25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í D-deild Alþingistíðinda. (3126)

954. mál, viðræður varðandi lán til framkvæmda

Forsrh. (Ólafur Thors):

Út af þessari fsp. hv. 1. þm. Austf. vil ég aðeins taka þetta fram:

Það var einn megintilgangur þeirra efnahagsráðstafana, sem ríkisstj. beitti sér fyrir á s.l. ári, að skapa nýjan grundvöll, til þess að Ísland gæti með eðlilegum hætti fengið lán til arðbærra framkvæmda frá þeim stofnunum, sem slík lán veita á alþjóðavettvangi. Ég á hér fyrst og fremst við Alþjóðabankann og systurstofnanir hans tvær og enn fremur Export Import bankann í Bandaríkjunum og hinn alþjóðlega framkvæmdasjóð Bandaríkjastjórnar. Það er augljóst, að nokkur tími varð að líða frá því, að ráðstöfununum var hrundið í framkvæmd, þar til sú reynsla væri komin á um framgang þeirra, að hægt væri að hefja viðræður við þessar stofnanir. Svo var það á ársfundi Alþjóðabankans í Washington í septembermánuði s.l., að fulltrúar Íslands áttu á þeim fundi viðræður við fulltrúa bankans. Var niðurstaða þeirra viðræðna, að tímabært þætti að bankinn sendi bráðlega sendinefnd til Íslands, en bankinn hafði enga slíka nefnd sent hingað til landsins í hér um bil fimm ár, enn fremur tæki bankinn sérstaklega til athugunar eina ákveðna framkvæmd, þ.e.a.s. aukningu hitaveitunnar í Reykjavík. Jafnframt var rætt við fulltrúa bankans um þá allsherjar framkvæmdaáætlun, sem ríkisstj. hafði þá þegar ákveðið að láta semja, og möguleika bankans til þess að veita lán til annarra framkvæmda hér á landi, svo sem til raforkuframkvæmda, vega- og hafnargerða o.fl. Sendinefnd bankans kom svo hingað til landsins nú eftir áramótin og dvaldist hér um tveggja vikna skeið. Hún kynnti sér ástand efnahagsmála almennt og fyrirætlanir um framkvæmdir, einkum á sviði raforkumála, hafnar- og vegagerða, auk þeirrar aukningar hitaveitunnar, sem ég áðan gat um. Vonir standa til þess, að bankinn geti, áður en langt um líður, veitt lán til aukningar hitaveitunnar og að í kjölfar þess láns geti síðar siglt lán til annarra framkvæmda á grundvelli þeirrar framkvæmdaáætlunar, sem samin verður. Ríkisstj. hefur einnig kynnt sér nokkuð tækifæri Íslands eða möguleika til öflunar fjármagns til arðbærra framkvæmda frá öðrum aðilum, einkum frá Evrópulöndum. Ljóst er, að viðreisvaraðgerðir ríkisstj. hafa skapað algerlega nýtt viðhorf í þessum efnum. Haldist og treystist sá árangur, sem af þeim aðgerðum hefur náðst, munu allt önnur tækifæri skapast til heilbrigðar fjáröflunar til eflingar atvinnulífsins en verið hefur á undanförnum árum.

Vænti ég, að þessar upplýsingar fullnægi hv. fyrirspyrjanda.