02.03.1961
Sameinað þing: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (2400)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Heimsstyrjöldinni síðari var varla lokið, þegar mannkyni öllu var ljóst, hve því fór fjarri, að úrslit hennar hefðu bundið enda á deilur og átök þjóða í milli. Enn varpaði ótti við nýja alheimsstyrjöld dimmum skugga í hug manna, og sá ótti var nú jafnvel sárari en áður, því að eyðingarmáttur vopnanna var nú orðinn ægilegri en nokkru sinni fyrr. Af þessu hafa helztu þjóðaleiðtogar heims og allir góðir menn um víða veröld dregið þá ályktun, að ekki megi framar koma til stórstyrjaldar, með vopnavaldi verði engin vandamál leyst til frambúðar, þjóðir verði að semja um deilumál sín og jafna ágreining friðsamlega. Allir helztu forustumenn vestrænna, austrænna og hlutlausra þjóða hafa ekki þreytzt á því allan undanfarinn áratug að undirstrika nauðsyn þess að setja niður deilur með samningum, þótt skemmra hafi að vísu miðað en margur hefði kosið. Það hafa ekki sízt verið vinstrisinnaðir menn um heim allan, sem lagt hafa á það ríka áherzlu, að höfuðdeiluaðilarnir á sviði heimsstjórnmálanna. Bandaríkin og Sovétríkin, ræddust við sem mest og sem oftast til þess að semja um ágreiningsefni sín. Krústjof, forsætisráðherra Sovétríkjanna, notar hvert tækifæri til þess að undirstrika nauðsyn viðræðna og samninga, og Kennedy Bandaríkjaforseti lýsti skoðun sinni á snjallan hátt, er hann sagði, að Bandaríkjamenn ættu ekki að semja af ótta, en ekki heldur að óttast að semja.

En meðan þetta gerist úti í heimi, meðan þannig er talað um víða veröld, gerist það hér úti á Íslandi. að hrópað er: Samningar eru svik. Viðræður við Breta eru svívirða. — Það er talinn glæpur, jafnvel landráð að semja um lausn deilu við aðra þjóð og meinsæri nefnt í því sambandi. Og það er talið jafnast á við afsal landsréttinda að lýsa því yfir, að Íslendingar muni ávallt hlýða alþjóðalögum, eins og þau eru túlkuð af alþjóðadómi.

Ég held, að fyllsta ástæða sé til þess fyrir þjóðina, fyrir hvern einasta Íslending að hugleiða að alvöru, hvað hér er í raun og veru að gerast. Með hverjum hætti getum við tryggt sjálfstæði okkar og rétt? Getum við það með nokkrum öðrum hætti en þeim að stuðla eftir megni að því, að alþjóðalög taki til sem flestra sviða í samskiptum þjóða? Hefur það ekki verið og er það ekki æðsta hugsjón allra góðra manna, að lög og réttur móti skipti ríkja hvers við annað með sama hætti og þau móta skipti einstaklinga í réttarríkjum? Og hver skyldi eiga meira undir því, að þessi hugsjón rætist, hverjum skyldi standa nær að styðja hana og efla en einmitt þeirri þjóð, sem er minnst allra, því ríki, sem eitt allra á ekkert vopn? Er það ekki einmitt af þessum sökum, sem íslendingar hafa í nær þúsund ár talið það til mestu spakmæla, sem sögð hafa verið á íslenzka tungu, er Þorgeir Ljósvetningagoði mælti á lögbergi: „Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.“

Það er staðhæft, að með samkomulaginu við Breta afsali íslendingar sér rétti til einhliða ákvörðunar um frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Réttur til einhliða aðgerða á alþjóðavettvangi er enginn til nema í samræmi við alþjóðalög. Í samkomulaginu taka Íslendingar fram, að þeir muni nota þann rétt, sem þeir eigi að alþjóðalögum. Þeir afsala sér því engum rétti. Á þeim sviðum alþjóðamála, þar sem alþjóðalög eða reglur eru ekki til, en það á enn við um víðáttu fiskveiðilögsögu, er hins vegar ekki hægt að eiga neinn rétt og þess vegna engum rétti hægt að afsala. Einhliða aðgerðir á slíku sviði geta ekki grundvallazt á öðru en valdi, — valdi til þess að knýja aðra til þess að viðurkenna þær. Þjóðir, sem hafa ekki slíkt vald, en óska að gera ráðstafanir í alþjóðamálum, sem alþjóðalög eða reglur eru ekki til um, eiga einskis annars úrkost en semja um þessar ráðstafanir. Það var auðvitað af þessum sökum, sem ráðh. Alþfl. og Framsfl. í ríkisstj. Hermanns Jónassonar buðu Bretum samninga um málið árið 1958. Það hefði sérhver ríkisstjórn ábyrgra manna gert. Þá voru það Bretar, sem höfnuðu því, sem boðið var.

Núv. ríkisstj. taldi sig hafa sömu skyldur til samninga og ríkisstjórn Hermanns Jónassonar. Nú hafa Bretar fallizt á samninga, sem eru miklum mun hagstæðari en boð þau, sem ráðherrar Alþfl. og Framsfl. gerðu 1958. Þá gerist það, að ekki aðeins Alþb., heldur einnig Framsfl. snýst algerlega gegn þeim. Þetta er alvarleg staðreynd. Afstaða Alþb. þarf engum að koma á óvart og engum að valda vonbrigðum. Málstað kommúnista er augljóslega bezt þjónað með Því, að íslendingar eigi í sem mestum og langvinnustum deilum við ríki í Atlantshafsbandalaginu. En hvers vegna hefur þingflokkur Framsfl. skipt um skoðun síðan 1958? Hvers vegna telur hann það nú glæp, sem hann þá taldi sér skylt að gera og gerði? Hvers vegna hamast hann nú gegn samningum, sem eru tvímælalaust hagstæðari en samningar, sem hann bauð 1958 og var reiðubúinn til þess að samþykkja á Alþingi með Alþfl. og Sjálfstfl.? Það eru engin rök, að boðin 1958 hafi verið gerð, áður en reglugerðin hafi verið gefin út, en nú sé hún í gildi, því að Íslendingar fengu ekki 12 mílna landhelgi í reynd með útgáfu reglugerðarinnar 1958. Þeir fá hana fyrst fulla og óskoraða í kjölfar þess samnings, sem nú er lagt til að gera.

Framsfl. átti nú gullið tækifæri til þess að sýna þjóðhollustu, drengskap og ábyrgðartilfinningu í afstöðu sinni. Allt og sumt, sem hann hefði þurft að gera, var að lýsa yfir því, að hann væri enn sömu skoðunar og 1958. Þá hefðu allir lýðræðisflokkar landsins nú staðið saman í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar, eins og þeir hefðu gert 1958, en Bretar hefðu þá borið gæfu til þess að samþykkja tilboð Íslendinga. En Framsfl. hefur því miður valið þann kost að hasla sér völl við hlið íslenzkra kommúnista og gera málstað þeirra og málflutning að sínum í einu og öllu. Þetta verður varla skilið á annan veg en þann, að ráðamenn Framsfl. stefni nú að því og því einu að ná völdum með kommúnistum og stjórna landinu með þeim einum. Ég heyrði framsóknarmann segja um daginn, að landinu yrði ekki stjórnað án kommúnista. Sannleikurinn er þvert á móti sá, að því verður ekki stjórnað með kommúnistum. Þetta var aðalleiðtogum Framsfl., þeim Hermanni Jónassyni og Eysteini Jónssyni, ljóst haustið 1958. Þess vegna rofnaði samstarfið í vinstri stjórninni. Ríkisstj. Framsfl. og Alþb. gæti ekki komið sér saman um neina aðra stefnu í innanlandsmálum en þá, sem hefði algert öngþveiti í för með sér, og í utanríkismálum hlyti hún að einangra þjóðina frá öðrum vestrænum þjóðum, einmitt þeim þjóðum, sem eru okkur nálægastar og skyldastar að þjóðfélagsháttum og menningu allri. Ég trúi því ekki, að kjósendur Framsfl. yfirleitt æski slíkrar þróunar, og þá er íslenzkum samvinnumönnum brugðið, ef þeir una því til lengdar, að í nær engu máli megi lengur greina afstöðu flokks þeirra frá afstöðu íslenzkra kommúnista.

Það er mikilvægt, enn mikilvægara en virðast kann í fljótu bragði, hvernig flokkar og einstaklingar bregðast við í þessu máli. Hér er ekki aðeins um að tefla lausn á mjög vandasömu deilumáli vopnlauss smáríkis og voldugs stórveldis, — lausn, sem þó er hinum smáa tvímælalaust hagkvæmari en hinum stóra. Hér er einnig um það að ræða, hvort Íslendingar eiga að skipa sér í fylkingu þeirra, sem vilja efla alþjóðalög og rétt, eða hinna, sem vilja láta vald og vopn ráða. Hér er um það að tefla, hvort Íslendingar eiga að vera meðal þeirra, sem vilja leysa deilumál með samningum, eða hinna, sem vilja auka þau með æsingum. Kjarni málsins er í raun og veru sá, hvort menn vilja stuðla að því, að sams konar reglur gildi í samskiptum þjóða og sjálfsagðar þykja í skiptum siðaðra einstaklinga í réttarríkjum.

Ég efast ekki um það eitt andartak, að mikill meiri hluti íslenzku þjóðarinnar vill ekki aðeins, að íslenzkt þjóðfélag sé réttarríki inn á við, heldur einnig að það komi fram sem réttarríki út á við. Í þessu stórmáli sem öðrum munu allir góðir Íslendingar ætlast til þess af fulltrúum sínum, að þeir haldi þannig á málum, að hagur Íslands batni og sómi þess vaxi, að þeir hiki ekki við að virða lög og hafi kjark til þess að gera það, sem þeir álíta rétt. — Góða nótt.