27.03.1961
Neðri deild: 86. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í D-deild Alþingistíðinda. (3037)

218. mál, skipun rannsóknarnefndar til að rannsaka viðskipti við Axel Kristjánsson og h/f Ásfjall

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 583 hef ég ásamt hv. 4. þm. Sunnl. (BFB) lagt fram till. til þál., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta.

Nd. Alþingis ályktar að skipa 5 manna n. samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar til þess að rannsaka viðskipti fjmrn. og Axels Kristjánssonar, Hafnarfirði, og hlutafélagsins Ásfjalls í sambandi við ríkisábyrgð, sem heimiluð var á 22. gr. fjárlaga 1959, svo og útgerð Axels Kristjánssonar í ábyrgð ríkissjóðs á togaranum Brimnesi. N. skal hafa rétt til að heimta skýrslur, skriflegar og munnlegar, bæði af embættismönnum og einstökum aðilum.

Ábyrgðarheimild sú, sem vitnað er til í þáltill. þessari var samþ. við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1959 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta

Ríkisstj. er heimilt að ábyrgjast fyrir Axel Kristjánsson eða væntanlegt hlutafélag í Hafnarfirði, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar, allt að 4320000 kr. lán til kaupa á togara frá Vestur-Þýzkalandi, þó ekki yfir 80% af kaupverði skipsins.”

Sama vorið og þessi ríkisábyrgð var heimiluð hafði Bæjarútgerð Hafnarfjarðar uppi ráðagerð um að afla sér togara í stað annars, er fórst við Nýfundnaland. Var það jafnvel ætlun forráðamanna útgerðarinnar að kaupa þá þegar bogara, ef byðist nýtt og gott skip, sem heppilegt þætti til að stunda veiðar á fjarlægum miðum. Svo fór, að allálitlegt skip, sem hafði verið í notkun í rúmt ár, bauðst í Vestur-Þýzkalandi, en sá hængur var á tilboðinu, að þann togara var ekki hægt að fá nema með því móti að kaupa um leið tvo gamla togara, sem sama fyrirtæki þurfti að koma út. Hins vegar var nægt að kaupa sérstaklega hvorn þessara gömlu togara sem var. Þessi skilyrði að kaupa gömlu togarana með hinum nýja voru talin óaðgengileg, og af kaupum varð ekki. Hins vegar átti annar þessara gömlu togara eftir að leggja leið sína til Íslands, því að Axel Kristjánsson, sem fyrr er nefndur, stofnaði hlutafélagið Ásfjall til þess að kaupa og gera út þennan togara, sem fluttur var til Íslands og skírður Keilir. Heimild til ríkisábyrgðar fyrir þetta hlutafélag miðaðist við allt að 4 millj. 320 þús. kr., en þó ekki meir en 80% af kaupverði skipsins, þ.e.a.s. að til þess að hægt væri að nota ábyrgðina að fullu, þurfti skipið að kosta a.m.k. 5.4 millj. kr., en 80% af þeirri upphæð eru 4 millj. 320 þús. Ríkisábyrgðin var notuð að fullu svo að kaupverð togarans hefur verið talið eigi minna en 5.4 millj. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar var hins vegar boðið þetta skip á nálega 3.6 millj. kr. með nýja trogaranum, en það hefði getað fengizt fyrir miklu mun lægra verð, ef það hefði verið keypt eitt, enda var því haldið fram í Alþýðublaðinu 19. jan. 1960 af forsvarsmönnum Keilis, að skipið hefði kostað nálega 2 millj. 880 þús. kr. Nokkrar endurbætur fóru fram á því, og hefðu þær því átt að kosta 2 millj. 520 þús. kr. eða nærri jafnmikið og skipið sjálft, til þess að endanlegt verð væri 5.4 millj. kr., og út á þann viðgerðarkostnað hefur verið veitt ríkisábyrgð að fullu.

Þegar Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hafnaði kaupunum á svo til nýjum togara vegna þess, að það skip, sem síðar nefndist Keilir, þurfti að fylgja með ásamt öðrum gömlum togara, þá var það m.a. vegna þess, að skipið var talið vélvana, 600 tonna skip með 800 hestafla gufuvél. Kaup h/f Ásfjalls á þessum gamla togara komu því mörgum á óvart. En sýnilegt var, að þeir, sem keyptu, lögðu ekki ýkja mikið í hættu, því að til kaupanna á þessu skipi, sem var talið kosta 5.4 millj. kr., hafði hlutafélagið yfir að ráða 100 þús. kr. í hlutafé eða 1/54 af kaupverði. Áhætta ríkissjóðs var hins vegar 4.3 millj. kr. með gengisáhættu, og þar að auki mátti búast við því, að eftir nokkurn rekstur gætu verið komnar til sjóveðskröfur, sem gengju þá á undan ríkissjóði, og það hefur líka komið á daginn, að svo hefur orðið.

Það er skemmst frá því að segja, að ríkið varð að greiða þegar fyrstu afborgunina af láninu og greiddi á árinu 1960 1 millj. 832 því. kr. samkvæmt upplýsingum hæstv. fjmrh., eða nálega átjánfalda upphæð hlutafjárins í Ásfjalli h/f, en hlutafélagið rak skipið áfram eftir það, þar til því var lagt rúmu ári eftir að það kom til landsins, þar sem hlutafélagið Ásfjall varð fjárþrota, sem út af fyrir sig er ekki ástæða til að undrast. Það er sjálfsagt á einskis manns færi að gera út togara í því ástandi, sem Keilir er, við þær aðstæður, sem togaraútgerðin býr við af völdum viðreisnarstefnunnar og náttúruaflanna, er þau leggjast á eitt. Og það er mistúlkun, sem fram hefur komið, að þáltill. sú, sem hér er til umr., sé flutt vegna þess, að flm. hennar telji það eitthvert einsdæmi, að togarafyrirtæki verði gjaldþrota á Íslandi eða þessi togari hafi verið verr rekinn en hver annar.

Það, sem er athugavert í þessu máli og rannsóknarskylt að okkar dómi og að ég hygg flestra þeirra sem með þessu máli hafa fylgzt, eru ráðstafanir hæstv. fyrrv. fjmrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar, í sambandi við þetta mál. Upphæð ríkisábyrgðar þeirrar, sem veitt var, er athugaverð, sé það haft í huga, hvers virði má telja að togarinn Keilir hafa verið, þegar hann kom til landsins, og nú er ljóst, að hann er eftir árs notkun seldur á 11/2 millj. kr., en ríkið er í ábyrgð fyrir 7 millj. kr. skuldum, er á honum hvíla, og þar við bætist 11/2 millj. kr. í sjóveðskröfum, sem ganga á undan.

Það er með öllu óskiljanlegt, hvernig hæstv. fyrrv. fjmrh. hefur talið stætt á því að taka þetta gamla skip gilt sem veð fyrir ríkisábyrgðum þeim, er hann veitti, og það er fullkomin ástæða til þess, að sérstök n. frá þeim aðilum, sem veittu hæstv. ráðh. heimild til ábyrgðarinnar með því skilyrði, að gildar tryggingar væru teknar, rannsaki, hvernig kaupverð togarans hefur verið sannreynt. þegar togarinn var sýnilega í upphafi ekki kaupandi fyrir 5.4 millj. á gamla genginu, og það er fullkomin ástæða til þess að rannsaka það, hvernig veðhæfni skipsins hefur að öðru leyti verið könnuð og staðfest, m.a. hver hafa verið vottorð sérfróðra manna eða skipaeftirlits ríkisins um ástand þessa 10 ára gamla vélvana togara. Svo mikið er víst, að sá sérfróði aðili, sem Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hafði sér til ráðuneytis, þegar það fyrirtæki leitaði eftir skipi erlendis, lýsti því yfir, þegar hann sá í sölutilboði lýsinguna á þeim togara, sem nú heitir Keilir, að á svona skip liti hann ekki, það væri ónothæft fyrir Íslendinga. Þrátt fyrir þessar skoðanir þeirra, sem áður hafði boðizt þetta skip, þótti hæstv. ráðh. sjálfsagt að veita ábyrgð ríkissjóðs fyrir láni, sem nú nemur 7 millj. kr., einungis með veði í þessu skipi, sem nærri hlutafjárlaust hlutafélag átti, þótt gert væri í ábyrgðarheimildinni frá Alþ. ráð fyrir því, að ábyrgðin væri því aðeins veitt, að gildar tryggingar yrðu veittar.

Þegar togarinn Keilir, sem frá upphafi hefur verið vélvana, hefur verið gerður út í aðeins eitt ár, er aflvél skipsins þannig á sig komin, að hún er talin ónothæf, og minnist ég þess, að þegar togarinn kom til landsins, þá sögðu þeir menn, sem ég hafði tal af og til véla þekkja og sáu vélarrúm Keilis, að vélin væri rusl og ætti hvergi heima nema á öskuhaugunum. Nú er hún talin ónýt, og endurnýjun mundi kosta milljónir kr., sennilega 8 millj. eða meira. Samt sem áður hikaði hæstv. fyrrv. fjmrh. ekki við að skuldbinda ríkissjóð um margar millj. kr. með baktryggingu í togaranum einum.

Hlutafélagið Ásfjall sem keypti togarann Keili á 5.4 millj. kr., eftir því sem ríkisábyrgðin bendir til, og lagði aðeins fram 100 þús. kr. í hlutafé, lét sér ekki nægja þá ábyrgð, sem ríkissjóður veitti. Það sótti einnig um ábyrgð bæjarsjóðs Hafnarfjarðar á láni að upphæð 1.5 millj. kr. og bauð tryggingar í togaranum. Bæjarráð Hafnarfjarðar var ekki sama sinnis og hæstv. ráðh., að ekkert væri sjálfsagðara en að láta nægja tryggingu í 10 ára gömlum vélvana togara, og þegar frekari tryggingar fengust ekki, þegar eftir þeim var leitað varð ekkert af því, að ábyrgð bæjarsjóðs yrði veitt, og þótt hlutafélagið lækkaði beiðni sína niður í 1 millj. kr., kom það fyrir ekki. Sú ákvörðun að taka ekki gildar tryggingar í skipinu einu hjá fjárlausu hlutafélagi stórríkra aðila hefur nú sparað Hafnarfjarðarbæ 1.5 millj. kr. Og ég býst við því, að ef sú ábyrgð hefði verið veitt og sú upphæð þar með tapazt, þá væri sú ákvörðun að veita ábyrgðina talin þarfnast skýringa, einkum ef það hefði átt sér stað, að einn einstaklingur hefði veitt hana á þeim grundvelli að hann hefði til þess heimild einungis gegn gildum tryggingum, sem síðar hefðu reynzt svo sem raun hefur orðið á.

Almenningur. sem borgar brúsann af milljónatapi ríkissjóðs á þeim tíma, sem hert er að lífskjörum hans, á heimtingu á því, að mál þetta sé kannað til fulls. Og ráðstafanir þær, sem hæstv. ráðh. hefur gert, eru ekkert einkamál hans eða þeirra, sem næstir honum standa. Fjárhæðirnar eru ekki greiddar úr þeirra vasa. Hv. Alþ., sem veitti ábyrgðarheimildina í trausti þess, að gildar tryggingar yrðu teknar og að eðlilegrar varfærni yrði gætt, á þó ekki sízt heimtingu á því að fá sjálft að rannsaka þetta mál með því að kjósa til þess n. úr sínum hópi. Öll tregða á því að verða við þessum kröfum bendir til þess, að ekki sé allt með felldu um þetta mál En sé nægt að koma með einhverjar eðlilegar skýringar eða leiðréttingar, ætti það að vera kærkomið þeim, sem að ábyrgð þessari hafa staðið, því að almennt telur það fólk, sem eitthvað þekkir til þessa máls, að hér sé margt óeðlilegt, tortryggilegt og athugavert.

Í þáltill þeirri, sem hér liggur fyrir, er einnig gert ráð fyrir því, að rannsökuð verði útgerð Axels Kristjánssonar á togaranum Brimnesi á ábyrgð ríkissjóðs. Seyðisfjarðarkaupstaður átti togarann Brimnes og gerði hann út þar til snemma á árinu 1959, að útgerð hans var stöðvuð vegna fjárþrots fyrirtækisins. Minnihlutastjórn Alþfl., sem þá var við völd, lét fara fram rannsókn á fjárreiðum útgerðarinnar, og á fjárlögum fyrir árið 1959 fékk ríkisstj. svo hljóðandi heimild frá Alþ., með leyfi hæstv. forseta

Ríkisstj. er heimilt að annast og ábyrgjast rekstur togarans Brimness fyrir Seyðisfjarðarkaupstað til 1. sept. n.k.“ - þ.e.a.s. 1. sept. 1959 „með það fyrir augum, að afla skipsins verði landað sem mest á Seyðisfirði þó þannig, að rekstrarafkomu þess sé ekki stefnt í hættu með löndun aflans þar. Enn fremur að innleysa gegn veði á skipinu áhvílandi sjóveðs- og fjárnámskröfur.“

Heimild þessa notaði hæstv. fyrrv. fjmrh. síðan til þess að taka skipið af útgerðarstjórn þess á Seyðisfirði og fá það einum manni, Axel Kristjánssyni, til rekstrar á ábyrgð ríkissjóðs. Var þetta gert, eftir að samþ. hafði verið ábyrgðarheimildin til handa sama manni til kaupa á Keili og áður en sá togari kom til landsins. Til þess að koma skipinu af stað lagði ríkissjóður fram 2.5 millj. kr. Brimnes var þegar flutt til Reykjavikur, en til Seyðisfjarðar kom það aldrei síðan, svo að ekki hefur umhyggja fyrir atvinnulífi Seyðisfjarðar stefnt rekstrarafkomu þess í hættu. Axel Kristjánsson gerði skipið út upp á sitt eindæmi, og engin útgerðarstjórn hafði afskipti af rekstrinum eða bókhaldi. Heimild ríkisstj. til að annast og ábyrgjast útgerð togarans náði fram til 1. sept. 1959, en sá tími leið og enn gerði Axel skipið út og fékk í árslok togarann Keili og gerði síðan báða út samtímis, Brimnesið fram á mitt árið 1960. Útgerð togarans Brimness á ábyrgð ríkissjóðs eftir 1. des. 1959 styðst ekki við neinar heimildir, og engar skýringar hafa verið gefnar á ráðstöfunum þessum. Á miðju ári 1960 var útgerð skipsins hætt og það bundið í Reykjavíkurhöfn, og þar hefur það legið síðan. Fullkomin ástæða er til, að hv. Alþ. láti sjálft rannsaka, hver hlutur ríkissjóðs hefur orðið af útgerð togarans Brimness undir einkastjórn Axels Kristjánssonar. Það er sérstök ástæða til að spyrja hæstv. núverandi fjmrh., hvar séu reikningarnir yfir þessa útgerð Brimness, og um útkomu ríkissjóðs í því máli.

Í áframhaldi af því, sem hér hefur verið rakið um útgerð togaranna Keilis og Brimness, er full ástæða til þess, að Alþ. láti rannsaka og kanna öll samskipti fjmrn. og Axels Kristjánssonar á þeim tíma, þegar Alþfl. sat einn í ríkisstjórn, öll samskipti þessara aðila í sambandi við ríkisábyrgð þá, sem veitt var, og útgerð þá á togaranum Brimnesi, sem rekin var á ábyrgð ríkissjóðs, — kanna enn fremur, hver eign ríkissjóðs er í skipum þessum, hvað þeim fylgir af veiðarfærum og öðru lauslegu og hvernig hagsmuna ríkissjóðs og alls almennings hefur verið gætt í sambandi við viðskipti þessi öll og þær eignir, sem upp í milljónatöpin er ætlað að koma.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að umr. um málið verði frestað og málinu vísað til hv. fjhn.