31.10.1960
Efri deild: 13. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það liggur sannarlega eitthvað óvenjulega illa á hæstv. menntmrh. Er það máske af því, að það hafi orðið verkaskipti í ríkisstj. og hann hafi nú, þrátt fyrir það þótt hann sé Alþýðuflokksmaður, verið látinn taka að sér landbrh.-starfið? Eða hvar er landbrh.? Ég get vel skilið það, að hæstv. menntmrh. sem Alþýðuflokksmanni þyki það erfitt hlutskipti að vera landbrh., og ég hef oft hlustað á Alþýðuflokksmenn hafa meinyrði í átt til landbúnaðarins, en sjaldan hef ég heyrt þá opna betur hug sinn í þessu efni en hæstv. menntmrh. gerði núna.

Hann byrjaði á því að telja, að erindi sitt væri að leiðrétta það, sem missagt væri í frv. Vitanlega var það ekkert erindi, vegna þess að hann hafði engar frambærilegar leiðréttingar fram að leggja, heldur var hitt erindið, að svala skapsmunum sínum í köpuryrðum til landbúnaðarins.

Það, sem hann taldi sig þurfa að leiðrétta, var, að komizt er þannig að orði í grg. frv., að stofnlánasjóðirnir hefðu verið „látnir taka lán“. Mikil er nákvæmni mannsins í málfari að þola það ekki, að sagt sé, að sjóðir séu látnir taka lán. Hann vill að það sé orðað þannig, að sjóðirnir sjálfir taki lán. Getur nú hver maður fundið, að þarna var ekki mikið erindi til að fara af stað. Vitanlega voru þessir sjóðir látnir taka lán. Forstöðumenn þeirra létu þá taka lán, en tóku ekki lánin sjálfir. Og það var meira. Það var ríkisstj., sem útvegaði þetta fé, og það var ríkisstj., sem lét þá taka þetta lán, til þess að þeir gætu starfað áfram. Og þetta er ósköp eðlilegt, vegna þess að Búnaðarbankinn eða þessir sjóðir eru þannig upp byggðir frá fyrstu tíð, að það er aldrei að búast við því, að þeir geti staðið undir því fjármagni, sem þeir eru látnir taka að láni og greiða fyrir hærri vexti en þeim er skylt samkvæmt lögum að lána viðskiptamönnum sinum fyrir.

Það hefur aldrei verið við öðru búizt, þegar Búnaðarbankinn hefur verið látinn fá fé, — látinn fá fé, segi ég, — með 7%, 6% eða 5% vöxtum, eins og algengast hefur verið, að hann gæti staðizt það til lengdar að greiða afleiðingar þess að lána féð, eins og hann hefur verið skyldaður til, með 2%, 2½%, 3%, 4% eða 4½% vöxtum. Það hefur aldrei verið gengið út frá því, að þegar hann hefur fengið lán til fimm ára, tíu ára eða mest fimmtán ára, að ég hygg, þá geti hann lánað það sama fé sér að skaðlausu til 42 ára og 20 ára. Ég vil segja það, að áður en hæstv. menntmrh, ætlaði að mótmæla því, að það hefði aldrei verið við öðru að búast, þá hefði hann átt að athuga það, hvort nokkur önnur hugsun gat staðizt en það, að þeir menn, sem með ráðum og fullri hugsun tóku þessi lán, hefðu vitað það og búizt við því, að þetta yrði að gera. Jú, annað hefði verið hægt að gera, og það var það, að ríkið, Alþingi og ríkisstj., hefðu lagt bankanum til nægjanlegt fé, án þess að það væri í lánaformi. En vegna þess að jafnan hefur nú verið talið a.m.k. þröngt um á þeim stöðum, hefur verið hnigið að því að láta þessar stofnlánadeildir taka lánin og standa straum af þeim eftir getu sinni, sem hefur þó ekki hrokkið til, eins og dæmin sýna, og orðið hefur þess vegna að taka kúfinn af þessum lánum, og það hefur verið gert hvað eftir annað, og má því telja, að það séu nægileg fordæmi og megi kallast venja, þegar það er líka í samræmi við það eitt, sem getur staðizt.

Hæstv. menntmrh. fjargviðraðist yfir þeirri fjármálamennsku að hafa ætlað Búnaðarbankanum að starfa á þennan hátt, og það leit út fyrir, að hann teldi, að fé bankans hefði verið lánað með allt of góðum kjörum. Og þá kemur maður að því, hvern hug hæstv. menntmrh. virtist bera til landbúnaðarins. Það vita allir, að landbúnaður á Íslandi og landbúnaður allra landa, sem er jafnframt landnámsstarfsemi, verður að búa við önnur vaxtakjör en atvinnuvegir, t.d. eins og sjávarútvegur, sem ekki eru landnámsatvinnuvegir og verða að skila á stuttum tíma því, sem þeir taka til sín, fyrna fljótt sín tæki o.s.frv. En í starfsemi landbúnaðarins felst það að nema landið, að byggja upp fyrir komandi kynslóðir; og bóndinn, sem vinnur að því að nema landið, byggja upp býli sitt, rækta það og bæta, hann getur aldrei búizt við því á sinni ævi, nema þá fyrir tilviljun, að fá þá fjármuni, sem hann leggur í sín verk: Þeir fjármunir fara til komandi kynslóða, og þess vegna er það svo afar eðlilegt, hvað sem hv. Alþfl. finnst, að ríkið, sem erfir landið, þjóðin, sem erfir landið, en ekki bóndinn, kosti að einhverju leyti uppbyggingu þess. Og það er vegna þessa, að vextir Búnaðarbankans hafa verið hafðir þeir, sem þeir hafa verið hafðir, og lánatíminn hafður eins og hann hefur verið hafður. Og mér skilst, að þetta sé í fullu samræmi við það, sem gerist með öðrum þjóðum.

Ég fullyrði, að það hefur ekki verið of mikið fyrir landbúnaðinn gert á Íslandi, og ég fullyrði, að sú ríkisstj., sem vill ekki halda áfram að vinna að því, að landbúnaðurinn geti búið við svipuð kjör hlutfallslega og hann hefur haft, hún skilur ekki sitt hlutverk.

Hæstv. menntmrh. las upp efnahagstölur stofnlánadeildanna, og þær tölur sýndu, að svo er komið hjá ræktunarsjóði, að hann telst ekki eiga fyrir skuldum. En hvers vegna er svo komið? Það er gengisfellingin, sem gerði þessa sveiflu á hag hans, og ég tel nú, að hæstv. ráðh., sem stóð að þessari gengisfellingu, hefði átt að tala með öðrum blæ um ástæður þær, sem gengisfellingin hefur skapað þessari stofnun. Og nú er ég kominn að því, að ég vildi spyrja hæstv. ráðh.: Er það raunverulega svo, að hann taki þessu frv. svo illa sem hann gerir af því, að hann vilji, að þessir sjóðir komist í þrot? Er það af því, að hann vilji það? Annað varð í raun og veru ekki ráðið af orðum hans. En ég vil nú vona samt, að því sé ekki þannig varið innst inni. Og þá vildi ég heyra það, ef hann er á móti þessu frv., hvað hann hefur fram að leggja vegna þessara sjóða, því að eftir skýrslu hans leyndi það sér ekki, að hér er stórt vandamál á ferð, hér er það ástand, sem ekki getur varað.

Ég verð að segja það, að mér fannst ræða hv. menntmrh. bera það með sér, að það hlýtur eitthvað annað að ganga að skapsmunum hans heldur en þetta frv. Og ég vil vænta, að eins og venjulega jafnast nú geðið, að það jafnist líka hjá hæstv. menntmrh. og hann annaðhvort styðji þetta frv. eða komi fram með þær till., sem eru betri fyrir Búnaðarbankann en þessi, því að hlutverk Búnaðarbankans má ekki vanrækja. Sjóðir hans, þessir stofnlánasjóðir, mega ekki komast í þrot. Og sú ríkisstj., sem setti þá í þrot, fengi slæmt eftirmæli.