16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

134. mál, efnahagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. sagði í ræðu sinni hér fyrir skömmu, að tölur þær, sem nefndar hafa verið viðkomandi ástæðum útflutningssjóðs, væru ekki komnar frá ríkisstj. Ja, nú dámar mér að heyra! Fjhn. þessarar d. hefur bæði fyrr og nú óskað eftir upplýsingum frá ríkisstj. um fjárhagsástæður útflutningssjóðs, og ráðuneytið hefur látið nefndinni upplýsingar í té, hvaðan sem þær eru fengnar. Við höfum hér á þingi vitanlega aðgang að ríkisstj. og viðkomandi ráðuneytum um þær upplýsingar, sem við viljum fá um slík mál, og þá er það ríkisstj. og ráðuneytin, sem láta þessar upplýsingar, sem bera ábyrgð á þeim. Og ríkisstj. sjálf hefur byggt á þessum tölum, sem hér hafa verið nefndar. Í ríkisútgáfunni í fyrra sagði hæstv. ríkisstj., að áætlað væri, að það væru 270 millj. kr., sem þyrfti að afla, og hún sagði, að það væri til þess ætlazt eða gert ráð fyrir því, að gengishagnaður á vörubirgðum, sem átti að renna í útflutningssjóð, mundi nema um 150 millj., og siðan vantaði 120 millj., sem átti að afla með útflutningsskatti. Nú hins vegar, eins og ég hef áður gert grein fyrir, koma nýjar upplýsingar frá ráðuneytinu eftir ósk fjhn. um, hvernig hagur útflutningssjóðsins sé, og samkvæmt hinum nýjustu upplýsingum er talið, að hann sé þannig, að það verði tekjuafgangur hjá sjóðnum, sem er um það bil 40 millj. meiri en útflutningsskatturinn hefur numið eða er áætlað að hann muni nema í heild. 120 millj. var talið í fyrravetur, að þyrfti að ná í með útflutningsskatti til að jafna halla sjóðsins. Nú er sagt, að sjóðurinn hefði haft 40 millj. í tekjuafgang, þótt enginn útflutningsskattur hefði verið á lagður. Þarna skakkar 160 millj. Það er ekkert annað.

Hæstv. ráðh. segir, að það hafi verið meira flutt út af eldri vörum eftir gengisbreytinguna en gert var ráð fyrir, eða ég skildi hans ummæli þannig. En var ekki kunnugt um það, þegar efnahagslögin voru sett, eða var ekki auðvelt að fá nokkurn veginn ábyggilegar upplýsingar um það, hvað eftir var að flytja út af framleiðsluvörum frá árinu 1959? A.m.k. átti að vera hægt að komast nær réttu um það en svo, að það gæti skakkað 160 millj. á þessum gengishagnaði.

Það er þannig, að sagan af útflutningssjóði og ástæðum hans, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að segja hér á Alþingi, á síðasta þingi og nú á þessu þingi, er öll hin furðulegasta. Ef þetta stafar af hroðvirkni hjá ríkisstj., en ekki öðru verra, — og ég vil í lengstu lög gera ráð fyrir því, að það sé skýringin á þessu, — þá er sú hroðvirkni ákaflega mikil. Hún er svo mikil, sú hroðvirkni, að hún er algerlega óafsakanleg.

Hæstv. ráðh. talar um aflabrest mikinn og tilfinnanlegan í ár, og mun hann þar aðallega hafa átt við togaraútgerðina. Og ég held, að ég hafi tekið rétt eftir, að hæstv. ráðh. hafi nefnt það, að skakkaföllin vegna aflaleysis væru miklu tilfinnanlegri fyrir útveginn en vaxtahækkunin. Ég held, að þetta sé efnislega rétt eftir haft. En þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann, að togaraútvegurinn t.d. sé fær um að taka á sig vaxtaokur ríkisstj. í viðbót við skakkaföllin af minnkandi afla? Í raun og veru hefur hæstv. ráðh., aðrir ráðh. og allt stuðningslið stjórnarinnar svarað þessu, að þeir telja, að þrátt fyrir aflabrestinn geti útvegurinn tekið þetta á sig. Þeir svöruðu þessu í raun og veru við atkvgr: hér í gær. Þeir greiddu allir atkvæði gegn því að létta okurvöxtunum af útveginum og öðrum í þessu landi. Þeir tala mikið um aflabrest, en þeir virðast þó ekki, þegar til kemur, telja hann alvarlegri en svo, að vel sé hægt fyrir útveginn að taka okurvextina í ofanálag.

Hæstv. fjmrh. gerði nokkrar aths. við það, sem ég birti í mínu nál. um breyt. á sparifénu. Sérstaklega fann hann að því, að ég lagði saman sparlinnlán og hlaupareikningsinnlán. Þetta taldi ráðh., að ætti ekki að gera. Ég vil benda á það, að tímanlega á þessu ári heimtaði Seðlabankinn að fyrirlagi ríkisstj., að helmingur af sparifjáraukningu, sem verða kynni hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum, skyldi afhentur Seðlabankanum til geymslu. Það átti að taka þennan hluta sparifjárins frá þessum innlánsstofnunum. Einn sparisjóðsstjóri hefur sagt mér, að forstöðumenn sparisjóðanna hafi farið fram á það, að hlaupareikningsinnstæður í sparisjóðunum væru ekki taldar þarna með. En þessu var harðlega neitað. Þeir, sem stóðu fyrir þessu, vildu, að það gilti sama um innstæður á hlaupareikningi og í viðskiptabókum. Þeir töldu þá og telja innstæður á hlaupareikningi með öðru sparifé. Þeir heimta helminginn af innstæðuaukningu á hlaupareikningi, ef einhver verður, — heimta, að það verði flutt í Seðlabankann. Þeir telja ekki meiri eðlismun á þessu en þetta ber vott um. Það er líka þannig t.d. um Landsbankann, að hann gefur út rit, sem nefnist Fjármálatíðindi, og þar eru birtar skýrslur um sparifé. Þar er að vísu í tveimur dálkum það, sem þeir kalla spariinnlán og innlán á hlaupareikningi, en þetta er síðan lagt saman. Ég hafði því fyrirmynd, þegar ég var að gera þessar athuganir, sjálfan Seðlabankann, ég fór eftir hans reglu. Ég notaði sömu aðferð við mína útreikninga og Seðlabankinn hefur notað. Hann telur hlaupareikningsinnstæður með öðru sparifé og heimtar helminginn af þeirri viðbót, sem þar kann að verða, enda tel ég, að það sé ekki annað fært en taka þetta hvort tveggja saman, ef útkoman á að verða nokkurs virði til samanburðar við fyrri tíma. Ég tel, að það verði að taka þetta saman. Það er oft nokkuð mikið tilviljunum háð, hvernig spariféð flyzt á milli þessara reikninga og það gefur alls ekki rétta mynd af breytingum á sparifjárinnstæðum, ef aðeins annað af þessu tvennu er talið.

Það mun vera nokkru meira tiltölulega af sparifénu nú í sparisjóðsbókum en í hlaupareikningi, en það geta verið ýmsar ástæður til þess. Ég tel, að það geti t.d. stafað nokkuð af því, áð munur á vöxtum af fé, sem stendur í viðskiptabókum og í hlaupareikningi, er nú miklu meiri en áður var. Nú munu vera 9% vextir greiddir af fé í venjulegum viðskiptabókum, en ég héld, að það sé rétt, að það séu 4% af hlaupareikningsinnstæðum. Þarna munar 5%. Áður en vöxtunum var breytt, var þessi munur vitanlega langtum minni. Þetta getur orðið mönnum nokkur hvöt til þess að hafa fé heldur í sparisjóðsbókum en í hlaupareikningi, þegar munar svona miklu á vöxtunum, því að féð er í raun og veru jafnlaust og jafntiltækt, þegar á því þarf að halda, í venjulegum innlánsbókum eins og í hlaupareikningi. Það er því óhjákvæmilegt að taka saman sparlinnlán og hlaupareikningsinnlán, til þess að réttur samanburður fáist. Þess vegna tel ég, að tölur hæstv. fjmrh. gefi ranga mynd af ástandinu, því að hann taldi aðeins fram annan liðinn úr skýrslunum um spariféð.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) gerði þetta að umtalsefni hér áðan. Hann talaði um veltuinnlán. Það nafn hef ég nú ekki séð í skýrslum hagstofunnar, a.m.k. ekki nú nýverið, en ég geri ráð fyrir, að hv. þm. eigi þar við það, Sem þar er nefnt innlán á hlaupareikningi, — ég býst við því.

Þá var hæstv. fjmrh. einnig óánægður með tímabilið, sem ég miðaði við í samanburði mínum. Síðustu skýrslur, sem til eru um spariféð, eru miðaðar við októberlok nú í ár, og ég tók heilt ár, það síðasta fyrir þann tíma, til samanburðar við fyrri ár. Ég tel nefnilega, að myndin verði réttari, ef það er tekinn heldur lengri tími heldur en mjög skammur, því að það geta orðið ýmsar tilfærslur á milli mánaða og nokkuð tilviljanakenndar stundum. Ég tók því þetta tímabil frá 1. nóv. í fyrra til 1. nóv. í ár, og það hittist nú einmitt svo á, að það er það tímabil, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið við völd, það er hennar fyrsta ár, og ég bar saman við tvö næstu ár á undan. Hæstv. fjmrh. segir: Tölurnar sanna ekkert, þær gefa ekki rétta mynd. Jú, þær gefa einmitt rétta mynd, þær gefa rétta mynd af hæstv. ríkisstj. Þær sýna, hverjar breytingar hafa orðið í hennar valdatíð. Og hvers vegna má ekki draga upp mynd af fyrsta stjórnarári núv. stjórnar og bera saman við næstu árin áður?

Ég vísa til þess, sem bent er á í mínu nál., að að því er bankana snertir, þá hafi innstæðuaukningin á þessu síðasta ári orðið 12.1% á móti 20.9% 1958, og að því er sparisjóðina snerti, þá hafi hún orðið 13%, en var 21.2% 1958. Þannig er fyrsta ár núv. stjórnar samanborið við árin á undan. Síðasta árið var þó vaxtahækkun í átta mánuði af árinu. Hæstv. ráðh. vill taka tímabilið frá febrúarlokum í ár til októberloka. Það er náttúrlega hægt að taka ýmsa mánuði til samanburðar. Ég hef, síðan hæstv. ráðh. flutti ræðu sína, einnig gert þetta, ég hef tekið síðustu átta mánuðina og sömu mánuðina árin á undan, en vitanlega haft aðferð Seðlabankans, ég hef tekið saman spariinnlán og hlaupareikningsinnlán, og sá samanburður lítur þannig út, þegar tekið er í eina heild bankarnir og sparisjóðirnir, að frá febrúarlokum 1958 til októberloka það ár hefur aukningin orðið 298 millj., eða 14.6%, sömu mánuði 1959 er aukningin 323 millj., eða 13%, og þessa sömu mánuði nú í ár er aukningin 346 millj., eða 12.3%. Þó að maður þannig taki aðeins þessa síðustu átta mánuði og sömu mánuði árin á undan, þá kemur fram, að sparifjáraukningin er tiltölulega minni á þessu ári en árin 1959 og 1958, þrátt fyrir vaxtahækkunina, sem að sögn hæstv. ríkisstj. átti að stórauka sparifjármyndun í þjóðfélaginu.

Mér þótti gott að heyra það, að hv. 5 þm. Reykv., sem er bankastjóri, er mér sammála um, að það séu varhugaverð á ýmsan hátt þessi fyrirmæli um að heimta spariféð úr viðskiptabönkum og sparisjóðum og innlánsdeildum inn í Seðlabankann. Hann sagðist vilja, að endurskoðuð verði ákvæðin um bindingu sparifjárins, og ég vildi nú vænta þess, að hann beitti sínum áhrifum til þess að fá þessa fjárheimtu til Seðlabankans frá innlánsstofnunum numda úr lögum.