum lán, og þetta eru smámunir. Það getur verið, að þið, sem að ríkisstj. standið, álítið, að við gerum allt í áróðursskyni. En ég vil lýsa því yfir, að þetta er ekki gert í áróðursskyni af minni hálfu, og ef þið trúið okkur ekki, framsóknarmönnunum, um örðugleika þeirra bænda, sem í framkvæmdum hafa staðið, sem hafa að nokkru leyti og raunar mestu leyti hlotizt af þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið af ríkisvaldinu, þá skuluð þið bara spyrja ykkar eigin menn, sem eru kunnugir úti í byggðum landsins.

Frá þjóðhagslegu sjónarmiði er það engan veginn hyggilegt að láta jarðir fara í eyði, sem búið er að gera mikið fyrir. Það má heita, að flestir bændur séu búnir að rækta meira og minna af véltæku landi, og þeir eru búnir að byggja að einhverju leyti upp, annaðhvort peningshús eða íbúðarhús. Yfirgefi þeir þessi býli af fjárhagsörðugleikum, verða þessi verk ónýt, og þarna fara því dýrmæt verðmæti forgörðum. Það er ekki hyggilegt. Við förum ekki fram á stóra upphæð. Við förum fram á, að þetta sé hækkað alls um 5½ millj., bæði til að undirbúa ræktun á nýbýlum og til stuðnings þessum mönnum, sem hafa verið að byggja og eiga það eftir, og til þess að hægt sé að hækka styrk til bygginga á þeim nýbýlum, sem er verið að gera og verða gerð í framtíðinni.

Það er hlutfallslega ekki eins mikil hækkun og verðbreytingarnar eru.

Þeir, sem byggt hafa nýbýli, hafa fengið 25 þús. kr. styrk til að byggja íbúðarhús. En verði þetta frv. samþ., sem við leggjum hér fram, gæti sá styrkur numið 40 þús. Heildarstyrkur, sem þeir, er reistu nýbýli, fengju, yrði þá um 90 þús. í stað 60 þús., sem verið hefur. Það má deila um, hvort þessi hækkun er ekki allt of lítil, en of mikil er hún ekki.

Stjórnarflokkarnir unnu að því á síðasta þingi, að það var samþykkt lagagrein þess efnis, að það væri heimilt að veita jafnháa upphæð handa bændum, sem væru að byggja upp hjá sér, eins og þeim, sem eru að byggja nýbýli. Ég hygg, að margir bændur hafi gert sér vonir um að fá þarna aðstoð. Ég var með þessu frv., og ég lýsti því yfir, að þrátt fyrir það, þó að þetta væri of lítil aðstoð, þá væri það þakkarvert, miðað við það, ef um engan stuðning væri að tala, því að í þessu tilfelli sýndi ríkisstj, það, að hún vildi að nokkru bæta fyrir þá kjaraskerðingu, sem efnahagslöggjöfin hefði valdið þessum mönnum. En við nánari athugun hefur komið í ljós, eins og ég hef tekið fram, að það er ekki veitt fé í þessu skyni. Þarna verður því að koma fram, hvort af hálfu stjórnarflokkanna hefur aðeins verið um sýndartill. að ræða eða hvort það er meining þeirra, að þetta komi til framkvæmda, og þá sé veitt fé í þessu skyni á fjárlögum, til þess að hægt sé að aðstoða þessa menn, því að vitanlega er ekkert gagn að einhverjum lögum, ef ekki er neitt fjármagn veitt til að framkvæma þau.

Sem betur fer eru nú flestir bændur búnir að gera meiri og minni umbætur á jörðum sínum, þannig að aðstaða þeirra er gerbreytt frá því, sem mundi vera, ef þeir væru ekki búnir að gera þessar umbætur. Allmargir bændur eru búnir að byggja yfir fólk og fé og heyja eingöngu á ræktuðu landi. Ég er í engum vafa um, að það er hyggilegt og réttlátt að hætta að styðja þessa menn með lánum og jafnvel framlögum til jarðræktar, en veita þeim meiri stuðning, sem orðið hafa á eftir. Jarðræktarstyrkurinn er ekki svo hár, að hann dragi verulega bændur, sem eru búnir að koma upp fyrir sig góðum búum og hafa talsverða veltu, þannig að það skiptir þá tiltölulega litlu máli, hvort þeir fá styrk til jarðræktar eða ekki. En hina getur munað það mikið, þótt ekki sé um háar upphæðir að ræða. Það þarf ekki miklar fjárhæðir til að gera þeim kleift að halda áfram búskap og þó sérstaklega að þeir missi ekki kjarkinn, því að það er undirstaðan að verða ekki vonlaus. Ég er ekki að gera þetta að till. minni, en ég bendi á, að það er sanngjarnara og það er hyggilegra frá þjóðhagslegu sjónarmiði að hætta að lána okkur, sem búnir erum að rækta og byggja, hætta að lána okkur frekar til húsabóta en búið er og hætta að láta okkur hafa styrk til jarðræktar, en styðja því betur þá menn, sem hafa orðið á eftir með jarðrækt og húsabætur, til þess að þeir þurfi ekki að yfirgefa sín býli.

Það er staðreynd, að það er ákaflega erfitt að fá fólk til að flytja úr kaupstað og upp í sveit. Það er ekki eingöngu af því, að fólkið kunni ekki verkin eða vilji ekki vera í sveitinni, en það er hitt, að það hefur ekki fjárhagslega aðstöðu til þess. Ef bændurnir yfirgefa jarðirnar, þá er dálítið erfitt að fjölga þeim aftur og verður enn dýrara en að veita þeim einhverja lítilfjörlega aðstoð, til þess að þeir þurfi ekki að yfirgefa býli sín.

Ég hef trú á því, að við höfum mikla möguleika, bæði á sviði iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar. En fjárfestingin hefur verið ör, og við höfum takmarkað fjármagn. Það er enginn efi, að í íslenzkum landbúnaði gætum við gert stórvirki. Það eru stór svæði, sem liggja óræktuð í landinu. Það má nefna Rangárvallasýslu, Árnessýslu og Húnavatnssýslurnar t.d. Þarna eru stór flæmi af graslendi, sem eru óræktuð. Þetta þekkist yfirleitt ekki í nágrannalöndum okkar. Þau eru að mestu leyti ræktuð, a.m.k. allt það land, sem auðvelt er að rækta. Við erum þarna á eftir tímanum, sem ekki er óeðlilegt, því að ræktunaraðgerðir hófust ekki í stórum stíl fyrr en fyrir rúmum 30 árum. Okkur skorti tækni. Við höfðum ekki fylgzt með tímanum. Við vorum hér einangraðir og fátækir í margar aldir. Með aukinni ræktun eykst beitarþol landsins geysilega, og ég get t.d. bent á það, að í Nýja-Sjálandi, sem er bezta sauðfjárræktarland í heimi, beita bændurnir ekki fénu nema á ræktað land. Í framtíðinni hlýtur það að verða þannig, að við ræktum þetta land, sem er auðræktað. Við notum það að nokkru leyti til slægna og að nokkru leyti til beitar, og þá getum við haft margfaldan bústofn á við það, sem verið hefur. Það er ekki hægt að ímynda sér, að það sé hægt að reka á afréttir að sumrinu miklu fleira fé en gert hefur verið. Raunar eru íslenzku afréttirnar ákaflega misjafnar. Á Norðausturlandi eru þær yfirleitt gróðurríkar og stórar, en víða á landinu eru afréttarlönd takmörkuð, þannig að ef um aukinn bústofn er að ræða, þá verður að hagnýta beitina betur í byggðunum sjálfum. Og það getum við með því að rækta landið, með því að girða ræktaða landið í sundur og beita í hólfum, og þetta er gert alls staðar, þar sem kvikfjárrækt er stunduð í heiminum. Ég er sannfærður um, að það er auðvelt hér á landi að hafa sauðféð um 2 millj. og það gæfi allt að þrefalt kjöt-, ullar- og gærumagn á við það, sem verið hefur, og á þann hátt gætum við flutt út sauðfjárafurðir í stórum stíl, og ég hef enga ástæðu til að ætla, að sá atvinnuvegur geti ekki borið sig. Það er því ekki hyggilegt af okkur, jafnvel þótt um erfiðleika sé að ræða í bili, að aðstoða ekki þá menn, sem þegar standa í fremstu víglínu í okkar atvinnulífi hvað landbúnað snertir, að aðstoða þá ekki jafnlítið og farið er hér fram á, til þess að þeir þurfi ekki að yfirgefa býli sín. Þar ættu ekki flokkspólitísk sjónarmið að koma til greina. Þetta er þjóðhagslegt mál, sem hyggilegt og skynsamlegt er að leysa á réttan hátt.