08.03.1961
Sameinað þing: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (2432)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Hér á Alþ. hefur gerzt sá atburður, sem örlagaríkastur getur orðið íslenzku þjóðinni allra stjórnmálaatburða síðan Íslendingar urðu frjáls og fullvalda þjóð. Ég hygg, að fáir Íslendingar hafi búizt við því fyrir fáum mánuðum, að slík till. til lausnar landhelgisdeilunni við Breta og sú, sem hér liggur nú fyrir, yrði lögð fram. Ég segi fyrir mig, að þótt ég hafi vantreyst þessari hæstv. ríkisstj., bæði í þessu máli og ýmsum fleirum, þá vildi ég þó ekki að óreyndu trúa því, að hún semdi á þann hátt, að hendur okkar um frekari útfærslu yrðu bundnar um aldur og ævi. Með þessari till., ef hún verður samþykkt, er Bretum — og hætt er við, að fleiri muni á eftir koma — leyft að fiska í íslenzkri landhelgi gegn loforði um, að þeir, eins og í orðsendingu þessari segir, falli frá mótmælum gegn 12 mílna landhelgi og viðurkenni breytingar á grunnlínum á fjórum stöðum við Ísland. Um leið á að lýsa því yfir, að ef íslenzku þjóðinni skyldi detta í hug frekari útfærsla landhelginnar síðar, þá skal það ekki gert nema tilkynna það Bretum, og ef þeir vilja ekki sætta sig við slíka útfærslu, þá skal henni vísað til alþjóðadómstólsins. Í næstu þrjú ár eiga svo útlend skip að hafa leyfi til þess að veiða inn að 6 mílum á stórum svæðum við strendur landsins. Útfærsla sú, sem vinstri stjórnin framkvæmdi með reglugerðinni 30. júní 1958, var 8 mílur í viðbót við þær 4, sem fyrir voru. 3/4 hluta af því, sem þá náðist, ætlar ríkisstj. nú að afhenda útlendingum aftur á stórum svæðum við strendur landsins til frjálsra afnota í þrjú ár. Hvar eiga bátarnir okkar að halda sig við veiðar á eftir? Að undanförnu hafa Íslendingar unnið að því af mjög miklum hraða að stækka vélbátaflota sinn, bæði auka fjölda skipanna og fá sífellt stærri skip. Að sama skapi hefur magn veiðarfæranna hjá hverju skipi verið aukið. Eftir því sem skipunum fjölgar og veiðarfærin aukast, því meira svæði þarf fiskiskipaflotinn á hafinu til iðju sinnar. Hvar eiga nú þessi okkar skip að koma veiðarfærum sínum í sjóinn, svo að von sé um góðan árangur, þegar búið er að taka 3/4 þeirrar stækkunar, sem gerð var 1958? Ég hygg, að fiskimönnum okkar þyki þrengjast um sig á eftir. Við útfærslu landhelginnar jókst aflamagn okkar Íslendinga, bæði vegna þess, að fiskurinn hafði næði fyrir togvörpum hins mikla fjölda togskipa og nú gátu íslenzku fiskimennirnir haft meira næði og miklu rýmra svæði fyrir veiðarfæri sín.

Eins og kunnugt er, eru útflutningsvörur okkar Íslendinga aðallega fiskur og fískafurðir. Við höfum á undanförnum árum veitt mikið og þannig haft mikið til að selja af þessum vörum. En þó hefur það ekki nægt okkur til að kaupa nauðsynjar okkar erlendis frá. Það hefur verið halli á viðskiptum okkar við útlönd. Nú gerir þjóðin auðvitað sífellt stærri og stærri kröfur til lífsins, og þeim kröfum verður auðvitað að mæta með aukinni framleiðslu. Hvernig á þjóðin að fara að því að bæta lífskjör sín nú á næstunni, þegar útlendar stórþjóðir með stærstu fiskiflota heimsins eru boðnar og velkomnar til þess að ausa upp lífsbjörg Íslendinga og flytja hana úr landi?

Ég hef heyrt ýmsa menn segja, sem vilja undanhald í málinu, að þrjú ár séu ekki langur tími af eilífðinni. Eftir þrjú ár sé allri ásælni og réttindum útlendinga innan 12 mílna markanna lokið og eftir það sitjum við að þessu einir. Mér finnst þetta vera fáránleg rök. Þjóð, sem jafnmikið á undir fiskveiðum og við eigum, getur bókstaflega eyðilagzt efnahagslega á þremur árum, ef hin dýru atvinnutæki hennar ná ekki þeim framleiðsluafköstum, sem þau þurfa að ná, og þjóðin fær ekki þau verðmæti til sölu, sem henni eru nauðsynleg, svo að lífsþörfum hennar sé fullnægt.

Þetta mál um landhelgina og stærð hennar er því orðið miklu stærra mál og þýðingarmeira fyrir líf þjóðarinnar nú en það nokkurn tíma hefur áður verið, og höfum við þó alitaf átt mikið undir landhelginni komið, Íslendingar. Ég þarf ekki að útskýra það nánar. Það vita allir, að pólitískt og efnahagslegt frelsi Íslendinga og sjálfstæði þjóðarinnar yfirleitt byggist öllu öðru fremur á því, að auðlindir landsins okkar séu nýttar af okkur sjálfum, en ekki af öðrum.

Nú kunna ýmsir að hugsa sem svo: Þetta verður ekki svo mikið tap, því að það var breytt grunnlínum og þar vinnst talsvert upp af því, sem tapast. — Þessar grunnlínubreytingar auka fiskveiðilögsögu okkar um rúmlega 5 þús. km? á haffletinum. Af þessu gumar ríkisstj. að vísu mjög. En mér sýnist nú satt að segja, að þó að þetta sé miklu betra en ekki neitt, — það skal ég viðurkenna, — þá sé þessi breyting svo lítið flatarmál af landgrunninu, að það skipti ekki öllu máli, og þetta er að mínu viti eins og dálítill plástur á þau sár, sem þjóðinni eru veitt með samningi þessum, ef hann verður samþykktur.

Það er hart fyrir íslenzku þjóðina að þurfa að þola það, að ríkisstj. hennar semji við þá, sem hafa beitt okkur ofbeldi á undanförnum árum, vegna þess að við tókum okkur þann rétt, sem við sem þjóð áttum og fjöldi annarra þjóða hefur tekið sér, án þess að Bretar eða aðrir hafi vefengt. En vegna þess að við erum smáþjóð, þá hafa Bretar beitt okkur ofbeldi, rænt fiskimið okkar og sýnt sjómönnum okkar banatilræði hvað eftir annað, þar sem þeir hafa verið við störf sín á hafinu.

Ég veit ekki, fyrir hvað ríkisstj. á að víkja úr valdastólum, ef það er ekki fyrir slíkan vesaldóm sem fram kemur í samningi þeim, er hin íslenzka ríkisstj. vill nú fá heimild Alþ. til þess að gera við Breta. Þessi vinnubrögð ríkisstj. koma þvert ofan í samþykkt Alþingis, sem gerð var 5. maí 1959 eða fyrir aðeins tæpum tveimur árum. Hvernig má það verða, að sömu menn og þá samþykkt gerðu fyrir tæpum tveimur árum greiði atkv. með því að taka brezka togaraflotann inn í íslenzka landhelgi í þrjú ár? Getur það skeð, að slíkt geðleysi sé til í nógu mörgum liðsmönnum stjórnarinnar til þess, að hún komi till. sinni fram? Ég vil ekki og ég get ekki trúað því, fyrr en ég sé það með eigin augum.

Þegar maður rennir augunum yfir kort það af þeim breytingum, sem samningur ríkisstj. við Breta gerir ráð fyrir á íslenzkri landhelgi, þá sér maður, að brezku skipin eiga að vera fyrir innan 12 mílurnar á flestum fengsælustu fiskimiðum okkar, þegar þeim hentar bezt. Fiskimið okkar verða eins og stöðull, þar sem búsmali hnappar sig og étur upp hvert strá, og hvernig halda menn, að það verði svo fyrir landhelgisgæzluna íslenzku að halda uppi vörzlu á þessum svæðum á eftir? Mér sýnist, að það hljóti að verða svo erfitt á mörgum þessara svæða, að það megi heita ógerlegt, þar sem línan bæði lengist og mörkin verða óglögg vegna þeirra vika eða skarða, sem koma inn í landhelgina. Ég hygg, að það verði ekki gott á ýmsum svæðum fyrir hina útlendu fiskimenn að vera öruggir um takmörkin, og þar sem ásælnin er nú á annað borð hjá þeim fyrir hendi, þá er hætt við, að þeir verji sig með þeim rökum, að takmörkin séu óljós. Mig grunar þess vegna, að átökin milli útlendra veiðiskipa, bæði brezkra og einnig annarra þjóða, við landhelgisgæzluna íslenzku og fiskimenn okkar almennt minnki ekki við þennan samning, heldur muni aukast og meiri hættur skapast lífi og limum íslenzkra manna en nokkurn tíma hafa verið fyrir hendi vegna ofbeldis Breta við okkur á undanförnum missirum. Ég get ekki séð, að samningur sá, sem um er að ræða, tryggi á nokkurn hátt, að átök og ofbeldi af hálfu útlendinga á fiskimiðum okkar hverfi úr sögunni, enda er í honum ekkert tekið fram um það, hvernig með skuli fara, ef slíkt hendir.

Þarna ber því allt að sama brunni. Samningurinn er vandræðasamningur, og verði hann samþykktur, er slíkt að mínu áliti mjög mikil brigð við íslenzku þjóðina og brigðmælgi við sjómannastéttina, þar sem ekki er nóg með það, að réttindi hennar til athafna á hafinu við strendur landsins eru stórlega skert, heldur stóraukinn sá lífsháski, sem sjómönnum okkar er búinn af starfi sínu. Þar við bætist svo, að veiðarfæratjón mun margfaldast af völdum hinna erlendu veiðiskipa. Þannig er þessi samningur ekki í einu, heldur í öllu, sá stórkostlegasti ósigur, sem íslenzka þjóðin hefur orðið fyrir, ef hann nær samþykki. Ég sá hins vegar í Morgunblaðinu, að þar var talað um, að þessi samningur mundi vera stærsti stjórnmálasigur, sem þjóðin hefði nokkru sinni unnið. Þannig hefur það blað étið ofan í sig öll fyrri ummæli um lífshagsmunamál íslenzku þjóðarinnar og snýr sannleika þessa máls upp í öfugmæli. og hefur það að vísu hent alloft nú í seinni tíð.

Með landgrunnslögunum frá 1948, þar sem stefnt var að vísindalegri verndun fiskimiða okkar, tókum við okkur þann rétt að færa út fiskveiðilögsöguna, þegar við teldum okkur það nauðsynlegt til þess að vernda fiskstofna fyrir ofveiði. En þegar slíkt ástand skapast, er okkur sem fiskveiðiþjóð nauðsynlegt að verja hagsmuni okkar með því að stækka þau svæði á grunnmiðum kringum landið, þar sem fiskarnir fæðast upp og hafa dvalarslóðir sínar. Á grundvelli þessara laga höfum við nú tvisvar fært út landhelgi okkar, í bæði skiptin einhliða án samþykkis annarra þjóða.

Hið fyrra sinn var þetta gert árið 1952 og þá fært út um eina mílu, úr 3 í 4. Þá mótmæltu Bretar útfærslunni og fleiri þjóðir, en létu þó að öðru leyti kyrrt liggja. Brezkir togaraeigendur beittu sér fyrir banni gegn sölu íslenzks fisks í Bretlandi, og stóð það bann, löndunarbannið, í fjögur ár, en var aflétt árið 1956. Í því kom fram sami kúgunarandi gegn okkur Íslendingum af hálfu brezkra útgerðarmanna og nú hefur átt sér stað að undanförnu, þótt ekki tækist þeim þá að fá brezk stjórnvöld til að senda herskip til aðgerða hér.

1958 var landhelgin enn færð út frá eldri grunnlínum um 8 mílur á grundvelli landgrunnslaganna. Grunnlínum var þá ekki breytt af þeim ástæðum, að meira þótti um vert að geyma þann ótvíræða rétt til slíkrar útfærslu þar til síðar, þegar slíkt yrði nauðsynlegt. Bretar og fleiri þjóðir mótmæltu útfærslunni. En það voru þó Bretar einir, sem létu ekki sitja við orðin tóm, heldur sendu hingað herskip og virtu ákvörðun okkar að engu. Sú saga er öllum kunn og hefur margoft verið rakin hér í þessum umr., og skal ég ekki frekar fara út í það.

En eins og ég sagði, hafa aðgerðir okkar í landhelgismálunum síðan 1948 byggzt á landgrunnslögunum. Þau hafa verið það bjarg, sem byggt hefur verið á um útfærslu. Nú eru með þeim samningi, sem landhelgistillagan fjallar um, landgrunnslögin í raun og veru að engu höfð og beinlínis tekið fram, að detti Íslendingum einhvern tíma í hug að færa fiskveiðilögsöguna út, þá verði þeir að tilkynna Bretum það, og séu þeir málinu mótfallnir, skal vísa því fyrir alþjóðadómstól. Þetta er, eins og margtekið hefur verið fram hér í þessum umr., í raun og veru það hættulegasta. Landgrunnslögin hafa verið okkur álíka gagnleg og bogi Einars þambarskelfis var Ólafi konungi Tryggvasyni á Orminum langa. Þegar boginn brast, mælti konungur: „Hvað brast svo hátt?“ „Noregur úr hendi þér, konungur,“ mælti Einar. Og það er grunur minn, að svo muni einnig fara, ef við Íslendingar sjálfir tröðkum á þeim lagagrundvelli, sem við sjálfir höfum lagt og orðið hefur okkur til svo mikils gagns fram að þessu sem raun ber vitni um.

Þess vegna er fjórða atriðið í orðsendingu Breta, sem ríkisstj. Íslands vill nú fallast á, það langhættulegasta samningsákvæði, sem ég hygg að íslenzka þjóðin hafi nokkurn tíma staðið frammi fyrir. Verði það samþykkt, má líta svo á, að landgrunnslögin séu úr gildi fallin, og allan rétt okkar í þessum efnum verðum við þá að sækja í alþjóðadómstólinn. Slík eiga þá að verða örlög okkar Íslendinga einmitt á þeim tíma, þegar hin kúguðu lönd og þjóðir sunnar á hnettinum eru sem óðast að hljóta fullt frelsi og taka umsjá sinna mála í eigin hendur.

Hvernig stendur á því, að við Íslendingar verðum að þola slíkt? Það er af því, að við höfum duglausa ríkisstj., sem metur meira að þóknast pólitískum samherjum í nálægu stórveldi heldur en halda uppi skýlausum rétti íslenzku þjóðarinnar. Sigurinn í þessu máli er vís, ef traust forusta er frá stjórn landsins. Ég held, að engin ríkisstj. hafi áður haft slíka möguleika til þess að hafa þjóðina alla og einhuga með sér í nokkru máli, eins og ríkisstj. vor, sem nú situr, hefði getað haft í þessu máli, ef hún hefði í því haft einarða stefnu og forustu. Hún hefur hins vegar tekið þann kost að heykjast og láta undan síga, og þess vegna á hún ekki skilið nokkurs manns traust.

Mér finnst, að stjórnin eigi þó eina leið enn til í þessu máli, svo að því verði bjargað, en það er að fá þjóðinni allri í hendur úrslitavaldið um afgreiðslu þess í þjóðaratkvgr. Eins og margsinnis hefur verið bent á í þessum umr., hétu frambjóðendur allra flokka því í síðustu kosningum, að ekki yrði látið undan síga í þessu máli. Það hefur þess vegna enginn þm. rétt til þess að samþykkja þessa svokölluðu lausn landhelgisdeilunnar, því að ég er viss um, að þjóðin ætlast til þess af fulltrúum sínum á Alþingi, að þeir hafi þá sjálfsögðu siðferðis- og sómatilfinningu að halda orð sín og standa við gefin loforð.

Aldrei hefur verið ríkari ástæða til þess en nú, að Alþingi fengi þjóðinni allri úrslitavald í máli. Málið er þess eðlis, að það getur ráðið úrslitum um líf og frelsi þjóðarinnar.

Það hefur mjög verið af því gumað af hendi hæstv. ríkisstj., hversu mikið öryggi sé í því fólgið að láta alþjóðadómstólinn skera úr þrætum, sem í framtíðinni kunna að skapast milli Íslendinga og Breta út af því, er Íslendingar kynnu að færa fiskveiðilögsöguna lengra út á landgrunnið. Við Íslendingar teljum, að landgrunnið sé okkar eigið land eða hluti þess, og það er því einkennilegt að vilja kalla yfir sig dóm frá framandi mönnum eða stofnun, þótt sú stofnun sé góð og eigi að vera hlutlaus, eins og allir dómstólar eiga auðvitað að vera. En þrátt fyrir þá skyldu dómstóla, að þeir séu hlutlausir, þá hygg ég, að flestir einstaklingar vilji vera í lengstu lög lausir við að eiga líf sitt eða athafnafrelsi undir dómstólum, því að til þess er málflutningur fyrir dómstólum, að eins og hann er til þess að sanna það, sem er satt og rétt, þá er þar einnig oft barizt við að sanna það, sem er ekki það rétta, og gera það svo sennilegt, að dómendur taki það trúanlegra en hitt og felli dóma sína eftir því, sem þeim þykir sennilegt.

Við Íslendingar höfum alltaf trúað því, að við ættum landgrunnið allt, enda var landhelgin áður á öldum miklu stærri en nú og tók yfir mikinn hluta landgrunnsins. Á þeim forna rétti ber okkur að standa. Þar erum við að verja frumburðarrétt okkar, en hann er helgastur réttur, og hann skulum við Íslendingar varðveita umfram allt annað.