22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í D-deild Alþingistíðinda. (2535)

79. mál, hafnarstæði við Héraðsflóa

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég tek undir það með hv. 3. þm. Austf., að það er ekki ástæða til þess að hefja deilur um þetta mál hér. Ég hef ekki heldur gert það, heldur bent á viss atriði, sem komu fram í mínu ,viðhorfi til málsins á s.l. þingi. Hv. 3. þm. Austf. segist flytja þetta samkv. beiðni íbúa Fljótsdalshéraðs. Ég skal ekki fara út í þetta. Ég rengi það ekki, að það kunni að vera einn, tveir, þrír menn, sem hafa beðið hann um að bera þetta mál fram, en hitt vil ég fullyrða, að í raun og veru hefur meira borið á því á Fljótsdalshéraði, að menn hafa brosað að þessari till., heldur en hún hafi fengið stuðning innan héraðsins.

Það er misskilningur hjá hv. 3. þm. Austf., að það hafi komið fram óánægja um þetta mál af minni hálfu. Óánægjan liggur í málinu sjálfu. Hún er ekki upprunnin í huga mínum, heldur í því, hvernig málið er undirbyggt, og ég hef talið mér skylt, fyrst hv. 3. þm. Austf. hefur látið það undir höfuð leggjast, þegar hann hefur flutt þetta mál tvisvar sinnum á Alþingi, að skýra frá staðreyndum málsins og öllum aðstæðum og bæta við því, sem var sagt var af hans hálfu.

Ég vil vona, að hv. 3. þm. Austf. sýni áhuga sinn og dugnað í samgöngumálum Fljótsdalshéraðs yfirleitt. Ég ætla ekki að væna hann um það, að svo verði ekki, en get þó ekki, án þess að fara út í það mál nánar, látið hjá líða að segja, að ég óttast nokkra sérhyggju hjá honum, nokkuð sérstæða sérhyggju í þeim málum, og gæti farið út í það frekar, ef tilefni gæfist til.