22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í D-deild Alþingistíðinda. (2688)

160. mál, læknaskortur

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Þessi till. um ráðstafanir vegna læknaskorts er áreiðanlega tímabær hér á Alþ., og ég tel, að hv. flm., sem allir eru úr Sjálfstfl., eigi þakkir skildar fyrir að hafa flutt þetta mál hingað inn. Ég vil taka það fram, að mér hefði fundizt, að orðalag till. hefði mátt vera dálítið á annan veg en það er, og einkum, að það hefði mátt vera nokkru ákveðnara. Ég hefði t.d. óskað þess, að það hefði ekki verið orðað þannig, að Alþingi skoraði á ríkisstj., heldur að Alþingi leggi fyrir ríkisstj. að gera það, sem gera þarf, og þetta hef ég látið koma fram í brtt. þeirri, sem ég flyt á þskj. 340. Enn fremur tel ég rétt, að ríkisstj. fjalli um þetta mál ekki aðeins með samráði landlæknis, heldur einnig í samvinnu við læknadeild háskólans.

Í till. sjálfri er minnzt á þann möguleika, að komið sé upp elli- og örorkuheimilum á hentugum stöðum í strjálbýlinu með fastráðnum læknum, er gegni jafnframt störfum héraðslækna. Þetta hugsa þeir hv. flm. till. sem eina ráðstöfun til úrbóta vegna læknaskortsins. Ég skal ekki fjölyrða um þessa hugmynd, en ég tel hana með öllu fráleita og að hún yfirleitt muni ekki koma til greina í framkvæmd. Þess vegna valdi ég það í minni brtt. að sleppa þessu atriði, sem að sjálfsögðu má athuga eftir sem áður, en mér þykir heldur óprýða till. Það kemur að mínum dómi aldrei til mála að reisa stofnanir í strjálbýlustu héruðunum, þar sem nú er læknislaust, einvörðungu til þess að draga lækna þangað að. Hugleiðum það, að með því móti værum við að safna saman fólki úr ýmsum héruðum landsins til þessara strjálbýlustu héraða, sem helzt enginn vill vera í nú orðið, aðeins til þess að lokka lækna þangað. Þetta er ótækt og kemur að mínum dómi ekki til mála.

Eins og fram kom í ræðu hv. 1. flm. hér áðan og eins og fram kemur í grg., er nú um verulegan læknaskort að ræða, þar sem a.m.k. 6 læknishéruð hafa verið læknislaus að undanförnu. Það jafngildir því, að 10% allra læknishéraða í landinu séu læknislaus. Það er ekki lítið. Þar við bætist svo, eins og segir réttilega í grg., að þrjú eða fjögur læknishéruð hefur enginn læknir fengizt til að sækja um, þó að þau séu ekki í bili læknislaus með öllu. Ef það er talið með, færist talan upp í 18% læknislausra héraða. Þetta er í sjálfu sér mjög athyglisvert og íhugunarvert atriði. Það er ekki vitað til þess, og neins staðar á landinu ríki atvinnuleysi meðal lækna. Allir þeir læknar, sem starfa í þessu landi, hafa nóg að gera. Þessi skortur, sem um ræðir í grg. till., er þess vegna vottur um almennan læknaskort á Íslandi. Það er of lítið af læknum í landinu. Mér finnst þetta vera höfuðmálið og það atriði, sem fyrst og fremst þarf að rannsaka ofan í kjölinn, hvers vegna er læknaskortur á Íslandi. Ég hef m.a. orðað þá þörf á rannsókn nokkru ákveðnar í minni brtt. en gert er í till. þeirra fimmmenninganna, af því að ég tel, að hér sé um meginmál að ræða.

Ég las það í grg., og hv. frummælandi tók það fram, að hæstv. heilbrmrh. hefði áhuga á þessu máli. Ég verð að segja, að þetta þykja mér tíðindi, og ég fagna, ef sönn reynast. Mér hefur nefnilega nú og undanfarið fundizt bera furðulítið á áhuga fyrir heilbrigðismálum í heilbrmrn. Við skulum athuga, að læknisleysið í útkjálkahéruðunum er ekki nýtt fyrirbæri. Það er margra ára gamalt. Og ég hef ekki orðið var við neinn áhuga í þessu rn. fyrir að bæta úr því. Nei, þetta mein, eins og mörg önnur í okkar heilbrigðismálum, stafar einmitt af því, að húsbændur í þessu rn. hafa ekki áhuga á lausn vandamála á þessu sviði. Við vitum, af hverju það er. Það er fyrst og, fremst af því, að þessi mál yfirleitt teljast ekki nógu mikilvæg pólitískt séð, flokkspólitískt séð. Þess vegna er þeim minni gaumur gefinn af ráðamönnum en vert vært. Ég skal líka nefna örfá ný dæmi þess, að áhuganum er ekki fyrir að fara á þessum stöðum.

Að óþörfu og til óþurftar heilbrigðismálum þjóðarinnar var t.d. í tvö ár, tvö heil ár umfram þörf, dregið að skipa í yfirlæknisstöðu eins stærsta spítala landsins. Það var ekki dregið vegna áhuga á viðkomandi heilbrigðismali, heldur af áhugaleysi. Það var dregið að skipa í þessa stöðu af pólitískum ástæðum eða af persónulegum ástæðum. Þetta er eitt dæmi um áhugann á þessum stað og það nýlegt dæmi. Það er komið á annað ár, síðan stjórnskipuð nefnd, sem núv. landlæknir var formaður í, skilaði í þetta rn. tillögum um breyt. á l. um meðferð drykkjumanna. Bæði núv. landlæknir, fyrrv. landlæknir og allir þeir, sem þekkja til þessara mála, telja brýna nauðsyn á, að I. um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra þurfi nauðsynlega að breyta til þess að gera þær ráðstafanir virkari, sem þar um ræðir, og til þess að fé hins opinbera nýtist betur til þeirra þarfa, til hjálpar drykkjumönnum. Hvað er um áhuga heilbrmrh. að segja í þessu efni? Hann er búinn að láta þessar tillögur liggja í salti hjá sér síðan í janúar í fyrra, og, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir landlæknis á s.l. hausti og síðan annarra aðila til að fá tillögurnar upp úr saltinu. tókst það ekki. Þetta er áhuginn á þessu máli. Mér kemur þess vegna spánskt fyrir, að heilbrmrh, hafi áhuga á læknaskortinum í landinu, en ég fagna því, ef þetta reynist rétt.

Hv. frummælandi, 1. flm. till., ræddi hér áðan nokkur atriði, sem til mála kæmu til úrbóta, og það er einnig á þau drepið í grg. Sumt af því tel ég alveg réttmætt og rétt. Þeir flm. benda á nauðsyn kjarabóta handa læknum í fámennustu héruðunum. Það er sannarlega þörf á því. Ég held, að kjör lækna í þessum fámennustu héruðum séu hörmuleg. Og það mætti segja mér, að launin væru ámóta í þessum lökustu héruðum og námsstúdent er nú greitt fyrir vinnu á Kleppi, svo léleg eru þau.

Hv. 1. flm. minntist einnig á nauðsyn Þess að auðvelda læknum í þessum héruðum aðgang að betri samgöngutækjum. Þetta er líka rétt. Það er nauðsyn á þessu. Þeir þurfa að fá með góðum kjörum vandaða bíla til sinna ferðalaga. En í þessu sambandi er vert að minnast þess, hvað hæstv. ríkisstj. með sínu liði hér á þingi hefur gert í þessu efni fyrir læknastéttina. árið 1959 nutu læknar, hvað samgöngutæki snertir til atvinnu sinnar, sömu réttinda og leigubílstjórar í Reykjavík. Þetta fannst hæstv. ríkisstj. allt of góð kjör handa læknastéttinni, og það var fyrsta verk hæstv. ríkisstj. í ársbyrjun 1960 að afnema þetta. Læknar skyldu ekki fá bifreiðar með sömu kjörum og leigubílstjórar. Þeirra starf var ekki metið að þessu leyti til jafns við þá bílstjóra, sem fara að þörfu og óþörfu daga og nætur með fólk í sínum leigubílum. Afleiðingin hefur m.a. orðið sú, að samgöngutækin eru orðin mikið fjárhagslegt vandamál allri læknastéttinni. Ungur læknir, sem er nýkominn frá Svíþjóð og setztur að hér í Reykjavík eftir tíu ára vist þar, sagði mér nýlega, að eitt af áhyggjuefnum ungra lækna nú, sem dveljast erlendis, sé bílakostnaðurinn. þegar heim kemur, nú þegar vandaður bíll. — og læknum á ekki að bjóða annað en vandaða bíla til sinna ferðalaga, — kostar hátt á þriðja hundrað þús. kr. Hér gætu hv. flm. till. unnið þarft verk, ef þeir vildu róa í sinni hæstv. ríkisstj. og fá hana til þess að bæta ráð sitt í þessu efni.

Hv. frummælandi minntist á þann möguleika til úrbóta að ráða hingað erlenda lækna. Það tel ég, að komi vel til greina. Hér er læknaskortur, og því skyldum við ekki reyna allar leiðir, m.a. þá að fá hingað erlenda lækna? Svíar eiga við læknaskort að búa. Þeir hafa tekið allmikið af læknum frá okkur, nokkra tugi, til starfa hjá sér. En ég er bara hræddur um, að þetta reynist erfitt. Það mætti sannarlega bjóða þeim vel, ef þeir ættu að vilja koma hingað í útkjálkahéruð. Í engu landi. menningarlandi a.m.k., er læknastéttin jafnhraksmánarlega launuð og á Íslandi. Það getur ekki verið fýsilegt að frétta af því fyrir erlenda lækna, sem annars kannske vildu hingað leita. Nei, en það má bjóða þeim hátt kaup, fimmfalda venjuleg laun eða tífalda, og má þá vel vera, að einn og einn fengist, kannske einn og einn flóttamaður úr læknastétt, og það kæmi sér vel fyrir læknislausu héruðin. Annars væri það líkt ýmsu öðru í okkar ráðslagi hér á Íslandi að bjóða erlendum læknum tíföld laun á við Íslenzka til þess að fá þá til að koma hingað, en um leið að hrekja tugi, ef ekki hundruð íslenzkra lækna burt úr landinu, eins og nú er gert. Það er vitað mál, að þeir skipta tugum í Svíþjóð einni, íslenzkir læknar, sem eru þar að störfum og ekki koma heim, vegna þess að þeir hafa miklu betri kjör þar en hér.

Í grg. er minnzt á enn eina leið, einn möguleika til úrbóta, og það er að fá hjúkrunarmenn í héruðin. Ég varð mjög hissa á að lesa þetta og spyr: Hvað meina hv. flm. með þessari uppástungu? Er það meiningin að fá hjúkrunarmenn til þess að fara í þessi héruð í stað lækna? Er það meiningin að koma upp smátt og smátt á þennan hátt álitlegri skottulæknastétt í landinu með takmörkuðum réttindum til starfa í útkjálkahéruðunum?

Bezta bráðabirgðaúrræðið, sem hv. flm. minnast á í sinni grg., — ég tek fram bráðabirgðaúrræði, er ráðning læknakandidata í ríkara mæli en verið hefur nú að undanförnu. Ef tækist að fá læknastúdenta á síðasta stigi náms í ríkara mæli til þess að sinna störfum um stundarsakir í strjálbýlustu héruðum, væri vandinn leystur í bili, en aðeins í bili. Þetta væri mjög sómasamleg lausn. En það er aðeins einn galli á, og hann er sá, að nú nýlega, með nýrri reglugerð í háskólanum, hefur læknastúdentum í síðasta hluta verið gert með öllu ókleift að hlaupa undir bagga í þessu efni. Þeim hefur verið gert það með öllu ókleift að ráða sig um stundarsakir til starfa sem læknar úti á landi. Þeim er gert að skyldu í seinasta hluta nú orðið, samkvæmt nýrri reglugerð, að ljúka námi innan viss tíma, og sá tími er mjög naumt markaður. aðeins 21/2 ár. Á þessum 21/2 ári eiga þeir fyrir utan námið sjálft og tímasókn að inna af hendi vinnuskyldu á spítölum í átta mánuði. Af því má sjá, að með þessari ákvörðun er læknastúdentum gert ókleift að vinna úti í héruðum, meðan á síðasta hluta náms stendur. Þetta er illa farið að mörgu leyti. Þetta er slæmt fyrir þessi læknishéruð, sem að jafnaði eru alveg læknislaus. Það er líka slæmt fyrir læknastúdentana, sem margir hverjir eru að brjótast í gegnum nám af litlum efnum. Mörgum kæmi það vel að geta hálft ár eða svo unnið fyrir sér úti í héraði og létt þannig undir með sér á námsbrautinni. En með þessu ákvæði í reglugerð háskólans er þeim gert þetta ómögulegt. Nú vil ég benda hv. flm. á þennan þröskuld í þeirri von, að þeir beiti sér fyrir því við sína hæstv. ríkisstj., að þessu óþurftarreglugerðarákvæði verði breytt.

Það er læknaskortur í þessu landi. Og af hverju stafar þessi læknaskortur? Sjálfsagt eru orsakirnar margar, en ein af þeim er sú, að sá skilningur hefur um áratugi verið uppi í háskólanum, að aðsókn að læknadeild væri alltaf of mikil. Þegar ég var í læknadeild fyrir 30 árum, var þetta stöðugt prédikunarefni prófessoranna á hverju hausti: Aðsóknin að þessari deild er allt of mikil. Hér verður fljótlega um offjölgun lækna að ræða. — Ég geri ráð fyrir því, að þessi skilningur, sem hefur verið svona lengi ráðandi í háskólanum, hafi haft sín áhrif, bæði á háskólakennarana og á nemendurna, í þá átt að fæla frá deildinni. Læknanámið er langt og strangt, og það er dýrt. Af þessum ástæðum er það, að aðeins lítill hluti af þeim stúdentum, sem setjast í læknadeild, lýkur nokkru sinni þaðan námi. Það er talið, að aðeins 30–40% af stúdentum, sem innritast í læknadeild, ljúki fullnaðarprófi. Nú hefur það verið svo undanfarin tíu ár, að aðsókn að læknadeild er rénandi. Hún fer ekki vaxandi, hún stendur ekki í stað, hún minnkar. Námið er erfitt, og, það hefur verið gert óaðgengilegt af ráðnum hug um mörg ár. Það eru komnir miklu fleiri möguleikar en áður voru fyrir stúdenta að snúa sér að öðrum verkefnum en áður var völ á. Kjör lækna voru einu sinni álitin góð. Nú er það hjátrú. Kjör lækna eru ekki góð í þessu landi. Allt þetta hefur orðið til þess að draga úr aðsókn að læknadeild háskólans, og fróðir menn spá því, að eftir 15 ár hér frá með sama gangi verði tilfinnanlegur læknaskortur á Íslandi.

Þegar þetta mál er rætt og athugað, læknaskorturinn í útkjálkahéruðunum, læknaskorturinn á Íslandi, er nauðsynlegt að athuga læknadeild háskólans fyrst og fremst. Hvað er gert til þess að draga unga og efnilega menn að þessu námi? Eða er ekkert gert, er þvert á móti reynt að fæla menn fra þessu námi? Ég tel, að það sé gert og hafi verið gert bæði beint og óbeint á undanförnum árum og oft af ráðnum hug. Þess vegna tel ég rétt, að þegar þetta mál verður athugað af hæstv. ríkisstj., þá hafi hún ekki aðeins landlækni með sér í ráðum, heldur líka læknadeild háskólans. Það er, eins og hv. frummælandi tók fram, nóg til af Íslenzkum læknum að vísu, en þeir fást ekki til starfa í þessum héruðum, lökustu héruðunum, sumpart af því, að þeir hafa nóg að gera annars staðar hér á landi, og þeir, sem hafa það ekki, dveljast erlendis við störf, sem eru miklu betri, bæði hvað almenn starfsskilyrði snertir og hvað laun snertir.

Ég fer svo ekki fleiri orðum um þetta að sinni, en vil enn endurtaka þakkir mínar til hv. flm. að hafa flutt þetta brýna mál hingað inn, og að sjálfsögðu er ég þeim í öllum aðalatriðum sammála, Þó að ég hafi af ástæðum, sem ég hef nú að nokkru leyti gert grein fyrir, talið rétt að umorða tillgr. og með því breyta henni í ákveðnara form.