22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (2598)

162. mál, brottflutningur fólks frá Íslandi

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Fyrir skammri stundu fóru fram umræður hér á hv. Alþingi um læknaskort á Íslandi. Þá kom nokkuð til tals, að ein ástæða fyrir þeim skorti er talin sú, að allmikill fjöldi íslenzkra lækna er nú í öðrum löndum, hefur þar búsetu og atvinnu.

till., sem hér kemur til umr., fjallar um Það vandamál, sem hefur verið vaxandi í seinni tíð, að fólk flyzt búferlum burt frá landi okkar, og sérstaklega hefur verið áberandi, að hámenntað fólk, sem venjulega hefur hlotið á kostnað íslenzku þjóðarinnar eða íslenzkra aðila dýra, sérmenntun, hefur að námi loknu farið til annarra landa og ráðið sig þar í atvinnu. í sambandi við þær umr., sem hafa orðið um þessi mál hér á landi, höfum við tveir þm. talið rétt í fyrsta lagi. að gerð væri hlutlaus athugun á því, hversu mikið er raunverulega um slíkan brottflutning, því að aðgengilegar skýrslur munu ekki vera til um það. í öðru lagi teljum við æskilegt og öllu mikilvægara, að reynt verði að kanna, af hverju þetta fólk hefur flutzt búferlum frá landinu. Eftir að fengizt hafa nákvæmar skýrslur um það, t.d. um síðustu fimm ár, eins og tilgreint er í till., hverjir það eru, sem flutzt hafa búferlum, og hér er ekki um það stóra hópa að ræða, að nokkur vandræði séu á að fá þar ýtarlegan nafnalista, þá ætti að vera hægt að fá einhverjar upplýsingar um hitt, af hverju þetta fólk hefur flutzt af landinu. En upplýsingar um þær ástæður hljóta að verða grundvöllur þess, hvort Alþingi eða aðrir aðilar í landinu telja ástæðu til að gera sérstakar ráðstafanir til að stöðva þennan brottflutning, hvort það er unnt að gera slíkar ráðstafanir eða ekki.

Það liggur í augum uppi, að við höfum ekki ráð á að missa stóra hópa af okkar bezt menntaða fólki, oft sérstaklega á þeim sviðum, sem nútíma þjóðfélagi eru mikilvægust. Því vænti ég, að menn geti verið sammála um að láta gera þá rannsókn, sem hér er farið fram á, og þingið fái niðurstöður hennar til að geta gert sér grein fyrir þessu máli í heild og ákvarðað, hvort ástæða er til frekari aðgerða.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.