02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í D-deild Alþingistíðinda. (2522)

66. mál, gjaldeyristekjur af ferðamannaþjónustu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þar sem málefni Ferðaskrifstofu ríkisins heyra í ríkisstj. undir mig, finnst mér ástæða til að segja örfá orð um þessa þáltill. Ég fagna því, að hún skuli komin fram, því að á því er enginn efi, eins og hv. fyrrí flm. tók fram í ræðu sinni, að hér er hreyft miklu nauðsynjamáli. Það er rétt, sem segir í grg. till. og hann tók fram í ræðu sinni, að ekki hefur verið nógu vel búið að Ferðaskrifstofu ríkisins um langt skeið undanfarið og við Íslendingar verjum ekki nógu fé til landkynningar erlendis til þess að laða erlenda ferðamenn hingað til landsins, en það er góður atvinnuvegur.

Það, sem ég þó aðallega vildi taka fram og raunar taka undir, er það, sem vikið er að í 3. tölulið þáltill., þar sem um það er rætt að bæta gistihúsaskortinn hér yfir sumarmánuðina með því að búa heimavistarskólana viðeigandi húsgögnum og nota þá sem gistihús yfir sumarið. Hér er vikið að því, sem tvímælalaust er rétta leiðin í gistihúsa- og ferðamálunum. Þetta hefur ekki farið fram hjá mönnum til þessa, heldur hefur verið samvinna á milli fyrst og fremst menntmrn. og Ferðaskrifstofu ríkisins til þess að reyna einmitt að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Hér er að vísu við ramman reip að draga, því að Það kostar mikið fé að gera hér svo myndarlegt átak, sem reynslan sýnir, að þörf er á.

Mér finnst rétt, að það komi hér fram, að það mun hafa verið fyrir ári, að ég fól nokkrum mönnum undir forustu forstjóra Ferðaskrifstofu ríkisins að gera á því athugun, hvaða skóla væri hægt að fá til rekstrar sem gistihús yfir sumarmánuðina og hvað það mundi kosta að búa þá eða nokkra þeirra viðunandi húsgögnum. Með forstjóra ferðaskrifstofunnar störfuðu að þessu fulltrúi frá samgmrn., fræðslumálastjóri, fræðslustjóri Reykjavíkurbæjar vegna skólahúsanna hér í Reykjavík og fulltrúi frá Ferðamálafélaginu. Þeir unnu allmikið athugunarstarf, sem skýrsla liggur fyrir um. Þeir óskuðu eftir því að fá nokkurt fé til umráða til þess að gera tilraun með slíkan rekstur á einhverjum heimavistarskólanna. Ég hafði forgöngu um að útvega þessum mönnum lán í Framkvæmdabankanum, að upphæð 1/2 millj. kr., til þess að gera tilraunaframkvæmdir í þessum efnum. Það fé höfðu þessir menn til umráða á s.l. vori. En það komu margs konar erfiðleikar í ljós. Skólanefndir og skólastjórar þeirra skóla, sem helzt komu til greina til slíkrar notkunar, reyndust því miður mjög ófúsir til þess að ljá skólana til slíkra nota. Og það kom í ljós á s.l. vori, þegar þessi mál voru athuguð gaumgæfilega, að nauðsyn mundi vera að setja alveg sérstakar reglur eða jafnvel lagafyrirmæli, sem allt að því skylduðu forráðamenn skólahúsanna til þess að ljá þau í þessu skyni, auðvitað gegn sanngjörnu gjaldi. Sums staðar strönduðu samningaumleitanir þessarar nefndar og forráðamanna skólanna á ágreiningi um greiðslu fyrir skólahúsnæðið. Það voru gerðar kröfur, sem þessum mönnum þóttu óeðlilega háar. En fé þessu, sem þeir höfðu til ráðstöfunar, var varið — að vísu ekki öllu — til ýmislegra nauðsynlegra umbóta á stöðum, sem höfðu verið í rekstri og voru enn í rekstri á s.l. sumri. en því miður var enginn nýr skóli tekinn í rekstur sem gistihús fyrir frumkvæði þessara manna og með tilstuðlan þessa fjár, sem þarna var þó til ráðstöfunar.

Nú fyrir um það bil mánuði áttum við forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins rækilegar umræður um þetta mál okkar í milli. Við nefndina hef ég rætt oftar en einu sinni, þessa nefnd, sem ég nefndi áðan. Það var niðurstaða okkar forstjóra Ferðaskrifstofu ríkisins. að það væri ekki að vænta úrbóta í þessum efnum, fyrr en í fyrsta lagi gerðar hefðu verið nauðsynlegar stjórnskipulegar ráðstafanir til þess, að þessi skólahús gætu verið til ráðstöfunar í þessu skyni, auk þess sem fjárþörfin er mjög mikil. Búnaður skólanna kostar afar mikið. Þessir menn hafa farið í alla þá skóla, sem helzt koma til greina í þessu tilliti, og gert nákvæma athugun á húsbúnaði í skólunum og aðstöðu á skólastöðunum með hliðsjón af því, hvort þeir væru hæfir til rekstrar sumargistihúsa. Það kom í ljós, ég segi því miður, að búnaður flestra skólanna er langt frá því að vera þannig, að þeir yrðu umsvífalaust teknir í notkun sem gistihús. Það þarf að kosta mjög miklu til að endurbæta búnaðinn og lóðir og margs konar aðstöðu, til þess að skólarnir verði nothæfir sem sumargistihús. Ég segi þetta ekki til þess að draga úr hug manna til framkvæmda í þessa átt, heldur þvert á móti. Það er tvímælalaust rétt, að þetta er eina skynsamlega leiðin og langhagkvæmasta leiðin, langódýrasta leiðin til þess að koma hér upp nothæfu gistihúsrými á næstu árum. Ef Íslendingar ætluðu að byggja hótei í Reykjavík og utan Reykjavíkur til þess að svara þeirri eftirspurn, sem nú er að koma eftir ferðalögum til Íslands eftir gengisbreytinguna, mundi það kosta hundruð milljóna.

Reynslan var sú á s.l. sumri. að ferðalög hingað reyndust miklu meiri en verið hafði um mörg undanfarin ár, og var það náttúrlega ekki nema eðlilegt, þar sem erlendir ferðamenn njóta nú í fyrsta skipti rétts gengis á sínum erlenda gjaldeyri með löglegum og eðlilegum hætti. Það er enginn vafi á því, að á næstu árum, eftir því sem fleiri verður ljóst, hver breyting hefur orðið á hér í gengismálum, mun aðsókn ferðamanna til landsins aukast mjög verulega. En það hefur forstjóri ferðaskrifstofunnar sagt mér, að á s.l. sumri hafi mjög mikið á það skort, að hægt væri að veita viðtöku öllum þeim, sem hingað vildu komast, og raunar oft legið við vandræðum, jafnvel hneyksli, vegna skorts á sómasamlegu gistihúsrými í landinu.

Það er alveg vonlaust, að við getum á nógu skömmum tíma komið upp venjulegu hótelhúsnæði yfir það fólk, sem hingað leitar yfir sumartímann. Það er algerlega vonlaust og líka vonlaust að láta myndarleg hótel utan Reykjavíkur bera sig af tekjum af ferðamönnum í 2–3 mánuði einungis, sem er bezti ferðamannatíminn hér. Hitt er alveg einsætt, að eina skynsamlega og langódýrasta leiðin er einmitt að gera heimavistarskólana að sumargistihúsum þann tíma, sem þeir eru ekki notaðir til skólarekstrarins. Og það má ekki dragast miklu lengur, að í þessu efni sé gert myndarlegt átak. Undirbúningsvinnan hefur þegar verið unnin að verulegu leyti. í samgmrn. eða menntmrn. — öðrum hvorum staðnum — liggja fyrir athuganir mjög kunnugra og ágætra manna á skilyrðunum, sem fyrir hendi eru, og kostnaðaráætlanir um. hvað mundi kosta að koma þessu í framkvæmd.

Ég vil beina því til þeirrar nefndar, sem þessa till. fær til athugunar, að hún kynni sér þetta mál rækilega, og ég skal með mestu ánægju láta n. í té þau plögg, sem liggja í fórum okkar í stjórnarráðinu um þetta efni. Mér þætti vænt um, ef flutningur þessarar till. gæti orðið til þess að kynna sem flestum þm. í fyrsta lagi ástand í þessum málum nú og þá miklu þörf, sem hér er á úrbótum, og það vekti athygli þeirra á því að hugleiða vandlega, hvaða leiðir færastar séu til framfara á þessu sviði. Þetta vildi ég láta koma fram við þennan hluta umr. og endurtaka, að við í stjórnarráðinu erum reiðubúnir til þess að láta þeirri þingnefnd. sem þetta mál fær til meðferðar, í té þær upplýsingar, sem við búum yfir, og erum reiðubúnir til samvinnu við n. um að vinna þessu máli gagn, því að hér er tvímælalaust um mikið nauðsynjamál að ræða.