18.01.1961
Sameinað þing: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í D-deild Alþingistíðinda. (2914)

119. mál, veiði og verkun steinbíts

Birgir Finnson:

Herra forseti. Till. sú til þál., er hér liggur fyrir, flutt af Hirti Hjálmarssyn, er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að athuga. hvort ekki sé þörf á að setja reglur um veiði og verkun steinbíts, sem ætlaður er til útflutnings.“

Með till. þessari er stefnt að því, að gerðar séu ráðstafanir til þess, að sem bezt verð fáist fyrir steinbít til útflutnings, en það er mjög mikið hagsmunamál sérstaklega fyrir Vestfirðinga, því að oft er það, að steinbitur er 30–50% af afla vestfirskra skipa. Eins og getið er um í grg. með þessari till., hefur það sýnt sig, að þegar vel hefur til tekizt, hefur fengizt ágætt verð fyrir steinbitinn á erlendum markaði, svo gott, að það kom fyrir, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna gat ekki selt þorsk- og ýsuflök í Bandaríkjunum, nema jafnframt væri selt svo og svo mikið af steinbítsflökum. Það hefur verið þannig, að ekki er hægt að gera verðmæta vöru úr steinbitnum til útflutnings nema í frystu ástandi, og þess vegna hefur verið mjög mikill verðmunur á honum til útgerðarinnar og til skipa og á þorski og ýsu, enda er það þannig með steinbítinn, að úr honum fást hvorki hrogn né lífur elns og úr þorskinum. Eina leiðin til þess, að steinbíturinn geti orðið að verðmætri útflutningsvöru, er sú, að hann sé sérstaklega vel vandaður, það sé valinn úr eingöngu bezti og feitasti fiskurinn. En steinbíturinn er mjög misjafn að gæðum eftir því, hvar hann er veiddur, og eftir því, hvenær hann er veiddur, og það eru einmitt ráðstafanir í þessa átt, sem vaka fyrir flm. þáltill.

Ég vil vænta þess, að þessi till. fái vinsamlegar undirtektir hér á hv. Alþ., og leyfi mér að leggja til. að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.