17.12.1960
Efri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

134. mál, efnahagsmál

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur nú gert aths. við þá ræðu, sem ég flutti hér áðan, og reynt að véfengja sumt af því, sem þar kom fram. En það fór sem vænta mátti, að hæstv. ráðh. tókst ekki að hnekkja þeim rökum, sem ég flutti fram í minni ræðu, enda voru þau borin fram á þann hátt að vitna til opinberra skilríkja, sem liggja fyrir í þingtíðindum eða öðrum opinberum gögnum og þessi mál varða.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég mundi hafa lagt mig mjög í framkróka við að finna veilur í reikningum ríkisstj. og stefnu hennar. Því er til að svara, að ég hef ekki gert það. Ég hef ekki lagt mig í framkróka, því að þess þarf ekki með. Dæmin eru svo augljós, hvert sem litið er, um skekkjurnar og veilurnar í stefnu hæstv. ríkisstj., að það þarf vissulega ekki að leggja mikið á sig til þess að leita að atriðum, sem sanna það.

Hæstv. ráðh, segir, að allar tölur, sem birtar hafa verið um stöðu útflutningssjóðs á ýmsum tímum og þ. á m. s.l. 2 ár, séu frá sjóðsstjórninni sjálfri komnar. Mér virðist, að þar sem hæstv. ráðh. leggur svo mikla áherzlu á þetta, þá hafi hann nokkra tilhneigingu til að varpa ábyrgðinni á þessu máli yfir á herðar þeirra embættismanna, sem skipa stjórn útflutningssjóðs. Ég vil taka fram, að ég áfellist ekki í neinu þá embættismenn, sem skipa stjórn útflutningssjóðs, og vænti, að við hæstv, ráðh. getum verið sammála um það út af fyrir sig. Ég tek það trúanlegt, að þær tölur, sem birtar hafa verið á ýmsum tímum um stöðu sjóðsins, hafi verið fengnar frá stjórn útflutningssjóðs. En myndin, sem brugðið er upp í þeim skýringum, sem gefnar eru með þeim tölum, sem birtar eru á hverjum tíma, er framkölluð á vegum hæstv. ríkisstj., — sú mynd, sem þjóðinni er birt af þessu á hverjum tíma. Og hæstv. ráðh. virtist áfellast mig fyrir það, að ég talaði ekki nægilega skýrt um sum atriðin. Ég hygg, að ef hann lítur í sjálfs sín barm, þá hljóti hann að sjá og finna, að sú mynd, sem ríkisstj. sjálf hefur framkallað af þeim tölum, sem stjórn útflutningssjóðs hefur skilað henni í hendur, er mjög breytileg eftir því, hvaða fleti þessi mynd hefur átt að sýna á hverjum tíma, og þeim rökum mínum, sem ég færði fyrir þessu, verður með engu móti hnekkt.

T.d. segir fyrrv. fjmrh. í útvarpsræðu 20. okt. 1959 orðrétt þetta, eins og það er skráð í Alþýðublaðinu:

„Viðskipti ríkissjóðs við bankana hafa á þessu ári sízt sýnt þrengri afkomu ríkissjóðs en áður, svo að ekki sé meira sagt, og afkoma útflutningssjóðs hefur aldrei verið betri. Á þessu ári hafa eldri skuldir hans verið greiddar upp og staðið í skilum með niðurgreiðslur og uppbætur, sem til hafa fallið.“

Hér er engin tæpitunga viðhöfð. (Gripið fram í.) Ja, sem til hafa fallið. Hér er engin tæpitunga viðhöfð. En á eftir þessum orðum: „til hafa fallið“, er settur punktur. Ætli það sé nú svo, að stjórn útflutningssjóðs hafi á þeim tíma ekki a.m.k. getað gefið upplýsingar, sem sýndu horfurnar eitthvað fram í tímann? Ætli það hefði ekki verið hægt, hefði hæstv. ríkisstj. viljað leggja málið alveg rökrétt fyrir þjóðina í útvarpsræðu, að drepa eitthvað á horfurnar fram undan? Nei, hæstv. ráðh. kemst ekki frá því, að sú mynd, sem brugðið hefur verið upp af þessu á hinum ýmsu tímum, er gerð á vegum hæstv. ríkisstj., og þær myndir, sem þannig hafa verið sýndar, eru þannig, að það er ekki samræmi þeirra á milli, eins og ég hef þegar rakið.

Þá segir hæstv. ráðh., eða lætur orð liggja að því, að gengishagnaðurinn, sem áætlaður er og lagður til grundvallar í bókinni Viðreisn sem tekjustofn fyrir útflutningssjóð, hafi verið fundinn út eftir tölum frá stjórn útflutningssjóðs. Út af þessu leyfi ég mér að spyrja — (Sjútvmrh.: Ég sagði það nú ekki.) Ja, lét orð liggja að því, að til grundvallar þessum gengismun hefðu legið tölur frá stjórn útflutningssjóðs. Vill ráðh. véfengja, að ég hafi skilið þetta rétt? (Sjútvmrh.: Já, ég sagði bara, að heildartalan um stöðu sjóðsins hefði komið fram.) Já, hann segir, að það, sem fyrir sér hafi vakað, segir hæstv. ráðh., sé það, að heildartalan um stöðu útflutningssjóðs hafi verið byggð á tölum frá stjórn þess sjóðs, stjórn útflutningssjóðs, –sjálfsagt að hafa það, sem sannara reynist. En í sambandi við gengismuninn og áætlun hans annars vegar og hins vegar tilhneigingu ráðh. til þess að velta ábyrgðinni — að verulegu leyti, vil ég segja — yfir á herðar útflutningssjóðs og stjórnar hans, vil ég taka það fram, að vitanlega var það ríkisstj., sem ákvað gengisbreytinguna, ákvað, hvert hið nýja gengi ætti að vera. Og það er augljóst, að það gat enginn embættismaður, sem var ekki kunnugur því, hvert hið nýja gengi ætti að vera, reiknað út þennan gengismun, því að hann er vitanlega byggður á því, hvert hið nýja gengi er. Þegar á þetta atriði er litið, er það augljóst, að ríkisstj. sjálf getur ekki vikið sér undan ábyrgðinni af þessum útreikningum.

Um það álit mitt, að grundvöllur atvinnulífsins hafi ekki reynzt eins traustur og gert var ráð fyrir í útreikningum hagfræðinganna, er ráðh. mér sammála, að mér skilst. En hann leitar að öðrum forsendum fyrir þeirri niðurstöðu en þeim, sem ég dró fram. Og þær forsendur, sem hæstv. ráðh. leitar að og vill byggja þessa niðurstöðu á, eru í fyrsta lagi, að aflabrestur hafi orðið hjá sjávarútveginum, og í öðru lagi, að verðfall hafi orðið á sumum afurðum sjávarútvegsins. Í þessu sambandi vék hæstv. ráðh. að því, að hið nýja efnahagskerfi hefði verið við það miðað, að sjávarútvegurinn bæri svipað eða hið sama úr býtum og hann gerði áður með þeim uppbótum og hlunnindum, sem hann naut eftir hinu eldra kerfi. Þetta er nú enn ein sönnun þess, sem við framsóknarmenn höfum auðvitað oft bent á, að hið nýja kerfi hefur þá ekki verið sett á til þess að bæta hag sjávarútvegsins. Það átti aðeins að skipta um kerfi og tryggja stöðu sjávarútvegsins svipaða eða hina sömu og hún var eftir hinu eldra kerfi. Það átti að gera í leiðinni, um leið og kerfisbreytingin var gerð. En kerfisbreytingin út af fyrir sig hefur þá haft annað markmið en það að bæta hag sjávarútvegsins frá því, sem var, frá hinu eldra kerfi, og þá helzt það markmið, sem við höfum oft bent á áður, framsóknarmenn, að reyna að koma á breyttri efnaskiptingu í þjóðfélaginu, koma á þjóðfélagsháttum hinna góðu, gömlu daga, eins og hæstv. forsrh. mun hafa orðað það hér á þingi í fyrra.

En um aflabrestinn hygg ég það nú vera mála sannast, að það hafi orðið nokkur aflabrestur hjá togaraflotanum, en á hinn bóginn hafi afli hjá bátaflotanum verið betri eða meiri á þessu ári en á árinu 1959. Og ef aðalvertíð ársins, vetrarvertíðin 1960, er tekin út af fyrir sig, þá ætla ég, að afli bátaflotans hafi numið um eða allt að 30 þús. tonnum meira en á sama tíma 1959. Ef við tökum síldveiðarnar, þá hygg ég, að það sé sannast mála, að síldaraflinn hafi orðið minni 1960 en hann varð 1959, en að síldaraflinn 1960 sé alls ekki undir meðaltali nokkurra ára. Ég hygg jafnvel, að síldaraflinn 1960 sé meiri en ef tekið er meðaltal síldaraflans nokkur ár, áratug eða fimm ár aftur í tímann, og miðað við það.

Þegar þetta liggur fyrir, er auðsætt, að í þessu sambandi er alls ekki hægt að tala um stórfelldan aflabrest, þegar á heildarafkomu sjávarútvegsins er litið, þar eð einn þátturinn bætir annan upp að verulegu leyti.

Um verðfallið á mjöli og lýsi mun það vera rétt, að á þeim sjávarafurðum hafi orðið nokkurt verðfall á þessu ári. En þess ber að gæta í því sambandi, að það lá fyrir, þegar efnahagslöggjöfin var sett, og það er tekið fram — (Sjútvmrh.: Aðeins nokkur hluti af því.) að um nokkurt verðfall yrði að ræða á þeim vörutegundum. Og því til sönnunar segir svo í bókinni Viðreisn, á bls. 15–16, með leyfi hæstv. forseta:

„Að því er saltsíldina snertir, er það fyrirsjáanlegt, að markaðir hennar í Sovétríkjunum, Póllandi og e.t.v. einnig í Austur-Þýzkalandi muni dragast saman á þessu ári, og er sennilegt, að sá samdráttur verði meira en stundarfyrirbrigði. Verður þá óhjákvæmilega að auka sölu saltsíldar til Vestur-Evrópu og Ameríku, þar sem markaðir eru fyrir hendi, en verð lægra en í Austur-Evrópu. Hið nýja gengi mun gera þetta kleift. Að því er bræðslusíldarafurðir og hvalafurðir snertir, hefur orðið mikið verðfali á mjöli á árinu 1959, og lýsisverð er einnig lágt. Vegur þetta á móti þeim áhrifum, sem breyting gengisskráningarinnar annars mundi hafa haft á afkomu þessarar framleiðslu.“

Með öðrum orðum: þær verðbreytingar, sem hæstv. ráðh. gerir að umtalsefni, voru að sumu leyti komnar fram og voru að öðru leyti meira eða minna fyrirsjáanlegar, þegar efnahagslöggjöfin er sett, og það er tekið tillit til þess samkv. grg. frv. sjálfs í útreikningunum og talið, að þetta verðfall vegi á móti áhrifunum af hinu nýja gengi, en samt sem áður átti efnahagslöggjöfin að standast. Það er alveg augljóst mál, eftir því sem fyrir liggur í þessari bók, sem hæstv. ríkisstj. gaf mér eins og öðrum landsmönnum.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Ég ætla, að hvort sem um þetta verður farið fleiri orðum eða færri, þá verði þeim rökum ekki hnekkt, sem ég hef dregið fram í þessu efni. Og ég vil að lokum leggja sérstaka áherzlu á það, að þó að tölurnar um stöðu útflutningssjóðs á hverjum tíma hafi verið fengnar frá stjórn útflutningssjóðsins, þá er meðferð þeirra, sú mynd, sem dregin hefur verið upp af tölunum og sýnd þjóðinni á hverjum tíma, hún er ríkisstjórnarinnar, og það er sú mynd, sem ég hef sérstaklega viljað benda á að væri ekki sjálfu sér samkvæm fremur en hitt, og að því hef ég alls ekki látið liggja orð, að stjórn útflutningssjóðsins sjálfs hafi gefið upp rangar tölur.