14.03.1961
Sameinað þing: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í D-deild Alþingistíðinda. (2733)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Heimurinn, sem við lifum í, hefur verið að breytast á seinustu mannsöldrum. Þjóðir, sem öldum saman lifðu í ánauð, hafa hlotið frelsi. Við erum ein þeirra. Lög og réttur eru þegar töluverð vörn smáþjóðum gegn valdi og vopnum hinna sterkustu. Þess vegna gátum við unnið sigur í landhelgismálinu.

Fyrir 100 árum hefði þetta ekki getað gerzt. Þá hefði stórveldið umsvifalaust beitt vopnum sinum og látið kné fylgja kviði, svo að smáríkið hefði misst fullveldi sitt. Í tíu þúsund ára skráðri sögu mannkynsins hefði það aldrei getað komið fyrir, nema á nokkrum síðustu áratugum, að dvergríki hefði sigur í viðureign við eitt mesta stórveldi heims. Sigurinn eigum við Íslendingar að þakka þeirri þróun, sem leitt hefur til Sameinuðu þjóðanna, til allsherjarþings og allsherjardómstóls. Þessa þróun verðum við að skilja, því að á þeim skilningi byggist farsælt áframhald landhelgissóknarinnar.

Við höfum unnið sigur, þótt stjórnarandstaðan hér á hv. Alþingi hafi með 40 klst. ræðuhöldum dag og nótt reynt að telja sjálfri sér og öðrum trú um, að svo sé ekki. síðan samkomulagið um lausn landhelgismálsins var birt, hafa aðeins þrjú dagblöð í öllum heiminum, sem til hefur frétzt, kallað lausn málsins ósigur fyrir Íslendinga. Þessi þrjú dagblöð eru Þjóðviljinn, Tíminn og Izvestia í Moskvu. Þjóðviljinn og Izvestia þurfa ekki að koma okkur á óvart, en hvað er Tíminn að gera í þessum félagsskap?

Sían við Íslendingar byrjuðum útfærslu fiskveiðilögsögunnar, höfum við haldið okkur vandlega innan ramma alþjóðalaga og aldrei gert neitt, sem braut gegn þeim. Þetta hefur verið okkar mikli styrkur í málinu. Þegar Bretar gerðu innrás í 12 mílurnar, var höfuðatriði í mótmælum okkar innanlands og utan, að við hefðum réttinn okkar megin, Bretar væru að ögra útfærslu, sem ekki bryti í bága við nein alþjóðlög.

Í hinum löngu umræðum í s.l. viku gerðust þau furðulegu tíðindi, að Lúðvík Jósefsson lýsti afdráttarlaust yfir, að hann teldi 12 mílurnar lögleysu, sem við hefðum aldrei getað fengið staðfesta fyrir neinum alþjóðarétti. Það kemur nú í ljós. að maðurinn, sem var sjútvmrh. 1958 og gaf út reglugerðina um 12 mílna landhelgina, virðist trúa því, að hann hafi með því verið að brjóta alþjóðalög, fremja lögleysu. Hvað segja sjómenn og aðrir Íslendingar um þessa ræðu, sem Lúðvík flutti aðfaranótt þriðjudags? Viljið þið trúa því, að við höfum verið að brjóta lög allan tímann með 12 mílunum? Viljið þið trúa því, að öll baráttan, sem þjóðin stóð saman um sem einn maður, hafi verið byggð á lögleysu, en Bretar hafi þá væntanlega haft rétt fyrir sér í málinu? Ég segi nei. Ég mótmæli þessari ræðu Lúðvíks eindregið og fullyrði. að við höfum engin lög brotið og haft skýlausan þjóðarétt okkar megin.

Ef Lúðvík Jósefsson trúir því raunverulega, að 12 mílurnar séu lögleysa. þá megum við þakka guði fyrir, að hann sagði ekki frá þessari skoðun sinni, fyrr en málið var leyst. Ef hann hins vegar segir þessi alvarlegu orð gegn betri vitund, í þeirri von að skaða núverandi ríkisstjórn, þá hlýtur þjóðin að fordæma svo ábyrgðarlausan málflutning.

Lúðvík sagði fleira, sem kom mönnum á ávart, í þessari furðulegu næturræðu. Við munum öll eftir innrás brezka flotans í fiskveiðilandhelgi okkar. Við munum þá reiði, sem þjóðin fylltist, þegar herskip með gapandi fallbyssukjafta vernduðu brezka togara og ögruðu landhelgisgæzlu okkar. Við munum íslenzku sjómennina, sem fóru um borð í landhelgisbrjót, en voru teknir þaðan með valdi af vopnuðum brezkum sjóliðum. Aldrei hefur íslenzka þjóðin staðið svo einhuga í neinu sem mótmælum sínum gegn þessum hernaðaraðgerðum.

En hvað gerðist hér í alþingissal aðfaranótt þriðjudags? Lúðvík Jósefsson hélt því skyndilega fram, að þetta hafi allt verið skrípaleikur hjá Bretum, innrásin svo sem ekki neitt. Hann kallaði þetta dægilega tíma fyrir sjómenn. Og hann sagðist sjálfur vera þeirrar skoðunar, að við ættum að semja við Breta um að halda innrásinni og herskipavernd togaranna innan 12 mílna áfram í 4 ár. Maðurinn, sem var sjútvmrh. okkar, þegar landhelgisátökin voru hörðust, segist nú vilja semja við Breta um, að þeir veiði undir herskipavernd, þar sem þeim sýnist, ekki inn að 6 mílum, heldur inn að 4 mílum. Ef einhver hlustandi á bágt með að trúa þessu, get ég fullvissað hann um, að þessi orð Lúðvíks eru margstaðfest, og hann endurtók þessar skoðanir sínar um hábjartan dag nokkru síðar hér á Alþingi. Á þessari furðulegu skoðun kommúnista, sem þeir hafa nú opinberlega lýst og gengizt við, er aðeins ein hugsanleg skýring. Hún er sú, að þeir vilji halda stríðinu við Breta áfram, að þeir láti öryggi íslenzkra sjómanna lönd og leið. Menn geta sjálfir velt því fyrir sér, af hvaða ástæðum kommúnistar heimta áframhaldandi deilu og stríð. En er þetta sá hugsunarháttur, sem íslenzka þjóðin vill að ráði gerðum sínum? Nei, yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar velur frið með sigri og sæmd, þegar þess er kostur.

Höfuðvinningur okkar Íslendinga með lausn landhelgismálsins er sá, að við fáum viðurkenningu Breta á 12 mílna fiskveiðimörkunum okkar ótvíræða og óafturkræfa. Bretar hafa hingað til fullyrt í mótmælum sínum að 12 mílna línan sé alger lögleysa. Nú falla þeir frá þessu um alla framtíð. Þeir hafa haldið fram, að herskipin hafi haft löglegan rétt til þess að vernda brezka togara allt inn að 3 mílna línunni. Nú falla þeir einnig frá þessu um alla framtíð.

Það er alger útúrsnúningur að telja viðurkenningu Breta á 12 mílunum ekki ótvíræða. Ef íslenzk ríkisstj. sendi Dönum orðsendingu, þar sem Ísland félli formlega frá öllum kröfum til handritanna um alla framtíð, mundi það ekki verða talin viðurkenning af Íslands hálfu á eignarrétti Dana á þessum dýrgripum? Er nokkur hlutur augljósari? Lagadeild Háskóla Íslands hefur komizt að þeirri niðurstöðu. að viðurkenning Breta á 12 mílunum sé ótvíræð. Þar vantaði að vísu undirskrift eins prófessors, Ólafs Jóhannessonar. Hann er einn af þingmönnum Framsfl. og gat látið álit sitt í ljós hér á Alþingi. En um þetta atriði, eins og flest efnisatriði málsins, hefur hann þagað, ekki sagt aukatekið orð. Stundum segir þögnin meira en langt mál.

Stefna þjóðarinnar í landhelgismálinu var síðast mótuð vorið 1959. Þá gerði Alþingi ályktun, sem samin var af fulltrúum allra flokka, lögð í hana mikil vinna og hún samþykkt með atkvæðum allra flokka. Í ályktuninni er fyrst mótmælt harðlega stöðugum ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan 12 mílna. Ríkisstj. hefur nú fengið Breta til að falla frá þessum aðgerðum og lofa að grípa aldrei til slíks ofbeldis framar gegn íslenzkri útfærslu. En þá segja kommúnistar, að ofbeldið hafi verið dægilegir tímar, og vilja semja við Breta að halda því áfram í 4 ár!

Í öðru lagi var í ályktuninni lýst yfir, að Alþingi teldi Íslendinga eiga ótvíræðan rétt til 12 mílnanna. Þennan rétt hefur ríkisstj. fengið viðurkenndan. En nú lýsa kommúnistar yfir, að 12 mílurnar hafi verið lögleysa, sem mundi ekki standast fyrir neinum alþjóðadómstóli.

Síðasta atriði ályktunarinnar er orðað eftir nákvæma yfirvegun Alþingis svo að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið. Ríkisstj. hefur ekki tryggt eða samið um minni landhelgi, heldur meiri landhelgi en var vorið 1959, því að vissulega er útfærsla nýju grunnlínanna fyrir alla eilífð okkur meira virði en veiðiréttur, sem Bretar fá í næstu þrjú ár. Stjórnarandstaðan hefur hins vegar lýst yfir því, að hún muni skera upp herör til baráttu fyrir því að minnka aftur landhelgi okkar um 5065 km2 frá því sem hún er nú orðin. Þetta er í fyrsta skipti í sögunni, sem tveir íslenzkir stjórnmálaflokkar opinberlega berjast fyrir því að minnka landhelgina.

Af þessu er augljóst, að ríkisstj. hefur starfað eftir ályktun Alþingis frá 1959 og náð mjög góðum árangri, en stjórnarandstaðan vinnur á þjóðhættulegan hátt gegn þeirri ályktun, sem hún sjálf tók þátt í að gera fyrir tæplega tveimur árum.

Ef við tækjum t.d. ræður Lúðvíks Jósefssonar hér á þingi undanfarna 8 daga og gerðum úr þeim ályktunartillögu, er lýsti afstöðu hans til landhelgismálsins í dag, gæti sú tillaga hljóðað eitthvað á þessa leið:

„Alþingi ályktar, að það hafi verið dægilegir tímar, þegar brezk herskip og togarar héldu uppi ofbeldisaðgerðum innan íslenzkrar landhelgi. Alþingi telur 12 mílna fiskveiðilögsöguna lögleysu, sem mundi ekki standast fyrir neinum alþjóðadómstól og Alþingi felur ríkisstj. að hafna viðurkenningu Breta á 12 mílunum og minnka aftur landhelgina um 5065 km2.“

Ef einhver hlustandi heldur, að hér sé um gaman eða ýkjur að ræða, þá munu þingtíðindin sanna, að þetta eru höfuðatriðin, sem fram hafa komið í ræðum Lúðvíks Jósefssonar undanfarna daga, og hann er einn helzti forsvarsmaður stjórnarandstöðunnar í landhelgismálinu. Er það furða þótt menn segi, að það muni vera leit á jafnábyrgðarlausri stjórnarandstöðu og við höfum í okkar landi?

Fjórða og síðasta atriði samkomulagsins um lausn landhelgisdeilunnar varðar framtíðina. Þar höfum við lofað, að leggja megi deilur, ef einhverjar verða um frekari útfærslur á komandi árum, fyrir alþjóðadómstólinn í Haag. Með þessu er alls engu fórnað, svo framarlega sem Íslendingar hugsa sér að fara að lögum í framtíðinni, eins og þeir hafa ávallt gert hingað til.

Alþjóðadómstóllinn hefur komið við sögu landhelgismála okkar fyrr en nú. Þegar málaferli stóðu yfir milli Breta og Norðmanna 1951, sátu tveir fulltrúar íslenzkra stjórnarvalda, þeir Hans G. Andersen og Gizur Bergsteinsson, í réttarsalnum í Haag og fylgdust með öllu, sem gerðist. Árangurinn varð sá, að hin mikla útfærsla okkar árið 1952 var algerlega byggð á niðurstöðum Haagdómsins, rétt eins og hann hefði kveðið upp úrskurð um okkar grunnlínur og okkar landhelgi.

Því hefur verið haldið fram, að dómstóllinn hafi ekki skapað þjóðarétt með úrskurði sínum Norðmönnum í vil, heldur aðeins staðfest gamlan rétt Noregs. En með þeirri staðfestingu gerði dómstóllinn norska réttinn að þjóðarétti í sambærilegum atvikum og skapaði þannig réttarstöðu, sem Íslendingar gátu byggt á mjög mikla útfærslu. Við treystum okkur ekki til að færa út eftir fordæmi Norðmanna einna. Þess vegna biðum við eftir niðurstöðum dómsins, og á hans úrskurði gátum við byggt aðgerðir okkar. Það var svo traustur grundvöllur, að Bretar þorðu ekki að láta mál okkar fara fyrir dóminn aftur, þegar ríkisstj. framsóknarmanna og sjálfstæðismanna bauð þá lausn.

Tveim alþjóðaráðstefnum í Genf tókst ekki að gera alþjóðlegt samkomulag um víðáttu landhelginnar. Þrátt fyrir þetta eru til alþjóðlegar reglur til að dæma eftir í landhelgismálum. Samkvæmt stofnskrá alþjóðadómstólsins skal hann dæma eftir milliríkjasamningum, milliríkjavenjum, almennum grundvallarreglum laga, dómsúrlausnum og kennisetningum beztu sérfræðinga í þjóðarétti. Það var ekki búið að gera, Genfar-samninginn um grunnlínur 1951, en samt gat dómstóllinn dæmt um grunnlínur við Noreg, Norðmönnum og einnig Íslendingum til stórkostlegs hagræðis.

Það þarf engum að koma á óvart, þótt kommúnistar gangi nú berserksgang til að sannfæra þjóðina um, að alþjóðadómstóllinn sé gagnslaust tæki í höndum vestrænna stórvelda. Það vill svo til, að Sovétríkin og önnur kommúnistaríki hafa ekki viljað gefa yfirlýsingar um, að þau lúti þessum dómstól í einu eða neinu, enda þótt 37 önnur ríki hafi gefið slíkar yfirlýsingar. Rússar og Pólverjar fengu að vísu kosna dómara í réttinn í Haag, en þeir viðurkenna ekki lögsögu hans að neinu leyti. Þetta er ástæðan til þess, að dómstóllinn hefur ekki orðið eins virkur í lausn á alþjóðadeilum síðustu árin og vonir stóðu til, en þetta dregur í engu úr gildi og þýðingu hans fyrir þau réttarríki, sem taka heilsteyptan þátt í uppbyggingu hans, styðja hann og treysta honum.

Meðal þeirra ríkja, sem hafa fyrir fram skuldbundið sig til að hlíta úrskurði dómstólsins að flestu eða öllu leyti, eru smáþjóðir í miklum meiri hluta. Þar eru Belgía, Kanada, Kólumbía og Danmörk, Dóminíkanska lýðveldið, Egyptaland, El Salvador, Haiti, Hondúras, Ísrael, Libería, Lúxembúrg, Mexíkó, Holland, Nýja-Sjáland, Nicaragua, Noregur, Panama, Paraguay, Svíþjóð, Thailand, Úrúguay og mörg fleiri. Meira að segja smáríki, sem standa utan Sameinuðu þjóðanna, eins og Sviss, Lichtenstein og San Marino, eru þátttakendur í dómstólnum. Auk kommúnistaríkjanna vantar enn í dóminn öll nýju ríkin, sem aðeins hafa verið frjáls í nokkra mánuði og því ekki haft tíma til að ganga í dóminn, en þau munu vafalaust koma innan skamms.

Því hefur verið haldið fram, að 9 af 15 dómurum, sem nú sitja í Haagdómstólnum, séu fjandsamlegir Íslandi. En það er merkilegt, að þeir kommúnistar, sem halda þessu fram, forðast að nefna eitt einasta nafn þessara dómara eða lönd þau, sem þeir eru frá, enda er þetta hrein fjarstæða. sem þeir fara með. Í dómnum er nú meiri hluti dómara, sem telja verður fyrir fram hlynnta mjög víðri landhelgi. Þessir dómarar eru frá Egyptalandi, Póllandi, Perú, Argentínu, Mexíkó, Sovétríkjunum. Panama og t.d. gríski Íslandsvinurinn Spiropoulos, sem þar er dómari, og eru þá nokkrir nefndir.

Það er einnig fjarstæða, að Bretar eða önnur stórveldi ráði vali dómara. Einmitt þegar mál Norðmanna og Breta stóð sem hæst 1951, var norski dómarinn Klaestad endurkjörinn í dóminn, og þá um leið var kjörinn nýr dómari, Carneiro, sem er frá 12 mílna landinu Brasilíu. Þegar löndunardeilan við Ísland stóð sem hæst 1954, var Mexíkaninn Cordova kosinn, en Mexíkó er mikið baráttuland fyrir víðri landhelgi og berst fyrir öllu landgrunninu. Árið 1957 voru kosnir í dóminn Pólverji og Egypti, en báðar þessar þjóðir styðja 12 mílur. Árið 1959, þegar stríðið milli Íslendinga og Breta stóð sem hæst, var kosinn í alþjóðadóminn Alvaro frá Panama, en Panama er land, sem hefur 12 mílur og berst fyrir landgrunninu öllu. Síðasti dómarinn. sem hefur verið kosinn í þennan dómstól er frá Perú, landi, sem hefur 200 mílna landhelgi. Hvar eru þessi voðalegu áhrif Bretans, sem eiga að gera þennan dómstól hættulegan Íslendingum? Við þetta má bæta þeirri reglu, að komi mál Íslands einhvern tíma fyrir dóminn, eigum við rétt á að skipa einn ad hoc dómara, meðan á málinu stendur.

Þessar staðreyndir gefa Íslendingum ekki ástæðu til ótta, þvert á móti, og nú hafa um 20 Afríkuríki bætzt í Sameinuðu þjóðirnar. Næstu dómarar verða vafalaust frá Afríku, og er engin hætta á að þeir verði handbendi nýlenduveiðanna gömlu.

Ef við athugum þá úrskurði, sem alþjóðadómstóllinn hefur kveðið upp hin síðari ár, verður hið sama upp á teningnum. Það er áberandi, hve Bretum hefur yfirleitt gengið illa að vinna mál fyrir þessum dómstól. Þeir töpuðu öðrum hluta Korfú-málsins gegn Albönum, þeir töpuðu Anfadiklosmálinu gegn Grikkjum, þeir töpuðu olíumálinu gegn Íran, og þeir töpuðu landhelgismálinu gegn Norðmönnum. Í öllum þessum tilfellum eru það smáþjóðir, sem sigra yfir stórveldinu Bretlandi fyrir alþjóðadómstólnum.

Við höfum getað þrefaldað landhelgi okkar á einum áratug, sökum þess að hugmyndir mannkynsins hafa verið að breytast okkur í hag, og vonir um framtíðina byggjast á því, að þessar breytingar haldi áfram. Stórveldablakkirnar í austri og vestri hafa nú hvorug meiri hluta á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þegar næst kemur saman ráðstefna um landhelgismál. munu sitja þar 20–30 ríki, sem voru ekki til um þetta leyti í fyrra. Þetta eru nýfrjáls ríki, flest í Afríku, sem munu vafalaust hafa svipaðar hugmyndir og við um lífshagsmuni smáþjóða gegn ítökum gamalla stórvelda.

Það má telja algerlega öruggt, að brezka stjórnin hefði ekki treyst sér til annars en senda herskip sín aftur inn fyrir 12 mílur við Ísland, ef ekki hefði tekizt samkomulag, og því er áframhaldandi stríði og árekstrum með stöðugri lífshættu sjómanna forðað með því samkomulagi, sem náðst hefur. Við höfum engu fórnað fyrir framtíðina, þvert á móti tryggt, að stórveldi, sem þegar hefur ögrað okkur með vopnavaldi, geri það ekki framar.

Stjórnarandstaðan fullyrðir, að við höfum afsalað okkur rétti til einhliða útfærslu. Þetta er reginmisskilningur, sem sanna má með því, að alþjóðadómstóllinn hefur sjálfur viðurkennt rétt ríkja til einhliða útfærslu landhelgi. Í máli Breta og Norðmanna segir dómurinn, að það sé rétt, að ákvörðun landhelgismarka hljóti að vera einhliða skref, því að enginn nema strandríkið sjálft geti stigið það, en gildi útfærslunnar gagnvart öðrum ríkjum sé háð alþjóðalögum, og hefur það alltaf verið okkur íslendingum ljóst. Einmitt þess vegna höfum við ávallt barizt fyrir viðurkenningu landhelginnar á alþjóðagrundvelli. Þess vegna höfum við ekki tekið allt landgrunnið enn þá.

Við hljótum öll að vera sammála um, að ríkisstjórnir Íslands, hverjar sem þær eru, eigi framar öllu öðru að vernda líf og öryggi borgaranna. Af þessu leiðir, að það hlýtur að vera skylda hverrar ríkisstj. að sjá hagsmunamálum þjóðarinnar borgið með friði, en ekki ófriði. Þetta hefur núv. ríkisstj. gert í landhelgismálinu. Hún hefur fengið Breta til að viðurkenna, að 12 mílna fiskveiðilandhelgi okkar sé lögleg. Hún hefur fengið Breta til að viðurkenna, að innrás herskipa. þeirra hafi verið ólög. Hún hefur fengið Breta til að lofa því um alla framtíð að beita ekki vopnavaldi gegn okkur, þótt við deilum um landhelgismál. Gegn takmörkuðum veiðirétti í þrjú ár hefur ríkisstj. fengið nýja útfærslu grunnlína um yfir 5000 km2 um alla framtíð, þannig að landhelgin er stærri eftir en áður. Og loks hefur ríkisstj. lofað því, sem alltaf hefur verið stefna Íslendinga og hlýtur alltaf að verða það, að fara í framtíðinni að þjóðarétti og leggja málin undir hlutlausan alþjóðadómstól ef deilt er um þau.

Af öllu þessu er augljóst, að ríkisstj, hefur breytt samkvæmt skýlausum hagsmunum þjóðarinnar. Hún hefur fylgt ályktun Alþingis frá vorinu 1959 og stækkað Ísland. Fyrir þetta hlýtur stjórnin traust íslenzku þjóðarinnar, og Alþingi á að fella þá vantrauststill., sem stjórnarandstaðan í ráðleysisfálmi hefur lagt fram. — Góða nótt.