25.11.1960
Sameinað þing: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í D-deild Alþingistíðinda. (2704)

97. mál, landhelgismál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er sýnishorn af málflutningi hæstv. dómsmrh.: Alþ. hefur samþ., að ekki megi víkja frá 12 mílna fiskveiðilandhelgi og vinna beri að því að afla henni viðurkenningar. Dómsmrh. heldur því fram hér, að hann sé að framkvæma þessa ályktun með því að hleypa Bretunum inn í landhelgina og færa hana inn með undanþágu frá 12 mílunum.

Þá er það hæstv. utanrrh., sýnishorn af hans málflutningi áðan: Hann segir, að það hafi verið samið um landhelgismálið áður. Dæmi: Það var samið um landhelgismálið 1952. Með hverju? Með því að gera boð um að skjóta því til Haagdómstólsins. Það voru samningar um landhelgismálið að dómi hæstv. utanrrh. Það hlýtur að vera meira en lítið bogið við málstað, sem þarf svona málflutning, ef nefna á þvílíkan útúrsnúning svo virðulegu nafni.

Þegar vinstri stjórnin var mynduð, var ákveðið að færa út landhelgina, en ekki hve mikið né hvenær. Ríkisstj. vildi að um þetta mesta mál þjóðarinnar, síðan frelsismál hennar leystist, yrði haft samráð á milli allra flokka, líka stjórnarandstæðinga. Því var sett upp samstarfsnefnd með fulltrúum frá öllum flokkum. Smátt og smátt varð ljóst, að Sjálfstfl. ætlaði að verða hinni fyrri skemmdarstefnu sinni í stjórnarandstöðunni trúr, líka í þessu vandamesta máli, sem til úrlausnar hefur komið lengi. Forðazt var sem heitan eld að taka afstöðu og ábyrgð og tillögum svarað með undanbrögðum og vífilengjum. Augljóst var, að þjóðareiningin um landhelgismálið megnaði ekki að ná til leiðtoga Sjálfstfl. Sjálfstfl. var reiðubúinn að nota þetta mál út í yztu æsar, eins og öll önnur, til þess eins að tefla refskák sína gegn ríkisstj. Þetta var þó ekki hægt að setja fyrir sig, þótt alvarlegt væri, og það því fremur sem við sannfærðumst um því meir sem fleira gerðist og nær dró úrslitum, að ef vinstri stjórnin sundraðist án þess að hafa fært út landhelgina, væri útfærslan úr sögunni um ófyrirsjáanlegan tíma.

Við urðum því að finna leið til að færa út, sem vinstri stjórnin gat staðið saman um. Þessa leið varð Framsfl. að leggja sig fram um að finna, og við þetta varð að miða meðferð málsins.

Íslendingum bar að greina frá því, sem þeir ætluðu að gera, í Atlantshafsbandalaginu. Við ráðh. Framsfl. vorum ráðnir í að nota aðstöðuna í NATO til að reyna að fá viðurkenningu á einhliða útfærslu og vinna að skilningi á okkar málstað. En við vorum líka ráðnir í að fyrirbyggja, að málið drukknaði þar í endalausu þófi, og við vorum ráðnir í að knýja fram útfærsluna, þótt viðurkenning fengist ekki.

Öðrum megin við okkur voru þeir, sem ekki vildu mikið til vinna að tryggja viðurkenninguna gegnum NATO. Hinum megin þeir, sem vildu endalaust þóf og ekki virtust mega til þess hugsa að stíga lokaskrefið andspænis fullkominni óvissu um, hvort útfærslan yrði viðurkennd af nokkurri þeirri þjóð, sem við höfðum nánast samstarf við. En til þess vorum við ráðherrar Framsfl. reiðubúnir, ef þyrfti, en heldur ekki nema að fullreyndum leiðum til viðurkenningar. Við töldum skylt að reyna til hlítar, þótt okkur væri ljóst, að hverfandi líkur væru fyrir viðurkenningu fyrir fram, þar sem andstaða þessara þjóða beindist fyrst og fremst gegn því að ganga inn á rétt nokkurrar þjóðar til einhliða útfærslu landhelgi.

Mikil vinna hafði verið lögð í að kynna okkar málstað, en nú var komið að úrslitastund. Genfarráðstefnunni fyrri var lokið. Þar hafði 12 mílna fiskveiðilandhelgi fengið mikinn byr, þótt ekki næði fullu samþykki. Nú varð ljóst, að til skarar varð að skríða. Fyrst varð að fá hreint úr því skorið, hvort nokkur möguleiki væri að fá út úr viðræðunum í NATO hreina viðurkenningu á einhliða rétti til útfærslu. En slík viðurkenning hefði þýtt algeran sigur okkar í landhelgismálinu í víðustu merkingu, því að með slíku var ekki aðeins opnuð friðsamleg og fyrirhafnarlaus leið til útfærslu í 12 mílur, heldur brotinn ísinn til enn frekari útfærslu í framhaldi af því. Hér var því ekki lítið að vinna.

Til að fá úr þessu skorið, var skeytið sent 18. maí 1958 af ráðherrum Framsfl. og Alþfl. En ráðherrar Alþb. vildu ekki slíka lokakönnun á þessu atriði. Í skeytinu var sagt, að fengist viðurkenning á einhliða rétti Íslendinga til útfærslu, yrði til athugunar tekið, að full útfærsla í 12 mílur yrði gerð á þremur árum, en grunnlínur yrðu þá færðar út. Þetta var borið undir formann Sjálfstfl., eins og hann hefur sjálfur játað. En þeirri stefnu í málinu trúr að taka enga ábyrgð á einu né neinu, sem gæti orðið til þess að leysa málið, tók hann enga afstöðu til þess. Hitt er svo ljóst af því, sem síðar hefur komið fram, að forráðamenn Sjálfstfl. vildu láta halda viðtalsþófinu í NATO áfram, þótt fyrir lægi algerlega neikvætt svar frá framkvæmdastjóra NATO um viðurkenningu á einhliða útfærslu og það frá öllum þjóðum þar.

Það er svo einn þáttur í ógeðslegum skrípaleik þeim, sem nú er leikinn af hendi þeirra, sem ætla að fara aftan að þjóðinni í landhelgismálinu, að láta eins og þessum tilraunum hafi verið ljóstrað upp, þótt þær hafi verið þeim vel kunnar frá byrjun, og voru m.a. ræddar á kosningafundum og í blöðum í tvennum alþingiskosningum, þar sem framsóknarmönnum var af Alþb. legið á hálsi fyrir þetta, en framsóknarmenn síður en svo borið kinnroða fyrir, fremur en nokkuð annað af því, sem þeir hafa gert í sambandi við landhelgismálið.

Það nýja í málinu er einvörðungu það, að í vandræðum sínum reyna þeir nú, sem ætla að svíkja, að rugla dómgreind manna með því að bera þessar tilraunir til að fá viðurkenningu fyrir einhliða útfærslu saman við fyrirætlanir sínar nú um að verðlauna Breta fyrir ofbeldið með því að afhenda þeim það, sem við erum búnir að vinna, með því að hleypa veiðiþjófunum inn á íslenzka bátaflotann í okkar eigin landhelgi.

Þegar það lá fyrir 1958, að viðurkenning, á einhliða rétti var alveg ófáanleg, var komið að lokaþættinum. Framkvæmdastjóri NATO hafði stungið upp á sérstakri ráðstefnu á vegum NATO.

Afstaða Framsfl. var nú tekin þessi: Ráðstefna kemur ekki til mála, þar sem fyrir liggur, að viðurkenning er ófáanleg og hik nú er sama og að tapa málinu. Ákvörðun um útfærsluna ber að taka strax, í 12 mílur, að óbreyttum grunnlínum, þar sem fyrir fram viðurkenning fæst ekki. Útfærslan taki gildi 1. sept., og ber að nota tímann þangað til, til að kynna okkar málstað. Alþb. vildi útfærsluna strax, en gat fallizt á afstöðu Framsfl. Afstaða Alþfl, var alveg óljós, en viðhöfð voru hvers konar undanbrögð.

Var nú afstaða Framsfl. borin undir forustumenn Sjálfstfl., og hefur frá því öllu verið skýrt áður opinberlega. Forustumenn Sjálfstfl. neituðu að samþykkja útfærsluna og vildu ekki vera með í því að hafna ráðstefnu á vegum NATO, kröfðust áframhaldandi viðræðna á vegum NATO, þótt þeim væri vel kunnugt um þau svör, sem þaðan höfðu borizt: að engir möguleikar væru á viðurkenningu. Þessi afstaða foringja Sjálfstfl. var í nákvæmu samræmi við þann fasta ásetning þeirra., sem alltaf kom betur og betur í ljós, að reyna að notfæra sér landhelgismálið pólitískt og taka ekki á sig nokkru sinni nokkra ábyrgð á því að vera með í nokkurri lausn, hversu mikil nauðsyn sem á því kynni að vera fyrir þjóðina, að samstaða gæti myndazt.

Þeir vissu, að í málinu varð að taka áhættu. Hana vildu þeir ekki taka. Eftir á átti að segja, að það hefði verið hægt að fara öðruvísi að, ef vandi kom fram. Í málinu var einnig hægt að gera yfirboð, og það átti að nota og segja: Við vildum bara meira. — Þokkalegur leikur, eða finnst mönnum ekki, með mesta málefni þjóðarinnar?

Við ráðherrar Framsfl. vorum á hinn bóginn sannfærðir um enn sem fyrr, að tækist okkur ekki að halda stjórninni saman og færa út, þá væri málið tapað. Þá mundu undansláttarflokkarnir ná tökum á málinu, og þá var ekki mikið vafamál, hvernig færi. Enda geta menn nokkuð nærri farið um það, hvenær þeir flokkar, sem nú ætla að færa landhelgina inn aftur, hefðu fært landhelgina út í 12 mílur með einhliða ákvörðun og án þess að vita nokkuð um, hvort sú ákvörðun yrði viðurkennd í verki af nágranna- og samstarfsþjóðum okkar. En það var þetta, sem þurfti að gera sumarið 1958, ef brjóta átti niður mótstöðuna gegn einhliða rétti til útfærslu.

Hér mun ekki reynt að segja frá lokaþættinum í ríkisstj., en það er nokkuð einkennandi fyrir þau átök, sem urðu til að fá Alþfl. inn á það, sem ofan á varð, að tvisvar sinnum var forsrh. búinn að biðja um ríkisráðsfund til að leggja fyrir lausnarbeiðni ríkisstj., og, einu sinni höfðum við gefið upp alla von um, að okkur auðnaðist að leysa málið. En þrátt fyrir allt tókst það, og með því var landhelgismálinu raunverulega borgið. Valt þetta að lokum á því, að forustumenn Alþfl. voru þá enn hræddari við reikningsskil í landhelgismálinu frammi fyrir þjóðinni en Breta, enda voru þeir þá ekki búnir að kaupa sér líftryggingu hjá íhaldinu.

Útfærslan í 12 mílur mun jafnan verða talin merkur atburður í sögu þjóðarinnar, og útfærsla okkar í 12 mílur hefur haft stórkostleg áhrif á afstöðu í landhelgismálum á alþjóðavettvangi, í þá átt að brjóta niður yfirgang þeirra, sem vilja stunda ránsveiðar á landgrunnum annarra.

En allt hékk þetta á bláþræði þessa maídaga vorið 1958, en bjargaðist samt.

Útfærslan átti að gilda frá 1. september, og átti að nota tímann til að skýra okkar málstað fyrir öðrum þjóðum, m.a. innan NATO, sem fyrr segir. Þennan tíma eða þangað til útfærslan kom í gildi og Bretar réðust á okkur var afstaða okkar framsóknarmanna hin sama og mótaðist í skeytinu frá 18. maí, þótt utanrrh. hafi þóknast að orða hana nokkuð öðruvísi í sínum skeytum síðar. En við höfnuðum samningum um málið sem fyrr. En Alþfl. lá flatur fyrir hverju gylliboði um samninga sem fyrr, að maður nú ekki tali um forustu Sjálfstfl.

Sumarið 1958 var örlagatími hér norður við heimskautsbauginn. Ríkisstj. hafði tekið sína ákvörðun, tekið áhættu, sem varð að taka, og nú reið á, hvernig aðrar þjóðir brygðust við. Almenningur í landinu stóð að baki stjórninni. Um það þarf enginn að efast. Nú reið mest á því, að sú þjóðareining, sem raunverulega var til um útfærsluna, kæmi skýrt fram, svo að enginn, sem hafa kynni illt í hyggju, væri í vafa um, að hann ætti einhuga þjóð að mæta, sem yrði ekki kúguð frá ákvörðun sinni.

En þá skeði það, sem vafalaust hefur nokkuð örlagaríkt orðið og lengi mun minnzt verða. Aðalmálgagni Sjálfstfl., sem Bjarni Benediktsson stýrði, var ekki beitt til þess að styðja ákvörðunina um útfærslu. sem nú hafði verið tekin af löglegri stjórn með þingmeirihluta að baki og lífsnauðsyn var fyrir þjóðina að fengi að fullu staðizt. Og þó vissu þeir, sem réðu húsum hjá aðalmálgagni Sjálfstfl., að erindrekar Breta fylgdust nákvæmlega með öllu hér til að kanna, hve sterkir Íslendingar væru í málinu, hve vel þeir stæðu saman, og allt með það fyrir augum að beita Íslendinga ofbeldi, ef þeir teldu sig sjá veilu í samstöðu þjóðarinnar, sem leitt gæti til undanhalds í þeirra þágu.

Við þessa aðstöðu var Morgunblaðið notað, undir forustu Bjarna Benediktssonar, núv. hæstv. dómsmrh., til þess að deila á og rífa niður á allar lundir og tortryggja með öllu hugsanlegu móti ákvörðun ríkisstj. um útfærslu landhelginnar, sem fram undan var 1. september.

Það var hamrað á því, að Sjálfstfl. hefði viljað meiri og lengri viðræður, eins og það var kallað, í stað útfærslunnar. Eins og á stóð var þetta ekkert annað en hreinlega tilboð um samninga, enda ekki skilið nema á einn veg af Bretum. Þeir vissu vel, að sjálfstæðismönnum var vel kunnugt það, sem á milli hafði farið í NATO, og að öll þessi hróp um meiri og meiri viðræður gátu ekki þýtt annað en að sjálfstæðismenn teldu, að ganga ætti til móts við þeirra sjónarmið.

Allt sumarið var sleitulaust alið á því í Morgunblaðinu, hve stórkostlegur ágreiningur ríkti um útfærslu landhelginnar og allt, sem að því lyti. Það hafði verið ágreiningur meðal þeirra, sem ákvarðanirnar áttu að taka. En hann var leystur, nema ágreiningur þeirra forustumanna í Sjálfstfl., sem óleysanlegur var. Það var augljóst orðið, að þjóðin stóð að baki því, sem ríkisstj. hafði gert í málinu. En um það stóð ekkert í Morgunblaðinu og þaðan af síður hvatningar til allra að standa fast saman um það, sem gert hafði verið af löglegri stjórn, vegna hættu utan frá.

En Bretar lásu Morgunblaðið, og þeim var ekki ljóst, að það talaði ekki þetta sumar einu sinni fyrir munn almennings í Sjálfstfl., hvað þá fyrir þjóðina.

En svo langt var gengið hjá blaðinu, að hörðu þurfti að beita til að koma þar á framfæri ályktunum um samstöðu í landhelgismálinu, þegar þær fóru að berast, vegna þess ekki sízt, hve mönnum blöskraði sundrungarstarf blaðsins á þessari örlagastund.

Hámarki náði þessi áróður til að grafa undan ákvörðuninni um útfærsluna og gera hana tortryggilega og veika í augum samstarfsþjóða okkar, en andstæðinga í landhelgismálinu, með því, að forustumenn Sjálfstfl. héldu blákalt fram, að kommúnistar hefðu ráðið ferðinni í landhelgismálinu, þetta væri þeirra mál orðið. Á þessu var staglazt í Morgunblaðinu allt sumarið. En það var ekki nóg, að Bjarni Benediktsson stæði fyrir þessu. Ólafur Thors varð líka að fara á stúfana og lýsa því yfir í ræðu, sem síðan var prentuð í Morgunblaðinu, að ráðherrar Framsfl. væru eins og bundnir fangar aftan í stríðsvagni kommúnista í landhelgismálinu.

Þá var heldur ekkert til sparað í Morgunblaðinu að upplýsa, að Alþýðuflokksmenn hefðu verið kúgaðir í landhelgismálinu. Á því áttu Bretar að sjá, að Alþýðuflokksmenn væru ekki eins ótilkippilegir og ætla mætti af þátttöku þeirra í útfærslunni.

Var furða, þótt Bretar teldu sig geta boðið Íslendingum sitt af hverju, eftir að hafa fengið slíkar upplýsingar frá háttsettum mönnum að baki víglínu Íslendinga um sjálfa útfærsluna og hvað að baki henni stæði?

Hafa menn íhugað til hlítar þá botnlausu spillingu, sem í þessari framkomu felst, að ekki séu viðhöfð önnur orð, sem ættu betur við? Þessi taumlausi áróður Morgunblaðsins allt sumarið 1958 hlaut að gefa Bretum þá hugmynd, að við sundraða þjóð væri að eiga í landhelgismálinu, sem hlyti að láta undan og semja, ef henni væri sýndur hnefinn.

Með þessu varð forustulið Sjálfstfl. þess valdandi, að Bretar lögðu út í ofbeldisverk sín á fiskimiðum Íslendinga, og er þung ábyrgð þeirra, sem slíkt kalla yfir sína þjóð.

Aðfaranótt 1. sept. 1958 var mikil örlaganótt við Ísland. Þá gerðust þeir atburðir, sem tímamótum ollu í landhelgismáli þjóðarinnar og áreiðanlega sögu hennar. Togarar allra þjóða færðu sig út fyrir 12 mílna mörkin, — nema togarar Breta. Þegar togarar annarra þjóða færðu sig út úr hinni nýju landhelgi til þess að viðurkenna hana þar með í verki, sigldu brezku herskipin inn 3 nýju landhelgina til þess að reyna að halda þar uppi fiskveiðum með ofbeldi og kúga Íslendinga með því til undanhalds, — hina sundruðu þjóð á vegum kommúnista, sem Morgunblaðið hafði verið að lýsa fyrir Bretum allt sumarið.

Ég hef oft sagt áður og ég segi það enn, að þegar togarar allra annarra en Breta færðu sig út fyrir aðfaranótt 1. sept., unnu Íslendingar sigur í landhelgismálinu, og mikið eigum við þeim þjóðum að þakka, sem viðurkenndu þá okkar rétt í verki.

Ekki þarf að fara í neinar grafgötur um, að þar nutum við þess, sem fram hafði farið innan NATO til að skýra okkar mál, enn fremur eðlilegrar tilhliðrunarsemi, sem við höfðum látið koma fram að við værum til með að sýna gegn fullri viðurkenningu á okkar einhliða rétti til útfærslu.

Þar nutum við einnig þess, að við vorum í NATO. Og í allri landhelgisbaráttu okkar hefur okkur verið mikill styrkur að veru okkar í NATO, þótt ekki hafi það náð að firra okkur ofbeldi Breta. Og vera okkar í NATO er ásamt fleiru trygging fyrir því, að landhelgismálið er raunverulega leyst og tilslökun í því nú er bein svik við málstað Íslendinga.

Þann 1. sept. 1958 sigruðu Íslendingar í landhelgismálinu. Röddinni í Morgunblaðinu var drekkt í þeirri öldu, sem með þjóðinni reis til samstöðu um 12 mílna fiskveiðilandhelgina nýju og gegn ofbeldi Breta.

En nú urðu þáttaskil í stjórnmálum landsins. Undansláttarflokkarnir í landhelgismálinu náðu tökum á málefnum þjóðarinnar. En það þurfti að halda tvennar kosningar og það tók meira en ár. Jarðvegurinn var ekki heldur upp á það bezta til að tala um undanslátt og samninga, meðan viðureign við herskip Breta og veiðiþjófa í landhelgi var svo að segja daglegt brauð Íslendinga. Enda var röddin, sem áður var svo óþreytandi að lýsa sundrungu Íslendinga í landhelgismálinu og útfærslu landhelginnar eftir fyrirskipun kommúnista og nauðsyn þess að semja og semja, — enda var röddin nú jafnáköf að lýsa yfir því, að enginn undansláttur frá 12 mílunum í nokkurri mynd kæmi til mála. Það var líka sem óðast verið að kjósa. Á Alþingi tóku forustumenn Sjálfstfl. þátt í að samþykkja þetta sama og, voru óþreytandi að sverja fyrir alla möguleika til undansláttar frá 12 mílna fiskveiðilandhelginni. Allt virtist í góðu horfi og engin vella í neinu, og margir voru farnir að trúa því, að þjóðareiningin í landhelgismálinu næði orðið til leiðtoga stjórnarflokkanna og allir stæðu saman gegn ofbeldi Breta.

En svo fór því miður, að í ljós kom, að svo var ekki og að þeir til dæmis, sem héldu, að forusta Sjálfstfl. hefði skipt um skoðun frá því um sumarið 1958, höfðu alveg rangt fyrir sér.

Eftir kosningarnar, sem þurfti að klára fyrst, var beðið eftir landhelgisráðstefnunni í Genf. Sú ráðstefna styrkti enn stórkostlega málstað Íslendinga. Sögulega réttinum var hafnað og stóraukið fylgi við 12 mílna fiskveiðilögsögu. En ekki var ráðstefnunni samt fyrr lokið en undanhaldið byrjaði.

Fyrst kom sakaruppgjöfin, sem gat átt rétt á sér, ef jafnframt var gert alveg endanlega ljóst, að ekkert undanhald kæmi til mála né nokkrir samningar eða viðtöl út af ofbeldi Breta. Þá gat hún létt Bretum að láta af ofbeldinu.

En það er svo furðulegt, að tæpast fást orð yfir, að menn, sem ætluðu sér að semja við ofbeldismennina, skyldu byrja á því að gefa þeim upp allar sakir, áður en þeir settust niður með þeim til að semja við þá. Ætli slíkt sé ekki fágætt í allri heimssögunni?

Með sakaruppgjöfinni, eins og hún var framkvæmd, og með því að taka upp samninga í framhaldi af henni munu Bretar telja sig hafa fengið staðfestingu á því, að það væri engin tilviljun, hvernig Morgunblaðið var skrifað sumarið 1958 undir forustu núv. hæstv. dómsmrh., og að þeir hafi, þegar allt kom til alls, ekki reiknað skakkt, þegar þeir drógu þær ályktanir um sumarið, að þeim mundi óhætt að sýna herskipin, bak við víglínu Íslendinga í landhelgismálinu væru menn, sem vildu slaka til, ef þau væru sýnd. Brezkir forráðamenn hafa langa æfingu í að sjá veilurnar í fari þeirra, sem þeir vilja sýna yfirgang, hafa glöggt auga fyrir veiku hlekkjunum. Þeir hafa alltaf treyst á óheilindi forustuliðs stjórnarflokkanna og byggt á þeim og að undir byggi sú skoðun núv. hæstv. dómsmrh., að ekki yrði lengra komizt en Bretar raunverulega vildu, en hann orðar þannig: en hinar stærstu vinsamlegu þjóðir vildu, — og staðfestist þetta af öllum þeim málflutningi, sem nú er við hafður, og því, sem verið er að gera.

Með þessum aðförum hæstv. ríkisstj, hefur málstað Íslendinga verið spillt, — og nú er hrópað: Hvernig á þá að leysa fiskveiðideiluna? Íslendingar verða að gera eitthvað til að leysa deiluna.

Annað veifið er svo talað eins og vígdrekar Breta liggi tilbúnir og hótað sé að senda þá inn, ef ekki er samið. Hitt veifið er sagt eitthvað í þá lund, að vígdrekar komi ekki, en eitthvað, sent sé jafnvel verra, enginn veit hvað.

Við okkur, sem berjumst af öllu afli á móti því, að brezka togaraflotanum sé nú hleypt inn í landhelgina, er sagt: Hvernig viljið þið leysa deiluna?

Við svörum með því að biðja menn að líta á, hvernig málið stendur, þegar moldinni er blásið frá. Við svörum með því að biðja menn að athuga: Allar þjóðir nema Bretar hafa viðurkennt 12 mílna útfærsluna í verki. Allir vita, að Bretar geta alls ekki látið togara sína fiska hér við land undir herskipavernd. Reynsla þeirra er svo ömurleg af þess háttar veiðum, að slíkt fær engum dulizt. Friðun landhelginnar má heita alger í reynd og fiskgengd við strendurnar miklu meiri en áður. Jafnvel þeir, sem vilja nú beita sér fyrir samningum og launa Bretum ofbeldið með fríðindum á kostnað íslenzku fiskimannanna og þjóðarinnar, hafa sjálfir viðurkennt, að 12 mílurnar hafi sigrað. Það er bókstaflega ekkert til í þessu máli, sem nálgast það nokkuð að gefa ástæðu til að fórna því, sem við höfum þegar unnið. Hví skyldum við gera slíkt? Annað mál væri að taka tillit til annarra þjóða í sambandi við öflun viðurkenningar á einhliða ákvörðunum okkar, ef um enn frekari útfærslu, í 16 mílur eða 20 mílur, væri að ræða, en það væri hliðstætt því, sem fyrir lá 1958.

Fátt sýnir betur sekt og vandræði þeirra, sem fyrir samningunum við Breta standa, en tilraunir til að bera saman að afhenda Bretum það í verðlaunaskyni fyrir ofbeldið, sem við erum búnir að vinna, nýju landhelgina, — að bera þetta, saman við tilraunina 1958 til þess að fá fyrir fram viðurkenningu á einhliða útfærslu í stað algerrar óvissu um, hvort nokkur nágrannaþjóðanna mundi viðurkenna hana í verki.

Nú erum við búnir að fá viðurkenningu allra í reynd nema Breta, sem geta ekki fiskað í landhelginni áfram eins og þeir hafa, gert. Við erum búnir að sigra í 12 mílna málinu, einnig á alþjóðavettvangi, og þurfum ekki að semja um vansæmandi undanslátt við einn né neinn.

Þeir, sem fyrir þessu standa nú, eru líka svo þrotnir að rökum fyrir því, að Íslendinga reki nauður til slíkrar uppgjafar, að þeir eru farnir að afsaka samningana, eins og hæstv. dómsmrh. gerði hér í kvöld, með því, að það þurfi að kaupa með fríðindum í landhelginni leyfi til að landa fiski í Bretlandi.

Þá höfum við það, að slíkur er skilningur þessara manna á þýðingarmesta réttindamáli þjóðarinnar — landhelgismálinu, að þeir eru reiðubúnir að láta landsréttindi Íslands fyrir fisksöluleyfi í Bretlandi, og það eftir allt, sem á undan er gengið. Hvað ætli mikið yrði eftir af fiskveiðilandhelginni nýju að nokkrum árum liðnum, ef farið verður að nota hana sem gjaldmiðil í verzlunarsamningum við önnur lönd?

Það er svo enn táknrænt um þetta lið, sem nú ætlar að semja við Breta, að það stendur þessa dagana að tillögu á Alþingi um að senda íslenzka vélbátaflotann til fiskveiða suður að Afríkuströndum, um leið og Bretum er ætlað að koma inn í landhelgina með nokkur hundruð togara.

Fiskgengdin við landið hefur nú aukizt verulega vegna stækkunar fiskveiðilandhelginnar. Menn horfa nú vonglaðir fram á enn batnandi afla við strendurnar og byggja á því framtíðarvonir sínar. Það er furðuleg ófyrirleitni að láta sér til hugar koma að hleypa nú brezka togaraflotanum inn í landhelgina gersamlega að ástæðulausu, leyfa veiðiþjófunum að láta nú greipar sópa um svæði, sem búið er að friða. Það má þá líka nærri geta, hvernig aðfarir Breta yrðu í landhelginni núna, ef þeim verður hleypt inn fyrir, eftir allt, sem á undan er gengið. Og þeir munu þykjast vita, hvaða aðferðir það eru, sem mest gefi í aðra hönd í viðskiptum við Íslendinga.

Gegn þessu verður þjóðin að rísa, og láta þá, sem fyrir þessu standa, vita nú þegar, að þeir muni glata fylgi sínu og trausti, ef þetta. verður gert. Mun þá málinu verða bjargað á síðustu stundu.

Stjórnarflokkarnir vildu ekki samþykkja útvarpsumræður um þetta í tvö kvöld, töldu vígstöðuna betri með því að fá að flytja áróður sinn og moldviðri í síðari ræðuumferðinni í friði fyrir svörum framsóknarmanna, en það gátu þeir tryggt sér með því að neita tveggja kvölda umræðum.

En þetta mun ekki koma að neinni sök, því að þeirra hlutur mun verða því verri, sem þeir þeyta upp meira moldviðri um þetta mál, enda aðalatriði þess fullljós orðin hverju mannsbarni.