19.12.1960
Neðri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

130. mál, söluskattur

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið viðtekin regla hjá mörgum hæstv. ríkisstjórnum að láta Alþ. samþykkja nýja skatta og tolla á þjóðina, og í langflestum eða mörgum tilfellum hefur það verið tekið fram, að þetta væri aðeins til bráðabirgða gert. En staðreyndin hefur verið sú, að allir þessir skattar og tollar hafa alltaf verið framlengdir ár eftir ár. Þetta kom mjög berlega í ljós á síðasta þingi, þegar lögin um söluskatt voru samþykkt. Þá var því lýst yfir af hæstv. ráðh., hvað sem hæstv. fjmrh. nú segir, að lögin um söluskatt skyldu aðeins gilda í eitt ár eða til ársloka 1960. Nú er deilt um þetta hér á Alþ., þetta segir annar og svo kemur hinn, sem segir annað þveröfugt.

Í l. um söluskatt, sem samþ. voru á síðasta þingi, eru ákvæði til bráðabirgða. Þar stendur m.a. í staflið a, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá gildistöku laga þessara og til ársloka 1960 skal til viðbótar 7% söluskatti samkv. 3. kafla l. greiða 8% — 8 af 100 — af tollverði allrar innfluttrar vöru að viðbættum aðflutningsgjöldum og áætlaðri álagningu 10%, og skulu ákvæði 3. kafla laga þessara gilda um þennan viðbótarskatt.“

Hér fer ekkert á milli mála. Lögin segja alveg til um þetta. Það þarf engar yfirlýsingar, hvorki frá hæstv. fjmrh. né öðrum. Þau skyldu gilda bara til áramóta 1960. Hitt er svo annað mál, að sjálfsagt hefur hæstv. ríkisstj. alveg fullkomna þörf fyrir að fá þennan skatt. En það er alveg þýðingarlaust að vera að deila um svona hlut, sem alveg liggur ljóst fyrir, að það var ákveðið í fyrra, að lögin giltu ekki nema til ársloka 1960. Hæstv. ríkisstj. hefur náttúrlega gengið þarna á bak orða sinna og lagt fram frv. til l. um framlengingu á þessum illræmda skatti. Í aths. við frv. segir m.a., að það sé stefna hæstv. ríkisstj. að afgreiða fjárlög fyrir árið 1961 hallalaus, án þess að leggja á nýja skatta eða aðflutningsgjöld, við erum bara að framlengja þennan illræmda skatt, við erum ekkert annað að gera, — ég verð að segja, að þarna er farið svolítið í kringum hlutina, — og af þeim ástæðum, eins og segir í grg., sé ekki unnt að fella niður á árinu 1961 söluskatt þann af innfluttum vörum, sem nú er í gildi. Það kemur einmitt enn fram, sem margbúið er að tala um, að skatturinn átti ekki að gilda nema árið 1960.

Það kemur mjög skýrt fram og svo ljóst sem frekast má vera, að allir útreikningar hinna vísu hagfræðinga hæstv. ríkisstj. hafa reynzt alrangir. Ekkert af útreikningum þeirra hefur staðizt, ekki einn einasti þeirra. Allir spádómar þessara manna um, að efnahagsaðgerðirnar, þar með talin gengisfellingin, yrðu til þess að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll, hvernig hefur þetta reynzt? Vilja útgerðarmennirnir, sem eiga togarana og bátana, viðurkenna það? Vilja þeir gefa hæstv. ríkisstj. siðferðisvottorð upp á vasann um það, að efnahagsaðgerðir hæstv. ríkisstj. hafi orðið þeim einhver björg í bú? Ég er hræddur um, að það mundi verða erfitt fyrir þá að fá slíka yfirlýsingu upp á vasann. Ég dreg það mjög í efa, að útgerðin hafi nokkurn tíma staðið eins höllum fæti og núna. Menn ræða um það sín á milli og að því er virðist í fullri alvöru að láta bátana jafnvel liggja í vetur. Svona er ástandið alvarlegt. Ég veit ekki nema það hafi meira að segja verið rætt um þetta á fundum þeirra eigin samtaka, að flotinn verði ekki hreyfður, fyrr en hæstv. ríkisstj. er búin að mæta kröfum þeirra að meira eða minna leyti. Við skulum vona, að til slíks alvarlegs ástands sem þess, að skipafloti landsmanna stöðvist, muni ekki koma og hæstv. ríkisstj. mæti kröfum útgerðarmanna og hreinlega viðurkenni, að allar hennar efnahagsráðstafanir hafi hrunið um sjálfar sig. Það er það eina, sem hún getur gert.

Hæstv. ríkisstj. mun fyrr eða síðar standa frammi fyrir þeirri staðreynd, að ekki verður hægt hjá því að komast að mæta m.a. sanngjörnum kröfum sjómanna um hækkað fiskverð og sanngjörnum kröfum landverkafólks um hærri laun. Fyrri yfirlýsingar og nýjar yfirlýsingar hæstv. ráðh. um það, að þeim komi ekkert við kaupdeilur og kaupkröfur, það séu mál, sem séu alveg fyrir utan þeirra verkahring, svona fjarstæðukenndar yfirlýsingar er hreint og beint ekki hægt að taka alvarlega. Ríkisstj., sem leyfir sér að gefa slíkar yfirlýsingar, hlýtur að vera eitthvað skrýtin í kollinum. Ég efast um, að það séu margar ríkisstjórnir í heiminum, sem leyfa sér að gefa slíkar yfirlýsingar sem þessar, enda hefur nú hæstv. ríkisstj. þegar brotið þessa yfirlýsingu, m.a. með því að gefa út brbl. og banna verkfall, sem flugmenn á íslenzka flugflotanum voru búnir að boða til. Þá stóð yfirlýsingin ekki lengur. Þá var þara að gefa út brbl., og verkfallið var bannað.

Nei, það verður ekki sagt, að hæstv. ríkisstj. hafi verið neitt sérstaklega smátæk í álögunum á fólkið í landinu það tímabil, sem hún hefur setið. T.d. hafa tollar og skattar í tíð núv. ríkisstj. hækkað hátt í 400 millj. kr. Þessir nýju skattar munu nema nálægt því að vera um 10 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Til viðbótar þessu koma svo áhrif gengisfellingarinnar, sem að sjálfsögðu eru miklu meiri en þessar skatta- og tollaálögur. Þá má benda á það, að samkv. reikningsyfirliti eru rekstrartekjur fjárlaga fyrir árið 1961 áætlaðar 1585 millj. kr., en það þýðir, að hver maður á Íslandi greiðir til ríkissjóðs tæpar 10 þús. kr. eða hver 5 manna fjölskylda tæpar 50 þús. kr. á ári. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta mjög ískyggilegar tölur, og þær sýna mjög ljóslega, hvernig ríkisvaldið í æ ríkara mæli sýgur til sín tekjur almennings. Þetta er því alvarlegra, þegar það er haft í huga, að tekjur ríkissjóðs eru að langmestu leyti fengnar með alls konar tollum og sköttum, sem teknir eru í gegnum vöruverðið. Slík skattainnheimta kemur að sjálfsögðu langþyngst niður á stærstu fjölskyldurnar, þ.e.a.s. þyngst niður á því fólki, sem hefur flest börn á sínu framfæri.

Ég hjó eftir því áðan, að hæstv. ráðh. fullyrti það, sem ég er reyndar búinn að taka hér fram áður, að því hafi aldrei verið lofað, að söluskatturinn yrði felldur niður. Og þá er spurningin þessi, sem menn eru alltaf að velta fyrir sér: Hvernig stóð á því, að þessi 8% skattur skyldi aðeins vera látinn gilda til ársloka 1960? Ég tel, að í því liggi full sönnun þess, að þegar þessi söluskattur var lagður á í fyrra, var ákveðið af hæstv. ríkisstj., að hann skyldi aðeins gilda til ársloka 1960. Hæstv. ríkisstj. var svo bjartsýn á þessar margumtöluðu efnahagsráðstafanir, að hún hélt, að sér væri alveg óhætt að lofa þessu. Hún lofaði upp í ermina á sér, stóð ekki við gefið loforð.

Þetta kemur svo skýrt fram sem verða má á bls. 9 í grg. fyrir frv. um söluskatt. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Í frv. er lagt til, að lögleiddur verði 3% almennur söluskattur á vörusölu, vinnu og þjónustu á síðasta stigi viðskipta. M.a. af þeim sökum, að skattur þessi getur eigi komið til framkvæmda fyrr en nokkuð er liðið af árinu, er fyrirsjáanlegt, að með honum einum saman fæst ekki sú fjárhæð, sem frv. til fjárl. gerir ráð fyrir. Hefur því verið horfið að því til bráðabirgða“ — takið eftir því, að hér stendur: til bráðabirgða — „að afla þess, sem á vantar, með viðbótarsöluskatti á innfluttar vörur. Er áætlað, að til þess þurfi að hækka núgildandi innflutningssöluskatt um 8% eða úr 7% í 15%, og er lagt til, að sú hækkun gildi til ársloka 1960. Eins og áður getur, hefur skammur tími verið til athugunar og undirbúnings máls þessa, og því er sú leið, sem hér er farin, að nokkru leyti bráðabirgðaleið. Verður unnið áfram að málinu og væntanlega unnt að leggja fyrir næsta Alþingi tillögur um frambúðarlausn þess.“

Ég skil þá ekki mælt mál, ef hér er ekki alveg eindregið kveðið á um það, hvað þessi skattur átti að gilda lengi. Það er talað um, að hann sé aðeins til bráðabirgða og hann skuli aðeins gilda til ársloka 1960. En síðan er því lofað hátíðlega, að öll þessi mál skuli tekin til endurskoðunar og væntanlega verði hægt að leggja fyrir næsta Alþingi tillögur til frambúðarlausnar þess. Enn sem komið er hefur hæstv. ríkisstj. ekki staðið við þetta loforð, hvað sem síðar kann að verða. Annars eru menn orðnir vanir því, að hæstv. ríkisstj. standi ekki við gefin loforð, svo að hér er ekki um neitt einsdæmi að ræða frá hendi hæstv. ríkisstj.

Að sjálfsögðu væri hægt að flytja langt mál um söluskattinn og aðrar hliðstæðar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. En þessu máli, sem hér liggur fyrir, svo og öðrum hliðstæðum málum hafa að undanförnu veríð gerð svo góð og glögg skil. að þar er ekki miklu við að bæta.

Ég vil að lokum minna hæstv. fjmrh. á og undirstrika það, sem hann sagði hér áðan, að hann og mér skilst hæstv. ríkisstj. mundu vinna að því, að næg atvinna yrði í landinu, svo að ekki kæmi til atvinnuleysis. Ég skal ekki fullyrða, hvort þetta er alveg rétt eftir haft, en þetta var meiningin í því, sem hæstv. ráðh. sagði. Þessi yfirlýsing er ágæt, ef henni mætti treysta. Því miður er ástandið í atvinnumálunum orðið þannig, að mjög alvarlegt atvinnuleysi er þegar skollið á í sumum kaupstöðum landsins, og allt virðist benda til þess, að atvinnuleysi sé á næstu grösum. Þetta er enginn gleðiboðskapur. En það verður ekki komizt hjá því að segja það hér.

Ég verð því miður að láta þá skoðun í ljós, að ég hef mjög takmarkaða trú á því, að hægt verði að koma í veg fyrir atvinnuleysi að óbreyttri núverandi stjórnarstefnu hæstv. ríkisstj. Ég vil benda á, að hér í Reykjavík eru nú helmingi færri íbúðarhús í byggingu en voru á s.l. ári. Sömu sögu er að segja frá öðrum byggðarlögum víðs vegar um land. Ef áframhald verður á þessari óheillaþróun, stefnir að stórauknu atvinnuleysi í byggingariðnaði landsmanna, og það er þegar farið að bera á því, að menn, sem við þessa atvinnu hafa unnið undanfarin ár, hafa þar ekki vinnu lengur. Verði áframhald á siglingum togara og annarra fiskiskipa á erlendan markað, hlýtur að koma til alvarlegs atvinnuleysis hjá því fólki, sem vinnur við hraðfrystihúsin. Fjárveitingar til allra opinberra framkvæmda eru miklu lægri nú en í fjöldamörg ár, ekki að krónutölu, það skal tekið fram, nema að litlu leyti, heldur beinlínis vegna hins háa verðlags, sem er fyrst og fremst að kenna stefnu hæstv. ríkisstj. og gengisfellingunni og öðrum hliðstæðum ráðstöfunum. Allt þetta lofar sannarlega ekki góðu um framtíðina. Nei, það er eitthvað annað en það sé bjart fram undan. Það má og benda á, að ræktun í sveitum landsins hefur þegar dregizt stórlega saman svo og húsabyggingar í sveitum.

Ekki er vitað til þess, að hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstj. hafi yfir að ráða neinum leynisjóðum, sem hún gæti gripið til, ef atvinnuleysi kynni að aukast verulega frá því, sem nú er. Það má vera, að hún lúri á einhverjum leynisjóðum, en það er a.m.k. mér alveg hulið, og ég býst því við því, að það séu fleiri hv. alþm., sem vita ekki til þess, að slíkir sjóðir séu til, sem hægt yrði að grípa til, ef um atvinnuleysi yrði að ræða. Ég verð því að draga í efa, að mjög mikið mark sé á því takandi, þó að einstakir hæstv. ráðh. séu að gefa yfirlýsingar um þetta eða hitt. Hins vegar hyggst ég vita, að hæstv. fjmrh. vilji gjarnan sporna á móti því, að hér verði atvinnuleysi. Hann hefur sjálfur kynnzt atvinnuleysinu hér á árunum fyrr, þegar hundruð og þúsundir manna voru atvinnulausir hér í Reykjavík og urðu að fara hverja sultargönguna á fætur annarri til viðkomandi ráðh. til þess að reyna að knýja þá til að koma í gegn atvinnu. Ég veit, að hann man vel þessa tíma, og ég er alveg viss um, að það er langt frá því, að hann óski eftir því, að slíkt endurtaki sig. En á meðan hæstv. ríkisstj, sýnir ekki minnstu tilburði í þá átt að breyta um stjórnarstefnu, er ákaflega hætt við því, að erfiðlega gangi að sporna við auknu atvinnuleysi og samdrætti atvinnuveganna, sem að sjálfsögðu mundi þá þýða aukið atvinnuleysi. Annars væri æskilegt, ef hæstv. fjmrh. vildi skýra þingheimi frá því, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að mæta hugsanlegu atvinnuleysi. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. t.d. að bæta úr því atvinnuleysi, sem nú er þegar skollið á á Akureyri? Það er vitað, að þar eru um 200 atvinnuleysingjar. Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert til að bæta úr því ? spyr. Það eru fleiri staðir á landinu, þar sem er atvinnuleysi. Það er hægt að telja marga, en ég læt þetta nægja. Og hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að bæta úr því atvinnuleysi, sem nú þegar er skollið á hér í Reykjavík, hjá því fólki m.a., sem hefur haft atvinnu sína af því að vinna í hraðfrystihúsunum? Það mun vera mjög algengt, að menn vinna þar ekki nema 2–3 daga í viku. Ég hef ekki orðið var við það, að hæstv. ríkisstj. hafi gert nokkurn skapaðan hlut til þess að bæta úr því, nema alveg þveröfugt. Nei, það er ekki nægjanlegt að gefa góð og fögur fyrirheit. Gefnum loforðum þurfa að fylgja aðgerðir, sem að gagni koma. Annað mun verkalýðshreyfingin ekki sætta sig við. Það má hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. í eitt skipti fyrir öll vera alveg víss um. Verkalýðshreyfingin á Íslandi bjó á sínum tíma við atvinnuleysi, og hún mun ekki sætta sig við það, að sama ástand eða líkt ástand myndist aftur.