19.12.1960
Efri deild: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

125. mál, veð

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að andmæla þessu frv. Ég dreg ekki í efa, að till. sú til lagasetningar, sem í henni felst, sé sprottin af nokkurri nauðsyn. En ég vil aðeins taka það fram, að ég álít, að svo geti farið, að þessi lagasetning verði í sjálfu sér haldlítil, og það er í rauninni aðeins það, sem ég vildi taka fram. Ég vil ekki vera að tefja umræður hér með því að rökstyðja það, en sannleikurinn er sá, að þetta veð, sem þarna er gert ráð fyrir, verður svo víðtækt og óákveðið, að það er að mínu viti nokkuð óvíst, hver trygging verður í því fólgin, og ég held, þó að ég véfengi ekki orð hæstv. ráðh., sem hann lét falla, þegar hann fylgdi þessu frv. úr hlaði, að þetta mál hefði verið skoðað af færustu mönnum, að þá hefði þetta mál þurft enn betri athugunar við.

Ég sé t.d. strax við athugun á grg., að þar stendur, með leyfi forseta: „Og er því gerð skilgreining á útgerðarmanni og framleiðanda útflutningsafurða.“ Það er engin skilgreining á útgerðarmanni og framleiðanda sjávarafurða hér í þessum lögum, því miður. Hana vantar. Það er aðeins sagt: útgerðarmanni og framleiðanda sjávarafurða.

Eins og ég sagði, skal ég ekki tefja umr., ég vildi bara vegna síðari tímans hafa þennan fyrirvara á.