19.12.1960
Neðri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

130. mál, söluskattur

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., því að ég hef áður lýst afstöðu minni til söluskattsins og þarf þar engu við að bæta. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er sú, að ég, ásamt þrem hv. þm. öðrum, þeim Karli Guðjónssyni, Garðari Halldórssyni og Halldóri Ásgrímssyni, flyt hér brtt., sem ég vil nú lýsa, en hún er svo hljóðandi:

„Á undan 1. gr. frv. komi ný gr., svo hljóðandi:

Á eftir 27. gr. l. komi ný grein þannig: Ríkisstj. er heimilt að verja hluta af söluskattinum til þess að standa straum af eftirfarandi hækkunum á launum starfsmanna ríkisins:

a) Laun, sem samkv. gildandi launalögum fara stighækkandi eftir starfsaldri, hækka á tveimur árum í stað fjögurra, þannig að byrjunarlaun verði samsvarandi núv. launum með tveimur aldurshækkunum og hækki síðan á tveimur árum í hámarkslaun launaflokksins.

b) Starfsmönnum, sem laun taka samkv. 13. og 14. launaflokki, verði greidd laun samkv. 12. launaflokki.“

Ástæðan til þess, að við flytjum þessa till. nú, er sú, að samkv. úrskurði hæstv. forseta hér við fjárlagaafgreiðsluna var ekki talið fært að láta þessa till. koma undir atkv. í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Hins vegar eru fordæmi fyrir því, t.d. í efnahagsmálalöggjöf hæstv. ríkisstj., að þar er mörgum lögum breytt, svo sem kunnugt er. Þess vegna tel ég, að það sé eðlilegt að freista þess að fá álit hv. þm. um þetta mál á þessu stigi, þar sem það kom fram í umr. um málið við fjárlagaafgreiðsluna, að ástæðan til þess, að þetta mál var ekki afgreitt hér á jákvæðan hátt þá, væri ekki sú, að andstaða væri gegn málinu, heldur hitt, að formgallar væru taldir á því. Nú tel ég, að þeir séu ekki til staðar og þess vegna geti þeir, sem vilji ljá málinu lið, lagt því það.

Það hefur líka komið fram í umr., að hæstv. ríkisstj. og fleiri aðilar hjá ríkinu hafa orðið að sniðganga sumt af þessum lagaákvæðum til þess að missa ekki af starfskröftum, sem þeir hafa átt kost á. Og til þess að hér sé rétt að farið, er þessi tillaga flutt, í von um það, að úr þessu máli megi bæta á þann hátt, sem bezt má vera.

Þar sem þessi till. er svo seint á ferðinni og það seint fram komin, að ég verð að leggja hana fram skriflega, leyfi ég mér, hæstv. forseti, að óska eftir því að leita eftir afbrigðum um tillöguna.